Vísnaþættir 1974

Haust- og vetrarvísur
Í gær var fyrsti vetrardagur, og því er kannski ekki úr vegi að birta nokkrar haust- og vetrarvísur, kannski eina vor- eða sumarvísu svona til að minna okkur á að alltaf kemur vor á eftir vetri. Antonía Petra Jónsdóttir kveður um haustið:

Á haustin fölnar hvert blóm á beði
við brjóstin jarðar og sofna rótt,
en vakna aftur til vorsins gleði
sem veitir lífinu styrk og þrótt.

Einar B. Björnsson frá Eyjum í Breiðdal kveður að hausti:

Blómin fölna, bliknar lauf,
blása svalir vindar,
drúpir burkni í klettaklauf,
klæðast hvítu tindar.

Heiðló þagnar, hrímar jörð,
haustið brýst til valda.
Vænta má að veðrin hörð
vilji rétti halda.

Einar Friðriksson frá Reyðarfirði kveður:

Á hærur mínar haustsól skín,
horfið er bjarta vorið,
mér við fætur gröfin gín,
geigar ei hinsta sporið.


Vestur-Íslendingurinn Hjálmar Gíslason kveður um haustið:

Frjósa tár um foldarbrár,
fennir í ár og gjótur,
hækkar spár um hríð og fár,
himinninn grár og ljótur.

Þórunn Ríkharðsdóttir Sívertsen fyrrum húsfreyja að Höfn í Melasveit kveður um haustið:

Vetur ríður geyst í garð,
grimmar hríðar vekur,
byljum svíður bóndans arð,
björg og hlíðar skekur.

En svo til að minna á að vorið kemur aftur skulum við heyra hvernig hún kveður um vorið:

Grænka hólar, gráta ský,
gróa vetrar sárin.
Blessuð sólin björt og hlý
brosir gegnum tárin.

Jón M. Pétursson frá Hafnardal sendi okkur þessa vísu fyrir skömmu, og hún á vel við í dag:

Nú er Esjan orðin grá
eins og gömul kerling,
hnyklabrúnum hangir á
hríðarbólstra felling.

Okkur hafa borist nokkrar skemmtilegar vísur sem við munum birta í næsta þætti, sem verður blandaðri en þættirnir hafa verið til þessa.

Botnar
Þá er komið að botnunum við fyrsta fyrripartinn okkar sem var svona:

Nú skal þjóðin færa fórn
og fylla auðvaldskassann.

Tveggja hlu tuddastjórn
trúi ég ekki að pass’ann.
Jón M. Pétursson.

Meðan ágeng Íhaldsstjórn
undir syngur bassann.

En var það ekki vinstri stjórn
sem veikti ríkiskassann.
Andreas Guðnason.

En réttur lýðs að ríkisstjórn
mun reiða brandinn hvassan.
P.S.

Svona er að hafa sterka stjórn
sem styður efri klassann.
Björn Jónsson.
Hefur þessi hægri stjórn
herlið til að pass’ann.
Náttfari.
Gefur argri Íhaldsstjórn
aftur reisupassann.
K.J.

Róla hægri ríkisstjórn
og raula moggabassann.
H.B.

Heildsalar í hægri stjórn
hagnast á að pass’ann.
Ónefndur Vestfirðingur.

Okkar nýja Íhaldsstjórn
ætlar svo að pass’ann.
S.H.

Fagna mætti ef fánýt stjórn
fengi reisupassann.
J.G.

Fláráð íhalds ægistjórn
ætti að fá reisupassann.
Smári Ragnarsson.

Geirs og Óla glæpastjórn
gráðug vill svo pass’ann.
Valdimar Lárusson.

Óli Jó er enn í stjórn
og Íhaldið að pass’ann.
Baldur Guðlaugsson.

Fyrr en síðar forhert stjórn
fá mun reisupassann.
Sami.

Armóð gaular íhaldsstjórn,
Óli raular bassann.

G.J

Og að lokum nýr fyrripartur:

Kólna fer um lög og láð,
lífið býst til varnar.

Þjóðviljinn 27. október 1974