Vísnaþættir 1975

Úr ýmsum áttum

Ég vil nota tækifærið í þessum fyrsta vísnaþætti ársins að óska öllum lesendum þáttarins gleðilegs árs og þakka fyrir það sem var að líða og þó alveg sérstaklega þeim sem hafa stuðlað að fjölbreytni hans með því að senda okkur vísur, nýjar sem gamlar. Og þessi þáttur verður eingöngu helgaður aðsendum vísum sem okkur bárust seint á síðasta ári. Þá vil ég og koma strax að leiðréttingu á höfundi einnar vísu sem við birtum á dögunum, en það var vísan Sæt er ástin, satt er það þessi vísa er eftir Jóhannes úr Kötlum. En snúum okkur þá að vísunum.

Í tilefni af Jólahugleiðingu Flosa Ólafssonar í Þjóðviljanum laugardaginn 21. des. s.l.

Traust er sjónin, trúum því,
tollverðina lofum,
sem að þefa og þukla í
þekktum meyja klofum.

Sagði hassið hulið í
hennar þarmi, sérðu.
En Flosi lýgur þessu, því
það var að framan verðu.
Adolf J.Petersen.

Þá hefur okkur borist bréf, vegna vísnanna um Raufarhöfn í þættinum 22. des. s.l. og í bréfinu segir að vísurnar hafi verið þrjár en ekki tvær og sú þriðja sé svona:

Ég vinn fyrir matnum á mannlegan hátt
og mun hann því borga að fullu.
En ég get ekki skilið þann guðlega mátt
að gera allt fagurt að drullu.

Þegar Ólafur Jóhannesson átti í mestu þrautastríði við myndun ríkisstjórnar sl. sumar höfðu ýmsir flokksbræður hans, þ.á.m. einn vinstri sinnaður verkamaður á Höfn í Hornafirði þungar áhyggjur útaf fæðingarhríðum nýrrar ríkisstjórnar. Einn morguninn, þegar áðurnefndur verkamaður kom að kaffiborði á vinnustað sínum voru þessar vísur þar hjá lagðar:

Af sér gengið er nú flest
ófarirnar kunnar.
„Aumt er að sjá í einni lest”
Ólaf, Geir og Gunnar.

Láttu samt vel liggja á þér
lundina berðu þýða,
því Ólafur hreiðri útúr fer
ungi sem að skríði.

Líður að því sem líklegt er
hann labbi fyrstu sporin.
Og víst má telja að verði hér
„víðreisn” endurborin.
Torfi Þorsteinsson.

Og af nýlegum ummælum Ólafs Jóhannessonar, fyrrv. forsætisráðherra, þess efnis að menn yrðu nú að lifa sparlegar en fyrr, orti Benedikt Gíslason frá Hofteigi:

Frétta menn úr ýmsri átt
örlög vona sinna.
Ólafur kvað nú eta smátt,
aðrir fá þó minna.

Jóhannes Straumland sendir eftirfarandi bréf: „Í Stéttarbaráttunni — 10. tbl. 3. árg. 1974 er kvæði um Einar Olgeirsson. Eftir að hafa lesið þetta kvæði og ígrundað það, duttu eftirfarandi vísur í huga minn:

Auðvaldsblækur yrkja níð
um Einar kallinn.
Sjálfsagt laun þeir sækja fríð
í CIA-dallinn.

Kjölturakkar kallast mega
kjötflotsgránar,
uppaldir í auðvaldsstofum
en ekki neinum moldarkofum.

Rógburðar þeir ríða gandi
(Roy á Tigger).
Auðhringanna ættarlaukar
eru þessir drullubaukar.”

Magnús J. Jóhannsson sendir okkur einkar skemmtilegt bréf, fullt með ágætum vísum. Bréfið er nokkuð langt, þannig að ég ætla að skipta því í tvo þætti, en hér kemur fyrri helmingurinn:

Góði „vísnaþáttur”! Ég sendi þér hér með nokkrar stökur, eldri og yngri, ortar af margskonar tilefni, en sumar þó nálega án tilefnis. Eins og gefur að skilja eru svona stökur misjafnar að gæðum og er margt, sem því veldur. Aðalatriðið er þó, að mínu mati, að halda við hinni gömlu og þjóðlegu menningarerfð Íslendinga að yrkja rímað og stuðlað mál, en það hefur verið eitt af mest áberandi séreinkennum í íslenskri ljóðagerð um langan aldur. Auk þessa býður rímað og stuðlað mál upp á ótrúlega mörg listræn form í ljóðagerð, sem, þegar vel tekst til, er eins og fagur skrautsaumur á dýrmætu klæði. Þáttur stökunnar til skemmtunar er svo annað atriði, sem ekki verður rakið hér. Ég hygg, að þegar fordómalaust mat verður framkvæmt á sögu Isl. menningar og lista, verði það viðurkennt að ferskeytlan sé ein af dýrmætustu perlunum í því safni, auðvitað misjöfn að gæðum eins og önnur verk okkar mannanna, ekki síst listaverk.

Haustvísa:
Vetrarhljóma heyra má
hausts í rómi falda.
Sumarblómin fögru fá
feigðardóminn kalda.

Beðist vægðar:
Verum sáttir, ljúfu ljóðin
leiki dátt um hyggjurann.
Verri þáttinn, illa óðinn
aftur láttu í handraðann.

Sannleikur:
Ef þeir dingla dollaraseðli
dregst að íhaldshyskið leitt.
Þetta er þess innsta eðli,
engin rök fá slíku breytt.

Eftirfarandi vísa var ort um mann, sem undirritaður þekkti meira en af afspurn:

Góðmennskunnar gullnu strönd
gekkstu líkt og fleiri.
Réttir ávallt hjálparhönd
hinum kraftameiri.

Í skíðaferð:
Gnötra hlíðargrárra fjalla,
grenjar víða sollinn mar,
þegar á skíðum þessar falla
með þetta gríðar holdafar.

Útaf kvenpresti:
Í þeim stöðugt meir og meir
magnast trúargrillan,
karlpresta og Auði Eir
angrar sama villan.

Eins og sjá má:
Votergeit þeim víða hratt
vægðarlaust í hallann.
Margur íhaldsdurgur datt
dofinn, beint á skallann.

Þjóðviljinn 5. janúar 1975

Látum fjúka stöku

Einn af velunnurum þessa vísnaþáttar leit við hér á Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum með vænt handrit af skemmtilegum vísum eftir ýmsa höfunda og sagði: ,,Notaðu úr þessu þegar þig vantar efni.“ Og eftir lestur þessa handrits er alveg óþarfi að hafa svo lítillátan formála, þarna var ekkert nema góðar vísur, og maður þarf sannarlega ekki að vera í efnishraki til að nota úr þessu handriti sem uppistöðu í vísnaþátt.

Fyrst koma hér vísur eftir hinn góðkunna hagyrðing Harald Hjálmarsson frá Kambi:

Byrðar lífsins ber ég hátt,
brattan stika halla.
Reyni að sýna með því mátt
meðan ég er að falla.

Tölum fagurt tungumál
teygjum stutta vöku.
Lyftum glasi, lyftum sál.
Látum fjúka stöku.

Fagrar ræður, fögur ljóð,
frjálsmannlegur andi,
er eitt sem hæfir okkar þjóð
og okkar kæra landi.

Nú fer ég að lesa lög
og læra um svik og hrekki,
því lítið gagnar höndin hög
og heiðarleikinn ekki.

Hjá mér stendur flaskan full
fjörs ég drykkinn kenni.
Það er ekkert samlagssull
sem að er á henni.

Flaskan mörgum leggur lið
læknar dýpstu sárin.
Hópur manna heldur við
hana gegnum árin.

Enn þá, get ég á mig treyst.
ölinu frá mér hrundið.
En þetta er orðið eins og þú veizt,
erfiðleikum bundið.

Haraldur er á því enn
þótt enginn geti séð það.
Það eru fremur fáir menn,
sem fara betur með það.

Skagafjarðar fögur sýsla
fer að verða miður sín,
skelfur alveg eins og hrísla,
ef ég smakka brennivín.

Halla sundrað sálarflak
siglir á dánum vonum.
Það þarf hundrað tonna tak
til að bjarga honum.

Hér er leiði Haraldar
hann var ætíð snauður.
Uppi á fjörum Framsóknar
fannst hann leginn dauður.

Allir dagar eiga kvöld,
allar nætur daga.
Þannig verða árin öld,
aldir mannkynssaga.

Þá er rétt að líta aftur í bréfið sem hann Magnús J. Jóhannesson sendi okkur og við birtum vísur úr í síðasta þætti:

Staka
Klettahjalla, klif og stalla
klæða alla skuggatjöld.
Litinn fjallið lét á skalla
Ljósan mjallarhött i kvöld.

Að gefnu tilefni.
Konan mína knöppu vörn
kveðst ei vilja heyra.
Ég á að smíða bíla, börn
báta, lús og fleira.

Á baðstað gekk stúlka svo fáklædd, sem verða mátti, utan algjörs klæðleysis:

Allt þetta, sem ekki sést
eflaust vert er fatanna.
Heillar mig þó held ég mest
haftið milli gatanna.

Maður úr söfnuði „Votta Jehova” hafði oft lýst því yfir að heimsendir yrði á næsta ári, og gekk svo í mörg ár. Í tilefni þessa varð eftirfarandi vísa til:

Ekki vel með glópsku gekk,
gömul spá er fallin.
Heimsendinum frestað fékk
frægur dellukallinn.

Á ferðalagi kvaðst kona ein vera „rauðsokka” og ræddi mikið um jafnrétti kvenna. Undirritaður gerði sér það til tímastyttingar að andmæla henni. Af þessu tilefni varð eftirfarandi vísa til:

Rauðsokka með rjóða kinn
rífst um kvennagengi.
Við að barna bóndann sinn
baukað hefur lengi.

Svona er lífið
Eitt sinn þráði ég þriflegt hreiður,
þrýstna konu og vöggu.
Nú er ég fyrir löngu leiður
á lífinu og Möggu.

Ekki nýtt
Þegar sólin bjarta og blíða
bak við hólinn leggst í dá,
upp í ból ég einn má skríða,
enginn skjól mér veitir þá.

Um yfirmann
Eitt sinn var hann alvaldur,
er nú bara hálfvaldur,
kynni að verða kvartvaldur,
kannski aðeins Þorvaldur.

