Vísnaþættir 1974

Sitt úr hverri áttinni
Fram að þessum þætti höfum við alltaf tekið eitthvert ákveðið efni fyrir í vísnaþáttunum, ákveðinn hagyrðing eða eitt ákveðið efni, eins og haustið í þeim síðasta. Nú breytum við til og tökum efni sitt úr hverri áttinni.

Okkur hafa borist margar skemmtilegar vísur, héðan og þaðan að af landinu. -G sendir okkur tvær skemmtilegar vísur, aðra gamla, hina nýja og hefur dálítinn formála fyrir báðum, og gefur þá -G orðið:

Allir vita hvað við Íslendingar eigum mikið undir veðráttunni, enda er hún tiltækasta umræðuefni þegar menn hittast á förnum vegi. Spádómar um veðurfar hafa einnig verið andleg íþrótt kynslóðanna svo langt aftur sem sögur herma. Ýmsan vísdóm af því tagi bundu menn í ljóð svo að betur mætti varðveitast í minni manna. Hver kannast ekki við vísuna gömlu góðu:

Velkjast í honum veðrin stinn,
veiga mælti skorðan,
kominn er þefur í koppinn minn,
kemur hann senn á norðan.

Nú munu flestir halda að hin alþýðlega veðurfræði sé undir lok liðin síðan fræði þessi urðu virt vísindagrein, en svo mun þó ekki vera, og því til sönnunar birti ég hér nýjustu veðurspá af gamla skólanum, og mun hún að engu standa að baki þeirri sem hér að framan var tilfærð:

Nú er illra veðra von,
vart mun sólin skína
meðan Þór og Þórmundsson
þrífa æru sína.

Þetta dæmi, þó lítið sé er hér fram sett til styrkingar trú þeirra manna, sem halda því fram að íslensk menning standi svo föstum rótum að engin herhlaup fái unnið henni grand. Þessi vísa barst okkur fyrir nokkrum dögum og nefnir höfundurinn hana Sorg og gleði:

Einar rekur, Einar hrekur
elsku kanann ,,væk”.
Einar vælir, Einar skælir
„Ami, please come back”.

Bannað var að senda rímaðar jólakveðjur í ríkisútvarpinu 1972 og 1973. Út af því varð þessi vísa til:

Ábending er okkur góð
útvarpsspekinganna.
Eru rímuð íslensk ljóð
arfur villimanna. -N.

Og þessi vísa Steinunnar flaug innum gluggann hjá okkur fyrir nokkru:

Í Austurstrætis óðal vort
ógn af fé er gengið.
Þar aldin séní iðka sport
svo aftur telst það fengið.

M.S. Skagfirðingur er ekki hrifinn af atómskáldskap, eins og kemur fram í þessum tveim vísum:

Ljóðavinir, hátt skal hrópa,
hér er allt ein vitfirring,
atómskáldin upp til hópa
öll má virða á fimmeyring.

Sálarlampi ýmsra ósar,
orða ég það ei meir.
Atómrjóða bögu-bósar
brugga allt úr leir.

Böðvar Guðlaugsson hefur sent okkur mjög skemmtilegt bréf, fullt með vísur og gamanmál og munum við birta það í heild í næsta þætti. En ég stenst ekki freistinguna að birta hér eina af vísunum sem hann sendi:

Ýmsir reyna eins og Geir
á alvörutímum að spjara sig.
Biskupinn vígði Auði Eir,
svo andskotinn má fara að
vara sig.

Einnig munum við birta í næsta þætti fleiri vísur sem okkur hafa borist.
Áður en við lítum á botnana sem borist hafa, langar mig að birta hér brot úr skákljóði eða -vísu og spyrja menn hvort þeir kunni hana alla og senda okkur hana þá, en það sem við kunnum er þetta:


Fallega spillir frillan skollans öllu
frúin sú er búin nú að snúa….???

Botnar
Og þá eru það botnarnir við fyrripartinn:

Ellefu hundruð ára byggð
allir fagna vildu;

Nú er spurn um trú og tryggð,
tækifæri og skyldu.
H.B.

En við herinn halda tryggð
hugðu of margir skyldu.
Steinunn.

En margur hélt við mammon tryggð
á minjagripa viðurstyggð.
Smári Ragnarsson.

Einnig þeir sem hamar og sigð
hafa að trúarskyldu.
A. Guðnason.

Eftir þó í huga hryggð
herfjötrarnir skildu.
Leifur Guðmundsson.

Íslendingar ást og tryggð
eiga sína skyldu
María Andrésdóttir frá Seyðisfirði.

Hvar er okkar hamar og sigð?
Hræsnina flestir skildu.
GM.

Voru þær ekki viðurstyggð
veislurnar löngu og gildu?
G.M.

Þó að veiti hraustum hryggð
hrök er stjórna skyldu.
-N.

Engum ljóma yfirskyggð
ævintýrin skyldu.

Er af sannri trú og tryggð
tilgang með því skildu.
Valdemar Lárusson.

Við sleppum fyrri parti að þessu sinni, en biðjum menn þess í stað að senda okkur fleiri vísur, nýjar eða áður óprentaðar.

Þjóðviljinn 3. nóv. 1974


Gaman og alvara
Við lofuðum því í síðasta þætti að birta nú bréfið sem hann Böðvar Guðlaugsson sendi okkur, og skulum við þá byrja á því, svona til að koma okkur í gott skap. Hann nefnir það „rímað glens”, en við sleppum einni vísunni, þá um biskupinn og Auði Eir sem við birtum síðast, en gefum þá Böðvari orðið:

Einhvern tíma á ellefu alda þjóðhátíðarsumri fór undirritaður í tólf klukkustunda landsskoðunargöngu, nestislaus að kalla. Þegar hann sneri aftur, lýsti hann ásigkomulagi sínu á þessa leið:

Lifandi undur var ömurleg magans líðan,
orðin var kinnin bæði gráföl og mögur,
sem hefði ég ekkert oní mig fengið síðan
áttahundruð sjötíu og fjögur.

