Nokkrar vísur eftir S.dór

Hér er að finna nokkrar tækifærisvísur eftir S.dór.

Haukur Lárus, blaðamaður á DV skrifaði um horaðan og illa haldinn graðfola í Dalasýslu og sagði að hann hefði verið leiddur ,,undir“ 23 merar og aðeins 5 folöld orðið til:

Í Dalasýslu dróst um rolan,
dauðvona úr hor,
og aðeins tókst að fylja folann,
fimm sinnum í vor.

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ varði í ræðu, á þingi VMSÍ, þá ákvörðun sína að standa að vaxtahækkun, en talaði jafnframt um nauðsyn þess að vextir lækkuðu til hagsbóta fyrir verkafólk.

Ég tel að vextir verði að hækka,
til varnar Íslandsbankanum.
Jafnframt verða þeir líka að lækka,
til lausnar kjaraskankanum.

Á kirkjuþingi ræddu klerkar um það hvenær fólk væri dáið. Hvort það væri við hjartadauða, heiladauða eða eitthvað annað.

Klerkar vita hvorki né
hvort það muni standast,
að dauður maður dauður sé
daginn sem hann andast.

Þeir ræddu líka um krufninguna og sagði Mogginn þannig frá umræðunum að prestar hefðu sagt að ekki ætti að kryfja lík nema með samþykki hins látna.

Á kirkjuþingi klerkar segja,
krufningu því háða,
að læknar verði látnir þegja
en líkin fái að ráða.

Ingvar Carlsson, forsætisráðherra Svía óttast getuleysi Jóns Baldvins utanríkisráðherra, til að vera í forsvari EFTA ríkja í viðræðum við EB.

Ingvar Carlsson sagt hefur með sanni,
að sjálfur geri ég hans orð að mínum.
Að gera út land með getulausum manni,
er grínlaust mál í fáránleika sínum.

Vísa til Ellerts Schrams í tilefni fimmtugs afmæli hans:

Örvænta skaltu ekki par,
efldu heldur gleði sanna,
því æskudagar ellinnar
enga lystisemdir banna.

Þegar upp komst um að Magnús Thoroddsen, hæstaréttardómari, hefði keypt 1400 flöskur af áfengi, það var fyrsta talan sem gefin var upp í því máli, varð þessi vísa til:

Fjórtán hundruð flöskutetur,
fékk hann sér og ekki léttar.
Skyndilega skil ég betur
skrítna dóma Hæstaréttar.

Þorvaldur Garðar, fyrrum forseti sameinaðs Alþingis, varði það að handhafar forsetavalds keyptu áfengi á kostnaðarverði. Sagði hann aðför manna að handhöfum forsetavalds ljóta. Hann sagði laun forseta Alþingis lítil og risnu enga.

Óþolandi ærukaun
eru að sliga gamla brínið.
Engin risna og lítil laun
leiddu hann út í brennivínið.

Nokkru eftir að Hafskipsmálið kom upp á sínum tíma, endurkusu Alþýðubandalagsmenn Garðar Sigurðsson í bankaráð, enda þótt hann hafi setið þar þegar Hafskips/Útvegsbankahneykslið átti sér stað.

Flokknum er stjórnað af lipurð og list,
þótt leiðin sé oftlega þyrnum stráð.
Þeir fordæmdu lýðinn sem krossfesti Krist,
en kjósa svo Garðar í bankaráð.

Sagt var að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði sagt af sér í beinni útsendingu á Stöð 2.

Ef ríkisstjórnir fara frá
í fússi vegna auraþvingu.
Tel ég best að benda á
beina sjónvarpsútsendingu.

Ég var peningalaus og var ekki með Vísa kortið á mér á ferð um Þýskaland með eiginkonunni. Eitthvað skorti á ölföng og var frúin beðin um aðstoð. Hún lét drýgindalega og þá var þetta ort í orðastað hennar:

Viss er ég um að þér verð‘ekki um sel.
svo vesæll og mjór er þinn sjóður.
Vertu því bljúgur og beiddum mig vel,
því bjórinn er þó nokkuð góður.

