Viðtöl

Hér eru að finna tvö viðtöl sem S.dór tók við Egil Jónasson. Þau birtust í Þjóðviljanum 6. mars 1977 og 17. apríl 1982.

Mínar vísur verða ekki gefnar út á bók

Skrásetjari þessara lína hefur haft ómælt yndi af vísum svo langt aftur sem hann man. Og það hefur ekkert farið dult að minn uppáhalds hagyrðingur af þeim, sem nú eru uppi, er Egill Jónasson á Húsavík. Hann sameinar alla þá kosti að mínum dómi, sem prýða mega hagyrðinga. Þrátt fyrir áratuga langa aðdáun á Agli sem hagyrðingi, hef ég aldrei séð hann, né talað við hann, þar til fyrir nokkrum dögum að hann birtist á ritstjórn Þjóðviljans í fylgd með vini sínum Daníel Daníelssyni lækni. Og auðvitað komst hann ekki undan því að við hann væri tekið viðtal.

— Þú ert landskunnur sem Egill Jónasson á Húsavik, ertu Húsvíkingur?

„Nei, ég er fæddur fram í Aðaldalnum, á bæ, sem ekki er lengur til á yfirborðinu, en hann hét Tumsa, eitt af hjáleigukotunum neðan við Múla í Aðaldal. Þarna voru stórjarðirnar Grenjaðarstaðir og Múli og hjáleigurnar í
kring. Þarna er ég fæddur en átti ekki heima þar nema stutt, eitt og hálft ár eða svo.“

— Hvað ertu búinn að búa lengi á Húsavík?

„Í rúma hálfa öld. Ég fluttist til Húsavíkur 1924 þannig að þau eru orðin 53 árin mín á Húsavík. En ég er nú líka orðinn 77 ára, varð það á milli jóla og nýárs eða 27. desember, þannig að ég er alltaf árinu á undan öldinni. Á Húsavík vann ég lengst af hjá kaupfélaginu. En þegar ég varð sjötugur hætti ég störfum. Ég var farinn að gleyma dálítið og eins var ég orðinn bilaður í baki, svo ég hætti. Ég vildi ekki vera þarna eins og um eitthvert gamalmennahæli væri að ræða.“

— Ég hef heyrt að þú hafir ort alveg frá því að þú varst smástrákur?

„Ég veit ekki hvað við eigum að kalla það, að maður væri að yrkja. Maður byrjaði á þessu smástrákur, en það var nú heldur lítið vit í því og er nú raunar enn, þetta hefur mest verið gamanmál. Faðir minn Jónas Þorgrímsson, var hagorður. Hann var vefari og ég sat oft hjá honum við vefstólinn og var að leyfa honum að heyra þetta sem ég var að setja saman, svona hvísla þessu að honum. Hann hafði gaman af og kímdi stundum, en hann vildi draga úr þessu, vildi að ég væri ekki eins hvefsinn og ég var. Sjóndeildarhringurinn var ekki stór og mest var ort um nágrannana ef eitthvað kom spaugilegt fyrir. Ég tók mikið mark á föður mínum og býst við að ef hann hefði tekið alvarlega í mig fyrir þennan stráksskap þá hefði ég sennilega hætt þessu alveg. Hann gerði það hinsvegar ekki, en benti mér á og leiðrétti. Þá tók ég það ráð að kveða í tvíræðum orðum, og setningum. Það hefur svo fylgt mér síðan. Ég man ekki eftir að hafa ort skammarvísur, en kannski dálítið meinlegar á stundum.“

Ekki dýrt kveðið

,,Ég hef lítið gert af því að yrkja dýrt kveðnar vísur. Ég hef að vísu gert það stundum en það vill oft verða á kostnað efnisins. Og ef maður hefur góð orð, hnyttin orð yfir efnið, þá þarf maður oft að fórna þeim fyrir dýran bragarhátt, það er mér ekki vel við. Hitt er annað að það eru til snilldarvísur dýrt kveðnar, mikil ósköp, það vantar ekki.“

— Þið urðuð landsfrægir fjórmenningar úr Þingeyjarsýslu fyrr skemmtilegan kveðskap, þegar þið tróðuð upp saman, Steingrímur í Nesi, Baldur á Ófeigsstöðum, Karl Sigtryggsson og þú, voruð þið æskufélagar?

