Sandkorn 1995

Silfursjóðurinn
Í Austra er skýr frá því að þegar fréttin um hinn rétta aldur silfursjóðsins frá Miðhúsum barst landslýð á öldum ljósvakans hafi hagyrðingurinn Hákon Aðalsteinsson ort vísu sem hann og Sigrún Benediktsdóttir sendu hjónunum í Miðhúsum. Vísan er svona:

Rann af mönnum móðurinn,
margra léttist byrðin.
Nú er silfursjóðurinn
sinnar þyngdar virði.

DV 28. ágúst 1995

Fimmeyringurinn
Eftirfarandi vísa er ort af ónefndum verkamanni sem blöskraði 40 þúsundkallinn sem þingmenn fengu skattfrítt. Vísan er ort við lagið ,,Ef hjá honum pabba einn fimmeyring ég fengi.” Þetta hefði átt að raula á Ingólfstorginu en var því miður sett saman aðeins of seint!

Ef hjá Dóra og Dabba ég fjörutíu þúsund fengi,
fjarskalega kátur ég skuldir fengi greitt.
Ég myndi kaupa í matinn og lifa vel og lengi,
langt nef gefa Skattmann því hann feng’ekki neitt.

Bak við réttarvegginn
Í síðasta vísnaþætti Austra eru nokkrar vísur sem ortar hafa verið á hagyrðingamótum á liðnum árum. Þar á meðal er vísa sem ort var í tilefni þess að menn á hagyrðingamótinu ræddu um messu sem hestamenn höfðu verið við í Árbæ. Jóhannes Guðmundsson í Stapa orti þá þessu skemmtilegu vísu.

Guðsþjónustu gegndu af list,
gleypt var hinsta dreggin.
Þar menn bergðu blóðið Krists,
bak við réttarveggtón.

DV 18. sept. 1995

Snjall er Ari
Á búi Ara Teitssonar, bændaforingja á Brúni Beykjadal, standa nú yfir byggingarframkvæmdir þannig að frá þjóðvegi séð lítur helst út fyrir að búið sé að reisa háan gálga á túninu skammt frá bænum. Hagyrðingi, sem átti þarna leið um, varð að orði þegar hann sá ,,gálgann”:

Snjall er Ari, þrautaráði rétta sá hann,
að reisa gálga svona háan.
Það sýnist augljóst mál hvað er í vændum,
það á að fækka bændum.
Gálginn hái greyptur skal í minni manna
sem merki bændasamtakanna.

DV 20. sept. 1995

Forgangsröðin
Niðurskurður í heilbrigðismálunum hefur verið eitt heitasta pólitíska umræðuefnið síðsumars.Þar sýnist sitt hvetjum. Meðal þeirra tillagna sem komið hafa fram er að forgangsraða hjá sjúkrahúsum. Ráðherra og þingmenn segja að það sé verk lækna að forgangsraða við sjúkrahúsin. Læknar segja aftur á móti að það verði að vera vera verk ráðamanna, þeirra sem ætla að skera niður fjárveitingar til sjúkrahúsanna. Ingvar Gíslason, fyrrum ritstjóri, þingmaður og ráðherra orti þessa snjöllu stöku um forgagnsröðun sjúklinga.

Finnist vænleg forgangsröð
fólks í heljarnauðum.
Raðast upp á reikningsblöð
ríkir ofar nauðum.

DV 22. sept. 1995

Margir lof’ann
Dagur birti á dögunum eina af kunnustu prestvísum sem til eru. Vísan er eftir lands þekktan hagyrðing en nú þorir maður ekki að nefna vísnahöfunda af ótta við að fá yfir sig dembu í blöðum þar sem menn afneita afkvæmi sínu.En vísan er svona:

Mikið er hve margir lof‘ann
menn sem alltaf hafa séð‘ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.

Síðan birtir blaðið skemmalega styttingu á vísunni:

Mikið er hve margir lof‘ann
að ofan.
Menn sem hafa séð‘ann
að neðan.

DV 29. sept. 1995

Heimasætan
Fjárlaganefnd Alþingis var á ferð um kjördæmin í sumar. Þar á meðal var farið um Þingeyjarsýslur. Árni Johnsen á sæti í nefndinni. Hjálmar Jónsson á líka sæt í nefndinni og segir hann að Árni taki bara viðtöl við skipstjóra í Vestmannaeyjum fyrir Mogga. Í ferðinni um Þingeyjarsýslur brást hins vegar svo við að Árni hitti gamla konu og tók við hana viðtal. Árni reyndi, að sögn kollega sinna í Fjárlaganefnd mikið að fá konuna til að segja frá ástarlífi sínu og ræða kynlífið en gekk illa. Um þetta orti Hjálmar Jónsson:

Árni sér í sveitir brá
og sýndi með því framfarir.
Heimasætu hitti þá
og hafði við hana – viðtal

Mátti reyna
Jón Kristjánsson formaður fjárlaganefndar er hagyrðingur góður. Hann fylgdist grannt með þessu viðtalsmáli Árna og þingeysku heimasætunnar og orti í sama tilefi og Hjálmar:

Árni er iðnastur sveina
og áreitti kerlingu eina.
Hún sagði alltaf nei
og sagðist hrein mey
en það sakaði samt ekki að reyna.