Nokkrir vinir í Prentsmiðjunni Eddu sendu starfsfélaga bókaflokkinn ,,Öldin okkar“ í sextugsafmælisgjöf. Þessi vísa var í korti og öll nöfnin undir:

Til að gleðja viljum vér
vinir eftir taldir.
Sextugum að senda þér
síðast liðnar aldir.

Maður varð óþyrmilega fyrir barðinu á lögreglunni. Sagði hann þá hafa æst sig við fróm orð hans, lamið sig sitt undir hvorn og barið sig á eftir. Engu líkara en þeir væru þroskaheftir.

Firrtust mjög við fáein orð
fantar þroskaheftir.
Lömd´ann fyrst á bæði borð
og börð´ann svo á eftir.

Þegar Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, barðist hvað harðast fyrir kvótalögum númer tvö var þetta ort:

Kvótinn er lífsins kraftur,
kvótinn er heimsins von.
Kvótinn er kominn aftur.
Kvótinn er Ásgrímsson.

Þegar deilt var hart um það hvort heppilegra væri að Reykjavíkurborg eða ríkið rækju borgarsjúkrahúsið, var sagt að rekstur þess væri dýrari ef borgin ræki húsið. Forsætisráðherra var þá Þorsteinn Pálsson en Davíð Oddsson borgarstjóri.

Þeir sem að helstríðið heyja
heyra að fréttir greina
að talið sé dýrara að deyja
hjá Davíð heldur en Steina.

Þegar Lóló systir varð sjötug fékk hún þessa vísu:

Góðleg kveðja að gömlum sið
gæti orðast svona:
Sæmd og gæfu sittu við
sjötug heiðurskona.

Um tíma var mikil dýrkun á Lúðvík Jósepssyni á Þjóðviljanum. Allar yfirfyrirsagnir byrjuðu: Lúðvík Jósepsson segir-gerir-ætlar eða eitthvað í þeim dúr. Svo jókst dýrkunin og þá var bara sagt: Lúðvík ætlar-segir-gerir o.s.frv. – föðurnafninu sleppt.

Lúðvík er ljóssins perla.
Lúðvík er heimsins von.
Lúðvík er loftsins erla.
Lúðvík er Jósepsson.

Heiðar Jón Hannesson 28 ára.

Eflist til dáða drengur,
dregur fisk af stakri natni.
Enginn reynis uggi lengur,
öruggur í nokkru vatni.

Þegar Sverrir Hermannson, þáverandi menntamálaráðherra skipaði Sverri Thorsteinsson fræðslustjóra í stað Sturlu Kristjánssonar vegna þess að Sturla hafði eytt um efni fram í embætti segir sagan að skipunarskeytið sem Sverrir fékk hafði verið svona:

,,Láttu vera að spyrja og spá,
sparaðu auraforðann,
en hafði nafni hemil á
hyskinu fyrir norðan.

Fyrir alþingiskosningarnar 1986 féll Stefán Valgeirsson í prófkjöri Framsóknarflokksins, þrengt var mjög að Páli á Höllustöðum og Steingrímur Hermannsson var uppfullur af kínverskri speki eftir heimsókn til Kína.

Frekar er döpur mín framsóknarsál,
og framtíðardraumarnir kulna.
Stefán er fallinn og stigið á Pál
og Steingrímur tekinn að gulna.

Tveir ráðherrar voru í sjónvarpsþætti með unglingaskara. Unglingarnir spurðu grimmt en ráðherrarnir þóttu ljúga ótæpilega.

Syndum hlaðnir sýndust mér
og sátu í fyrirsvaranum.
Létt frá svörtu læddu sér
og lugu að krakkaskaranum.

Í viðtali við Tímann sagði lögregluþjónn nokkur eftir kjarasamningagerð að laun lögreglumanna væru lág, jafnvel lægri en gleðikonur hafa, auk þess sem það væri erfitt.

Starfið allt er fúa fen,
fáir í því lafa
og meðal launin minni en
mellur flestar hafa.

Eitt sinn kom upp deila milli Páls á Höllustöðum og Steingríms Hermannssonar um hvor hefði farið í fleiri utanlandsferðir á vegum hins opinbera. Steingrímur ásakaði Pál fyrir óþarfa flakk en þessu reiddist Páll og sótti hart að Steingrími.

Glatt hjá Denna brennur bál,
bylur þungt á herðum.
Enginn skyldi ergja Pál
utanlands með ferðum.