„Ekki var það nú. Ég vissi af þeim Baldri og Steingrími í æsku, þeir voru báðir frændur mínir. Baldur var vestan Skjálfandafljóts, en ég austan þess, Steingrímur uppi dalnum ofan við hraunið en Karl var alinn upp í Fnjóskadal og ég kynntist honum ekkert fyrr en hann fluttist til Húsavíkur. Maður heyrði fljótt vísur eftir þessa menn en það var tilviljun að við löðuðumst saman til að skemmta fólki með kveðskap. Við Steingrímur í Nesi vorum þá búnir að vera nánustu vinir í mörg ár. Mér þótti vænt um Steingrím, hann var einstakur maður og hann var miklu meira en hagyrðingur, hann var skáld. Við hinir vorum bara hagyrðingar. Það eru kannski ekki glögg landamerki þarna á milli en þau eru til.“

Skáldalaun

— Þú fékkst skáldalaun, án þess að hafa gefið út bók, hvernig bar það til?

„Já það er rétt, ég fékk skáldalaun, og ég held að ég hafi fengið þau þrisvar sinnum. Ég vissi ekkert fyrr en þetta kom upp, ég hafði aldrei sótt um þau og mér hafði aldrei komið það til hugar. Það var Bjartmar Guðmundsson frá Sandi, vinur minn og æskufélagi, sem vildi endilega koma þessu á, hann var í úthlutunarnefndinni.“

— Það hafa orðið margar vísur til út af þessu, af því að það þótti sérstakt að maður fengi skáldalaun án þess að hafa gefið út?

„0, já, þeir voru að stríða mér félagar mínir. Ég þurfti því nokkrum sinnum að svara fyrir mig.“

— Þú hafðir ekki gefið út bók þá og hefur ekki gert það enn, eigum við ekki von á bók með vísunum þínum?

„Nei, mínar vísur verða ekki gefnar út í bók. Það getur þú bókað. Ég hef ekki einu sinni haldið þeim saman né skrifað þær niður. Þessu hefur verið kastað fram að gefnu tilefni og þeim hefur aðeins verið ætlað það að skemmta þeim sem heyrðu þegar þær voru fluttar. Þeim hefur aldrei verið ætlað lengra líf, flestum að minnsta kosti. Fyrir einum fjórum árum gerði ég tilraun til að safna einhverju af þessum vísum saman, og náði nokkuð mörgum hjá vísnasafnaranum Sigurði frá Haukagili, hann hafði safnað þessu saman. Ég skrifaði þetta upp og fjölritaði eitthvað á annað hundrað vísur, hefti þetta inn og gaf mínum nánustu. Annað er það ekki og öðru vísi verður það ekki.

Ég skrifaði sjálfur skýringar með þessum vísum en það hefur nefnilega verið aðal gallinn við margar vísur eftir mig, sem flogið hafa víða að með þeim hafa verið rangar skýringar. Það er oft meiri vandi að skrifa skýringar en nokkurn tímann að gera vísuna, ef vel á að fara. Og ég get sagt þér eitt dæmi um það hvað röng skýring getur gert mikinn skaða.

Það var eitt sinn fyrir norðan, að kona eignaðist barn, sem hún ekki feðraði, vildi ekki feðra það. Þegar slíkt gerist, ganga ævinlega allskonar sögur, manna á milli. Einu sinni varð ég samferða þessari konu að vetrarlagi, ofan úr sveit útá Húsavík. Það var komið framyfir háttatíma og hún ætlaði að komast þar í hús, svo ég fylgdi henni heim að húsinu, til að vita hvort hún kæmist ekki inn. Það varð. En þarna gerðist það að ég festi fótinn í girðingarneti og datt og flumbraði mig í andliti. Síðan fór ég heim. Konan mín var á fótum og einhverjar konur hjá henni og þær fóru að spyrja mig hvað hefði komið fyrir mig. Ég sagði þeim það og vísu um leið:

Það ég fljóði fylgdi um veg
flumbran gaf til kynna.
Það hafa meiri menn en ég
misst þar fóta sinna.