Auðvitað
Pyngja er full af peningum,
á pyttlu sull frá útlöndum,
í mig bulla ég afgangnum,
enda fullur réttbráðum.

Þetta er satt
Einatt bullan æði klúr
íhaldssullið lapti,
leirburðsdrullan lak svo úr
lygafullum kjafti.

Að fenginni reynslu
Víða klandur verður á,
víkur standið dáða
þegar fjandar illir á
okkar landi ráða.

Stúlka átti óskilgetið barn og olli hneykslun hinna ærukæru og syndlausu.

Maríu hér margir dá,
mjög sem er að vonum
en drekkja þó í Öxará
öðrum gleðikonum.

Til manns, sem oft kom í Útvarpið:

Löngum hefur lítið grín
létt mér tímans byrði,
en alltaf finnst mér þögnin þín
þúsund dala virði.

Þjóðviljinn 12. janúar 1975

Þegar Matthías var kjörinn á þing

Enn er af nógu að taka af því efni sem okkur hefur verið sent upp á síðkastið. Við byrjum þáttinn á því að sjá lokakaflann úr bréfi Magnúsar J. Jóhannssonar til okkar.

Þegar Matthías Mathiesen var kjörinn á þing:

Úr því drottinn ekki skóp
eik af krækilyngi,
hví skyldi hann þá gera glóp
að gæfusmið á þingi?

Verkstjóri einn, Einar að nafni, gekk ævinlega með hendur á baki er hann leit eftir verkum undirmanna sinna. Hafði verið talinn góður verkmaður.

Víst er Einar verklaginn
vinur, enda sérðu
að hann gerir gallann sinn
götugan aftanverðu.

Eðlilega
Ef á Rússa einhver lýgur
íhaldssamur sláni,
af trúgirni á sig mígur
auminginn hann Stjáni.

Það er nú svona:
Þegar lít ég hlýlegt hold,
af hjarta glaður
alltaf verð og upptendraður,
allur nýr og betri maður.

Um Hannibal:
Situr nú í Selárdal
síst þó elski friðinn.
Hafið þið séð Hannibal
höggva rekaviðinn?
————-

Þegar lundin gerist grá,
— gleymdur kratabubbum —
skaðræðis hann skeytir þá
skapi á viðarkubbum.

Nokkrar stökur úr litlu ljóði er ég kalla „Að kvöldi”:

Yfir voga blíður blær
blæju togar gára.
Geislum logar svalur sær,
sandi að rogast bára.

Döggin mjúka leggst í laut,
lindir strjúka bakka.
Ferðasjúkur þeyr ei þaut
þá um hnjúk og klakka.

Svanir vogum synda á,
sig í bogum hneigja,
Aldan sogast hleinum hjá,
hún er og að deyja.

Kemur ótta hljóð og hlý,
húmið fljótt að skundar.
Sína nóttin sveipar í
svæfla, rótt allt blundar.
Magnús J. Jóhannsson.

Svo er hér annað bréf sem Þingeyingur með stórum staf sendi okkur: Vísa Adólfs Petersen um Flosa, 5/1, minnir á alþekkta þingeyska vísu, er ort var um slægnalán prests nokkurs, þ.e.a.s. svarvísan var á þessa leið:

Sagt er að við höfum selt fyrir hí
sálna vorra gengi.
Konsi lýgur þessu, því
það var bleikjuengi.
Þingeyingur með stórum staf.

Þá er hér bréf sem Valdimar Lárusson sendi okkur:

Ágæti þáttur!
Heill og sæll, gleðilegt nýtt ár og þökk fyrir liðna árið. Ég vona að þú haldir áfram með þitt ágæta vísnaspjall og farir nú að koma með nýja fyrriparta fyrir mann að spreyta sig á, það lífgar svo ansi mikið upp á, jafnvel Ben. Ax í Vísi er tekinn upp á þessu. Hér eru nokkrar vísur, gamlar og nýlegar, áður óbirtar. Ég sat að tafli, og átti i nokkrum erfiðleikum, þá kvað ég:

Löngum kátt ég lék og dátt
lífs að sáttaboðum.
Nú er fátt um fínan drátt,
fækkar máttarstoðum.

Staka
Óðs af staupi oft ég saup
orðaskaupið hressti geðið.
Annars hlaup og engin kaup,
aðeins raup þá skást var kveðið.

Staka
Þegar bjátar eitthvað á
eða lengist vaka,
gaman er að geta þá
gripið til þín, staka.

Maður að nafni Kjartan reyndi krafta sína á gormum, þá kvað ég:
(Sléttubönd)

Storma Gandi, óður ár
yfir landið þeytti.
Gorma þandi Kjartan knár,
krafti andans beitti.
Valdimar Lárusson.

Þá höldum við áfram að taka úr syrpunni sem velunnari okkar sendi okkur á dögunum og við byrjuðum að birta úr í síðasta þætti. Fyrst koma vísur eftir Stefán Stefánsson frá Móskógum:

Margt ég prófað misjafnt hef,
en mestan halla gerði,
er hamingjunnar hlutabréf
hröpuðu úr öllu verði.

Þeim ég sýni vinarvott,
sem vel ég þekki.
Og vildi öllum gera gott,
en get það ekki.

Sagnir fornar sækja fram,
síst má liðnu gleyma.
Eflaust færi ég út í Hvamm
ef Auður væri heima.

Ástin finnur afdrep nóg,
á sér leynistaði.
Faðmast enn í rökkurró
Ragnheiður og Daði.

Nú hefur storminn loksins lægt,
ljúfur saminn friður.
Yfirsængin hægt og hægt
hreyfist upp og niður.

Loks koma svo nokkrar vísur sitt úr hverri áttinni:

Ein er meyjan öðrum vænni
iðju vafasama stundar.
Eftir því sem þúfa er grænni
þefa af henni fleiri hundar.

Get ég þeigi gert að því,
guðs þó feginn vildi,
þó að smeygist þankann í
það, sem eigi skyldi.

Gamall húsgangur.
Margt er það sem milli ber,
mikinn þótt ég rói.
Ekki má ég unna þér,
álfakroppurinn mjói.
Steinn Steinarr (?)

Þjóðviljinn 19. janúar 1975

Lausavísur
Enn einu sinni verður þátturinn borinn uppi af vísum sem lesendur hafa sent okkur. Við byrjum á bréfi sem Hugi Hraunfjörð sendi okkur:

Kvonfang
Eina nistis nift ég þekki
nauða sviftri önd
mig því gifta mun ég ekki
meðan lyfti hönd.

Þingsjá
Það má segja um þessa stjórn
þar að teygist líkur
enn þá megi færa fórn
fjöldinn eigi ríkur.

Ei til sólar sést víst meir
Svartaskóla gaman
meðan Óli og hann Geir
una í bóli saman.

Eins og höfðu hugsað sér
heimsins löðurmenni
blessuð þjóðin bað um her
bara gott hjá henni.

Efla þarf vort orku magn
ekki flýja vandann
eins þó verði ekkert gagn
að því fyrir landann.

Jólavísa
Ýmsir hafa úr því bætt
ef að fauk í skjólin
hvað þeir mikið gátu grætt
á guði fyrir jólin.

Endir
Til að yrkja enginn nú
eyðir sínum tíma,
hún er orðin úrelt sú
íþróttin að ríma.

Viðauki
Ekki þarf að efa það
ýmsir sviða kenni
meðan stjórnum standa að
stegluð auramenni.
Hugi Hraunfjörð.

Þá er hér bréf sem okkur barst fyrir skömmu:

Í síðasta þætti þínum birtir þú nokkrar vísur eftir þann snjalla hagyrðing Harald frá Kambi. Heimildarmaður þinn hefir þó ruglast lítilsháttar í ríminu. Ein vísan, sem nafna mínum er þarna eignuð, er ekki eftir hann og auk þess ekki alveg rétt með farin. Þessa vísu kenndi mér Jón Pétursson Húnvetningur, einhvern tíma á stríðsárunum og var hún þá nýort af honum sjálfum:

Hans er sundrað sálarflak,
syndir í dánum vonum.
Það þarf hundrað tonna tak
til að bjarga honum.

Ég trúi því, að ég hafi á réttu að standa, og lyfti minni kósakkahúfu til heiðurs báðum þessum snillingum stökunnar.

Haraldur Björnsson.

Þessi vísa læddist inn um gluggann til okkar:

Á Norðurlandi sérhver sála
söng í moll og dúr,
í Vaðlaheiðarvegamála-
verkfærageymsluskúr.
K.Ísf.

Hagyrðingar minna mig
mjög á gamla tísku,
furðu margir fela sig,
fæstir þó af nísku.
Steinunn.

Steinunn benti á eftirfarandi vísu eftir séra Helga í Hveragerði:

Til að öðlast þjóðarþögn
þegar þeir aðra véla,
gefa sumir agnarögn
af því sem þeir stela.

Vísan mun ort um góðgerðastarfsemi peningafólks.

Þá koma vísur úr syrpunni góðu sem okkur var send og við höfum birt vísur úr í síðustu þáttum. Jón Arnason skáld á Víðimýri réði eitt sinn til sin unglingspilt sem Halldór hét. Grunaði hann konu sína um að eiga vingott við piltinn og orti:

Oft á kveldin drýgir dans,
dregur feld á ljóra.
Konan veldur meini manns,
metur heldur Dóra.

Hún svaraði:

Vitin sjást að varnaði,
vinar brást mér trygglyndi.
Því með skástri skynsemi
skipti ég ást í tvo hluti.

Vísur eftir Jón Arnason:

Það er bágt að bjarga sér,
bilar mátt í leynum.
Svarta nátt að sjónum ber,
segir fátt af einum.

Fyrir allt mitt ferðalag
fæ ég litla borgun.
Nú má ekki drekka í dag
ef duga skal á morgun.

Eftir Lúðvík Kemp:

Þegar mér er lífið leitt,
lifi á hæpnum vonum,
þá veit guð ég þrái heitt
þjóðnýting á konum.

Lystisemda lífsins njótum
— liðna tíma er vert að muna.
þó við stöku boðorð brjótum
í bróðerni við samviskuna.

Gunnhildur er góð og reykir Fíl.
Gaman væri að taka frúna í bíl,
halla sér í hennar mjúka fang,
hætta að keyra, en sjálfur fara í gang.