DV 13. okt. 1995

Upphæðir af eru stemmdar
Á ferð fjárlaganefndar um kjördæmi landsins í sumar hélt Jón Kristjánsson Á ferðum fjárlaganefndar um kjördæmi landsins í sumar hélt Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, alltaf ræður eins og vera bar. Jón sagði alltaf að nú væru erfiðir tímar og að ná þyrfti fjárlagahallanum niður með því að skera og skera. Eitt sinn eftir svona ræður orti Hjálmar Jónsson, sem sæti á í nefndinni, þessa limru:

Upphæðir af skornum stemmdar
yfirleitt skornar og klemmdar.
Hann er grimmur sem ljón
þessi góðlegi Jón,
sem er formaður fjárlaganefndar.

Árni Johnsen og Hjálmar Jónsson eiga báðir sæti í fjárlaganefnd Alþingis. Á fundi nefndarinnar með héraðsnefnd Eyfirðinga og bæjarstjórn Dalvíkur voru þeir flokksbræður eitthvað að kankast á og skaut Árni vísu með meininum að Hjálmari sem svaraði að bragði:

Árna Johnsen þekkir þjóð
og þolir af honum hrekki.
Gjarnan vill hann gera ljóð
en getur það bara ekki.

DV 18. okt. 1995

Þingmaður götunnar
Það er meira ort af góðum vísum á Alþingi nú um stundir en verið hefur lengi. Það eru margir hagyrðingar í hópi þingmanna og sumir góðir. Þar í hópi er séra Hjálmar Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og enda landskunnur sem slíkur. Hjálmar yrkir mikið og er fljótur að því. Það var einhvern tíma í haust, í miklum pólitískum umræðum, að Svavar Gestsson, þingmaður og fyrrum menntamálaráðherra, fór mikinn í ræðustól. Hann úthúðaði ríkisstjórninni, sagði hana lúna og senn búna að vera. Þá orti séra Hjálmar.

Lúin er stjórnin, og lek eins og hrip
og látin, senn borin til grafar,
þrumaði úr ræðustól, þungur á svip,
þingmaður götunnar, Svavar.

DV 27. okt. 1995

Fæ í kviðinn kveisusting
Halldór Blöndal samgönguráðherra fór mikinn síðsumars við að klippa á borða þegar nýjar brýr eða vegarspottar voru opnaðir. Meðal annars voru tvær brýr á Austurlandi opnaðar formlega. Við opnun brúar á Jökuldal var boðið til kaffidrykkju og hnallþóruáts eftir að Halldór hafði klippt á borðann. Þótti Jökuldælingum það þunnur þrettándi að fá engar guðaveigar, bara kaffi. Þá varð þessi vísa til.

Yfir glasi ætíð syng,
alltaf þá er gaman.
En fæ í kviðinn kveisusting
af kaffinu einu saman.

DV 1. nóv. 1995

Mannvitið
Páll Pétursson, bóndi og ráðherra frá Höllustöðum, og Jón Baldvin Hannibalsson hafa lengi eldað grátt silfur í pólitík og gengið á ýmsu. Á dögunum gerðist það að Ólafur Hannibalsson, bróðir Jóns, kom inn á þing sem varamaður Einars Odds Kristjánssonar. Þetta er í fyrsta sinn sem Ólafur situr á Alþingi. Þess vegna varð hann að undirrita eiðstaf í upphafi þingfundar. Á meðan Ólafur var að undirrita orti Páll Pétursson:

Alltaf vex það meir og meir,
mannvitið í þessum sal.
Eru þeir nú orðnir tveir,
undan gamla Hannibal.

DV 10. nóv. 1995

Internetið
Það var ekki lítið sem gekk á hér á dögunum þegar birtist ljósmynd á Internetinu af Heiðari Jónssyni snyrtifræðingi við vafasamt athæfi, að því er mörgum þótti. Það gat því ekki hjá því farið að hagyrðingar færu af
stað, þeir gera það þótt minni mál séu í gangi. Nú eru vísurnar farnar að tínast inn og er eftirfarandi vísa sögð vera ort af verkstjóra í Neskaupstað.

Um Internetið að ferðast þykir fínt og flott
þótt fæstir vilji sýna sig þar bera.
Hitt er öllu verra og ekki nógu gott
ef enginn vil nú „heiðarlegur” vera.

DV 17. nóv. 1995

Eyjasveinninn
Það gekk ekki lítið á um daginn milli þeirra alþingismannanna Össurar Skarphéðinssonar og Árna Johnsen í orðaskaki, eyrnaklípingum og endaspörkum. Bragðminni atburðir en þessir hafa orðið hagyrðingum að yrkisefni. Dagfari DV fjallaði um þetta mál af einurð og alvöru og varð sú umfjöllun Aðalsteini Davíðssyni að yrkisefni.

Fágætan á andans auð
Eyjasveinninn horski:
Hefur bæði heila úr sauð
og höfuðkvarnir úr þorski.

DV 6. des. 1995

Hvernig vísa verður til
Til eru nokkrar góðar vísur um það hvernig vísa verður til í huga hagyrðings. Í Borgfirðingi er ágætur vísnaþáttur og þar var á dögunum vísa um þetta efni eftir Hafstein Stefánsson.

Þér ég segja þetta vil,
því ég hvergi leyni.
Svona verður vísa til
vinurinn minn eini.

DV 13. des. 1995