Þessari vísu stálu þeir í ,,Íslensk fyndni” og skýringin, sem þeir gáfu á vísunni var að stúlkan hafi átt barnið með embættismanni á Húsavík. Svo höfðu þeir samband við mig og vildu fara að pumpa uppúr mér vísum í fyndnina. Ég sneri blaðinu við og skammaði þá eins og hunda. Ég benti þeim á, að þeir hefðu ekki svo lítið við að tala við mann áður en þeir tækju svona vísur, þó ekki væri til annars en að fara rétt með. Ég benti þeim á, að í Reykjavík væru hundruð embættismanna en á Húsavík aðeins þrír, við hvern þeirra ætti ég, samkvæmt – skýringum þeirra? Ég var sárreiður út af þessu og bannaði þeim algerlega að birta vísur eftir mig. Þarna sérðu hvað röng skýring getur haft mikið að segja.“

Að fara rétt með vísur

,,Annað hefur einnig oft angrað mig en það er þegar rangt hefur verið farið með vísur mínar á prenti. Ég get sagt þér eitt dæmi um það. Eitt sinn var ég í bændaför með Búnaðarsambandi Þingeyinga og við fórum vestur um Strandir, Dali og Borgarfjörð. Það var mikið um kveðskap í þeirri för, Steingrímur vinur minn í Nesi var með í ferðinni og fleiri hagyrðingar. Þegar við komum í Vatnsskarð á suðurleið var þoka. Við vorum á tveimur
stórum bílum úr Skagafirði. Konurnar fóru að tala um það hvað það væri leiðinlegt ef það yrði svona þoka þegar kæmi í Húnavatnssýslur, þær vildu sjá sig um. Þá varð til þessi vísa:

Ekki er kyn þó veður vont
verði í Húnaþingum,
þegar um landið þingeyskt mont
þeysir á Skagfirðingum.

Svo gerist það að blaðið ,,Íslendingur” birtir þessa vísu. Við hana er engin skýring og vísunni snúið við, þannig að seinniparturinn var hafður á undan. Þó var ritstjórinn vísnamaður. Ég reiddist þessu og skammaði hann fyrir. Ég er alltaf ósáttur við það þegar menn eru að birta vísur án þess að tala við höfundinn og fá það rétta fram hjá honum, bæði vísuna og ekki síður skýringarnar við hana.

Það var til að mynda einu sinni að ég orti afmælisvísur til vinar míns Jóns Baldvinssonar, sem um áratugaskeið hafði unnið við rafstöðina. Hann kallaði raftúrbínuna alltaf „Bínu gömlu” það var hans gamanmál, hann var dálítið sér í tali. Nema þegar hann varð sjötugur sendi ég honum þessar vísur:

Heldur velli heiðurs kall
hér þó svelli og fenni
en nú er elli inn við pall
enginn skellir henni.

Þú vannst lengi þér til hróss
það hver drengur metur
saman tengir línur ljóss
líklega enginn betur.

Oft í hríðar blindum bil
barning stríðan háðir
fyrir lýða ljós og yl
léstu bíða náðir

Starfið krýnir þarfan þjón
því ei týnir saga
er gamla Bína og gamli Jón
gerðu um sína daga.

Svo gerðist það að synir hans spurðu mig hvort mér væri ekki sama þótt þetta yrði birt og ég sagði það vera í lagi. Svo komu vísurnar í „Degi” að mig minnir, en þar var engin skýring gefin á „Bínu gömlu” og ég var spurður að því á Akureyri hvort konan hans Jóns hefði ekki heitið eitthvað annað en Jakobína. Þá fór ég að gefa þessu gætur. Svona getur þetta verið þegar skýringarnar vantar. Kona Jóns hét Aðalbjörg.“

Ferskeytlan lifir

— Sumir óttast um framtíð ferskeytlunnar hér á landi, ert þú í þeim hópi?

„Nei, alls ekki. Ég held að hún eigi eftir að lifa áfram. Það koma svona öldudalir í þetta eins og annað, en rís svo upp aftur. Það eru til margir ungir menn sem geta gert vísur, þeir gera kannski heldur minna af því, en við þessir gömlu, en þeir geta ort og sumir eru bráð hagmæltir.“

— Ertu fljótur að yrkja Egill?

„Það er voða misjafnt. Stundum kemur vísan í heilu lagi á stundinni, en oftar er það að annar helmingurinn kemur fyrst, oftar botninn og þá er prjónað framan við. Þetta fer allt eftir því hvernig maður er upplagður.“

— Þú sagðir við mig áðan að nú værirðu hættur að yrkja, ég trúi því nú ekki, leyfðu mér heldur að heyra síðustu vísuna þína?

