Sandkorn 1997

Oft er gott sem gamlir kveða
Í umræðum á Alþingi um framtíð Skálholts taldi Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins á Suðurlandi, réttast að flytja biskupsembættið að Skálholti og jafnvel guðfræðideild Háskóla Íslands einnig. Gárungar hentu þetta tafarlaust á lofti og sögðu að umræðan um álver í kjördæmi Guðna hefði nú vikið fyrir kröfunni um flutning biskups í Skálholt. Í tilefni af þessu orti séra Hjálmar Jónsson:

Oft er gott sem gamlir kveða,
Guðni fyllist von.
Suðurland fái álver eða
Ólaf Skúlason.

DV 8. jan. 1997

Andlitið á Guðna
Við birtum vísu eftir séra Hjálmar Jónsson um Guðna Ágústsson vegna tillögu hans um að flytja biskupsembættið að Skálholti í síðasta Sandkorni. Séra Hjálmar hefur ort fleiri vísur um Guðna sem er vinsæll maður enda húmoristi og orðheppinn með afbrigðum. Össur Skarphéðinsson sagði einhverju sinni í þingræðu að Guðni hefði hjarta úr gulli. Séra Hjálmar horfði á Guðna þar sem hann sat í forsetastóli á Alþingi og orti þá:

Andlitið á Guðna er greypt
í granítklett með sanni.
Persónan er með prýði steypt
og pilturinn gull að manni.

DV 10. jan. 1997

Prestastéttin
Séra Sigurður Ægisson var eitt sinn prestur á Djúpavogi. Þá var hann eitt sinn fenginn til að mála skólann og leggja nýja gangstétt þar fyrir framan. Stéttinni var fljótlega gefið nafnið Prestastéttin og þótti hún afar glæsileg. Séra Sigurður er snjall hagyrðingur og um þessa stétt, prestinn sjálfan og Hjalta nokkurn, sem sá um sorphirðu í plássinu, orti séra Sigurður:

Hjalti gamli hirðir sorpið
og hendir í sekki.
Prestastéttin prýðir þorpið
en presturinn ekki.

DV 13. jan. 1997

Það er blíðskaparveður
Í Alþýðublaðinu í gær er rætt við tvo þingmenn Sunnlendinga um hvað þeir hafist að í þinghléinu. Guðni Ágústsson fer á kostum og segir aldrei meira að gera en í þinghléi. Hann og samþingsmaður hans, Ísólfur Gylfi Pálmason, séu á ferð og flugi um kjördæmið, talandi við fólk og haldandi fundi. „Fólkið hér á Suðurlandi veit að minnsta kosti að við Ísólfur Gylfi liggjum ekki á meltunni, það verður þess vart þegar við komum, leitum hjá því ráða og segjum því hvað við erum að basla,” segir Guðni. Hann vísar öllum spurningum um lausa kjarasamninga til Ísólfs Gylfa. „Hann svarar öllum flóknum spurningum en ég segi eins og skáldið:

Ég veit hestinn minn traustan
og mig heimvonin gleður.
Það er bjart fyrir austan,
það er blíðskaparveður.

DV 17. jan. 1997

Gunnlaugin
Séra Vigfús Þór Árnason segir þá sögu að þegar hann útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskólanum hafi verið haldin mikil veisla. „Á meðal veislugesta í áðurnefndu brautskráningarboði var dr. Gunnlaugur A. Jónsson, nú prófessor í fræðum gamla testamentisins við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hann slapp ekki undan skáldfáki séra Hjálmars Jónssonar frekar en aðrir sem þarna voru og hljóðar vísan um dr. Gunnlaug svona:

Aðrir fá hér engu breytt,
augum sljóum týna.
Glösin hverfa eitt og eitt
oní Gunnlaugina.

DV 20. jan. 1997

Fyrsta bifreiðin
Í bókinni Þeim varð aldeilis á í messunni segir af kennara í kristnum fræðum sem var að segja ungum nemendum sínum frá fyrstu jólunum. Hann sagði sem var að Jósef hefði verið smiður að atvinnu. Síðan bætti hann við frá eigin brjóstviti að sennilega hefði hann smíðað leikföng handa Jesú og gefið honum í jólagjöf og kannski hefði lítill bíll verið þar á meðal. Út frá þessari speki kennarans var ort:

Gullum missti ekki af,
oft þó brysti á skilning vina.
Jesú Kristi á jólum gaf
Jósef fyrstu bifreiðina.