Eftirfarandi vers var á sínum tíma kveðið um ónefndan stjórnmálamann:

Öðrum hulið hundavað
á hverju máli sér’ann
Bæði heim og heimanað
hina leiðina fer’ann.

Kvenréttindakonur láta nú æ meira að sér kveða og er ekki frítt við að pilsaþyturinn sé farinn að skjóta „sterkara kyninu” skelk í bringu. En maður verður að manna sig upp:

Vér sem erfðum andlegt pund
Agli frá og Snorra,
óttumst hverja úfna lund
eiginkvenna vorra.

Undirritaður hlýddi einhverju sinni á fræðsluerindi um tannvernd og hirðingu tanna. Leiddist honum fyrirlesturinn og stytti sér stundir með því að rissa skrípamyndir á blaðsnepil:

Við að draga upp dverg og tröll
dunda ég mér í næði
og kollóttan mig kæri um öll
kjaftræstingafræði.

Eftirfarandi stef varð til á ferðalagi í Hvalfirði:

Raðað hef ég í vísuna völdum orðum
og vantar nú aðeins blaðsnepil til að letrana.
En hérna var það sem Hörður var drepinn forðum
og Helga jarlsdóttir synti 200 metrana.

Ríkisstjórnin
Um hægri stjórn og
mammónsmakt
mér er lítið gefið.
Ekki verður þó um hana sagt
að á hana vanti nefið.

Kvenfólkið hefur löngum fengið orð fyrir að vera málgefnara en karlmenn og í eftirfarandi vísu er vikið að því:

Veður elginn vítt og breitt
vífið mælskusnjalla.
Ég læt svona eitt og eitt
orð í belginn falla.
Böðvar Guðlaugsson.

Jón M. Pétursson frá Hafnardal sendir okkur þessar vísur:

Fyrr má ýta undir sjá
Íslands síðasta fjalli
en hægt verði að draga Framsókn frá
fullum hernámsdalli.

Ellimæði
Verður þungt að verjast gegn
víli og ellimeinum.
Sunnlensk fýla og suddaregn
seytlar inn að beinum.

Í síðasta vísnaþætti skammaði M.S. Skagfirðingur atómskáldin hressilega. Ekki eru allir á sama máli, og þetta sendir G. okkur:

Til M.S.úr Skagafirði.
Þeir sem yrkja atómljóð
oft fá þunga dóma.
Ekki mun það orðaflóð
öldinni til sóma.

Ýmsir þrátt í þessum heim
þræða gömlu sporin
og geðjast ekki að gróðri þeim
sem grænkar fyrst á vorin.

N. sendir okkur eftirfarandi vísur:

Óli Jó þó oti Geiri
er það lítil sæmd,
í ríkisstjórnir flæktust fleiri
fengist þessi burtu dæmd.

Ég er eins og allir vita
ekkert sérstakt gáfnaljós
en lætur best að starfa og strita
stundir lífs til lands og sjós.

Og þessa sendir S.H. okkur:

Stakan mörgum léttir lund,
ljúft er hana að muna.
Atómljóðum stund og stund
streitast menn að una.

Og Náttfari er sorgmæddur eins og fleiri:

„Sorgin varnar manni máls”
mælti gæs við hanann.
„Ekki er menning okkar frjáls,
ef við missum kanann”

Gól þá haninn: „Hreggviði er
hægt að etja á ‘pleisin’.
Smala ég mínum hænsnaher
á haugunum kring um ‘beisinn‘”.

Botnar
Þá er komið að botnunum við fyrripartinn:

Kólna fer um lög og láð
lífið býst til varnar

Þá er gatan þyrnum stráð
þegar frostið harðnar.
Jónas Friðgeir, Ísaf.

Þeim til vinstri þrýtur ráð
þegar á dalnum harðnar.
Jakob Jónsson.

Ráðhús ekki reist í bráð
Reykjavíkurtjarnar.
Magnús Einar.

Aumleg stjórn á engin ráð
ef á dalnum harðnar.
Sami.

Enda spinnur amma þráð,
allar lóur farnar.

Vermast þó ef vel er gáð
vinstri fylkingarnar.
Einar J. Eyjólfsson.

Virðist samt þá vanti ráð
til verndar landsins barna.
S.H.

Skal þó marki næsta náð,
nýjar leiðir farnar.

Til að efla dug og dáð
djarfur leikur harðnar.
-N.

Enn er komið íhaldsráð
auðvaldsklóin harðnar.
Þ.K.

Hitna mun þér, Herlegdáð,
ef húsfreyju þú barnar.

Afskorið sem út var sáð
ef rauðsokku þú barnar.
P.P.

Afrek munu ársins skráð
eftir leiðir farnar.

Ennþá teygir tíminn þráð
og tönn hans bjargið kvarnar.

Verður fátt um björg í bráð
baráttan því harðnar.
Valdimar Lárusson.

Þjóðviljinn 10. nóv. 1974

Fallega spillir…..
Við báðum um það hér í þættinum fyrir hálfum mánuði að ef einhver kynni vísuna -Fallega spillir frillan skollans öllu- að sá hinn sami léti okkur vita og ekki hefur staðið á undirtektum. En eins og með svo margar vísur sem komist hafa í hámæli, þá ber mönnum ekki saman um hvernig þær eru. Oft er það ekki nema eitt orð eða tvö sem mönnum kemur ekki saman um, en eins og gefur að skilja getur það breytt afar miklu.

Í sambandi við þessa vísu, þá hefur mönnum alls ekki borið saman, þó munar þar ekki miklu. Allir nema einn hafa sagtað vísunni fylgdi saga um feðgin sem tefldu mikið og voru snjöll í skák. Þau bjuggu afskekkt. Ef einhver beiddist gistingar þá varð sá sami að vinna karlinn í skák, annars var sá sami gerður höfðinu styttri. Svo kom ungur og glæsilegur maður og beiddist gistingar. Hann varð að tefla við karlinn og þegar ungi maðurinn ætlaði að fara að leika af sér þá á stúlkan að hafa mælt vísuna fram og mun hún vera ákveðin leikjaröð sem leiddi til sigurs í skákinni. Hún vildi nefnilega eiga pilt í stað þess að gera hann höfðinu styttri og það tókst fyrir tilstilli vísunnar.