Þegar það fréttist suður til Spánar að Steingrímur Hermannsson væri orðinn forsætisráðherra 1983 varð þessi vísa til:

Nú er von á miklu mausi
og miður góðu standinu,
fyrst að Denni dæmalausi
drottnar yfir landinu.

Einhvern tíman eftir kenderí undir skömmum eiginkonunnar:

Teigað hef ég lífsins lind
og látið Bakkkus egna,
óreglan er sjálfsagt synd
og sekum ber að hegna.

Í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, þótti mönnum Framsókn kyngja hverju frjálsræðis eplinu á fætur öðru.

Frjálshyggjunnar fögru draumar rætast,
því Framsókn styður sérhvert þeirra spor.
Í Valhöll allir vargfuglarnir kætast
og VSÍ mun ekki deyja úr hor.

Vegna mikils eiturlyfjasmygls var þáverandi dómsmálaráðherra, Jón Helgason spurður af fréttamönnum hvað ætti til bragðs að taka. Jóni varð svarafátt og sló úr og í. Svari hans var svona lýst:

Þetta er sorglegt, þetta er ljótt,
þetta banna gerðum.
Þetta er afleitt, þetta fljótt,
þetta skoða verðum.

Jón Baldvin móðgaði helstu krataforingja á Norðurlöndum með einhverjum ,,gáfulegum“ ummælum og þeir afneituðu Jóni sem sönnum krata.

Málglaður hann metið setti,
mun það eflaust lengi standa.
Af sér hristi á einu bretti
alla krata Norðurlanda.

Bryndís Schram kvartaði yfir því við blaðamenn að menn hafi ekki kunnað að meta hann Jón sinn. Það sé nú fyrst eftir að hann var orðinn ráðherra sem menn sjái að hann hafi alltaf verið lausnari þessarar þjóðar.

Í þúsund ár var lausnar á lífsins gátu
leitað víða, bæði af sprund og hal.
En fyrir nokkru fagnandi menn sátu,
hún fannst að lokum vestur í Selárdal.

Alþýðubandalagið þykir orðinn krataflokkur og hefur Ólafur Ragnar sagt að hann sé að verða alþjóðlegur krataflokkur.

Aldinn má ég óttast það,
allri virðing glata,
því bráðum verð ég orðinn að
alþjóðlegum krata.

Einu sinni kom sú frétt að Ronald Regan Bandaríkjaforseti væri af íslenskum ættum.

Talinn snjall að fóðra fé,
fumlaus vel og nokkuð slyngur.
Mér er líka sagt´ann sé
sennilega Húnvetningur.

Þegar frá því var skýrt að ,,söngvarinn“ Megas ætlaði að syngja hina dásömuðu Passíusálma varð þessi vísa til:

Drottni er eflaust sýndur sómi
og sálirnar borga þar gjöld,
sem laglausir gaula lágum rómi
leirburð frá sautjándu öld.

Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir opinberlega að hann hefði farið til Sviss að horfa á handbolta til að heiðra íslenska landsliðið.

Þótt‘ann flækist þar um gleiður
þykir fleirum eins og mér
tiltölulega hæpinn heiður
að hafa Denna nálægt sér.

Tíminn birti mynd af foringjanum Steingrími á bringusundi í Sundlaugunum í Laugardal. Þjóðviljinn gerði grín að myndbirtingunni. Því reiddist aðstoðarritstjóri Tímans og jós skömmum yfir Þjóðviljann, Rússa og Kínverja fyrir að kunna ekki að meta snillinginn Steingrím. Þá var þessi vísa ort í orðastað aðstoðarritstjórans:

Kraftur og orka af ásjónu skín,
svo aðstoðarritstjórinn stundi:
,,Veit dauflegur bóndi dýrðlegri sýn
en Denna á bringusundi?“

Margir muna myndina af VL-hópnum þar sem hver maður hélt um sinn pung og Þórarinn Eldjárn orti um ,,að halda fast um punginn“. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1986 gáfu nokkrir Allaballar út yfirlýsingu um að þeir myndu styðja Davíð Oddson. Meðal þeirra voru Atli Heimir og Þórarinn Eldjárn. Þá varð þessi vísa ort:

Nú er í tísku neyðaróp
nú er margur slunginn.
Fjölgar í þeim fríða hóp
sem ,,heldur fast um punginn“.

