Smátt og stórt 2001

Punktur is
Mönnum er sennilega enn í fersku minni uppistandið sem varð á Jökuldal þegar þar fannst hreindýrakjöt sem menn gátu ekki gert grein fyrir. Kjötið var sett í frystigám og hann innsiglaður af lögreglu. Þegar svo löggan ætlaði að sækja kjötið (sönnunargagnið) var búið að rjúfa innsiglið og kjötið horfið. Hákon Aðalsteinsson bjó til eftirfarandi:

Auglýsing af Jökuldal:
Auglýst skal núna með örfáum línum
alls konar heillandi matarval.
Almennings freista með afurðum sínum
áræðnir bændur af Jökuldal.

Hafirðu áhuga á hreindýraketinu
í hátíðarveislu til ábætis,
réttast er þá að reyna á netinu
rudolf app gámur punktur is.

Úldinn Íslandspóstur
Það gat varla hjá því farið að hagyrðingur sætu aðgerðarlausir eftir hneykslið sem kom UPP hjá Íslandspósti um jólin. Sá snjalli þingeyski hagyrðingur, Friðrik Steingrímsson sendi mér þessa vísu:

Hafist gæti röfl og róstur,
ryskingar og hvað sem er,
þegar úldinn Íslandspóstur
eftir jólin skilar sér.

Sáttaumleitun
Þeir hafa kveðist á hér í þættinum undanfarið Konráð Erlendsson kennari að Laugum og fyrrverandi nemandi hans Friðrik Steingrímsson. Konráð sendi mér eftirfarandi:

„Ekki átti ég von á að þér yrði svona mikill matur úr þessum leirburði okkar Friðriks! Nú held ég að sé mál að linni og því vil ég fara hæfilega vel að honum og vita hvort hann þagnar ekki.”

Af öðrum sveinum æ þú barst
hvað iðni og gáfur snerti
og orðheppinn þú alltaf varst
en óttalegt merkikerti.

Við þig semja vil nú frið
vísur eru á þrotum
kennari vill kaupa grið
kominn að niðurlotum.

Dagur 5. jan. 2001

Friðar skulum feta veg
Konráð Erlendsson kennari sendi Friðriki Steingrímssyni tvær vísur síðustu viku og vildi þar með semja við hann frið en þeir hafa kveðist á hér í blaðinu um nokkurt skeið. Nú hefur Friðrik sent kveðjuvísu sem er svona:

Friðar skulum feta veg
frændseminnar dilla sterti.
Áfram verðurðu eins og ég
illa launað merkikerti.

Ást þín vakir yfir mér
Við birtum á dögunum sem vísu dagsins hina frábæru vísu Þola urðum skin og skúr eftir Guðrúnu Árnadóttur frá Oddsstöðum í Lundareykjadal. Nú hefur mér verið bent á að hún hafi ort aðra vísu sem eigi að fylgja þessari. Sú vísa er ekki síðri en hún er svona:

Fátt til baka af æsku er
ekki sakar minnsta.
Ást þín vakir yfir mér
andartakið hinsta.

Dagur 9. jan. 2001

Fíkn í fíkn
Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði við 2. umræðu fjárlaga í haust að menn hafi fíkn í það að taka lán og valda sjálfum sér blankheitum. Ónefndur hagyrðingur sendi mér þessa vísu af því tilefni:

Menn hafa fíkn í fíkn,
fíkn til að byggja á lántöku.
En sjálfum þér er það lítil líkn
að liggja ævilangt í blankheitum.

Diplómatinn
Meðan Halldór Blöndal forseti Alþingis var óbreyttur þingmaður þótti hann manna fyrirferðarmestur á Alþingi. Talaði oft og lengi og var gjarnan hávær. Þegar hann svo varð ráðherra róaðist hann nokkuð og varð svona eins og landsföðurlegri í allri framgöngu. En þegar hann varð forseti Alþingis breyttist hann í diplómat. Þess vegna orti séra Hjálmar Jónsson:

Fyrrum æst sig upp’ann gat
og á’onum þungur skriður.
En nú er Dóri diplómat
og deilur setur niður.