Svo kom til mín kona sem sagði vísuna vera eftir Stefán Ólafsson skáld á Völlum og væri hún ort til Þorsteins Magnússonar, þegar skáldið missti mann í skák við hann og það var ekki bara þessi eina vísa heldur aðrar tvær og þær eru svona:

I.
Mæli ég um og mæli ég á,
að menn hans Steina falli í strá
honum hrífi glertan grá,
gefi í einu einn, tvo, þrjá,
gamla hrapi fjörinu frá,
fækki um reitapeðin smá,
falli þannig fræðaskrá,
fái hann mátin há og lág.

II.
Jón leikur skár skák,
skók hann af mér hvern hrók,
biskupinn fékk rórask,
riddarinn og peðsnídd,
á gömlu er komið gangsvingl,
gáði hún ekki að ná bráð,
kóngurinn með forfang
fékk mátið oflát.

III.
Fallega spillir frillan skollans öllu,
frúin sú, sem þú hefur nú að snúa,
heiman læðist hamin í slæmu skrumi,
hrók óklókan krókótt tók úr flóka.
Riddarinn staddur, reiddur, leiddur, hræddur,
reiður veður með ógeði að peði.
Biskupsháskinn blöskrar nískum húska,
við bekkinn gekk, svo hrekkinn þekkir ekki.

Og nú er bara eftir að vita hvort fleiri útgáfur eru til og bið ég menn að senda okkur línu ef þeir kunna vísurnar öðru vísi.

Böðvar Guðlaugsson færði okkur tvær nýjar vísur í vikunni.

Um landsfeðurna
Ekki báru þeir höfuðið hátt
í húsi bandarískra
og vilja nú ólmir lægra en lágt
lúta að fótum þýskra.

Í tilefni 300. árstíðar Hallgríms

Með guðsorð á vör út að grafar reitnum
gengur allt að því heilög þrenning.
Loksins kom að því að
Hallgrími heitnum
hlotnaðist dálítil viðurkenning.

Og Magnús Einarsson sendi okkur þessa:

Af stjórninni ekki ber nú blak
Björn í þessu sloti.
Ég held að þurfi heljartak
að hald’enni á floti.

S.H. hefur trú á hagmælskunni meðal landsmanna, þótt margir séu þeir sem telja hana á undanhaldi:

Fyrir Ísland allt í senn
öll náttúran syngur.
Hér ef hittir maður menn
mætir hagyrðingur.

Eins og svo margir aðrir er V.L. ekkert hrifinn af VL-mönnum eða „frjálsmenningum”:

Í dómsalnum mikla er kveljandi kliður
þegar kveður sér dómarinn hljóðs.
Í stúkunni húkir Hreggbarinn viður
með handarbök nöguð til blóðs.

Þá er hér ein gömul vísa sem N. sendi okkur:

Það er vandi við að standa
véla grandi Yajah Kan
þegar fjandinn fer að blanda
fídonsanda í Pakistan.

Lítið finnst mér heyrast nú frá hagyrðingum sem kunna að meta gleðina eins og hinn snjalli hagyrðingur frá Sauðárkróki, Friðrik Hansen kunni og þessar vísur hans bera með sér.

Þó að ég sé gleði gjarn
og gangi á vegi hálum
er ég saklaus eins og barn
í öllum kvennamálum.

Ég vil feginn óspilltur
æskuveginn ganga
og svo deyja ölvaður
undir meyjar vanga.

Eða þá Gísli Ólafsson þegar hann kveður:

Oft á fund með frjálslyndum
fyrrum skunda réði.
Nú fæst undir atvikum
aðeins stundar gleði.

Björn Sigvaldason ort þegar Viðreisnarstjórnin féll sællar minningar:

Viðreisnin er fallin frá
fagnar þjóð að vonum,
ef ekki bregðast heitin hjá
Hannibal og sonum.

Og þessi er tímanna tákn segir XY:

Fyrrum efni ástar brags
— ung með bjarta lokka —
en náttúran er nú til dags
neydd í rauða sokka.

Svo að lokum fyrripartur:

Ætlar Geir að semja sátt
og svíkja í landhelginni?

Þjóðviljinn 17. nóv. 1974

Sonur Hjálmars ef ég er….
Það er vel við eigandi í vísnaþætti að birta nokkrar vísur eftir einn hraðkvæðasta hagyrðing er uppi hefur verið, Símon Dalaskáld. Margir hafa ekki mikið álit á Símoni sem hagyrðingi, en þó eins og Matthías Jochumsson sagði er hann frétti lát Símonar, það glitti á perlur innan um, og víst er það satt. En frægastur varð þó Símon fyrir það hve fljótur hann var að yrkja, hann var það sem kallað er talandi skáld.

Eitthvað var á reiki með faðerni Símonar. Björn sá er skráður var faðir hans mun ekki hafa verið það i raun og veru, og sagði Símon það raunar sjálfur. Flestir töldu hann son Sigurðar Breiðfjörð, aðrir töldu hann son Bólu-Hjálmars. Og eitt sinn er að þessu var ýjað við Símon svaraði hann:

Sonur Hjálmars ef ég er
allan tálma greiðir.
Skulu álma hlynir hér
heljar skálma leiðir.

Út af þessari vísu urðu illindi milli Hjálmars og Símonar, Hjálmari þótti móðgun að þessari aðdróttun.

Símon giftist konu er Margrét hét og var sambúð þeirra slæm. Eitt sinn kvað hann eftir slagsmál við konu sína:

Margrét lengi mundsterk er
mjög að þrengir trega
er mig hengja ofaná sér
ætlaði drengilega.