Svo skal að lokum enn skora á menn að lyfta nú penna og senda okkur vísur nýjar eða áður óbirtar, eða ef vísnasafnarar vildu vera svo velviljaðir að senda okkur eitthvað úr safni sínu. Það er svo miklu meira virði að geta byggt þáttinn upp með vísum sem berast manni á þennan hátt heldur en að vera að leita í bókum eftir snjöllum vísum, sem flestir vísnavinir hafa áður lesið.

Loks er svo nýr fyrripartur sem við biðjum hagyrðinga að botna:

Upp er risin enn á ný
íhaldskreppan grimma.

Því miður
Þetta virðist vinur minn
vera orðinn kækur,
að þeir láti leirinn sinn
líka inn í bækur.

Stökur
Orkuþrunginn er ég stóð
úti’á pung að skaka,
þá var unga auðarslóð
oft var sungin staka.

Þjóðviljinn 26. janúar 1975

Ung og heit með augun blá…..
Mér barst í hendur lítið kver fyrir skömmu, sem hefur að geyma ljóð og lausavísur eftir lítt þekktan höfund, Karl Halldórsson fyrrum tollvörð. Karl var fæddur að Útibleiksstöðum í Heggstaðanesi 1904, en hann lést 1963. Mér fannst margar stökurnar í þessari bók mjög góðar og ætla að leyfa lesendum að kynnast þeim og vita hvort þeir eru mér ekki sammálá.

Æskan geymir óðul sín,
engar gleymast nætur,
okkur dreymir áfengt vín
eða heimasætur.

Enn er bjart um unga sál,
auðgast hjartað snauða.
Fagurt skartar skáldsins mál
skírt í „svartadauða”.

Ung og heit með augun blá,
aðra veit ég hvergi,
af því leitar öll mín þrá
upp að Geitabergi.

Oft er snauð af andans glóð
útlitsfögur stofa,
meðan fæðist listrænt ljóð
lágum moldarkofa.

Vefur hugann vetrarhjarn,
vor er hvergi að finna.
Ég er ekkert óskabarn
æskudrauma minna.

Ég á von á því, að fleirum en mér þyki hér vel kveðið.

Adolf Petersen sendi mér bréf um daginn sem fer hér á eftir:

Eftir að hafa lesið vísnaþáttinn í Þjóðviljanum þann 19. janúar s.l.:

Leit ég yfir ljóðin smá,
las ég þau í kringum,
og margt er það sem minnir á
MONTIÐ í Þingeyingum.

Alltaf er verið að minna mann á kvennaárið, og jafnréttiskröfur kvenna, kannski ekki að ástæðulausu, og þó.

Fölna ástir, falla tár,
færri gleðistundir,
það er krafa kvenna í ár
— að karlmenn liggi undir.

Nú er rætt um efnahaginn, og sýnist sitt hverjum.

Alþýðan skal færa fór’n,
fátæk bera skaðann,
en bráðum hnígur hægri stjórn.
hrynur undirstaðan.

Þá er hér bréf frá gömlum Skagfirðingi:

Gamall Skagfirðingur dvaldi um mánaðartíma á Landsspítala veturinn 1970. Þá buðu læknar að útvega honum pláss á Vífilsstöðum nokkurn tíma, meðan hann væri að hressast. Þáði hann þetta með þökkum. Eftir heimkomuna frá Vífilsstöðum varð honum að orði:

Ég get hvergi yndi fest
orðið lífs á tröðum,
en hugurinn leitar held ég mest
heim að Vífilsstöðum.

Svo eru hér þrjár vísur af öðru tilefni:

Það er okkar Matta að meta
og miðlungshyski gefa svar:
öreigarnir eiga að éta
aðeins minna en áður var.

Íhaldið matar á margan hátt
manninn á lyginni hráu,
það brýnir oft kutann og brytjar smátt
bitana handa þeim smáu.

Víst er stjórnin þarfaþing
því má enginn neita.
Framsókn hefir farið hring,
fjöllynd má hún heita.
Gamall Skagfirðingur

Að lokum eru svo vísur úr syrpunni góðu eftir ýmsa höfunda.

Eftir Sveinbjörn Beinteinsson:

Þótt ég færi vítt um veg
var ég þér alltaf nærri,
hvar sem þú ert þar er ég,
þó ég verði fjærri.

Mælist varla meira en spönn
mittið fagra og netta,
þú ert orðin alltof grönn,
á ég að laga þetta?

Þó að nú sé atómöld,
er samt býsna gaman
að geta svona kvöld og kvöld
kveðið stöku saman.
Halldór Blöndal.

Ég elska þessi atómljóð,
sem enginn skilur.
Þau hvíla alveg í mér vitið,
sem er að verða þreytt og slitið.
Bjarni frá Gröf.

Ég öfunda atómskáldin
af þeirra miklu list.
Þeir sem fátækir eru í anda
um eilífð fá himnavist.
Kankvís (Úr Alþbl.)

Ill var hlutdeild örlaganna,
atómskálda rímlaust fjas.
að höfuðsmiður hortittanna
heita skuli Matthías.
Helgi Hjörvar.

Hirði ég hvorki um stund né stað,
studdur fárra griðum.
Þannig fer ég aftan að
öllum mannasiðum.
Jón S. Bergmann.

Þeim hefur verið þörf að sjást.
þrá í æðum blossar.
Skyldu þeir vera í ætt við ást
allir þessir kossar?

Enn er honum um það kennt
ef að gildnar svanni.
Það eru öflug element
í ekki stærri manni.
Egill Jónasson.

Öllum sveinum illa tók,
ein því jafnan sefur.
Hún er líkt og lokuð bók,
sem lesið enginn hefur.
Bragi Jónsson frá Hoftúnum.

Innan um bæinn eins og skass
æðir þessi kona.
Fleiri hafa fætur og rass,
en flíka því ekki svona.
Eyjólfur Þorgeirsson.

Þjóðviljinn 2. febrúar 1975

Enn um þorravísur
Enn senda menn Þjóðviljanum bréf vegna Þorravísunnar sem birtist á forsíðu blaðsins hinn fyrsta dag Þorra. Jóhann Sveinsson frá Flögu sendi vísnaþættinum fróðlegt og skemmtilegt bréf um þessar Þorravísur. Þar kemur fram enn einn fyrripartur við Þorradægrin þykja löng, og segir Jóhann að þá vísu sé að finna í Hrólfsrímum kraka, en fyrri hluti þeirra er ortur af Eiríki Hallssyni f. 1614 d. 1698. Þetta er fyrsta vísa rímnanna og er svona:

Surta bál við gómagöng
geymir nálaskorðan.
Þorradægrin þykja löng
þegar hann blæs á norðan.

Eins er í ljóðmælum Sveinbjarnar Egilssonar þessi fyrripartur:

Ef að vantar varmaföng
víst og heyjaforðann,
Þorradægrin þykja löng
þegar hann blæs á norðan.

Það er mjög sennilegt að kenning Jóhanns um að botninn -Þorradægrin þykja löng- hafi geymst meðal manna sökum þess hve snjall hann er en menn gleymt fyrripartinum og síðan hafi hagyrðingar prjónað hann framan við, og þar er sennilega komin skýringin á því hve margir fyrripartar eru til við þennan botn. En nóg um það; snúum okkur að öðru efni.

Dr. Björn Jónsson í Swan River í Kanada skrifar okkur eftirfarandi bréf:

Kæri S.dór:

Þökk fyrir Vísnaþáttinn og blessaður haltu honum áfram í rauðan dauðann. Þann 19. jan. ferðu með „Gamlan húsgang”. Hann kann að vera húsgangur, með því Mogginn var með hann líka úr safni B.S. einnig ófeðraðan. Ekki er hann þó gamall mjög, og báðir hafið þið hann rangan, en Moggi þó verri, sem vera ber. Hann er eftir langömmu mína, Guðrúnu Sigurðardóttur (Varabálks), Guðmundssonar, konu Stefáns á Heiði. Eftir hana ganga fleiri „húsgangar”.Villa þín er í fyrstu línu, á að vera: Get ég eigi gert að því, og auðvitað fegin, kvenkyn, í öðru vísuorði. Það er jú eitt og annað sem smeygist í þankann hjá okkur stundum.

Þá er hér annað bréf, en það er frá Einskonar Norðlendingi hann skrifar:

Ég hefi lesið vísnaþáttinn með mikilli ánægju, en þó var best að fá vísur eftir Halla Hjálmars. Hann var hreinasti snillingur. Hann kunni að vera fyndinn án þess að vera klúr, þó hann væri stundum klúr. Eins og þegar hann var að grínast við kvenmann, ég held síðasta árið sem hann lifði. Daman hélt að það væri nú lítið gagn að honum nú orðið, og Har. samsinnti því.

Undir mér er lítið og lint,
leiður er sá baginn —,
en áður var það stórt og stinnt
— þá stóð mér allan daginn.

Þetta hefði verið klúrt í annars meðförum. Þú birtir vísu, sem þú sagðir vera eftir Stefán frá Móskógum: Storminn hefur loksins lægt,… o.s.frv. Þessa vísu kenndi Ragnar Magnússon endurskoðandi mér fyrir meira en 20 árum, og kvað hana vera eftir Teit Hartmann. Ragnar var vel kunnugur Stefáni, og ég tel fráleitt að Ragnar hafi ekki vitað ef vísan var eftir hann. Sagan um vísuna: T. hafði verið að skemmta sér með kunningja sínum. Undir morgun bauð kunninginn T. heim til sín til að fá eitthvað í gogginn. Er heim kom tók kona kunningjans á móti þeim og voru móttökurnar heldur kaldranalegar og óblíðar skammir dundu á kunningjagreyinu. Hann reyndi að stilla konuna, fékk hana með sér inn í stofu, en bað T. að bíða í eldhúsinu. T. beið góða stund og hlustaði á óminn en skyndilega varð hann þess áskynja, að það ríkti dauðaþögn í húsinu. Hann fór á stjá að leita að húsráðendum, og það var þegar hann opnaði svefnherbergisdyrnar, að hann sá hvað logninu olli.

Þá koma hér þrjár vísur sem Valdimar Lárusson sendi okkur í bréfi nýlega: Mig langar til að leggja smá þraut fyrir lesendur þáttarins. Þannig er mál með vexti, að fyrir um 15—20 árum gerði kunningi minn vísu, en var aldrei ánægður með síðustu hendinguna; hann hefur á þessum árum lagt þessa þraut fyrir marga snjalla hagyrðinga, en ekki fyrr en nú fyrir stuttu fengið tvær hendingar, sem hann telur viðunandi, en álítur þó, að ef til vill gætu snjallir hagyrðingar gert enn betur. En hendingarnar þrjár eru þannig:

Nú skal óðar brýna brand.
Beisla ljóða dýran gand.
Ríms frá sjóði rekja band.