Dagur 12. jan. 2001

Sit sem fastast á þingi
Sighvatur Björgvinsson alþingismaður hefur sótt um starf forstöðumanns Þróunarstofnunarinnar. Hann sagði í samtali við fjölmiðla að ef hann fengi ekki starfið mynd hann bara halda áfram þingmennsku. Þegar Ólafur Stefánsson heyrði þetta orti hann:

Örlítil hótun í orðunum lá
er upplýsti Sighvatur slyngi.
Ég sótti um stöðu og ef settur verð hjá
þá sit ég sem fastast á þingi.

Dagur 16. jan. 2001

Helvítið að tarna
Sigurður Sigurðarson dýralæknir og hagyrðingur biður þá sem vita eftir hvern og um hverja vísan er sem fer hér á eftir að láta sig vita. Forsagan er sú að karl og kerling í Skagafirði voru gift en höfðu ekki náð í jarðnæði og voru því í húsmennsku hvort á sínum bænum og langt á milli þeirra svo þau höfðu lítil sem engin tök á því að hittast. Þegar kerlingunni fór að leiðast biðin skrifaði hún karli sínum bréf og segir þar að nú skuli hann fara að reka af sér slyðruorðið og finna handa þeim jörð svo þau geti farið að setja saman bú og lifa eins og hjón. Karlinum þótti þetta hinn mesti óþarfi af kerlingunni og sendi henni til baka þessa vísu:

Ég skal ekki verða um þvert
þegar ég fer að barna.
Það er ekki lengi gert
helvítið að tarna.

Þetta segir Sigurður dæmi um hvernig ekki eigi að yrkja vísu og líka dæmi um hvernig eigi að yrkja, allt í einni og sömu vísunni.

Þær tjóðruðu Grána
Einar Jónsson frá Litlu Drageyri í Skorradal lá eitt sinn á sjúkrahúsi. Hann var hagyrðingur góður og hjúkrunarkonurnar voru gjarnan að biðja hann um vísu en hann var illa haldinn og ekki í þeim farvegi að yrkja. Þegar hann vaknaði eftir aðgerð og sá að slöngur höfðu verið tengdar við hann hér og þar var honum litið undir sængina. Þá sá hann að „gráni” var bundinn við lærið og slanga í. Þegar hann svo yfirgaf sjúkrahúsið nokkru síðar lá miði á koddanum hans með vísu til hjúkrunarkvennanna:

Sjúkrahús meyjunum seint mun ég gleyma
mig svolítið langaði með þeim í geim.
En þær tjóðruðu „grána” í túninu heima
til þess að hann færi ekki í blettinn hjá þeim.

Mammon og Drottinn
Skömmu fyrir jól birtum við vísu eftir Hilmar Pálsson hér í þættinum og sögðum að hún hafi verið ort vegna útkomu ævisögu herra Ólafs Skúlasonar biskups. Það var ekki rétt. Vísan var ort í tilefni auglýsingar núverandi biskups um verðlaun til handa þeim er birti kristilegustu auglýsinguna. Vísan er svona:

Biskupinn verðskuldar heiður og hól,
hvergi af baki er’ann dottinn.
Hann kynni að sætta um komandi jól
þá kollega mammon og drottinn.

Dagur 19. jan. 2001

Lamaðist alveg hans styrkur
Ég fékk þetta skemmtilega bréf og limru frá dr. Ólínu Þorvarðardóttur á dögunum:
„Af því ég sé að þú hefur gaman af og birtir stundum vísur um menn og málefni datt mér í hug að senda þér línu. Mörgum varð um og ó þegar blessaður heilbrigðisráðherrann hneig niður í beinni sjónvarpsútsendingu á
dögunum, og ekki varð mönnum minna um að sjá formann Samfylkingarinnar standa ráðþrota hjá án þess að hreyfa legg eða lið til þess að grípa konuna eða stumra yfir henni. Þótti sumum lítið leggjast fyrir kappann eftir allt tal stjórnarandstöðunnar um aðstoð við lítilmagnana í þjóðfélaginu og nauðsyn þess að „leggja lið” þeim sem „minna mættu sín” þegar menn sáu svo í beinni útsendingu hvernig helsti talsmaður þeirra sjónarmiða brást við í raun og veru þegar á reið. Sumir hafa gert grín að þessu og aðrir hneykslast, en sjálfri brá mér svo við að það liðaðist upp úr mér limra þar sem ég sat yfir sjónvarpsfréttunum og horfði á þessa atburði. Hún er svona:

Í öryrkja máli ei myrkur,
mjög var í umræðum virkur,
en er ráðherrann lá
honum lémagna hjá
lamaðist alveg hans styrkur.