Eitt sinn kom hann á bæ og ávarpaði fólkið með þessari vísu áður en hann heilsaði:

Einn er kominn ýtur hingað ekki hræddur,
Símon nefnist, gáfum gæddur
gráum buxum er hann klæddur.

Þessi vísa er úr ljóðabréfi eftir Símon er hann var við sjóróðra:

Birtings mela essi á
orku vel með knáa.
Stóra Seli sækjum frá
sjós á hvelið bláa.

Þeir sem ekki hafa mikið álit á kveðskap Símonar ættu að skoða þessar vísur:

Sólin gljá á hveli há
húmi frá sér ryður,
hélugráar grundir á
geislum stráir niður.

Græna foldu gyllir sól
gengin ljóns í merki,
máttar voldugt hún er hjól
heims í sigurverki.

Auðvitað verða vísur sem kastað er fram á stundinni oftast lakari en þær sem vel eru grundaðar. Hér er ein sem er nokkuð dæmigerð fyrir Símon, ort án umhugsunar:

Yrkir frakkur orðaþjón
útaf vamma sögu
á Gilsbakka Jónsson Jón
jafnan skammabögu.

Það er sögn manna að Símon hafi náð sér best upp þegar hann orti ástarvísur en þær orti hann margar. Hér er ein slík:

Horfi ég stundum hugsandi
harma bundinn dróma,
þar sem undir Esjunni
ungu sprundin ljóma.

En nú skulum við láta staðar numið með Símon í bili og snúa okkur að vísum sem sendar hafa verið þættinum.

Vilhjálmur Einarsson frá Selfossi sendir okkur mjög gagnrýnið bréf og við því er ekkert að segja, öll gagnrýni á rétt á sér. En hann segir að við séum ekki nógu vandfýsnir á þær vísur sem okkur eru sendar, heldur ekki á botnana. Þessu vil ég svara því til, að þessi þáttur er fyrir alla, bæði góða hagyrðinga, miðlungshagyrðinga og einnig slæma hagyrðinga, því að gleymum því ekki, Vilhjálmur, að án þeirra tveggja síðasttöldu væru snillingarnir ekki til. En nóg um það. Vilhjálmur sendir okkur auk gagnrýninnar nokkrar vísur:

Beri maður létta lund
linast raunar tetur.
Eigi hann bágt um eina stund
aðra gengur betur.

Þessi er gömul segir Vilhjálmur:

Við skulum ekki víla hót
það varla léttir trega.
Ávallt er það búmannsbót
að bera sig mannalega.

Vænt þætti mér um að Vilhjálmur og aðrir vísnavinir gerðu meira að því að senda okkur nýjar áður óbirtar vísur.

Ágætur hagyrðingur kom til mín um daginn með 3 nýjar vísur. Hann nefnir sig V.S.

Vísnaþáttinn vænan máttu hafa
heila opnu eða meira
allir vilja stökur heyra.

Ég vil rétta hlýja hönd
heilsa vinum mínum.
Þeim sem strengja stuðlabönd
í stökunum kæru sínum.

Með loga í augum menn líta það svið
sem ljómar af gulli og auði.
Menn keppast allt lífið kófsveittir við
að komast, en sviðið er dauði.
V.S.

Ég var beðinn að spyrjast fyrir um það hjá lesendum hvort einhver þeirra kynni vísur um dagblöðin sem ortar voru fyrir okkur mörgum árum og það má vera að þær séu fleiri en ein, en ein þeirra endar svona:

Svo djúpt er ég sokkinn að Alþýðublaðið

er orðið eitt af því sem ég les:…..

Eins og áður gefum við hálfan mánuð til að skila inn botnum. Margir botnar hafa borist við síðasta fyrripart, en hér kemur að lokum einn nýr fyrripartur:

Ýmsum þykja atómljóðin
einskis virði.

Þjóðviljinn 24. nóv. 1974


Þrír góðir……
Of lítið höfum við gert af því að birta gamanmál hér í vísnaþættinum. Úr þessu verður að bæta, því að sjaldan nýtur stakan sín betur en þegar hún hittir í mark hjá húmorista, sem jafnframt er góður hagyrðingur. Þess vegna skulum við nú líta á nokkrar stökur eftir þá Jón Pálmason fyrrum alþingismann, kollega hans Karl Kristjánsson og Bjarna Ásgeirsson. Allir voru þeir góðir hagyrðingar og húmoristar miklir.

Einhverju sinni hitti Jón Pálmason mann á götu sem sagðist ekki mega tefja, hann væri að fara á „Konur annarra” en það var leikrit sem þá var verið að sýna í Iðnó. Þá orti Jón:

Flýti ég mér og fer af stað
fylltur glæstum vonum.
Ég hef keypt mér aðgang að
annarra manna konum.

Einhverju sinni var Jón í bifreið á leið norður. Hjá bifreiðastjóranum sat kona sem sagði þegar uppi Hvalfjörð kom að hún væri sveitt öðrumegin en að sálast úr kulda á hinni hliðinni. Bifreiðastjórinn hét Gunnar. Þá orti Jón:

Gunnars vors er holdið heitt
hitnar því að vonum,
er á frúnni orðið sveitt
allt sem snýr að honum.

Svona verkar sitt á hvað
sálaraflið dulda.
Hinu megin – hart er það
hún er blá af kulda.

Þá skulum við líta á vísur eftir Bjarna Ásgeirsson. Skúli Guðmundsson fyrrum alþingismaður var vanur að ganga berhöfðaður. Þegar hann kom til þings 1940 var hann kominn með yfirskegg og sýndist sitt hverjum um prýði þess. Þá orti Bjarni:

Skúli yrði alþjóð hjá
í æði háu mati,
ef hann skipti í skyndi á
skeggi og höfuðfati.

Bjarni orti þessa vísu eftir að Jón frá Akri hafði fært sig úr sæti við hlið Bjarna á Alþingi:

Hann flutti yfir fjöll til mín,
í félag drottins barna,
en hélt svo aftur heim til sín
— helvítið að tarna —

Þegar Áki Jakobsson flutti jómfrúræðu sína á Alþingi þótti hann hvassyrtur og það svo, að Emil Jónsson forseti neðri deildar ávítaði hann, þá sagði Bjarni:

Rægimála rýkur haf
rastir hvítar brýtur.
Reiðiskálum Emils af
Ákavíti flýtur.