Eins og allir sjá, eru þetta þrjár útgáfur sömu myndarinnar, og nú vantar þá fjórðu, sem ekki má vera síðri hinum. Mitt álit er að þetta sé ekki nema fyrir snjöllustu hagyrðinga að glíma við, en ég vil taka það fram, að ég tel mig ekki einn af þeim.

Að lokum tvær stökur, hvorug ný, eins og a.m.k. sú síðari ber með sér, sem er gerð á stríðsárunum.

Vetri hallar, vorar senn,
veldi mjallar dvínar.
Vel til fjalla ver þó enn
virkishallir sínar.

Hitlers leiði fjanda fans,
— fárleg veiðihöndin —,
stígur gleiðan djöfla dans,
drepur, eyðir löndin.

Í von um að menn geti skemmt sér við að glíma við fjórðu hendinguna í vísu kunningja míns, óska ég þeim góðrar skemmtunar.


Með bestu kveðjum
Valdimar Lárusson

Botnar
Að lokum svo botnar sem okkur hafa borist við fyrripartinn:

Upp er risin enn á ný
íhaldskreppan grimma.

Leppmennskunnar leiguþý
liðugt saman trimma
J.M.P.
Sólin fölnar sortna ský,
sest að ógn og dimma.

Háð mun verða um borg og bý
blóðug kjara rimma.

Ýstrubólgin auðvalds þý
óð af græðgi „trimma”.
V.L.

Ekki með það aftur sný
enn mér sýnist dimma
Magnús Þór Hansson frá Smáraholti.

En forðumst slysin, flýtum því.
Frá með leppinn dimma.

Úr mauradysi magnast því
mammons leppa rimma.
V.S.

Það áttu flestir von á því
þegar Geir og Óli trimma.

Framsókn hefur hoppað í
haustnóttina dimma.

Mata krókinn mauraþý
magnast kjararimma.
Leigubílstjóri.

Og loks nýr fyrripartur:

Ei má bæta kaup og kjör
kvakar íhaldskórinn.

Þjóðviljinn 16. febrúar 1975

Róma þjóð og ættarland
Það stóð ekki á því að okkur bærist línur í vísuna sem kunningi hans Valdimars Lárussonar orti fyrir 15 til 20 árum og við birtum í síðasta þætti. Hallgrímur Jónasson, sá kunni hagyrðingur kom með línuna sem vantaði og ég trúi ekki öðru en Valdimar og kunningi hans verði ánægðir með hana svona:

Nú skal óðar brýna brand,
beisla ljóða dýran gand,
eins frá sjóði rekja band,
róma þjóð og ættarland.

Það er sem sagt síðasta ljóðlinan sem er frá Hallgrími og ég fæ ekki betur séð en að hún sé svo vel felld að því sem á undan kemur að ekki verði á betra kosið.

Hér kemur svo staka eftir Hallgrím sem hann lét fylgja með línunni:

Leigur bjóða kana klóm
klækja gróða blaða.
Eigur þjóðar skitnum skóm
skattaóðir vaða.

Vísan hans Adolf Petersen vegna kvennaársins sem við birtum fyrir þremur vikum varð til þess, að kona ein í Reykjavík svaraði ,,í samúðarskyni” eins og hún sagði, en svar vísa hennar er svona:

Fjöri sviptur fellir tár
fornum siðum tryggur.
Hjálparvana og vina fár
verður sá er liggur.

Þessi var kveðin norður í landi þegar Ólafur Jóhannesson skipaði Halldóri E. að leggja fé í Gjábakkaveginn:

Fjármála er voðinn vís,
vill þó stjórnin tóra,
eins og bústinn auragrís
Óli kreistir Dóra.

Fyrir nokkru var haldin árshátíð Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Nokkru áður var ákveðið að efna til verðlaunavísnasamkeppni og voru verðlaunin afhent á árshátíðinni. Sá háttur var hafður á að mönnum var gefið eitt orð sem miðrímsstofn. Svo fóru leikar að Andrés Valberg fékk bæði 1. og 2. verðlaun og eru vísur hans svona:

1.verðlaun
Á skemmtifund með léttri lund
lífsins bundinn hætti
folinn skundar greitt um grund
gæddur undra mætti.

2.verðlaun
Breiskur glanni brúkar kjaft
bölvun kann að vinna.
Hefur mannorð margra haft
milli tanna sinna.

Þegar hlákuna loks gerði á dögunum varð Andrési litið út um gluggann og kvað:

Kviknar glóð við klakadranga,
klökknar óðum gatan hál.
Geislaflóðið vermir vanga
vekur ljóð í kaldri sál.

Þessi er aftur á móti eftir Björn L. Gestsson:

Konum fyrst ég kanna hjá
kærleiks ystu merkin,
dýpra risti og dái þá
Drottins listaverkin.

Jón M. Pétursson frá Hafnardal sendir okkur þessa stöku:

Reynist þýðleg rúmferðin
hjá ræfils landstjórninni
af henni skríða óþrifin
útúr flatsænginni.

Hér koma svo þrjár vísur eftir Y.

Fegurð Austurstrætis
Hér finnst eitt og annað dót,
ýmsu er hægt að tjalda.
Götuskáldið gnæfir mót
gluggum Silla og Valda.

Þegar kosið var inná lista heiðurslaun í stað Þórbergs, Guðmundar Böðvarssonar og Páls Ingólfssonar:

Þótt þeir leggi lambaspörð
létt í bólið svana,
áfram standa opin skörð
eftir snillingana.

Við seinustu stefnu VL-manna
Þeir stefna fyrir alltog ekki neitt
íslenskan þeim veldur böli þungu,
og skrifa kannski kanamálið eitt
en kunna síður mæðra sinna tungu.

Þá koma hér nokkrar vísur sitt úr hverri áttinni:

Þegar ég tók í hrundar hönd
með hægu glingri,
fannst mér, þegar ég var yngri,
eldur loga á hverjum fingri.
Sigurður Breiðfjörð.

Netta fingur venur við
veifir slyngur korða,
hjartað stingur, fær ei frið,
fallega syngur langspilið.
Vatnsenda-Rósa.

Þá fyrsta æskuástin hrein
var í mitt hjarta send,
ég þóttist standa á grænni grein
— en guð veit hvar ég stend.
???
Svona er ástin meyju og manns,
man ei nokkur slíka.
Ef hún fer til andskotans
ætlar hann þangað líka.
???
Hjúskapsgiftu vermast við
virðist klippt og skorið.
Er þá skipting út á við
aðal lyftisporið.
???
Reynist flest í veröld valt,
veltur margt úr skorðum,
ég er sjálfur orðinn allt
öðruvísi en forðum.
???
Prédikaði presturinn
um píslir vítisglóða.
„Amen” sagði andskotinn,
aðra setti hljóða.
Örn Arnarson.

Þjóðviljinn 23. febrúar 1975

Nú skal óðar brýna brand
Ekki var Valdimar Lárusson og félagi hans ánægðir með línuna við vísuna Nú skal óðar brýna brand sem Hallgrímur Jónasson sendi okkur. Valdimar hefur skrifað þættinum langt bréf sem ég get ekki rúmsins vegna birt í heild; þar segir hann m.a: ,,Ég hélt að þegar ég sendi þér þessar hendingar, þá hefði ég skýrt út, hvað ég meinti, að þar færi ekkert á milli mála, þaðvvel, að hver sá, sem eitthvert skyn ber á íslenska vísnagerð hlyti að skilja við hvað ég ætti. þ.a.e.s. eins og ég tók fram strax, þarna væru þrjár mismunandi útgáfur sömu myndarinnar, og að nú vantaði fjórðu útgáfuna af myndinni, sem ekki eða helst ekki mætti vera síðri hinum!

Ég er satt að segja furðu lostinn að jafn gáfaður maður og vel að sér í ísl. vísnagerð og Hallgrímur Jónasson, sem ég tel einn snjallasta hagyrðing, núlifandi á landi hér, að öllumvöðrum ólöstuðum, skuli heldur ekki hafa skilið við hvað ég átti.

Ég skal nú reyna að færa fram rök, máli mínu til stuðnings. Við skulum þá fyrst athuga hendingarnar eins og þær komu fyrst frá höfundinum:

Nú skal óðar brýna brand,
beisla ljóða dýran gand,
ríms frá sjóði rekja band,

Það hlýtur hver maður að sjá, að þarna er sama hugsunin (myndin) endurtekin með mismunandi orðalagi, þarna er hver ljóðlína sérstæð, en merking hennar sú sama, þá vantar fjórðu ljóðlínuna með enn öðru orðalagi, en sömu merkingu, það er þetta sem ég og kunningi minn vildum fá fram, ekki einhverja hendingu, sem kemur eins og vera úr öðrum heimi, og á ekkert skylt við, eða sameiginlegt með hinum. Við höfum fengið tugi af hendingum á borð við þessa síðustu, en það er bara ekki lausnin. Svo til gamans ætla ég að láta fylgja hér þær tvær hendingar sem okkur hafa borist, og sem ég gat um áður, og við teljum vel viðunandi, en héldum þó að e.t.v. gæti einhver gert enn betur:

Sú fyrri er þannig:
Ríflegt Óðins kneyfa bland.

Og sú síðari:
Ryðja slóð um Bragaland.

Að lokum ætla ég svo að láta fylgja hér vísu, sem ort var í þorskastríðinu ’58, og ég held að ég fari með rétt mál, að sé eftir Kristján frá Djúpalæk, en sé svo ekki þá biðst ég velvirðingar á því, en vísan er svona:

Íslendingar andans vigra
ennþá draga fram og brýna.
Auðunn skökull er að sigra
Elísabetu frænku sína!

Þessi vísa varð mér tilefni annarrar um sama efni, og ætla ég að enda þessar línur með henni, mér finnst það ekki svo fráleitt:

Elísabet á Auðun leitar
— hvað ei mun þó svo títt hjá konum —
En þegar Auðunn alveg neitar,
ætlar hún að nauðga honum.

Með bestu kveðjum
Valdimar Lárusson.