DV 22. jan. 1997

Þegar myrkrið er svart
Einu sinni voru nokkrir félagar saman síðsumars við veiðar á Arnarvatnsheiði. Á leiðinni niður af heiðinni um nótt bilaði bíll þeirra. Þeir félagar ákváðu að bíða birtingar og reyndu því að dorma í þröngum bílnum og fór illa um þá. Einn þessara veiðimanna var Helgi Hóseasson prentari, alls óskyldur þeim er sletti skyrinu. Helgi var snilldar hagyrðingur, jafnvel skáld. Og þarna um nóttina orti hann eftirfarandi:

Þegar myrkrið er svart stígur hugurinn hæst
í hamstola girnd til kvenna.
Æðir um sléttur, úthöf og lönd
og akra sem logandi brenna.

Ég sé rekkjutjöld lyftast og sængum svift
og silkið af búknum renna.
Hver hneykslast þótt tryll’ann hin holdlega girnd,
sem er hæst virtum Drottni að kenna.

DV 27. jan. 1997

Hvannarót í Lindum
Í Austra er birt skemmtileg brennivíns- og ferðavísa eftir Hrafn Sveinbjarnarson á Hallormsstað. Hrafn er kunnur ferðamaður sem unir sér vel á öræfum í góðum félagsskap. Honum þykir ekkert verra að hafa eitthvað meðferðis til að lífga upp á sálartetrið. Og því orti hann eitt sinn:

Tindavodka taka skal
til dæmis undir felli,
gamla lautin í Gæsadal,
ég gjarnan í mig helli.

Finnst ykkur ekki fyrirtak
að fastmælum það bindum
í Kverkfjöllum sé koníak
og hvannarót í Lindum?

DV 29. jan. 1997

Næsti fundur eftir ár
Fyrir nokkrum árum kvaddi séra Svavar A. Jónsson, prestur á Akureyri, sér hljóðs á aðalfundi Prestafélags Hólastiftis og sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við bíla. „Daginn sem prestafélagsfundurinn var í fyrra velti ég bílnum mínum og komst ekki á fundinn af þeim sökum. Ég keypti mér nýjan bíl. Hann er núna á verkstæði, það er farin í honum heddpakkning.” Harmsöguna endaði hann með þessari vísu:

Einn er horfinn, annar sár,
eg er nauðir líðandi.
Næsti fundur eftir ár.
Eg fer þangað ríðandi.

DV 31. jan. 1997

Hjeppinn
Við birtum á dögunum ljóðið hans Helga Hóseassonar prentara – Þegar myrkrið er svart… Halldór Jakobsson, kaupmaður á Skólavörðustíg, var einn af félögum Helga í ferðalaginu þegar ljóðið var ort. Hann segir í bréfi til Sandkornsritara að þeir hafi ekki verið á leið niður af Arnarvatnsheiði heldur á leið að Hítarvatni í svarta myrki um haust. Ljóðið hafi verið ort í veiðihúsinu um kvöldið eftir erfitt ferðalag að skálunum. Hann segir að í mörgum ferðum þeirra Helga, Eðvarðs Sigurðssonar, fyrrum formanns Dagsbrunar og Eiríks Þorleifssonar rafvirkjameistara hafi bíll ekki bilað nema tvisvar. Í annað skiptið var það þegar þeir voru á leið í Landmannalaugar. Þeir komust þó að lokum á áfangastað og munu vera annar hópurinn sem komst á bíl í Landmannalaugar. Þá orti Eiríkur Þorleifsson þessa vísu en þess bera að geta að jeppar voru kallaðir hjeppar hér á landi í fyrstu:

Hóf sig í brekkur býsna snar,
brúnum að lokum náði,
hjeppinn, og kaldar kvíslarnar,
klauf og í Laugum áði.

DV 3. febr. 1997

Yxu víur…
Knútur Hafsteinsson menntaskólakennari segir frá Sigurkarli Stefánssyni, fyrrum stærðfræðikennara við MR, í þætti sínum Sögur úr skólastofunni í blaðinu Ný menntamál. Hann segir að Sigurkarl hafi verið góður hagyrðingur. Muni ein hans þekktasta vísa hafa orðið til við yfirsetu í einu hinna þjóðfrægu stafsetningarprófa skólans og er þannig:

Yxu víur ef ég hnigi
og önd mín smygi í himininn
fyrir því að það er lygi
að Þráinn flygi á Skarphéðin.