Karl Kristjánsson var ekki síður snjall hagyrðingur en þeir Jón og Bjarni. Eitt sinn var Karl í langferðabíl sem var fullsetinn og andlitin að sjálfsögðu fjölbreytileg, þá orti hann:

Auðlegðin er eigi smá
og ekki er smiðurinn gleyminn
að láta sérstakt andlit á
alla, sem komu í heiminn.

Eitt sinn voru þeir á ferðalagi í Englandi Jón Pálmason og Karl. Þá sendi Jón Karli þessa vísu:

Enginn vafi er um það
ungum burt frá hrundum
fíkjuviðar fýkur blað
fyrr en varir stundum.

Þessu svaraði Karl:

Gerum enga yfirsjón
er það fararkvöðin.
Horfðu á brosin hýru, Jón,
heldur en fíkjublöðin.

Eitt sinn í þingveislu orti Karl þessa sléttubandavísu um Jón frá Akri:

Akrahöldur staupastór
stýrir málaþingum.
Vakra öldu boðnar bjór
brýtur manninn kringum.

Og aftur á bak:

Kringum manninn brýtur bjór
boðnar öldu vakra.
Málaþingum stýrir stór
staupahöldur Akra.

Látum þetta nægja um þá þremenningana en snúum okkur að vísum sem þættinum hafa borist. Nýlega fór Halldór Blöndal óvirðingarorðum um ásatrúarmenn á Alþingi. Þá orti Heyrandi:

Hljómar lítt þótt sprungnar klukkur klingi
kraftlaust orð er gat á málflutningi,
skopmynd ein af skörungum á þingi
skammast yfir nýrri trúar kyngi.

Jóhanna G. Ellingsson sendi okkur þessar kvölds stemnings vísur:

Leit ég útum ljórann minn
á ljósu sumarkveldi,
dvínaði þar dagurinn
og dó í sólareldi.

Hjúpaði sig himininn
húmsins bláa feldi,
hrifnæmur þá hugur minn
hófst í æðra veldi.

Þessi vísa var ort þegar talið var upp úr kjörkössum eitt sinn:

Hannibal með hroðinn skjöld
hefur núna engin völd,
máske hann verði, kannski í kvöld
að kvitta fyrir syndagjöld.
Sæmundur

Botnar
Og þá eru það botnarnir sem okkur hafa borist við fyrripartinn:

Ætlar Geir að semja sátt
og svíkja í landhelginni.


Hurðin er í hálfa gátt,
haltu vöku þinni.
H.B.

Ríkir hafa aldrei átt
ást nema á pyngju sinni.
Valgerður

Þess er von úr þeirri átt,
það eru gömul kynni.
Anna

Skyldi hann efla þeirra þátt
í þýsku útgerðinni?
Magnús Einarsson

Hann yrði þá á auman hátt,
okkur lengi í minni.
S.H.

Endurskyn er orðið grátt
af íhaldsflatsænginni.
A.J.

Hans er vani að hyggja flátt,
og hygla að eigin skinni.

Ætlar Geir að semja sátt
og svíkja landhelgina.
Aldrei hefur Ísland mátt,
Íhalds treysta syni.
G.G.

Ætlar Geir að semja sátt
og svíkja landhelgina.
Hann hefur aldrei Ísland átt,
utan v-liðina.
H.P.

Þjóðviljinn 1.des. 1974

Frelsarinn var fyrirmynd…
Oft hefur verið borið lof á Skagfirðinga fyrir hagmælsku og þeim hampað af verðleikum. En mér finnst sem nágrönnum þeirra, Húnvetningum, oftast gert of lágt undir höfði vegna þess að þar í sýslu hafa margir vísnasnillingar búið. Einn af þeim var Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum. Margar stökur Gísla eru perlur sem aldrei hætta að skína. Ég ætla nú að birta nokkrar af stökum Gísla, kannski ekki þær bestu en samt allar góðar.

Bindindi
Lengi hafið bátinn ber,
bili ekki neglan.
Góðu dæmin gefur hér
góðtemplarareglan.

Lýðurinn eltir lögin blind,
leynir eðli sjúku.
Frelsarinn var fyrirmynd,
en fór þó ekki í stúku.

Vor
Lækir flæða og fara í dans
fanna bræðist sporið.
Innri gæði anda manns
endurfæðir vorið.

Synjað um styrk frá Alþingi 1934
Lítils virði ljóð mitt er
lifir hinna fremdin.
Enda fór hún framhjá mér
fjárveitinganefndin.

Skyrtan
Ytra virtist verjan fín
vera snyrtum dregin.
Er þá skyrtan innri þín
eins vel hirt og þvegin?

Geymt en ekki gleymt
Yfir harma sollinn sjá
sé ég bjarma af vonum,
meðan varmann finn ég frá
fyrstu armlögonum.

Staka
Þrælkun óðum þyngir skap
þagnar ljóða hreimur.
Andans gróður dýrstan drap
djöfulóður heimur.

Staka
Hryggst ég gat og fögnuð fyllst
fundið, glatað, brotið,
áfram ratað, einnig villst,
elskað, hatað, notið.

Maurapúkinn
Einn að vanti eyririnn
ekki er von þér líki,
ef þú flytur auðinn þinn
inní himnaríki.

Þoka
Á vegamótum mæðunnar
margir hnjóta í sporum.
Eggjagrjót er allsstaðar
undir fótum vorum.

Á ferð og flugi
Hér um stund ég staðar nem
stari, spyr og svara.
Ég veit ekki hvaðan ég kem
né hvert ég er að fara.