Hannes Hjartarson frá Akranesi skrifar okkur eftirfarandi:

Í vísnaþætti í Þjóðviljanum í dag 23. feb. er vísa sem ekki er rétt með farin. Hér er um að ræða vísuna Svona er ástin meyju og manns. Ég kannast við þessa vísu og í mínu minni er hún þannig:

Svona er ástin meyju og manns
menn ei þekktu slíka.
Ef þú ferð til andskotans
ætla ég þangað líka.

Höfundur vísunnar er Ragnar Ágústsson frá Svalbarði á Vatnsnesi.

Ég þakka Hannesi bréfið en ekki skal ég neitt um það segja hvor útgáfan af vísunni er rétt.

Guðmundur Ólafsson sendir okkur þrjár vísur:

Hippagrey með hunda og ketti
heilaspuna og mandólín,
eru þarna á einu bretti
utangátta og miður sín.
(Sá þá í sjónvarpinu.)

Staddur í vínbúð
Þó að oft sé allt í hönk,
askar tómir og dallar,
þá er ekki þjóðin blönk
þegar Bakkus kallar.

Fyrir ári eða svo hitti ég Sigurð Grímsson á götu og varð þá einhver gömul vísa á vegi okkar, sem við mundum báðir. Þá varð mér að orði:

Margt er ofið mál til ríms,
margt af því er lélegt bull.
Einu sinni Siggi Gríms
sagði það sem stendur gull.

Guðmundur Ólafsson
Frakkastíg 15
R.

Botnar
Þá er að snúa sér að þeim botnum sem okkur hafa borist við síðasta fyrripart sem því miður misritaðist en í stað — íhaldskórinn — átti að standa — íhaldsmórinn.— Þetta kemur þó ekki rímfræðilega að sök, en k-ið var vissulega hortittur eins og margir hafa bent á.

Þá er fyrriparturinn réttur svona:

Ei má bæta kaup og kjör
kvakar íhaldsmórinn.
Veitum honum verðug svör
verkum auðvaldsflórinn
R.B.

Það sjást jafnan þrælaför
þar sem kreppir skórinn.
V.L.

Framsókn er að komast í kör
kreppir hernámsskórinn.
J.P.

Ekki veit ég hvort þessi misritun hefur orðið til þess að menn hafa sent mun færri botna nú en alltaf áður, nema menn hafi misst áhugann fyrir að botna. Þess vegna held ég að best sé að sleppa fyrriparti í það minnsta um sinn.

–S.dór

Það stóð ekki á svari frá Adolf Petersen vegna konuársvísnanna sem birst hafa í tveim síðustu þáttum. Kona svaraði vísu Adolfs í síðasta þætti og nú segir Adolf:

Þína samúð þakka vil,
það er raunabótin,
að góðvildin þér gengur til
að gefa undir fótinn.

Þjóðviljinn 2. mars 1975


„Augnabliksins ævintýr”
Í vísnaþáttunum undanfarnar vikur hefur uppistaða þáttanna verið aðsent efni og er í raun ekkert nema gott um það að segja. Þó finnst mér ástæða til að breyta svo lítið til í þessum þætti og hafa uppistöðu hans kynningu á hagyrðingi. Sá sem fyrir valinu hefur orðið er Hallgrímur Jónasson kennari. Það getur þó aldrei orðið nema örlítið sýnishorn af kveðskap Hallgríms að ræða, og þar sem ég veit að hann er í hópi snjöllustu núlifandi hagyrðinga landsins er mikill vandi að velja og hafna úr vísum hans og ég tek fram að það sem hér birtist er ekkert úrval, heldur sýnishorn. Það er því kannski ekki úr vegi að byrja á því sem hann segir um stökuna sína.

Stakan mín
Hún er hvorki dul né dýr,
dálítill vafafengur,
augnabliksins ævintýr,
eins og bærður strengur.

Geld ég skuld og ber á bug
best í þuldum stökum,
meðan kuldinn hjarta og hug
herpir dulum tökum.

Landið góða
Ort við sólaruppkomu uppá öræfum:

Auðnin hljóða íss og báls
árdagsglóðum hlýnar.
Landið góða, förum frjáls
fjallaslóðir þínar.

Hundalíf
Í lestarferð úr kaupstað í gamla daga:

Þegar hvorki víf né vín
vermir lundu slaka,
finnst mér hálfgert hundalíf
heila nótt að vaka.

Í vinahópi
Hlógum, sungum, lékum listir,
ljóð af tungu flugu snör.
Hugir ungir, örir, þyrstir
öllum drunga viku úr för.

Létum harma flesta flýja,
fyllti barma gleðin heið.
Ykkar varma vinahlýja
varpar bjarma á mína leið.

Til hálfvelgjumanns
Eigi að merkja ættarslóð
undirlægju kjörum,
lítið verður landi og þjóð
lið í hálfum svörum.

Skammarvaðli svarað:
Skammanöldrið þvöglu þunga,
þunnt, sem vilpugnauð við skarir.
Það er líkt og loppin tunga
leggi svona mál á varir.

Í lystigarði Akureyrar
Ferskeytlan er hrjúf og hlý,
hnittin, beinir skeytum.
Þú ert merkust Þura í
þessum aldinreitum

Um litla jurt og fræið fætt
ferðu mjúkum höndum
En vísur þínar eiga ætt
austur á Mývatnsströndum.

Þekkjumst ekki,’ þó ég kem,
þín hefi lengi beðið.
Það er aðeins sveitin sem
svona getur kveðið.

Dauður dagur
Lítil vísa, léttur bragur,
liðka skap og taugar styrkja.
Þetta verður dauður dagur,
drottinn varnar mér að yrkja.

Snúum okkur þá næst að vísum sem okkur hafa borist. R.B. segir:

Nábleik vofa viðreisnar,
vafrar landið kringum.
Styðst við ráðlaust stjórnarfar
stelur af fátæklingum.

Jón Pétursson frá Hafnardal sendir okkur eftirfarandi:

„Við vorum á leið inn í strætisvagn, vinur minn og ég, en á undan okkur fór inni vagninn snotur stúlka. Hvernig líst þér á sagði kunningi minn og ég svaraði:

Ellin bannar ást og hopp,
æskuna sárt ég trega.
Sjái ég fagran kvennmannskropp
kitlar mig yndislega.

Í biðröð
Þarna eru fríðir fætur,
freista mín Evudætur,
aftrar þó elli fjandi
oftast nær að mér…

Að lokum segir Jón:

Fyrir nokkru varstu með vísu: Eignast hefur okkar bær. Þetta var útúrsnúningur á vísu eftir mig. Í minni ruslakompu var þetta svona:

Blómgast hagur, byggðin hlær
berast höpp að landi.
Eignast hefur okkar bær
asna í róðrarbandi.

Um hvern vísan er ort er annað mál, segir Jón. Það væri vissulega gaman að fá meira frá Jóni bæði gamlar og nýjar vísur.

Kona í Norðurbænum í Hafnarfirði sendir okkur tvær vísur. Hún lýsir aðdraganda þeirrar fyrri svona:

Þegar fjármálaráðherrann kom með fjárlögin fyrir jól, sagði hann að hin mikla hækkun þeirra ætti ekki að snerta fólk. Þá varð þessi til:

Svo frábær að eðli og fullkomin í sinni list
eru fjármálaráðherrans verk með íslenskri þjóð,
að kraftaverk þau sem að kennd hafa verið við Krist,
kallast nú ei nema tæplega miðlungi góð.

Svo kom Mathiesen fjármálaráðherra í sjónvarpið um áramótin og boðaði kreppu; þá varð þessi til:

Ráðvillt er kirkjan og rislág vor nýárssól
og rausið prestanna drukknar í kaupsýsluglymnum.
Þá stígur Mathiesen ráðherra upp í stól
og startar kreppu og gengishruni á himnum.

Þjóðviljinn 9. mars 1975

„En ef gamli Bakkus bregst“
Uppistaða þessa þáttar verða vísur eftir hinn kunna hagyrðing Harald Hjálmarsson frá Kambi. Ég hygg að óþarft sé að kynna hann fyrir vísnavinum, svo kunnur sem hann er orðinn af vísum sínum.

Undarlega í mig leggst
að illa reynist vinir,
en ef gamli Bakkus bregst
þá bregðast allir hinir.

Undir þetta geta sjálfsagt margir tekið.

Af tilhlökkun titrar minn barmur,
ég trúi að sálinni hlýni,
er hátt lyftir hægri armur
heilflösku af brennivini.

Og þá ekki síður þetta: Næsta vísa ber þess merki að Haraldur hafi ekki tekið skáldskap sinn alvarlega:

Ljóð mín eru lítils verð
langt frá því að vera góð.
Þau eru flest í flýti gerð
fyrir þann sem næstur stóð.

Næsta vísa er greinilega ein af síðari vísum Haraldar:

Ungum gafst mér orka og vit
átti vísan framann
Síðan hef ég látið lit,
lækkað og gengið saman.

Og enn um Bakkus:

Ég drekk fremur faglega
og fer ekki yfir strikið.
Þó ég drekki daglega
og drekki stundum mikið.

Þegar vínið færist fjær
fer að versna líðan.
Það sem virtist grænt í gær
gránað hefur síðan.

Og að lokum:

Að segja biturt orð í eyra
angri veldur.
Þögnin segir mikið meira
en margur heldur.

Þá tökum fyrir vísur sitt úr hverri áttinni. Lúðvík Kemp yrkir:

Þjófgefinni veitti vörn,
vesælt löðurmenni.
Með öllum syndum átti börn,
en þó flest með henni.

Stefán Vagnsson kveður:

Stríddu þrátt við strit og baks
stundum máttu glíma.
En urðu sátt af erjum dags
eftir háttatíma.

Emil Petersen yrkir:

Safnað hef ég aldrei auð
unnið þreyttum mundum.
Drottinn hefur daglegt brauð
dregið við mig stundum.

Þessi er eftir Eirík á Hæli:

Háski er að ala á holdsins þrá
hún er oft skammvinnt gaman.
Margur er til sem meiddist á
mýktinni einni saman.

Þorbergur Þorsteinsson yrkir:

Mér er ljúft að lifa í synd,
ljósan ber þess vottinn;
þú skalt dæma þína mynd,
þó með samúð, Drottinn.

Dómald Ásmundsson sendi okkur þessa fyrir stuttu:

Það má lengi efla óð,
æsa mengi, hita blóð,
lækka gengi, ljúga að þjóð,
látast drengileg og góð.