Þeir sem lýstu yfir stuðningi við Davíð fengu að launum hvaða listamannavinnu sem þeir vildu á eftir. Þá var þetta ort:

Voldugur Dabbi vinur listamanna.
Launar þeim sem launa ber,
en lætur hina bjarga sér.

Guðmundur Jaki og síamsfress nokkurt, sem olli óskunda í Veturbænum, höfðu verið til skiptis á forsíðu DV í heila viku. Fressið var sagt réttdræpt en Guðmundur hafði þegið fé af Hafskipsmönnum til sumarferðar og óvíst var um pólitíska framtíð hans.

Frægðarverkin færð í letur,
forsíðuna báðir taka,
en falið er hvorum farnast betur,
fressinu eða Gvendi jaka.

Þegar Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, fór til Bandaríkjanna til að tala við þarlenda um hvalamálið, vildu þeir ekkert við hann tala, sögðust ekki tilbúnir og Halldór kom heim aftur.

Þegar að til átt‘að taka
þá talaði Dóri án raka.
,,Þú ert aumari en Denni
þér ég alls ekki nenni,“
sagði Regan
og send‘ann til baka.

Einu sinni var einni af ríkustu ættum landsins nánast gefið allt land umhverfis Ölfusvatn. Urðu miklar umræður um málið og sagði borgarstjóri og fleiri íhaldsmenn að menn færu með rangindi.

Málið er alltaf af rangindum rætt
og röflar hér allskonar hyski.
Þótt fáeinar milljónir fátækri ætt
séu færðar á silfurdiski.

Upp kom deila milli Kvennalistans og Kvennaframboðsins um hvor hópurinn ætti að bjóða fram til kosninga 1983 – saman eða í sitt hvoru lagi. Um tíma leit út fyrir að kvennahópurinn klofnaði í málinu og þá var kveðið:

Líst mér svo á lífsins stand,
að lítið verði sofið,
ef kvennaframboðs bauga-band
býður nú fram klofið.

Stefán Jónsson, fyrrum alþingismaður sagði í sjónvarpsviðtali að greind alþingismanna væri langt fyrir ofan meðallag. Þetta kom mér á óvart.

Alþingi telur áskipað
úrvalsliði greindu,
en hitt má kalla hógværð að
halda þessu leyndu.

Vísan birtist í Þjóðviljanum og Stefán svaraði:

Á Alþingi þó ekki greindir væru
allir jafn, ég efalítið tel
að ,,þaðan koma ljósin logaskræru“
en lýsa bara misjafnlega vel.

Eftir hinn óvænta sigur Karvels Pálmasonar yfir Sighvati Björgvinssyni í prófkjöri til Alþingis fyrir vestan varð þetta til en það var Hannibal sem hirti Karvel upp af götu sinni á sínum tíma:

Kom á óvart krataval
kusu landsfrægt hanagal.
Stendur enn um strönd og dal
slóðin eftir Hannibal.

Vigdís forseti sagði í opinberu hádegisverðarboði erlendis að þorskurinn hafi verið besti sendiherra Íslands.

Það undrar víst fáa þótt ásjóna vor
ýmsa í villuna teymi
fyrst ormétinn þorskur er ambassador
okkar í viðsjálum heimi.

Vísur til Stefáns Jónssonar, alþingismanns, á sextugs afmæli hans:

Má nú ekki minna vera
en maður sendi,
án þess mærðir upp að tína,
orðsnillingi kveðju sína.

Heill þér vinur. Hafnaðu ekki
hollum ráðum:
Lífsins njóttu og lyftu glasi
laus úr öllu málaþrasi.

Ólafur prentari Karlsson, lenti eitt sinn á fylleríi á balli í Klúbbnum. Rósa kona hans var þá að salta síld á Raufarhöfn og við vinir hans ásökuðum hann fyrir að hafa verið á kvennafari. Hann sór og sárt við lagði að svo hefði ekki verið. Þá var þetta símskeyti samið í orðastað Ólafs til Rósu:

Fór í Klúbbinn. Fékk mér skopp.
Fullur. Svaf í eigin bóli.
Reyndi ekki að ríða. Stopp.
Rósa mín. – Þinn Óli.