Þetta skulum við hafa fyrir lokaorð hjá hinum snjalla hagyrðingi, Gísla Ólafssyni frá Eiríksstöðum. Hinn ágæti hagyrðingur úr Kópavogi, Valdimar Lárusson, hefur orðið við bón okkar um að fólk sendi nýjar eða áður óbirtar vísur. Hann sendi okkur bréf sem í voru þessar prýðilegu vísur:

Við sjó
Ægir hvítum ölduföldum
úfnum skýtur vítt um svið.
Upp að þýtur kletti köldum,
kólgan brýtur ströndu við.

Leiftur glampa á bylgju boga,
báran hampar mörgum knör.
Mánans lampi mildum loga
merlar kamp á græðis vör.

Ráðlegging
(sléttubönd)

Háttinn detta láttu létt,
ljóðin nettar settu,
þáttinn flétta reyndu rétt,
rímið gretta sléttu.

Staka
Lundin káta leikur sér,
ljóðs af státar afli.
Tapist gátin, andinn er
óðar mát í tafli.

Sléttubönd
Fljóðin blanda mættu mér
mjöðinn andans, búna.
Ljóðin stranda, andinn er
eitthvað vandur núna.

Sprettinn Léttir þrífur þrátt,
þýtur sléttar grundir.
Glettinn réttir bifur, brátt
brýtur kletta undir.

Stilling spilla villan vill,
Valla snilli hylla.
Gylling hyllir illan, ill
alla tryllir villa.

Botnar
Og þá er komið að botnunum við fyrripartinn:

Ýmsum þykja atómljóðin
einskisvirði


Axla verður þarna þjóðin
þunga byrði,

Einkum þeim sem ekki bruðla
eðalsteinum ríms og stuðla.
V.L.
Þannig myndi ég einmitt yrkja
ef ég þyrði.

Íslands skálda auðugs anda
óþörf byrði.

Ungra manna ódráttur
úr Óspaksfirði.
J.E.
Því botninn er suður í
Borgarfirði.
J.A.

Aldrei neitt ég um þau hirði,
andlát þeirra lítils virði.
S.H.

Ósköp lítið ég held þjóðin um
þau hirði.
Leifur Guðmundsson.

Um þau aðeins heimskir hirði.
N.
Svo er mælt á Seyðisfirði
N.
Samviskunnar sára byrði.
N.

Engum bjóða þau ég þyrði
þó að einhver um þau spyrði.
N.
Listrænt form þau lemstri og myrði
að læra og muna engin hirði.
Magnús J. Jóhannsson.

Svo vil ég að endingu leiðrétta botn eftir V.L. frá síðasta þætti, þar átti að standa:

Hans er vani að hyggja flátt
og hygla eigin skinni.

Þjóðviljinn 8.des. 1974

Nýtt og gamalt
Okkur hafa borist margar snjallar vísur, gamlar eða nýjar eftir atvikum, og mun þessi þáttur að mestu leyti helgaður þeim sem hafa verið svo elskulegir að láta okkur hafa vísur sínar. Þá byrjum við á vísum sem Magnús J. Jóhannsson hefur sent okkur, og þiggjum við með þökkum fleiri vísur frá honum sem fyrst, en gefum þá Magnúsi orðið:

Undirritaður var á ferð með ókunnum manni í myrkri. Festi annan fótinn í holu og skall endilangur:

Við í gjótu að festa fót
flatur skall ég herra.
Að faðma grjótið fyrir snót
finnst mér allmjög verra.

Undirritaður kom að manni, er var að kljúfa rekavið með eikarfleygum:

Ýmislegt er erfiðið.

Undarlegt að tarna -.
Ertu að reyna að reka við
í raufina þá arna.

Tveir „góðtemplarar” báðu undirritaðan að kveða vísu með eftirfarandi afleiðingum:

Skyldi lengi ríma af rögg,
rjála um strengi lúna,
ef ég fengi litla lögg,
ljúfu drengir núna.

Um fjallgöngumann:
Hetjan kleif á hæsta tind

hennar var það siður -,
Loks þar stóð og leysti vind,
laumaðist síðan niður.
Magnús J. Jóhannsson.

Þá eru hér tvær vísur eftir vin okkar Valdimar Lárusson, þann snjalla hagyrðing úr Kópavogi:

Vorvísur
Undir þaki ei frið ég fæ,
frjóar vaka grundir.
Fuglar kvaka um fold og sæ
fjöllin taka undir.

Grundin brosir blómum prýdd,
búin flosi vænu,
hæð og kvos er skógar-skrýdd
skarti mosagrænu.

Staka
Þegar villir þokan mig
þykk og ill á vegi.
Gott er hylli, að þekkja þig,
þú mér spillir eigi.

Vilhjálmur Einarsson frá Selfossi sendir okkur þessar vísur:

Ekki tjáir um að kvarta
eða neinum segja frá,
heldur bera harm í hjarta
hvað sem gengur á.

Lifa kátur list mér máti bestur,
þó að bjáti eitthvað á
úr því hlátur gjöra má.

Ei skal kvíða ævitíð
áfram líður svona
þverr um síðir þetta stríð
þess er að bíða og vona.

Betra að fleiri væru svona bjartsýnir, þá væri ekki margt að.

SH er greinilega ekki hrifinn af kirkjubyggingarfarganinu:

Hefði Kristur heimsins völd
hlyti að breytast víða,
kannski lét’ann í eina öld
enga kirkju smíða.

N. sendir okkur þessar vísur:

Það er inntak allra vona
um að sigra lífsins þraut,
ef að bæði karl og kona
keyra sömu þroskabraut.

Íhaldið vill okkur fá
EFTA traustu hlekki.
Svava vildi sitja hjá
en sendiherrann ekki.

Þ. sendir okkur þessa:

Kvíði ég því sem koma skal
kuldanum úr fjallasal.
Ef hími ég einsog Hannibal
að höggva við í Selárdal.