Hannes Hjartarson á Akranesi sendi okkur nokkrar gamlar vísur eftir ýmsa höfunda:

Aðalsteinn Halldórsson frá Litlu-Skógum kvað svo:

Þó að sáran sviði und
sárt og hjartað blæði,
lækna það á stuttri stund
stuðlaföll í kvæði.

Pétur Jakobsson orti um Svein frá Elivogum:

Einn fær sungið ítran brag
oft við slungin kynni.
Sveinn með þrungið ljóðalag
laust á tungu sinni.

Hjalar ljóðin sögð frá sál,
söngvabjóður frægi,
talar Óðins ágætt mál
oft í góðu lagi.

Sagna festan hróður held
hafi mestan slíkur.
Magnar bestan óðar eld
allra gesta Víkur.

Valdimar Lárusson sendi okkur þrjár eftirfarandi stökur sem hann segir eftir kunningja sína.

Þessi er ort um borð í færeyskri skútu á Grænlandsmiðum:

Grá og þrútin Grænlandsský
gefur út að líta,
meðan skútan æðir í
ölduhnúta hvíta.
G.L.

Eyjar stá í aftanþeynum,
andar flá við kletta og sker.
Ofur smáa, upp að hleinum
aldan bláa vaggar sér.
R.H.

Að yrkja og glettast er minn sess,
orð í fléttast þungan.
Brokkar létt mitt ljóða -ess,
leikur á spretti tungan.
Kj.Hj.

Setti ég kjaftinn sóttkví í,
sem er réttur vegur,
yrði ég talinn allt að því
óaðfinnanlegur.
Jón Arason.

Hugurinn berst um hyggjusvið,
hjartað skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Tungan lostin missti mál
merkin brostin sýna,
þegar frostið fór um sál
fann ég kosti þína.
Andrés Björnsson?

Satt og rétt ég segja vil
um sumra manna kvæði:
Þar sem engin æð er til
ekki er von að blæði.
???

Þjóðviljinn 16. mars 1975

Tilbreytingin þætti þurr…

Rauðsokka hefur sent okkur ágæta vísu sem svar við kvennaársvísunni hans Adolfs Petersen:

Tilbreytingin þætti þur
þá unaðst nálgast stundir,
kynni enginn karlmaður
konu að liggja undir.
Flóin.

Þessu getur þú Adolf ekki látið ósvarað.

Þá ætla ég að halda áfram að birta vísur úr bréfinu sem Hannes Hjartarson á Akranesi sendi þættinum.

Guðmundur Einarsson, faðir hins kunna stjórnmálamanns Valtýs Guðmundssonar orti þessa vísu sem hann nefnir Ofjarl:

Þó að hyggi í krás fá krækt
karl í brögðum skæður.
Þar að stela er þeygi hægt
er þjófur húsum ræður.

Jón S. Bergmann kvað svo um Þorstein Erlingsson:

Þótt hann skorti gullin gjöld
og glit sem hofmenn prýða
fyrir krónu og konungsgjöld
kaus hann ekki að skríða.

Kristján Ólafsson frá Húsavík nefnir þessa vísu sína:

Örlög
Finnst mér örlög fari þá
fyrst til stáls að sverfa
þegar orðið áttu frá
ekki neinu að hverfa.

Þá koma hér tvær gátuvísur:

Ég er djarfur mund í manns
mér oft hvarf þó forsjón hans
er mitt starf að eyða stans
allt í þarfir húsbóndans.

Fjalladýrið át ég upp
og engu leyfði.
Í djúpi hafsins hús það hafði
með heiti manns ég út það krafði.

Lausnirnar birtum við í næsta blaði.

Nú tínum við til sitt úr hverri áttinni. Menn riðu eitt sinn fram á pilt og stúlku í faðmlögum, þá orti Björn Sigurðsson Blöndal:

Að sér gáði ei æskan bráð
ástar kljáði vefinn.
Þar var áð og unað náð
atlot þáð og gefin.

Benedikt Valdemarsson frá Akureyri orti:

Öls við bikar andi skýr
á sér hiklaust gaman.
Augnabliksins ævintýr
endast vikum saman.

Lilja Gottskálksdóttir orti:

Færðin bjó mér þunga þraut,
þrótt úr dró til muna.
Hreppti ég snjó í hverri laut
hreint í ónefnuna.

Gestur Ólafsson frá Akureyri orti um mann:

Gegnum lífið liðugt smaug hann
líkur júðanum.
Einu sinni ekki laug h’ann
enginn trúði h’onum.

Dauður maður sem hafði verið ölkær í lífinu kom til vinar síns í draumi og sagði:

Helltu útúr einum kút
ofan í gröf mér búna.
Beinin mín í brennivín
bráðlega langar núna.

Ísleifur Gíslason á Sauðárkróki orti um Eirík nokkurn sem fyrstur bruggaði landa í Skagafirði:

Sykurgrautinn sýður hann
sigur hlaut í landi.
Allar þrautir yfir rann
Eiríkur brautryðjandi.

Lúðvík Kemp orti:

Þessi landi er þrísoðinn
af þeim sem verkið kunni,
og sýnist vera samboðinn
sveitamenningunni.

Hjálmar Þorláksson úr Eyjafirði orti:

Verum kátir öls við ál
eyðum gráti og trega.
Nú skal láta sál að sál
svigna mátulega.

Loks koma svo nokkrar drykkjuvísur:

Vekjum hlátur, vekjum grín,
villast látum trega,
brögðum kátir brennivín
bara mátulega.

Finnst mér lífið fúlt og kalt,
fullt er það af lygi og róg,
en brennivínið bætir allt,
bara það sé drukkið nóg.

Það er meira en meðalskömm
mér að neita um kraftinn:
tvö hundruð og tíu grömm
til að væta kjaftinn.
Höf. ókunnir

Þetta hversdagsleiða líf
lamar sálarkraftinn,
að hafa hvorki vín né víf
að verma á sér kjaftinn.
Bjarni Gíslason.

Flaskan er tóm og féð er þrotið.
Gleðin er horfin, glasið brotið.
Segðu mér — hef ég nokkurs
notið?
Kjartan Gíslason frá Mosfelli.

Hefi veitt og verið stór,
voryl seitt í muna.
Nú ég þreyttur, þamba bjór.
Þessu er leitt að una.
Jón Pétursson

Látum fljóðin líða skort,
lemjum góða vini,
fyrr en bjóðum frelsi vort
falt í gróðaskyni.
Guðmundur Sigurðsson

Dregur grímu á dal og fjall,
daufa skímu veitir.
Leggur Tímans lygaspjall
Líkt og hrím á sveitir.
Jón Pálmason á Akri

Þjóðviljinn 23. mars 1975

Gefa sumir agnar ögn…
Jóhann Sveinsson sendi okkur eftirfarandi vísu sem hann segir að sé eftir Helga Sveinsson fyrrum prest í Hveragerði:

Til að öðlast þjóðar þögn
þegar þeir aðra véla,
gefa sumir agnar ögn
af því sem þeir stela.

Eftir að hafa hlustað á útvarpsumræðurnar frá Alþingi á dögunum, þar sem stjórnarliðar hældu sér mjög af tollalækkun á hverskonar feiti til matargerðar varð Hallgrími Jónassyni að orði:

Þeir eru að leysa þjóðarvanda,
þegna firra sulti og hrolli.
Ótal feiti ótal landa
öðlingarnir lækka í tolli.

Mín er ósk -að mestu leyti-
metin eftir frónskum sið,
að þeir hunda og fótafeiti
fengjust til að bæta við.

Svo koma hér nokkrar stökur eftir Einar Hjálmar Guðjónsson.

Mammon
Gamli Mammon glottir kalt
gegnum tímans mistur.
Þykist vera okkur allt
engu síðri en Kristur.

Vegur sannleikans
Lítt er sannleiks gatan greið
grjóti og þyrnum falin,
er því tíðum önnur leið
til annarra staða valin.

Dýrtíðin
Dýrtíðin er draugur sá
er dregur langan slóðann
honum situr ókind á
sem allan hirðir gróðann.

Stríð
Hljóta snauðir gas að gjöf
gjósa úr hauðri blossar.
Fram af dauðans dökkri nöf
dynja rauðir fossar.

Iðunn
Iðunn lítið gerir gagn
þó grynnist tárabrunnar
þegar brestur burðarmagn
breyskrar samviskunnar.

Fégirndin
Fégirndin er fingralöng
festir góma víða.
Lagaákvæði landsins röng
lætur hún þingið smíða.

Þá ætla ég að skjóta hér inní ráðningum á vísugátunum sem við birtum síðast. Ráðningin á vísunni sem byrjaði svona Ég er djarfur mund í manns…. er pískur en á hinni vísunni er ráðningin refur.

Þá koma hér nokkrar vísur eftir Baldvin skálda:

Tunnan spekir hugarhag,
harms í reki strauma.
Á hana tek ég tár í dag
til að vekja drauma.

Blómin hrynja blund í sjúk,
brim við dynja strendur.
Nú er kynja frost og fjúk,
féð í brynjum stendur.

Þá tilsvörun þekki ég
þjóð sem gjörir hæfa:
oft eru kjörin undarleg
og á förum gæfa.

Dal í þröngum drífa stíf
dynur á svöngum hjörðum.
Nú er öngum of gott líf
uppi af Gönguskörðum.

Þrengjast kjörin mjög að mér,
mæðast gjörir lundin.
Ég er snörum heimsins hér
hreint óvörum bundinn.

Andans hækkar huggunin,
harms af stækkun skorin.
Óðum lækkar lífssólin,
lúa fækka sporin.

Mér hefur fundist fátt í hag
falla lundu minni.
Kveð ég stundum kaldan brag,
komið er undir sólarlag.

Linnir aldurs leiði stirt
lífs um kalda sjáinn,
grafartjald þá geysimyrkt
geymir Baldvin dáinn.

Þá koma hér þrjár vísur eftir Hjörleif Jónsson bónda á Gilsbakka í Skagafirði:

Sæti ég lagi, sigldi af gát,
sundin æ þótt bláni.
Oftast ræ ég einn á bát,
árar fæ að láni.

Í mér búa öfgar tvær,
alvara og gaman.
En óviðfelldnar eru þær,
ef þeim lendir saman.