Eitt sinn í stjórnarmyndunarviðræðum hafði ég eitthvað eftir Páli Péturssyni á Höllustöðum, í Þjóðviljanum. Páll sagði að ég væri að plaga sig með því að hafa ekki rétt eftir sér. Þá varð þessi afsökunarvísa send á Pál:

Iðrun fyllist auðmjúk sál,
afsakar með huga glöðum,
ef‘ún hefur plagað Pál
Pétursson á Höllustöðum.

Eitt sinn var uppi deila hvort nota ætti gæsalappir eða ekki í beinni ræðu. Þá var þetta ort:

,,Við skulum ekki gera gys.
Gæti hver síns tappa,
því margan hendir manninn slys
milli gæsalappa.“

Þegar Vilborg Harðardóttir var kjörin varaformaður Alþýðubandalagsins var þetta til, en Vilborg var kunn af skapillsku og hurðaskellum þegar hún reiddist:

Nú á Alla-ballinn bágt,
bræddur af meyjarvarma.
Tel ég rétt að tala lágt
en treysta dyr og karma.

Þessi vísa var ort í Setúbal í Portúgal þegar hjónin voru ferðaþreytt, fundu ekki matsölustað sem hæfði ,,löfðufólki“.

Mun hér lítið matarval,
maginn tómur vera skal,
síðdegis í Setúbal
sultur hrjáir mey og hal.

Sverrir Hermannsson varð manna óðastur þegar z-an var afnumin úr ritmáli. Síðar varð hann ráðherra og þá var ort:

Rita skal með stórum staf
stöðu mína og heitið.
Sýpur liðið seyðið af
(s) (z) etu í ráðuneyti.

Litið yfir nöfn þeirra sem komust í heiðurslaunaflokk listamanna.

Mikið er þetta misleit hjörð
manna er listir herja,
líkt og þegar lambaspörð
liggja á milli berja.

Eitt sinn sagði Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri, í blaðaviðtali að konan sín segði hann ekkert vit hafa á peningum.

Sannleikanum fáir flíka,
frúin lítið ýkja þarf.
Þetta segir þjóðin líka,
þú ættir að breyta um starf.

Þegar Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, fór til Moskvu til að vera viðstaddur útför Andropovs. Mjög fáir þjóðarleiðtogar fylgdu sovéska forsætisráðherranum til grafar.

Hetjur fáar húktu á verði
og hundar allir sögðu voff,
þegar kappinn kraup og gerði
krossmark yfir Andropov.

Morgunblaðið reiddist þessari vísu ógurlega og sagði í Staksteinum að þetta væri allt lygi. Andropov hefði verið hundleiðinlegur kommúnisti sem enginn maður hefði krossað yfir. Þá var gerð bragarbót.

Þjóðin að sér ljúga lætur
lipra tunguristuna.
Sprækur Denni spratt á fætur
og sparkaði í kistuna.

Sverrir Hermannsson gekkst undir stafsetningarpróf en kolféll.

Prófið þreytti fólinn fattur,
festi orð á blað.
Skrifaði zetu borubrattur
en bara á röngum stað.

Steingrímur Hermannsson kom fram í umræðuþætti og var að leggja almenningi línurnar í að herða sultarólina í efnahagserfiðleikum.

Leggja vil ég líkn með þraut
launamannsins klóri,
hann skal eta grjónagraut
garmurinn svo‘ann tóri.

Örþreyttir farastjórar fengu sér vínglas (glös) á hvíldarstundu.

Falleg er‘ún flaskan mín,
færist roði í kinnar.
Gleðja sig við gullin vín
garmar strandarinnar.

Gunnar Thoroddsen var stundum kallaður Ajatolla meðan hann var forsætisráðherra. Einhvern tíma lagði hann fram hluta af nýrri stjórnarskrá meðan allt var í rúst í atvinnulífinu og afkoma fólks slæm.

Meðan þjóðin bleik á brá
bindur skip við polla,
færir okkur frelsisskrá
faðir Ajatolla.

Eggert Haukdal, studdi ríkisstjórn Gunnars, en tók hann sér frí frá þingstörfum og sögðu gárungarnir að hann ætlaði að hleypa til þótt komið væri fram á Þorra. Í stað Eggerts kom Siggeir í Holti, sem var einlægur stuðningsmaður Gunnars en Eggert þótti alltaf vafasamur.

