S.dór

Sigurdór Sigurdórsson

-örstutt æviágrip

Sigurdór fæddist 24. nóvember árið 1938 í Hlíðarhúsum á Akranesi. Foreldrar hans voru Guðrún Tómasdóttir, 1909 – 1951, og Sigurdór Sigurðsson, 1895 – 1963.

Sigurdór flutti til Reykjavíkur árið 1955 og hóf nám í prentiðn ári síðar en hann starfaði sem prentari allt fram til ársins 1969 þegar hann söðlaði um og gerðist blaðamaður.

Samhliða því að vera prentari var Sigurdór dægurlagasöngvari allt fram til ársins 1967 og var hann nokkuð þekktur og vinsæll sem slíkur. Hann hóf ferilinn tæplega 17 ára þegar hann kom fram á skemmtun á vegum Íslenskra tóna árið 1955. Eftir það söng hann um allt land næstu 12 árin með hinum ýmsu tónlistarmönnum eins og hljómsveit Aage Lorange, Svavari Gests, en með hljómsveit hans söng hann Þórsmerkurljóð Sigurðar Þórarinssonar inn á plötu, og með hljómsveit Sverris Garðarssonar söng hann í Sjálfsstæðishúsinu á árunum 1961 – 3. Hann var í lausamennsku 1963 – 4 en árið 1965 leysti hann Ellý Vilhjálms af í Klúbbnum. Næstu tvö árin söng hann svo með Eyþóri Þorlákssyni á Röðli eða allt þar til rödd gaf sig árið 1967.

Lengstan starfsferil á Sigurdór sem blaðamaður en hann starfaði sem slíkur frá árinu 1967, byrjaði sem íþróttafréttaritari Þjóðviljans, og hætti ekki fyrr en daginn sem hann varð 70 ára eða 24. nóv. 2008 og þá blaðamaður á Bændablaðinu.

Á árunum 1967 – 9 starfaði Sigurdór sem prentari en samhliða því skrifaði hann íþróttafréttir fyrir Þjóðviljann og árið 1969 var hann beðinn að gerast almennur blaðamaður á Þjóðviljanum í fullu starfi. Samhliða almennum skrifum starfaði hann sem íþróttafréttaritari allt fram til ársins 1977 en hætti því þegar hann gerðist fararstjóri á Spáni í nokkra mánuði á ári en sem slíkur starfaði hann næstu tíu árin eða til ársins 1987.

Sigurdór söðlaði um eftir átján ára starf á Þjóðviljanum og hóf störf á dagblaðinu DV í október 1986 og var þar í ellefu ár eða allt fram til 1. september 1997.

Þann 1. september árið 1997 hóf hann störf á dagblaðinu Degi og vann þar þar til blaðið var lagt niður þann 17. mars 2001.

Þann 1. september 2001 hóf Sigurdór störf hjá Bændablaðinu en þar starfaði hann næstu sjö árin eða þar til hann lét af störfum vegna aldurs þann 24. nóvember 2008.

Sigurdór skrásetti tvær ævisögur. Árið 1987 kom út Spaugsami spörfuglinn, en þar lýsir Þröstur Sigtryggsson skipherra lífshlaupi sínu í léttum dúr. Tíu árum síðar eða árið 1997 kom út bókin Það var rosaleg, ævisaga Hákonar Aðalsteinssonar, en hann var bæði skáld og skógarbóndi. Árið 1977 skrifaði hann bókina Til fiskiveiða fóru – 70 ár á sjó og landi sem er afmælisrit HB og Co. Tilefnið var að 70 ár voru liðin frá því að Haraldur Böðvarsson hóf útgerð á sexæringi frá Akranesi en í henni er að finna fjölda viðtala sem Sigudór tók við hina ýmsu starfsmenn fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið dvaldi Sigurdór í nokkra mánuði á ári í tíu ár í því ljúfa landi Spáni en hann var fararstjóri þar ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Gissurardóttur, frá vorinu 1977 til haustsins 1987. Auk þess var hann og þau hjónin fararstjórar Íslendinga í heimsreisu sem var farin í október árið 1997.

Eins og sést á þessari upptalningu hefur Sigurdór komið víða við. Það sem einkennir þó öll þau störf sem hann hefur unnið er að hann er alltaf að vinna að því að miðla menningu á einn eða annan hátt. Hann hefur alltaf unnið við það að miðla fróðleik, gefa af sér – hann er og hefur alltaf verið gleðigjafi. Fyrir það ber að þakka.