Margir hæla ást um of,
ýmsum var hún byrði.
Nái hún aðeins upp í klof
er hún lítils virði.

Hér er svo ein vísa eftir Dómald Ásmundsson:

Heiminn þjakar þetta skass
því sjást biljón hreysi
ágirndar og okurs hlass
er hans gæfuleysi.

Allir sem hafa gaman af því að kveðast á kannast eflaust við hve erfitt getur verið að finna vísu sem byrjar á X en nokkuð margar vísur eru til sem enda á X eins og til að mynda þessi:

Róa skulum Runki minn
ríkidæmið óðum vex.
Gengið hafa í garðinn inn
gömul naut og svínin sex.

Og þá geta menn svarað með þessum vísum til að mynda:

X-ið vantar okkur núna bræður
að x-inu verður einatt pex
x-ið gerir fjóra og sex.

Eða þá þessa:

X-ið rara er að sjá
eins og besta silkitau
Þegar kappar kveðast á
kunna þeir að bjóða au.

Hér er svo að lokum vísa eftir Adolf Petersen sem hann orti eftir að hafa horft á glímu í sjónvarpinu:

Endirinn gat Erling glatt
Unndórssonur grætur.
Ingi glímdi annar datt
Essdór reis á fætur.

Að lokum vil ég svo biðja rauðsokkuna sem ljóðaði Adolf Petersen í síðasta þætti að gefa honum upp nafn sitt, annars segist hann ekki svara.

Þjóðviljinn 6. apríl 1975

Ísland, eg hrópa upp á þig …
Dr. Björn Jónsson í Swan River í Kanada sendi okkur fyrir nokkru þessa tvo bragi um Jón Indíafara. Hann tekur ekki fram í bréfi sínu eftir hvern þeir eru, en ég þykist sjá af bréfinu að þeir séu eftir hann sjálfan.

F rónsheimt Jóns Indíafara
Ísland, eg hrópa upp á þig
þá angist mig böndum reyrir,
að þú lyftir í elsku á mig,
útburðarvæl mitt heyrir.

Sem Adam fyrr á Edens rann
aftur leit þá hann flúði,
áköf mín til þín ástin brann,
mig aftur á vit þín knúði.

Í útlöndum skjól eg ekkert fann,
yndisvant fjáðum, snauðum.
Ástin til þín mér orna kann
á þínum frera, dauðum.

Burtdrifinn þínum barmi frá
sem barn úr móðurfangi,
leyfðu mér þó að lokum fá
legstað á þínum vangi.

Hjúfraður þinn í hlýjan barm,
— hvar um ei neinn þarf yggja
útburðar gef eg engan larm,
eg mun þar hljóður liggja.

Landsýn Jóns Indíafara
Ísland, þú ert það albest land
upp á hvað sól nær skína.
Sólarskip mitt má sigla í strand
síðast á fjöru þína.

Ísland, þig rísa upp úr sæ
aldrei að líta ef náði,
varpað þá tel eg vera á glæ
veraldar öllu ráði.

Upp sjá þig rísa af unna beð,
sem Ægis brúður skarta,
unun sú stærsta líst mér léð,
leyfist ei síðan kvarta.

Í síðasta þætti birtum við vísu eftir séra Helga Sveinsson fyrrum prest í Hveragerði. Nú hefur okkur verið bent á að ekki hafi verið um stöku að ræða heldur hafi vísurnar verið tvær og að sú sem við birtum á sunnudaginn hafi verið sú síðari, en að sú fyrri sé svona:

Þegar sektin sækir að
sálarfriði manna,
flýja þeir í felustað
frjálsu góðverkanna.

Hér koma svo nokkrar hringhendur eftir hinn kunna hagyrðing Rósberg G. Snædal:

Veðurlýsing
Dropasmáar daggir gljá,
drúpa strá á völlum.
Þokubláir bólstrar á
brunaháum fjöllum.

Afmælisvísa
Vandist skælur aldrei á
eða þvælingshætti.
Ber því hæla heila frá
heimsins þrælaslætti.

Mannlýsing
Eyddi sorg í iðu glaums
úti á torgum sviðnum.
Spilaborgir bernskudraums
brunnu að morgni liðnum.

Vor
Hlýnar vangur, grund og gil,
grænir anga hagar.
Okkur fangið fullt af yl
færa langir dagar.

Stolnar stundir
Þó að syndin sumum hjá
saurgi lindir tærar
stolnum yndisstundum frá
stafa myndir kærar.

Eftirmáli
Þú sem dáir dagsins glóð,
draumabláar vökur,
þiggðu frá mér þessi ljóð,
þessar fáu stökur.

Prófessor Sigurður Nordal orti þessa stöku:

Yfir flúðir auðnu og meins
elfur lífsins streymir,
sjaldan verður ósinn eins
og uppsprettuna dreymir.

Karl Friðriksson fyrrum vegaverkstjóri var góður hagyrðingur og mörgum kunnur. Hér koma nokkrar vísur eftir hann:

Ýmsa rekur uppá sker
undir drottins banni.
Freistingin og fallið er
falið í sjálfum manni.

Heims af yndi ýms um stig
æðsta blindast þráin.
Af því syndin á við mig
eins og lindin stráin.

Þegar aldan undir rær
ýfir kaldan strauminn,
góðra valda geislablær
gef mér hald í tauminn.

Í vísnabók stúlku sem ætlaði til Vesturheims.

Margur úti leitar lönd,
lítið vinnur — tapar.
Stígur aldrei á þá strönd
sem andans hilling skapar.

Þótt þú gistir hærri höll
en hugann náir dreyma,
bíða hvergi blárri fjöll,
bjartari nótt en heima.

Á Þingvöllum með Friðrik Hansen:
Gamla Skjaldbreið láttu lyft
leiðum þokuslæðum.
Þær hafa fleiri fagrar skipt
fyrir Hansen klæðum.

Vart þarf að kynna Jósep Húnfjörð fyrir vísnamönnum. Þessi staka er eftir hann:

Eldar bálið ástin blíð,
unaðsþjál við notin.
Herðir sálin heilagt stríð,
holds við skálabrotin.

Þá ætti einnig að vera óþarfi að kynna Jón Pálmason frá Akri, en hann orti:

Finnst mér nú og finnst mér oft
fegra um leiðar borðann,
hlýrri sól og hreinna loft
hérna fyrir norðan.

Þjóðviljinn 13. apríl 1975

Svo ei verði á svörum hik…
Árið 1952 kom út lítið vísna- og ljóðakver. Það lætur ósköp lítið yfir sér hið ytra, en fyrir þá sem hafa áhuga á ferskeytlunni er efni þess þeim mun áhugaverðara. Bókin heitir Milli élja og er eftir Jón Arason erfiðismann sem lengi bjó í Reykjavík og gamlir Reykvíkingar kannast eflaust við. Hann var kunnur hagyrðingur á sinni tíð. Bókin kom út í tilefni 75 ára afmælis Jóns. Ég hygg að of fáir hafi séð þessa bók, og þess vegna er full ástæða til að helga vísum Jóns uppistöðu þessa vísnaþáttar. Inngangsvísa er að bókinni, sem er svona:

Svo ei verði á svörum hik,
sannleikskornum stráðu,
Iðunn kær, og augnablik
anda þinn mér ljáðu.

Vinamissir
Vinaböndin verða fá,
valt er tímans yndi.
Eftir stend ég eins og strá,
einn í hvössum vindi.

Settu markið hátt
Markið settu himinhátt,
harma léttu í nauðum.
Svangan metta, ef saðning átt,
silfrið réttu snauðum.

Af því muntu öðlast hrós,
auðgast dyggðum sönnum,
viljirðu þitt litla ljós
lýsi öðrum mönnum.

Konuval
Lánið frá þér liggur spönn,
líka hitt er veldur baga.
Það er gömul saga, sönn,
svo var það um mína daga.

Vertu jafnan varfærinn,
veigagná þó fáir kyssta.
Komstu að því karlinn minn
hvort hún er á svörtum lista.

Hvort er betra
Ef ég reyni að yrkja gott,
enginn vill það heyra.
Geri ég níð og napurt spott
nær það hvers manns eyra.

Vandasamt því verður hér
vel úr málum skera.
Hvort er betra, herm þú mér
hvað á ég að gera?

Setti ég kjaftinn sóttkví í,
sem er réttur vegur,
yrði ég talinn allt að því
óaðfinnanlegur.

Kæruleysi
Viljirðu standa föstum fót
fram í tilverunni,
best er þá að breyta mót
betri vitund sinni.

Mammon
Fávitans um heimsku hof
heldur ágirnd vörðinn.
Margan þvingar mjög um of
Mammons náragjörðin.

Varla grillir grænt í strá,
gæfu hallar línum.
Nú er myglað moðið á
Mammons stalli þínum.

Dýrtíðin
Dýrtíðin er geysigrimm.
Gengur fram úr lagi,
þegar krónur knappar fimm
kostar einn rauðmagi.

Ágirndin er óskoruð,
alþýðunni klórar,
gömul bæði og grindhoruð
grásleppan á fjórar.

Um prest
Rennir færi röng á mið,
rær oft andans tómu fleyi.
Tónar eins og tarfur við
tóman stall á vetrardegi.

Hárin grána
Hárin grána, hallar leið,
helst að ránarslóðum.
Valt er lán, en vökin breið,
vegurinn skánar óðum.

S.E. sendi okkur þessa vísu fyrir nokkru, en hún er ort í tilefni af því að rafsuðumenn eru nú á förum í atvinnuleit til Noregs:

Ekki kippir öllu í lag
íhaldsstjórnin nýja,
út til Noregs eru í dag
iðnaðarmenn að flýja.

Maður nokkur sem var kynvilltur var eitt sinn fánaberi í skrúðgöngu templara. Þá var ort:

Gvendur undan gúttaher
gekk og bar sinn klafa,
af því hann á eftir sér
enginn vildi hafa.

Þegar ljóðakver Halldórs Laxness kom út þótti sumum það fremur óskáldlegt. Það var mjög gisprentað og oft aðeins ein vísa á síðu. Ingveldur Einarsdóttir á Reykjum í Mosfellssveit orti þá:

Þitt hef ég lesið, Kiljan, kver,
um kvæðin lítt ég hirði,
en eyðurnar ég þakka þér,
þær eru nokkurs virði.

Svo koma hér þrjár vísur sem Jónas Friðgeir á Ísafirði sendi okkur.