Ajatollans eykur lið
amstur bænda vorra,
sem að hamast heima við
að hleypa til á Þorra.

Einu sinni kom frétt í Morgunblaðinu um að hugsanlega myndu þeir bjóða fram sameiginlega, Gunnar Thoroddsen, Vilmundur Gylfason og Guðmundur G. Þórarinsson.

Liggja saman lífs á vor
litla netta fingur,
guðlaus Vimmi, Gunnar og
Gummi túskildingur.

Síðan bar Mogginn fréttina til baka, sagði vonda menn hafa logið að fréttamanni.

Dansar lipurt daðrarinn
og dygðir sínar heftir.
Stundum reynist koss á kinn,
kaldur daginn eftir.

Eggert Haukdal hafði lengi staðið í stríði við prestinn á Bergþórshvoli út af hrossi og hafði hvorugur betur. En Eggert fékk slæma útkomu í prófkjöri og þetta var ástæðan:

Stríði heyja vonlaust var,
vaninn þessi mestur.
Gegn mér barðist guðlaust par,
gamalt hross og prestur.

Einhverju sinni réðust þeir Jón Baldvin og Hannibal faðir hans, af heift á Alþýðubandalagið löngu eftir að þeir höfðu klofið flokkinn. Hannibal skráði þá lögheimili sitt í Selárdag.

Flokkinn klufu fræknir menn
forðum tíð með sigðum.
Seiðinn magna seggir enn
Selárdals í byggðum.

Í skoðanakönnun kom fram að fólk á Íslandi sagðist kátt, alltaf glatt, alveg auralaust og trúlaust orðið.

Gildismatið virt á vog,
voru menn í stuði,
býsna glaðir, blankir og
búnir að týna Guði.

Þegar G-punkturinn svo nefndi var kynntur Íslendingum.

Allt er þetta ansi skítt,
Amors fallið gervi.
Upp er tekið alveg nýtt
ástapunktakerfi.

Einu sinni var Albert Guðmundsson, þáverandi fjármálaráðherra, hylltur sérstaklega af Dagsbrúnarmönnum. Skömmu síðar felldi svo Albert gengið.

Verkalýður vininn sinn,
virða skal og muna.
Guð þér launi góðurinn
gengisfellinguna.

Fyrsta ríkisstjórnarfundi eftir að Steingrímur Hermannson hafði sagað frama af fingri, var lýst á þennan hátt:

Fallvölt stjórn á fundi sat,
friðsælt var þar inni,
og helmingi minna handapat
heldur en nokkru sinni.

Mönnum sýndist sem stutt væri í endalokin hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og lýsti Denni því yfir að hann væri harmi sleginn yfir þessu, sagðist hafa gert úrslitatilraun.

Gerði tilraun garmurinn,
gekk til enda veginn.
Dugði illa Denni minn,
drengur harmi sleginn.

Albert Guðmundsson og Guðmundur J. eru miklir mátar. Í fjármálaráðherratíð Alberts hækkuðu vindlar um 48% en neftóbak um 128%. Albert reykti vindla en Guðmundur tók í nefið. Þá var þetta ort í orðastað Guðmundar:

Hver er næstur sjálfum sér.
Sýnist vert að muna,
að illa launar Albert mér
alla vináttuna.

Þessi jólaþula var ort þegar allt var í óvissu um hvort Þorsteinn Pálsson fengi ráðherrastól, eftir að hann var orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins:

Flokkurinn valdi formann sinn,
frjálslyndinu hleypti inn,
helblár reyndist hugurinn
og hækkandi var sólin.
-Auðvitað fær hann Steini litli stólinn.

Fölnaði snemma fjólan blá,
fitnuðu púkar bita á,
fjandmenn sína fór að sjá.
Frúin beið með kjólinn.
-Hvenær fær hann Steini litli stólinn?

Vetur kemur, vonin dvín,
völdum nái hann til sín.
Blessuð litlu börnin mín
bráðum koma jólin.
-Kannski fær hann Steini litli stólinn.

Illt er þetta aldarfar,
öldunganna maktin var.
Rjúpur átu ráðherra
og ropuðu um jólin.
-Ekki fékk hann Steini litli stólinn.