DV 5. febr. 1997

Björg að dyrum barði þar
Björg Sigurðardóttir, umboðsmaður DV á Eskifirði, hafði samband við Sandkornsritara og sagði honum skemmtilega vísu. Það er alltaf saga á bak við hverja vísu og eins var með þessa. Björg sagðist hafa verið að rukka fyrir blaðið og á einum stað stóð illa á og hún því beðin um að koma seinna. Þegar hún kom í síðara sinnið var henni heilsað með þessari vísu húsfreyjunnar um leið og hún borgaði blaðið:

Björg að dyrum barði þar.
„Borgið þið nú skuldirnar.”
Aurasjúkir aumingjar
eru þessir rukkarar.

DV 7. febr. 1997

Fáklæddar fálur
Þannig háttar til að milli danshússins Óðals og hússins sem fjárlaganefnd Alþingis er til húsa í er þunnt þil. Fjárlaganefnd vinnur oft fram á nótt á haustin þegar fjárlög eru í undirbúningi. Á kvöldin upphefst oft mikill tónlistarhávaði og ýmis torkennileg hljóð bárust gegnum þilið, meðal annars heyrðust hróp mikil þegar konur fækkuðu þar fötum. Skrifstofa séra Hjálmars Jónssonar alþingismanns er við þilið og hann verður fyrir mestum áhrifum af látunum. Jón Kristjánsson, formaður fjárlaganefndar, hafði áhyggjur af vini sinum vegna þessa og orti:

Húsið er pakkað af fáklæddum fálum,
nú fáum við glögglega taktinn skilið.
Séra Hjálmar ‘ann situr á nálum
og svitnar af skelfingu bak við þilið.

DV 12. febr. 1997

Syndgar í huganum
Í Sandkorni í fyrradag birtum við hina bráðskemmtilegu vísu eftir Jón Kristjánsson, alþingismann og formann fjárlaganefndar, um séra Hjálmar Jónsson og þá truflun sem hann verður fyrir af hávaða gesta á Óðali þegar nektardansmeyjar sýna listir sínar. Aðeins þunnt þil er í milli skrifstofu séra Hjálmars og skemmtisala Óðals. Vísan er svona:

Húsið er pakkað af fáklæddum fálum,
nú fáum við glögglega taktinn skilið.
Séra Hjálmar ‘ann situr á nálum
og svitnar af skelfingu bak við þilið.

En það er til önnur útgáfa af síðustu línunni í vísunni eftir Jón. Þá verður botninn svona:

Séra Hjálmar ‘ann situr á nálum
og syndgar í huganum bak við þilið.

DV 14. febr. 1997

Að fresta sumars fyrsta degi
Umræður um of marga frídaga hér á landi hafa oft sprottið upp. Menn ættu að vita hvernig það er hjá kaþólskum þjóðum. En það er önnur saga. Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, hafði orð á því fyrir skömmu að skynsamlegt væri að hætta með sumardaginn fyrsta og flytja frídaginn fram á haust og setja hann á mánudaginn eftir fyrsta vetrardag. Í tilefni af þessu orti Ólafur Stefánsson á Syðri- Reykjum:

Best svo kjörin bæta megi,
boðað er nú hárri raust,
að fresta sumars fyrsta degi
fram í snjóa næsta haust.

DV 19. febr. 1997

Séra Geir með þekktan þokka
Á dögunum var birt vísa í Sandkorni um það þegar bleiki smokkurinn fannst í Snorralaug í Reykholti. Þar sagði að svartur smokkur færi klerki staðarins betur en bleikur. Sú vísa var svar við þessari vísu Georgs bónda á Kjörsey í Hrútafirði.

Séra Geir með þekktan þokka
þenur brjóst og sperrir stél.
Brúkar aðeins bleika smokka
og ber þá sérstaklega vel.

DV 21. febr. 1997

Best heima á Höllustöðum
Fyrir nokkru var viðtal við Pál Pétursson, félagsmálaráðherra og bónda á Höllustöðum, í útvarpinu. Þar lýsti Páll því meðal annars yfir að enda þótt ráðherradómurinn væri mikið starf væri hugurinn alltaf heima á Höllustöðum. Málið var að sjálfsögðu rætt meðalþingmanna og þá var auðvitað stutt í vísuna. Jón Kristjánsson, samflokksmaður Páls, orti þá:

Auðveldlega gleðst með glöðum,
garpurinn er vís til alls.