Má ég biðja um undirskrift?
Undirskrift gangi enn á ný
um meðal landsins barna.
Varnarland þurfum að vera í
og verða amerísk stjarna.
SVB

Frelsi
Frelsi það sem fólkið nýtur
fólgið í þessu er:
að ráða menn að ráða menn
að ráða yfir sér.
SVB

Loks eru svo hérna nokkrir botnar við síðasta fyrripartinn en þeir bárust of seint fyrir síðasta þátt!

Ýmsum þykja atómljóðin
einskis virði.


Pundið jafnt og léttu lóðin
leti yrði.

Að rímið sjálft og háu hljóðin
hugurinn myrði.

Að betur diki brimið og flóðin
bragurinn stirði.

Samt er hún þarna söngvaglóðin
sem ég virði.

Aum er hún veröld axli þjóðin
enga byrði.

Eins ég væri upp í móðin
ef ég þyrði.

Hart er í búi ef ég óðinn
úti girði.

Gullkornin í sjónarsjóðinn
samt ég hirði.

Kvæðin líkt og fögur fljóðin
fyrir mér virði.

Stormurinn blés en storma slóðin
storminn kyrrði.
FB

Þjóðviljinn 15. des. 1974

Gamanmál
Þar sem þetta er síðasti vísnaþáttur fyrir jól skulum við nú breyta dálítið útaf og helga þáttinn eingöngu gamanmálum. Þeim er aldrei of oft haldið á lofti. Þingvísa eftir Eirík á Hæli:

Þeir sem eiga á þingi sess
og þurfa að éta,
verða að beygjast eins og s
en ekki z.

Sigurbjörn frá Fótaskinni orti um Friðfinn á Kotmýrum:

Orðavírinn öfugt snýr
ekki hýr í sinni.
Lygum spýr, þá kjaftinn knýr
Kotamýra-Finni.

Egill Jónasson frá Húsavík varð veikur og óttast var að hann væri með sykursýki. Hjúkrunarkonur voru honum umhyggjusamar og vorkunnlátar og þá orti hann:

Nú er ég loksins sagður
vera sætur
svo mjög að konur girnast
á mér kroppinn.

Andvara ég því á mér hef
um nætur
og er að verða hræddur
um sykurtoppinn.

Flugfreyjurnar
Freyjunafni á fljóðin klínt
finnst mér vera nokkuð oft
Þerna ekki þykir fínt
þegar þær koma upp í loft.

Páll Vatnsdal kveður um ástina:

Sæt er ástin satt er það
sérstaklega fyrst í stað.
Svo er hún þetta sitt á hvað
og súr þegar allt er fullkomnað.

Tæmd brennivínstunna
Nú er endað hennar hlaup
hinsta sporið stigið,
og innihaldið uppá staup
út í vegginn migið.
Eiríkur frá Garðhúsum.

Vatnsnes og Miðfjörður
Það má kalla undur að
ýmsir flytja héðan
inní Miðfjörð eftir það
að þeir hafa séð hann.
Sr. Sigurður í Hindisvík.

Á Húsavík voru allmiklir jarðskjálftar einn vetur fyrir mörgum árum. Á öðru missiri þar frá voru barnsfæðingar með mesta móti í kauptúninu, og þá kvað Egill Jónasson:

Allt er í lagi öllum hjá
eignast börnin hver sem getur.
Loksins bregður ljósi á
landskjálftana í fyrravetur.

Egill kvað eitt sinn er stúlka átti barn í lausaleik:

Fæddur er á Fossi einn
feikilegur risi.
Nú hefur einhver yngissveinn
orðið fyrir slysi.

Maður nokkur á Siglufirði trúlofaðist stúlku sem hét Rósa. Ástarsambandið var stutt, en skömmu síðar trúlofaðist hann annarri sem einnig hét Rósa, og þá var kveðið:

Vanti þig aldrei vinur minn
vín né sæg af drósum.
Vona ég að vegur þinn
verði stráður rósum.

Þá er hér önnur frá Siglufirði:

Velsæmis úr hoppar höftum
hefur upp níð og skammast frekt.
Til að halda heilsu og kröftum
honum er þetta nauðsynlegt.

Á 50 ára afmæli Jóns í Axlarhaga kvað vinur hans Haraldur frá Kambi:

Í Axlarhaga sá ég sjón
sem að eykur grínið.
Hálf er öldin hálfur Jón,
og hálfnað brennivínið.

Flestir kannast eflaust við vísuna sem níðir niður síldarplássið Raufarhöfn – Farðu í rassgat, Raufarhöfn / rotni fúli drullupollur. En það vita kannski ekki allir að þessari vísu var svarað á staðnum:

Þótt Raufarhöfn hafi ekki andlegan auð
og enginn sé fegurðarstaður,
að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér, aðkomumaður.

Þetta var ort á síldarárunum.

Blaðavísa um Morgunblaðið:

Þekking á hvað þjóð er græn
þarf ei djúpt að grafa,
Mogga fyrir morgunbæn
meðan flestir hafa.
Magnús Gíslason.

Þá var ort:

Ei var þröngt á efni í brag
ómað af söng í ranni.
Öls við föng og ljóðalag
leiðis öngum manni.
Stefán Vagnsson

Ungur lögfræðingur gerðist bæjarstjóri á Ísafirði. Hann hafði þann kæk að róa mjög í sæti sínu. Þá var ort:

Eignast hefur okkar bær
aflasæla veiðikló,
því einn er sá sem alltaf rær
þó enginn bátur fari á sjó.

Tómas Guðmundsson sendi þessa heillaósk:

Leiði þig gæfan sannan sælustig.
Satan og allt hans hyski frá þér víki.
Himnanna drottinn hoppi kringum þig,
„helgist þitt nafn og tilkomi þitt ríki”.

Laufey Valdemarsdóttir var að halda ræðu á fundi í Alþýðuflokknum og bar það af sér að hún hefði klofið flokkinn 1937. Þá var ort:

Við alþýðuna ást ég batt
þótt aðrir fái lofið.
En Þura og Inga, það er satt,
þær hafa báðar klofið.

Sr. Einar á Borg orti til kunningja síns:

Sankti Pétur sagði mér
að sjálfsagt inn þér myndi hleypt
en dropann yrði að draga af þér
og daður yrði ekki leyft.