„Nei, þetta er alveg satt, ég er steinhættur þessu, kannski að maður bulli eitthvað einstaka sinnum en það heitir ekki að yrkja. Ég skal leyfa þér að heyra eina vísu, hún var ort þegar þeir voru að rífast um gróðureyðinguna, Hákon Bjarnason og Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri. Það var mikill hávaði og læti í þeim.

Halldór Pálsson hrópar ennþá höndum bandandi.
Ungur var hann um flest vandandi
áður en hann gat migið standandi.

Svona helvítis bull er það sem maður er að leika sér að núorðið. Hér áður fyrr var margt kallað klám, sem fólk tekur ekki einu sinni eftir núorðið. Ég skal leyfa þér að heyra eina vísu, sem var kölluð klámvísa en ætli hún sé kölluð það núna.

Það voru ungar persónur í kunningsskap, hún vildi gera úr þessu alvöru, en hann var tregur til. Þá varð þessi vísa til:

Gegnum blendið blíðuskraf
birtast kenndir tvennar.
Honum stendur uggur af
undirlendi hennar.

— Þú sagðir áðan að vísur þínar yrðu ekki gefnar út í bók, er þetta óhagganleg ákvörðun?

„Já, alveg óhagganleg. Einhver útgefandi, Örlygur Hálfdánarson að mig minnir bauð mér uppá kaffi í fyrra og fitjaði uppá því þá við mig að fá að gefa vísurnar mínar út, en ég aftók það með öllu. Hann var með Andrés
Kristjánsson fyrrum ritstjóra með sér og bauð fram starfskrafta hans mér til aðstoðar, ef ég vildi leyfa útgáfu, en ég sagði honum að það kæmi ekki til mála.“

— Heldurðu að eins verði með vísur Steingríms í Nesi, að þær verði ekki gefnar út?

„Það held ég, hann vildi ekkert við slíkt eiga. En það er skaði að því, vegna þess að Steingrímur var skáld, sá eini af okkur fjórmenningum sem vorum að kveðast á, sjálfum okkur og öðrum til skemmtunar, hér á árunum. Hann var heldur seinni en við að yrkja. Ég gat kannski bullað uppúr mér tveimur eða þremur vísum en hann kom ekki með neitt, en svo þegar það kom var það líka snilld. Hann hafði stundum orð á því þegar ég var að láta heyrast þessar vísur sem við vorum að gera, að hann ætlaðist ekki til þess. Eins og til að mynda „Tittsvísurnar” og fleira.“

— Hvernig eru þær?

„Það var einhverju sinni að við fórum austur í Vopnafjörð með konur okkar. Bróðir konu Steingríms bjó þarna í Vopnafirði og vorum að reyna að veiða þarna í Hofsánni, en það var lítil sem engin veiði. Svo var það einn morguninn þegar við komum heim, án þess að hafa fengið neitt að ég hélt, að Steingrímur dregur upp smá titt úr úlpuvasa sínum réttir fiskinn konu sinni og segir:

Eigðu þetta yndið mitt
ánni gekk ég nærri.
Það er skömm að þessum titt
þú hefur séð þá stærri.

Nú, en daginn eftir fórum við aftur að veiða og ég fékk einn fisk, sem var nú heldur skárri en sá sem Steingrímur fékk daginn áður. Ég fór eins að, gaf hann konu minni og sagði:

Una skaltu þér við þitt
það mun léttast vera
því ennþá býð ég betri titt
en bændur almennt gera.

Þetta var auðvitað bara gert til að hlæja að þarna á staðnum, en þessar vísur lærðust og flugu víða og ég fann að Steingrími var ekkert vel við það.

Þegar þú spyrð um útgáfu á vísum mínum, verður þú að gæta þess, að mitt líf hefur verið innan lítils hrings. Ég er óskólagenginn að heita má, hef lítið sem ekkert farið burtu, hef alltaf verið heima í þessum litla hring sem ég kalla svo. Og gættu að því, að innan þessa ramma eru vísur mínar. Þær eru gerðar til að skemmta fólki innan þessa hrings og til þess eins. Jafnvel þeir bragir sem voru fluttir opinberlega á samkomum heima fólki til skemmtunar. Slíkt er ekki hægt að gefa út. Menn hafa lært þær sumar og þær hafa flogið. Við það ræð ég ekki en að gefa þær út í bók, því ræð ég og það kemur ekki til mála.“
—S.dór

Þjóðviljinn 6. mars 1977