Séra Hjálmar Jónsson tók við og botnaði og talaði auðvitað um holdið og andann eins og presti sæmir:

Hugurinn er á Höllustöðum
en holdið, það er sunnan fjalls.

DV 26. febr. 1997

Verði ljós
Guðni Ágústsson alþingismaður er mikill áhugamaður um að lýsa upp veginn yfir Hellisheiði. Á dögunum var þetta mál rætt á Alþingi og talaði Guðni þar fyrir Því að lýsing yrði sett upp á Hellisheiðinni. Jón Kristjánsson samþingmaður Guðna orti þá í orðastað hans:

Í borginni er lélegt leiði
leiðist mér í Reykjavik
Verði ljós á Hellisheiði
heimvon mín er nokkuð rík.

DV 28. febr. 1997

Hlusta á Þórarin Viðar
Umræðan í þjóðfélaginu snýst þessa dagana mikið um kjarasamningamálin. Auðvitað eru hagyrðingarnir komnir á kreik með vísur eða limrur um stöðuna í samningamálunum. Velunnari Sandkorns sendi þessa limru um kjaramálin:

Ég stól’á að stillt sé til friðar.
Við staduskvó verðbólgan miðar.
Menn herða sitt belti,
híma glaðir í svelti
og hlusta á Þórarin Viðar.

DV 5. mars 1997

Biskupsslagur
Ekki er fyrr lokið Langholtsdeilu og biskupsmálum en innan þjóðkirkjunnar hefst þriðja átakamálið sem er komandi biskupskjör. Þegar eru einir þrír klerkar búnir að lýsa því yfir að þeir gefi kost á sér til biskups. Eflaus verða þeir fleiri og fullvist má telja að keppnin verði hörð. Þannig sér Ólafur á Syðri- Reykjum málið fyrir sér og yrkir:

Um málið er réttast að ríma
og rækta sér skoðun í tíma.
Verður karp bæði og stríð,
eða kemur sú tíð
að klerkar um biskupstign glíma?

DV 7. mars 1997

Orðin ríma aldrei saman
Í héraðsfréttablaðinu Austra eru stundum góðir vísnaþættir. Í einum slíkum á dögunum er sagt frá því þegar Óttar Einarsson skólastjóri hugðist kasta fram vísu en átti í einhverju basli um stund. Þó er ljóst að andinn var nær en hann hugði því honum hraut af munni:

Við að eiga vart er gaman
vinur minn.
Orðin ríma aldrei saman
andskotinn.

DV 12. mars 1997

Hollustukreppa
Hjörleifur Sveinbjörnsson, eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar borgarstjóra, sagði í samtali við DV á dögunum að hann hefði hætt við að sjá um áróðursmál hjá BSRB eftir að konan hans varð borgarstjóri. Hann sagðist ómögulega geta haft af því atvinnu að skamma konu sína. Um þetta var ort á Sauðárkróki:

Óhollustu iðkar nú,
ei vill skömmum beita,
enda má hans fína frú
frekjudolla heita.

DV 14. mars 1997

Þeir á Króknum
Rósberg G. Snædal var snjall hagyrðingur og í hópi þeirra bestu. Eftir hann eru til margar snjallar vísur og er góður húmor einkenni á hans vísum. Rósberg stundaði ýmis störf, bæði á Akureyri og í Skagafirði. Einhverju sinni þegar hann var í Skagafirðinum kusu Sauðkrækingar sér nýjan prest. Þá orti Rósberg:

Þeir á Króknum kusu prest,
kaþólskari en páfann.
Það er sem mér þykir verst
að þurfa að heyra og sjá hann.

DV 19. mars 1997

Öfund
Fyrir nokkru birtum við í Sandkorni vísu eftir Jón Kristjánsson, formann fjárlaganefndar Alþingis, um sálarkvalir séra Hjálmars Jónssonar alþingismanns þegar hann heyrir óminn af tónlist og ópum gesta sem horfa á nektardansmeyjar í Óðali, hinum megin við vegginn á skrifstofu hans. Kristbjörg Bjarnadóttir, Skagfirðingur eins og séra Hjálmar, sendi okkur vísu, þar sem hún tekur upp hanskann fyrir klerkinn.