Þjóðviljinn 22. des. 1974

Níels skáldi
Það hafa margir hagyrðingar og skáld fengið viðurnefnið ,,skáldi“ í sinni sveit. Oft var það aðeins vegna þess að þeir voru einna skástir hagyrðingar í sveitinni, en örfáir báru þetta viðurnefni þó með sóma. Einn af þeim var Níels Jónsson eða Níels ,,skáldi“ eins og hann var jafnan nefndur. Níels var Skagfirðingur og þar í sveit á 18. og 19. öld þurfti þó nokkuð til að fá þetta viðurnefni. Níelsi hefur verið skammarlega lítið sinnt, miðað við hversu góður hagyrðingur, eða heldur skáld hann var. En hann var fátækur erfiðismaður lengi vel og slíkum var oftast ekki haldið mjög á lofti og er ekki enn hjá þeirri akademísku mafíu sem flokkar menn í skáld, alþýðuskáld og hagyrðinga, hér á landi. En nóg um það. Meiningin er að kynna nokkrar af vísum Níelsar hér í þættinum, en af miklu er að taka og því erfitt að velja. Eftir hann liggur á annað hundrað binda á Landsbókasafninu sem væri uppá nokkur bindi væri það gefið út.

Níels var fæddur að Flugumýri í Skagafirði 1782 og andaðist 1852. Og látum nú vísurnar tala.

Stúlka sem Níels var í kunningsskap við talaði um það eitt sinn hve miklu væri skemmtilegra að lifa og auðveldara mörgu í verk að koma þegar sól hækkaði á lofti, þá kvað Níels:

Fljóðs íþróttir fljóðs að bera
fáguð skarti listakyns
ljóssins dóttir læst þú vera
en líka þarftu myrkursins.

Ritdómur um rímur
Hleiðólfs trana er hræð um kvik
hrosshársgrana löður,
og á hana blásvart bik
borið með svanafjöður.

Ungur og framgjarn bóndi vildi allt gera í einu á jörð sinni og kenndi um ómennsku annarra að það hafði ekki verið gert, þá kvað Níels:

Mörgu koma viltu í verk,
sem veit til nytja
frekara hér til fram þig hvetja
forsjálni mun vin þinn letja.

Flest allt stofna viltu vel,
en veistu af hinu:
Þeim sem byrjar allt í einu
ekkert stundum varð úr neinu.

Einu sinni hitti Níels Jón á Strjúgi, nirfil sem stolið hafði verið frá úr skemmu, þá sagði Níels:

Góss sitt aldrei geymir strjált
gamli Jón á Strjúgi.
Holl er þjófum hreiður álft
halurinn mauradrjúgi.

Níels dáði Eggert Ólafsson mjög og orti þegar ljóðabók Eggerts kom út:

Ímyndunarloftið létt
lyfti sólum hærra.
Hreinni sál, og fást mun frétt
fáir þenki stærra.

Níels krafðist meira af lærðum mönnum en sér og sínum líkum úr almúgastétt, en vildi þó ekki láta þá drottna yfir þankafrelsi sínu og orti:

Mærðargreinum hvar sem hreyfði
hef ég æ skrifað fjötralaus
aldrei neinum lærðum leyfði
lögsögn yfir mínum haus.

Níels orti margar rímur, þar á meðal Fransrímur sem fengu misjafnar undirtektir, en hann leit stórt á sig og skáldskap sinn og orti:

Þenkjurum einum þægð er í
þankaverkum mínum
ég þeim trautt að öðrum sný
aldrei hnugginn fyrir því
Fransrímur þó fóttroðist af svínum.

Margt fleira eftir Níels ætti skilið að birtast hér en látum þetta duga að sinni og snúum okkur að aðsendum vísum. Halla Guðmundsdóttir sendir okkur einkar skemmtilegt bréf sem hljóðar svo:

Heill og sæll vísnaþáttur. Mér datt í hug að leyfa ykkur að heyra vísur, sem við Heimir Ingimarsson — sem þarf ekki að kynna fyrir ykkur Þjóðviljamönnum — kváðum eitt kvöldið í góðra vina hópi, þegar hann kom til höfuðstaðarins í embættiserindum. Það er siður okkar að kveðast á þegar við hittumst, og er þá ekki allt jafn fallegt. Um leið og Heimir kemur inn úr dyrunum fer hann með vísu, og hélt ég að nú væri hann að byrja á vísnaleiknum, en frétti seinna að hann ætti ekkert í þeirri vísu, sem ég man ekki lengur hvernig var. En þá svaraði ég honum svona:

Nú er farinn friðurinn,
flest vill angur ljá mér,
því Raufarhafnar-rumurinn
ríður húsum hjá mér.

Hann svaraði að bragði:

Angur mun ég engum baka,
ekki bregðast vonum.
Þótt ríði núna risum þaka,
rekkja vil hjá konum.

Og ég aftur:

Þótt kætist núna kvennaval,
kveðskap þinn að heyra,
eitt er gjörð — og annað tal.
Ætli þú getir meira?

Fleiri urðu vísurnar – en þær eru ekki prenthæfar.“

Og þessar vísur sendi Valdimar Lárusson úr Kópavogi okkur:

Ég sendi þér hérna tvær vísur, sem mér duttu í hug í sambandi við hið nýja frumvarp til laga um Útvarpsráð:

Margt er skrafað, mörgu spáð,
margur haldinn þráa.
Íhaldið og útvarpsráð
elda silfrið gráa.

Og þegar menntamálaráðherra tók að sér í sjónvarpinu að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp:

Austfjarðabóndinn var sauðarlegur á svipinn
er sást hann á skjánum fjalla um útvarpsráðslögin.
Líkt eins og vær’i ‘ann í sitjandann kreistur og klipinn,
og kysi að leyna að það sæist í afturhaldsdrauginn.
Valdimar Lárusson

Þjóðviljinn 29. des. 1974