Höfundurinn fundinn
Jón Kristjánsson alþingismaður brást fljótt við þegar við spurðum hvort einhver þekkti höfund vísunnar Eg skal ekki liggja um þvert/ þegar ég fer að barna. Vísan er eftir þann kunna hagyrðing Ísleif Gíslason sem var kaupmaður á Sauðárkróki og var þekktastur fyrir vísubotninn fræga Tvisvar sinnum tveir eru fjórir/ taktu í hornið á geitinni. En Jón segist hafa lært vísun öðruvísi en við birtum hana. Hann segist hafa lært hana svona:

Ekki ligg ég yfir um þvert
er ég fer að barna.
Það er ekki lengi gert
óhræsið að tarna.

Drottinn blessi Hæstarétt
Jóhann Ársælsson alþingismaður orti undir ræðu Davíðs Oddssonar þegar umræður stóðu sem hæst um öryrkjafrumvarpið:

Hér sit ég og hlusta á blaður
hart og títt úr koppum skvett.
Davíð, hann er dæmdur maður
drottinn blessi Hæstarétt.

Dagur 23. jan. 2001

Augnaráð heitt
Hagyrðingar eru auðvitað farnir að yrkja um yfirlið Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðis- og tryggingaráðherra í beinni útsendingu sjónvarps og aðgerðarleysis Össurar Skarphéðinssonar, viðmælenda hennar, þegar hún féll. Lesandi blaðsins sendi okkur þessa limru:

Einatt er augnaráð heitt
ískalt, sljótt eða beitt
Þegar Ingibjörg datt
honum Össuri datt
ekki í hug að hjálv’enni neitt.

Ræsknistólið
Það eru margir óánægðir með framkomu ríkisstjórnarinnar vegna öryrkjadóms Hæstaréttar. Sigurður St. Pálsson segir:

Ríkisstjórnin er ræsknistól
ranglát bæði og grettin.
Davíð hann er fatlafól
og framsókn með smánarblettinn.

Halldór fór að rita
Ólafur Stefánsson orti þegar hann heyrði um bréfaskriftir Halldórs Blöndal forseta Alþingis og Garðars Gíslasonar forseta Hæstaréttar:

Til Hæstaréttar Halldór fór að rita
er heiftarsverðið yfir þingi hékk.
Hvort hann skildi rétt hann vildi vita
og víst hann fékk.

Dagur 26. jan. 2001

Afgangar
Flestir kannast við ljóðið Áfangar eftir Jón Helgason. Eitt sinn var svo ort kvæði sem heitir Afgangar og er í sama bragarhætti og Áfangar. Þetta mun hafa verið ort veturinn 1964-1965 en þá bjó höfundurinn á Gamla Garði. Þar var Árni Böðvarsson garðprófastur á Nýja Garði en Runólfur Þórarinsson á Gamla Garði. Afgangar er álíka langt kvæði og Áfangar og byrjar svona:

Liðið er vel á vetur senn
víst er þó blautt á Garði.
Áfengi tóbak og aðra virkt
enginn um helgar sparði.

Mér er þó gjarnan gleggst í hug
garðprófasturinn harði.
Stökk hann upp þegar stút hann sá
standa undan frakkabarði.

Ef einhver veit nafnið á höfundi þessa brags þætti mér vænt um að fá að heyra það.

Hreykinn hrókur
Jón Leví Tryggvason sagðist hafa séð Davíð Oddsson fyrir sér og dottið þá í hug:

Burt mátti sjá ganga hreykinn hrók
hrekkjóttan mest af vörgum.
En skipta þyrfti um skítabrók
á skræfunum æði mörgum.

Seðlabankinn bjargar
Þeir eru ófáir stjórnmálamennirnir sem fengið hafa seðlabankastjórastarf þegar þeim var farið að leiðast á Alþingi. Um þetta var ort þessi vísa en höfundurinn er ókunnur:

Sumir kveðja klökkum hreim
af kaleik beiskum teiga.
Seðlabankinn bjargar þeim
sem bágast jafnan eiga.