Presti varð í hamsi heitt,
hélt við sálartjóni,
en ætli gæti ekki neitt
öfundar hjá Jóni?

DV 21. mars 1997

Féll á prófinu
Jón Kristjánsson alþingismaður segir frá því í héraðsfréttablaðinu Austra að hann og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafi farið að skoða fyrirtæki Kára Stefánssonar, Íslensk erfðagreining. Síðan segir Jón: „Eftir að hafa litið tækjabúnaðinn augum hélt Kári Stefánsson fyrirlestur um starfsemina. Prófessorinn byrjaði hins vegar á að leggja fyrir mig próf sem ég féll því miður á. Það var í því fólgið í hvaða landshluta eftirfárandi vísa væri ort:

Sumri hallar hausta fer
heyri snjallir ítar,
hafa fjallahnjúkarnir
húfur mjallahvítar.

Kenning hans var sú að vísan væri ort á Austurlandi og upphaflega útgáfan af þriðju línu hefði verið „fjallahnjúkarnir”. Mér varð, við þennan inngang, hugsað til föður vísindamannsins sem var góður vísna- og sögumaður og ég hitti lítillega en kynntist of lítið. Það var Stefán Jónsson, alþingismaður og fréttamaður við ríkisútvarpið, sem öll þjóðin þekkti á sínum tíma. Mér þótti greinilegt að sonurinn hefði erft einhver gen frá föðurnum…”

Úlfahjörðin
Það er allmikið ort á löngum verklausum stundum í samningaþófinu í Karphúsinu. Á dögunum kallaði Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ Dagsbrúnarmenn úlfahjörð þegar stóra samninganefnd þeirra felldi nýundirritaða samninga. Þá var þessi vísa ort og sagt er að höfundurinn sé Sigurður T. Sigurðsson, formaður Hlífar:

Íhaldinu helst í hag
hallast samningsgjörðin.
Kringum trítlar titrandi
tannlaus úlfahjörðin.

DV 4. apríl 1997

Enginn guð í Görðum
Hinar eilífu uppákomur innan þjóðkirkjunnar og safnaðarstjórna hafa orðið mörgum hagyrðingnum að yrkisefni. Einn af þeim sem mikið hafa ort um þessi mál er Hákon Aðalsteinsson, hagyrðingur og skógarbóndi að Húsum í Fljótsdal. Nýjasta uppákoman tengdist því að koma presti til starfa í Garðasókn. Um það orti Hákon:

Ýmsar stefnur virðist trúin taka
en tækifærin bregðast eins og gengur.
Yfir söknum traustir verðir vaka,
þó virðist flæktur drottins nafla strengur,
því nú er enginn guð í Görðum lengur.

DV 18. júní 1997

Gamla aðferðin
Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, las á dögunum frétt þess efnis að nú væru hryssur sæddar og folarnir fengju ekki að gera neitt með gömlu aðferðinni, þeim til armæðu. Sigurður Ó. Pálsson, hagyrðingur á Egilsstöðum, orti í tilefni þessa.

Merunum gerist í hamsi heitt
heimta að þessu linni,
til gamans ei leyfist að gera neitt
með gömlu aðferðinni.

DV 25. júní 1997

Ógætinn Hjaltalín
Séra Torfi Hjaltalín á Möðruvöllum komst enn og aftur í fréttir í vor þegar hann vildi ferma eftir að hafa verið burtu í námsleyfi í vetur. Margir muna líklega eftir því þegar hann neitaði öðrum presti um að gefa saman ung brúðhjón í kirkju sinni í fyrra. Hagyrðingar höfðu að sjálfsögðu á þessu skoðun og ónefndur sundlaugarvörður fyrir norðan setti þessa saman:

Stendur fæti heldur höllum,
hljóðnar kæti, gleði dvín.
Magnar þrætu á Möðruvöllum
mjög ógætinn Hjaltalín.