Margir aldrei marki ná
manneskjur sem völdin þrá,
en fjarlægðin gerir fjöllin blá.
Förum nú í bólin.
-Kannski fær hann Steini –gamli – stólinn.

Þessi staka var ort um sama mál þegar ljóst var að Þorsteinn fengi ekki stólinn:

Þá eru liðin þessi jól,
þrautum meður sínum.
Þeir hafa stungið undir stól
Steina vini mínum.

Þegar Elva Björk var ráðin framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins var hún spurð álits á frjálsum útvarpsstöðvum. Svarið þótti skrýtið. Hún sagðist hafa skoðun en þó þyrfti hún lengri tíma til að móta sér skoðun á málinu opinberlega.

Um útvarpsins andlegu boðun,
þá yfirlýsingu gef:
Ég er að skapa mér skoðun
á skoðun sem ég hef.

Jón Baldvin lýsti í Kjallaragrein fundarherferð hans og Ámunda umboðsmanns um allt land, sem voru sagði með ,,fatafellusniði“. Þá var þetta ort í orðastað Jóns:

Háttvirtu kjósendur: Létt er mín lund,
hve ljúft er að efla minn veg.
Allsberir dönsum við fund eftir fund
félagi Ámundi og ég.

Þegar Páll á Höllustöðum gekk í ræðustól á Norðurlandaráðsþingi til að taka við forsetaembætti á þinginu, mælti hann á einhverju ,,erlendi“ tungumáli. Þá var ort:

Glæsilegur gekk‘ann inn
gamli hrossa prangarinn,
framburð harðan hafð‘ann sinn,
Höllustaða forsetinn.

Læknar sögðu góðan mat valda hjartveiki, brennivín heilaskemmdum, tóbaksreykingar krabbameini og síðast að ástarleikir gæti valdið eyðni.

Enginn brátt mun hafa hátt,
heldur grátt á kvöldum.
Orðið fátt um fínan drátt
fyrir máttarvöldum.

Jón Helgason, þáverandi kirkjumálaráðherra. sagði á kirkjuþingi að brennivínið væri búið að drepa allt það guðlega í Íslendingum.

Á kirkjuþingi kynnti Jón
klúður sinna þegna:
Drottinn hefur flúið Frón
fylliríis vegna.

Svavar Gestsson fór á þingmannaráðstefnu til Zair í Afríku. Svavar var kvennamaður góður og því var ort:

Fann í hreðjum loga ljós
lifnaði girnd til píku.
Því næst sarð‘ann svarta drós
suður í Affiríku.

Lúlla-vísur urðu til á Þjóðviljanum og það var Lúðvík Geirsson sem ort var um. Tilefnin voru margvísleg. Hér er hann sakaður um að hafa stolið frétt úr Helgarpóstinum:

Engum manni segir satt,
seggur nauðagrófur.
Læðist, snuðrar, lýgur glatt,
Lúlli fréttaþjófur.

Lúlli var á kvöldvakt og blaðið var fullt af prentvillum daginn eftir.

Reiði fylltist ritstjórinn,
raunar tryllist þegar
lætur villur Lúlli minn
lifa hræðilegar.

Lúlli komst að því að Ragnar Arnalds, þá fjármálaráðherra, hafði gert mistök með því að kaupa einhverja rándýra skemmu. Lúlli skrifaði hins vegar aldrei fréttina.

Lýsa manni langar mig.
Liggur á fréttum kargur.
Lætur Gagga leiða sig
Lúlli skemmu-vargur.

Guðmundur G. Þórarinsson sakaði Lúlla um að hafa logið uppá sig í frétt og hótaði málaferlum.

Fréttaskríbent fremstan tel
fól og skúrka veiðir.
Lýgur alveg lista vel
Lúlli ærumeiðir.

En svo kom einhvers konar afsökunarbeiðni frá Lúlla.

Þetta finnst mér þeigi gott,
þýlund engan kætir.
Liggur niður loðið skott
Lúlli ærubætir.

Þegar Útvegsbankinn var farinn á hausinn og bankaráðsmenn ásakaðir um að hafa með þögninni blekkt þjóðina. Þá var þessi heilræðavísa til, til þeirra sem enn réðu yfir banka, ort:

Varast skulið veðin góð,
veitir lán ótregir,
en best er að hafa blekkta þjóð
og bankaráð sem þegir.