Dagur 30. jan. 2001

Össuri stóð á sama
Hinn snjalli hagyrðingur Magnús Halldórsson á Hvolsvelli segir að honum sé orðið ljóst eftir að hafa hlustað á viðtöl við alla ráðherra Framsóknarflokksins að Ingibjörg Pálma. ein hafi samvisku. Það hafi sést í frægu viðtali sem varð til þess að Samfylkingin hrundi í fylgi. Af því tilefni varð þessi vísa til:

Samviska Framsóknar sýnd vorri þjóð,
Samfylking glataði frama.
Ingibjörg féll en Össuri stóð
andskotans hreint á sama.

Dagur 2. febr. 2001

Húrra, punktur, komma strik
Mönnum líður seint úr minni ofsafengin viðbrögð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra kosninganóttina 1996 þegar ljóst var að Ólafur Ragnar Grímsson hafði verið kjörinn forseti Íslands. Við það tækifæri tilkynnti forsætisráðherra að húrrahrópin við setningu Alþingis væru alls ekkert til heiðurs forsetanum eins og margir héldu, en ófáir höfðu orðið til þess að benda á þá neyðarlegu aðstöðu Davíðs að verða nú nauðbeygður að reka upp húrrahróp og það fleiri en eitt, fyrir þessum pólitíska fjandmanni sínum. „Þetta er ekki svona einfalt,” sagði Davíð í umræddu sjónvarpsviðtali. Heill forseta vorum og fósturjörð, og síðan kemur punktur. Svo kemur: Ísland lifi húrra, húrra, húrra, húrra. Útaf þessu lagði séra Hjálmar Jónsson á þennan veg:

Forsetann lofa ég laus við hik,
leynast í honum engin svik.
Hér er þó ekki hægt um vik,
húrra, punktur komma strik.

Dagur 6. febr. 2001

Eins og myndin með sér ber
Einu sinni þegar séra Hjálmar Jónsson var á ferðalagi í Afríku sendi hann vini sínum Jóni Kristjánssyni alþingismanni kort af fáklæddri stúlku að mjólka kú. Um þetta kort orti Jón langan brag. Svo var það á dögunum að Jón fékk kort frá séra Hjálmari sem var ásamt Birni Dagbjartssyni við mannúðarstörf á Austur Tímor. Þeir voru hins vegar staddir í Ástralíu þegar þeir sendu kortið sem á var mynd af tveimur stríðsmáluðum karlmönnum. Aftan á kortinu var þessi vísa:

Eins og myndin með sér ber
minnir fátt á kúna.
Uppáklæddir erum vér
í Ástralíu núna.

Hreinar trúarlindir
En nú er séra Hjálmar tekinn við í Dómkirkjunni og var þar með sína fyrstu messu á sunnudaginn var. Í því tilefni orti Jón Kristjánsson þessar vísur:

Nú teygar’ann hreinar trúarlindir
og talar um hið Gullna hlið.
Á útmánuðum sínar syndir
og sjálfan Davíð skildi við.

Ýmsum texta út af lagði,
enn þá logar trúarglóð.
Þjóðinni sinni það hann sagði
að þessi skipti væru góð.

Sannleikur er dýrmætur
Þegar séra Hjálmar Jónsson hafði messað í Dómkirkjunni í fyrsta sinn var haldið kaffisamsæti. Þar hélt hinn dómkirkjupresturinn, séra Jakob Á. Hjálmarsson, smá tölu, bauð séra Hjálmar velkominn til starfa og sagði hann nú kominn úr því húsi þar sem menn töluðu ekki endilega sannleikann. Geir H. Haarde fjármálaráðherra hélt líka ræðu fyrir hönd þeirra sem væru ekki hættir að skrökva og sagði að sannleikurinn væri svo dýrmætur að það yrði að fara sparlega með hann. En séra Hjálmar orti vísu um allt saman:

Labba ég yfir lítið hlað,
lífstré er þörf að vökva.
Nú er ég kominn á nýjan stað,
nú er ég hættur að skrökva.

Dagur 9. febr. 2001