DV 11. júlí 1997

Sólveig allsherjar
Um þessar mundir gengur nokkuð á hjá allsherjarnefnd Alþingis. Hún hefur verið sökuð um að breyta bréfi frá Gunnlaugi í Hvilft og nú síðast um að ekki sé nógu skýrt kveðið á í lögum um hve lengi biskup á að sitja á veldisstóli. Sólveig Pétursdóttir alþingismaður er formaður allsherjarnefndar þingsins en meðal nefndarmanna eru þingskáldin sr. Hjálmar Jónsson og Jón Kristjánsson. Þegar Jón heyrði eitt sinn sr. Hjálmar tala um formann allsherjarnefndar sem Sólveigu allsherjar orti hann:

Frómur í kirkjunni fyrr hann vann,
frá henni er nú sprottinn.
„Sólveig allsherjar” segir hann.
Hann sagði það áður um Drottin.

Hana Guð
Séra Hjálmar lætur sjaldan eiga inni hjá sér þegar ljóðað er á hann. Það leið heldur ekki á löngu þar til hann svaraði vísu Jóns og útskýrði hvers vegna hægt er að tala um „Sólveigu allsherjar”. Eftir að hafa horft á umræðuþátt í Sjónvarpinu í síðustu viku orti sr. Hjálmar:

Ég tengi það kannski við kunnuglegt suð,
í kirkjunni ný er stefna.
Ég heyrði talað um hana Guð
meðal háttvirtra biskupsefna.

DV 16. júlí 1997

Þó að rigni heima
Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi, var á ferð í Reykjavík á dögunum. Hann er mikið náttúrubarn og því lítið gefinn fyrir borgarlífið. Þegar hann lagði af stað heim úr höfuðborginni orti hann þessa vísu:

Ásýnd þunga borgin ber
best er henni að gleyma.
Þurrum augum þaðan fer
þó að rigni heima.

DV 18. júlí 1997

Nakin skáldkona
Jón Kristjánsson sá unga skáldkonu dansa nakta fyrir framan styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli fyrir skömmu. Hann sendi skáldbróður sínum, séra Hjálmari Jónssyni, vísu á faxi til að halda honum upplýstum um málið, eins og Jón orðaði það:

Út um gluggann ég horfi til hefðarmanns
um herðarnar spanskgrænan fellur, líkt eins og slör.
Nakin skáldkona dansar, ung og ör
fyrir augliti hans.

DV 25. júlí 1997

Kunni ei kétið að meta
Um fátt var meira rætt á dögunum en þann merkilega atburð þegar boxari beit stykki úr eyra andstæðings. Bubbi Morthens og Ómar Ragnarsson fengu snert af taugaáfalli eins og helmingurinn af boxáhugamönnum veraldar. Sigurður Ó. Pálsson, kennari á Egilsstöðum, hafði skýringu á öllu saman og orti í austfirsku flámæli:

Boxari fékk sér bieta
en bietann þá vildi ei éta
úr andstæðings eyra
ógn er að heyra
hann kunni ei kétið að meta.

DV 28. júlí 1997

Krúnan bíður
Mikið hefur verið rætt að undanförnu um samband Karls Bretaprins og ástkonu hans, Camillu Parker. Enda segja bresku blöðin að almenningur í Bretlandi hafi nú tekið hana í sátt og vilji að þau skötuhjúin fái að eigast. Páll Pétursson orti af þessu tilefni:

Við þjóðina Kalli er kominn í sátt
og krúnan hún bíður að sagt er
að hann geti farið og fengið sér drátt
hjá frillunni Camillu Parker.

DV 30. júlí 1997

Tveir Jónar
Við birtum í Sandkorni vísu sem Jón Kristjánsson alþingismaður sendi vini sínum og kollega séra Hjálmari Jónssyni á faxi um skáldkonu sem dansaði nakin við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Nú hefur séra Hjálmar svarað vísunni:

Þokkafull konan þetta til vann
þráði tvo Jóna að hitta.
Spanskgrænan hjúpaði hefðarmann
en hinn var sem myndastytta.

Kæruleysissprautur
Á dögunum var sameining nokkurra hreppa á Austurlandi samþykkt í atkvæðagreiðslu. Nú hefur sveitarstjórn Tunguhrepps kært kosninguna. Vegna þessa orti Hákon Aðalsteinsson vísu sem hann leggur til að verði hengd upp á kjörstöðum fyrir næstu kosningar:

Til að vekja vonir hjá
vorum skuldunautum,
kjósendum gefst kostur á
kæruleysis sprautum.