Skömmu fyrir prófkjör Alla-Balla í Reykjavík var kynning á þeim sem í framboði voru. Guðmundur J. lýsti yfir skömm sinni á slíkum kynningum, sagðist heldur vilja lesa Tarzan.

Tarzan lesa telur stoð,
tafls í dimmum krókum.
Glöggur maður Gvendur J.
og gjörkunnugur bókum.

Þessi kynning á frambjóðendum var á einn veg.

Manndós afrek virk á vog,
virtir, snjallir, fróðir,
fæddir, skírðir, fermdir og
fjarskalega góðir.

Heilræðavísa.

Enginn lái öðrum frekt,
enn þó nái að falla.
Hver einn gái að sinni sekt,
syndin þjáir alla.

Óskar Guðmundsson skrifaði grein með fjölda mynda af þeim Framsóknarmönnum, sem komist höfðu til áhrifa í Alþýðubandalaginu og þá var þessi vísa ort:

Lífsbjörg flokka langt er sótt
og löngum gleypt í flaustri.
Finnst mér ekki furða þótt
fölni roði í austri.

Þegar Hjörleifur Guttormsson var í stríði við Álverið um að fá fram verðhækkun á rafmagni, hljópst Guðmundur G. Þórarinsson undan merkjum í viðræðunefndinni og stóð með Svisslendingum.

Mættust þarna stálin stinn.
Styrkist auðvaldshringur,
þegar gefst upp garpurinn
Gummi túskildingur.

Í umræðum á Alþingi um skelfiskveiðar í Breiðafirði talaði Eiður Guðnason hátt og mikið og stílaði málflutning sinn beint til fjölmiðla.

Orðin runnu eins og smér,
aumt var sálarstandið.
Vildi ég ekki vera hér
veslings segulbandið.

Einhverju sinni þótti Sigrúnu minni ég drekka ótæpilega sem oftar – hafði orð á því. Þá var þetta ort í orðastað hennar:

Þambaðu ekki þetta vín,
þú mun fullur verða,
og ekki máttu ástin mín
andlegheitin skerða.

Þegar Svavar Gestsson fékk umboð til stjórnarmyndunar eitt sinn kom þessi vísa:

Lifnar aftur lífið dautt,
leynist allur vandi.
Þúsund ára ríkið rautt
reis ekki í þessu landi.

Stefán Aðalsteinsson, sauðfjársérfræðingur, sagðist hafa sannað að Íslendingar væru af Norðmönnum komnir með rannsóknum sínum á sauðfé á Íslandi og í Noregi.

Komin er fram kenning snjöll,
kosta hlaðin lindum.
Í beinan karllegg erum öll
út af norskum kindum.

Á einum landsfundi Alþýðubandalagsins fór mikið fyrir Lúðvík Jósepssyni.

Lúðvík ræðir landsins hag,
Lúðvík gefur strikið.
Lúðvík hvílist lítt í dag,
Lúðvík talar mikið.

Eftir lestur bókarinnar Valdatafl í Valhöll sem tveir Heimdellingar skráðu.

Eftirtekja reyndist rýr
reis ei lítil bára,
frekar eins og kálfar kýr
kitli undir nára.

Eftir frumvarp Stefáns Guðmundssonar á Alþingi um nauðsyn þess að bjarga Kolbeinsey, sem hann sagði vera að molna í sundur.

Þingheimur álykti þegar í stað
að þrumuveðrunum sloti,
svo komist til framkvæmda krafan um það
að Kolbeinsey haldist á floti.

Þegar upp komst um svik Álversins varðandi innflutning á súráli, var sagt að það hefði ,,hækkað í hafi“ eins og komist var að orði.

Með svo felldum hætti má sigrast á þraut,
mér sýnist það enginn vafi,
að efnahagsvandinn er allur á braut
ef álagning frjáls er í hafi.

Þegar foringi kaþólikka á Íslandi var ráðinn ritstjóri Þjóðviljans.

Eilíft dvínar andans glóð
og innviðirnir fúna.
Þar sem áður Stalín stóð,
stendur Kristur núna.