DV 5. ágúst 1997

Össur og eyrað
Séra Hjálmar Jónsson alþingismaður segist munu sakna Alþýðublaðsins og Össurar Skarphéðinssonar sem ritstjóra þess. Og þótt þetta sýni að lánið er valt skiptast þó á skin og skúrir. Í ljósi þess að hnefaleikakappinn Mike Tyson beit stykki úr eyra andskota síns, Evanders Holyfields, sagðist séra Hjálmar hafa hugsað með hryllingi til þess sem hefði getað gerst þegar Árni Johnsen reiddist Össuri og kleip hann:

Össur hefur hugsun skakka
um heppni sína veit ekki.
Alla daga ætti að þakka
að Árni kleip en beit ekki.

DV 11. ágúst 1997

Sultur og seyra
Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi að Húsum í Fljótsdal, er kominn í bændagistinguna með tvær íbúðir sem hann innréttaði á gömlu hlöðulofti. Hann fékk einhvern styrk úr framleiðnisjóði til verksins. Stjórn sjóðsins kom í heimsókn að Húsum að líta á íbúðirnar. Stjórnarmenn kröfðu Hákon um vísu þegar þeir fóru og fengu þessa limru:

Oft fylgir sultur og seyra
sjálfsþurftarbúskapargeira,
en framleiðnisjóður
er fólkinu góður
þó mætti hann úthluta meira.

DV 13. ágúst 1997

Kossinn
Um fátt hefur verið meira rætt að undanförnu en sameiningu A-flokkanna og jafnvel fleiri flokka í nýjan jafnaðarmannaflokk. Liður í því er þátttaka A-flokkanna í að efla Dag-Tímann með því að leggja Alþýðublaðið og Vikublaðið niður og skora á kaupendur þeirra að snúa sér að Degi-Tímanum. Eftir undirritun samnings um þetta allt saman tókust formenn A-flokkanna, þau Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson, í hendur og kysstust. Jóni Kristjánssyni, alþingismanni og hagyrðingi, þótti kossinn ekki ástríðufullur og orti:

Á sameiningu kratar kalla
kannski að vakni ástarblossinn.
Nú hefði þurft að nota alla
náttúru í blaðakossinn.

DV 18. ágúst 1997

Braust út stríð þar líka
Árið 1995 var óróleiki mikill á kirkjuþingi eins og stundum fyrr og síðar. Skömmu eftir þetta kirkjuþing fór séra Ólafur Skúlason biskup í heimsókn til Ísrael. Varla var biskup lentur í landinu helga þegar fréttir bárust af því að þar hefðu blossað upp óeirðir. Þá var ort:

Drottni þjóna seggir sem
sveiflum geðsins flíka.
Er biskup kom til Betlehem
braust út stríð þar líka.

DV 22. ágúst 1997

Allt er hljótt og engin styggð
Enda þótt margir fáist við að yrkja vísur nú til dags hefur þeim fækkað sem leika sér að hringhenduforminu, hvað þá að gera það vel. Ágústa Ósk Jónsdóttir, umsjónarmaður vísnaþáttar í Austra, er góður hagyrðingur. Hún dvaldi í Brúsabyggð, orlofshúsi Bændasamtakanna á Hólum í Hjaltadal, í sumar og orti eftir kvöldgöngu í skógarreit hjá byggðinni:

Allt er hljótt og engin styggð,
eflaust rótt í bólum
sefur drótt í Brúsabyggð
um bjarta nótt á Hólum.

DV 27. ágúst 1997

Persónudýrkun
Á forsíðu íþróttakálfs Morgunblaðsins í gær voru 6 fréttir og ein ljósmynd. Fjórar af þessum fyrirsögnum voru með nafninu Tryggvi í. Tryggvi er sá fjórði, Tryggvi með Eyjamet, Þrjú hjá Tryggva, Tryggvi endurtók… og loks hefst myndatextinn á nafninu Tryggvi. Svona persónudýrkun er orðin sjaldgæf. Í gamla daga, þegar Lúðvík Jósepsson var upp á sitt besta, var hann í miklu uppáhaldi hjá þeim Þjóðviljamönnum. Þá sáust fyrirsagnir eins og Lúðvík segir … Lúðvík telur… og svo framvegis. Þá var þessi vísa ort
á ritstjórn blaðsins til að minna á að Lúðvík átti föður:

Lúðvík er loftsins erla,
Lúðvík er heimsins von,
Lúðvík er ljóssins perla,
Lúðvík er Jósepsson.

DV 1. sept. 1997