Söngurinn á eyrinni
Situr að völdum soralýður
sultur og seyra okkar bíður.
Undan böðuls svipu svíður
sárt er að vera verkalýður.

Undanslátt á alla kanta
íhaldið og framsókn panta.
Allt má verkalýðinn vanta,
virðist hugsun stjórnarfanta.

Og svo að lokum ein hlunkhenda út af því sem á undan er gengið:

Þjóðin oft má þrautir reyna
því er ekki neitt að leyna,
það er eins og fjandinn standi
upp á miðju þessi landi.

Nokkrir hafa skrifað okkur og óskað eindregið eftir því að við höldum áfram að birta fyrriparta fyrir menn að spreyta sig á. Við skulum því gera eina tilraun og sjá hvort menn hafa áhuga á að botna. Fyrri parturinn er eftir Valdemar Lárusson:

Af óstjórn komið nú er nóg,
nærri tómur kassinn.

Þjóðviljinn 20. apríl 1975

Gera vann sig breiðan Björn
Ég vil byrja á því að geta þess, að við gefum mönnum hálfsmánaðar frest til að skila botnum við fyrri partinn úr síðasta þætti þannig að enginn botn birtist að þessu sinni.

Fyrstu vísurnar sem við birtum að þessu sinni sendi M.B. okkur og heitir sá fyrri:

Heilræðavísa
Gera vann sig breiðan Björn
á barndómsárum sínum,
en er nú sparð í Gylfa görn
gæt að orðum mínum.

Haustvísa á vori
Blómin fjúka burt frá mér
byljir hnjúka særa.
Vil ég mjúka meyjan þér
millum strjúka læra.

Einar Hjálmar Guðjónsson frá Seyðisfirði benti okkur á villu sem varð í vísu er hann sendi okkur og birt var 6. apríl sl. Hún heitir Iðrun og byrjar svona Iðrun lítið gerir gagn

Jakob Pétursson frá Hranastöðum orti þessa ágætu vísu:

Er á gleði orðin þurrð
allt er þungt í vöfum,
ævi minnar hallast hurð
helst til fljótt að stöfum.

Einn kunnasti núlifandi hagyrðingur landsins er tvímælalaust Egill Jónasson frá Húsavík. Við skulum nú líta á nokkrar vísur eftir hann þar sem saman fer hans einstaka hagmælska og þá ekki síður hans létti og skemmtilegi húmor.

Eitt sinn heilsaði hann arkitekt sem ekki tók undir og þá orti Egill:

Enga fékk ég undirtekt,
á því mína skoðun byggi,
að arkitekt með eftirtekt
sé afar sjaldgæft fyrirbrigði.

Þakkarávarp Egils til Dalamanna, Strandamanna og Snæfellinga eftir bændaför Þingeyinga:

Ferð var góð um lög og lönd,
lýsti glóð og tengdust bönd,
þökkum bróðurbros og hönd,
bestan sjóð um dal og lönd.

Þessa vísu orti Egill um kvæði eftir Karl Ísfeld þar sem alla upphafsstafi vantaði:

Ísfeld er skáld, það er enginn vafi,
eignast þyrftum við fleiri slíka,
en úr því hann sparar upphafsstafi
ætt, ann að fækka hinum líka.

Egill sendi Ásgeir frá Gottorp þessa vísu á áttræðisafmæli Ásgeirs:

Minnast vil ég merkisdags
mæni á þínar slóðir,
þó ég hafi ei hóf né fax
hneggja ég til þín bróðir.

Staka
Gengi manna mjög er valt
mörg það sanna örin.
Þessi brann og þessi svalt
þarna eru tannaförin.

Kristján Ólafsson frá Húsavík orti:

Haustsins mál þig orkar á
innsti sálarkjarni,
eins og þrá og eftirsjá
yfir dánu barni.

Um þessa vísu orti Egill:

Sólin lækkar hægt og hægt,
hallast göngulína,
svona orðar veröld vægt
vetrarboðun sína.

Um bókina Hitabylgju eftir Baldur Óskarsson sem Engilberts myndskreytti orti Egill:

Hitabylgja hafði gert
hunangsilm af töðunni,
svo varð alveg engilbert
ástandið í hlöðunni.

Helgi Sæm. sagði einhvern tíman að ekki yrði vart við fyndni hjá Þingeyingum nema hjá Agli og þá kvað hann:

Stakk mig vafi heiðurshnýfli,
hnúta sú er fjandi slæm,
nýja mynd af Flóa-fífli
finnur í mér Helgi Sæm.

Hálfdán Bjarnason frá Bjarghúsum yrkir:

Oft er vökult auga um nótt
og á hrökum vörnin.
Mínar stökur fæðast fljótt
framhjátöku börnin.

Og einnig þessa vísu:

Oft er dreymin innsta þrá,
af því gleymist skuggi.
Stakan sveimar ofan á
andans heimabruggi.

Og enn:

Loft í höllum geislar gljá,
glitrar trölla skalli.
Táhrein mjöllin tindrar á
túnum, völlum, fjalli.

Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi yrkir:

Ei mér fæðist óður nýr,
eins og stundum forðum,
allar mínar ær og kýr
anda halda í skorðum.

Ingibjörg Sigfúsdóttir yrkir:

Kæti hrakar, stirðnar stef,
stormablak ei hræðist.
Raun er að vaka alein ef
engin staka fæðist.

Jón Jónsson frá Eyvindarstöðum yrkir:

Rökkurs undir rósavef,
rétt á fundi skotið.
Ég hjá sprundum oft þá hef
unaðsstunda notið.

Og þessa sléttubandavísu:

Mjallaskelli fræin fá,
fjalla svella hlíðar.
Skalla velli góa grá
gallar hrella tíðar.

Halldór H. Snæhólm orti um mann sem vildi komast í hreppsnefnd:

Enginn þokki eða trú
að þér lokkar hylli.
Þriggja flokka þú ert hjú
þeirra brokkar milli.

Þjóðviljinn 27. apríl 1975

Þura í Garði
Því miður fara of sjaldan saman snilldar hagmælska og húmor. Einhverra hluta vegna hafa þeir fáu hagyrðingar sem sameina þetta tvennt alltaf heillað mig mest. Einn af þeim hagyrðingum sem sameina þetta er Þura í Garði. Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að ætla að fara að kynna Þuru fyrir áhugafólki um vísur, hún er því öllu kunn. Og kannski er það einnig að bera í bakkafullan lækinn að birta hér vísur hennar, þær hafa flestir heyrt eða lesið. En kannski er langt síðan þið hafið lesið vísurnar hennar, og aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þess vegna látum við vísur Þuru í Garði bera vísnaþáttinn uppi að þessu sinni. Og fyrsta vísan eftir Þuru sem við birtum að þessu sinni er svona:

Varast skaltu vilja þinn.
veik eru manna hjörtu.
Guðaðu samt á gluggann minn,
en gerðu það ekki í björtu.

Vísur Þuru í Garði bera það ekki með sér að þessi vísa gefi alveg rétta mynd:

Svona er að vera úr stáli og steini
stríðin, köld og ljót,
aldrei hef ég yljað sveini
innað hjartarót.

Svo snýr hún við blaðinu og segir:

Ekki fór ég alls á mis,
þú yljaðir mínu hjarta.
Man ég enn þín brúnablys
björtu og hárið svarta.

Dagmálaglenna
Þetta, sem að alveg er
eins og dagmálaglenna,
þegar menn fara að finna á sér
fyrstu áhrif kvenna.

Þankastriksvísa
Við skulum ekki hugsa um hann
heldur einhvern stærri mann.
Það er eins og þankastrik
þetta litla, stutta prik.

Fundin tala
Þessari vísu fylgir sú saga að eitt sinn meðan Þura gætti Lystigarðsins á Akureyri hafi hún fundið bælt gras í runna og tölu af buxnaklauf, þá sagði hún:

Morgungolan svala svalar
syndugum hugsunum.
Sínu máli talan talar,
talan úr buxunum.

Bændur á Grænavatni klæddu peningshús sín bárujárni. Þá kvað Þura:

Framsókn mörgum gerir grikk,
glampar í augun stinga.
Allt er komið undir blikk
íhald Grænvetninga.

Einhver rómantík býr að baki þessari vísu:

Í ljóði vil ég lofa kvöld,
þá lampinn fór í „maska”.
Það voru makleg málagjöld.
Myrkrið er til að braska.

Hugdetta eftir ræðu á útifundi
Maður einn flutti ræðu á skemmtifundi, talaði um vorið, m.a. sagði hann frá því að hann hefði hlaupið yfir vallargarðinn, misst fótanna og fallið á grúfu til jarðar. Þá kenndi hann fyrst af mjúkum faðmi og angan jarðar, að vorið var komið:

Þarna styrktist þrótturinn,
það var fyrsta sporið.
Þvílík dásend drottinn minn
að detta á grúfu í vorið.

Eftir danssamkomu
Aldrei hef ég komist í jafn þægilega þröng,
þetta var um vetur, en nóttin ekki löng.
Þó alltaf væri dansað, fór enginn maður snúning
En ég hef heyrt að sumir fengju magasár af núning.

Einar Sæmundsen kom að Garði og kvað:

Þá er ég kominn, Þura mín,
að þínum ranni.
Þrjátíu ár ég þráði fundinn,
þó að ég væri annarri bundinn.

Þura svaraði:

Kætir mig þú komst að sjá
kvenna og sveitarprýði.
Nú er lokið þeirri þrá
og þrjátíu ára stríði.

Þó ég sé fræg í minni mennt,
margt hefur öfugt gengið.
Sagt er að heimti þráin þrennt
þegar eitt er fengið.

Freymóður málari ljóðaði á Þuru:

Væri ég aftur ungur sveinn,
ekki skyldi ég gefa neinn
snefil af mínum ástararði
annarri konu en Þuru í Garði.

Og Þura svaraði:

Hvað er að varast?
Komdu þá!
Hvar eru lög sem banna?
Ég get lifað allt eins á
ástum giftra manna.

Skeyti svarað
Iðnskólapiltar frá Akureyri staðnæmdust í Garði og tveir þeirra gengu heim og færðu Þuru þessa vísu:

Þura í Garði þraukar hér
þögul á vatnsins bakka.
Ef hún kynntist meira mér
myndi hún eignast krakka.

Og Þura svaraði:

Ekki þarftu að efa það,
ég mun borga skeytið.
Nefndu, drengur, stund og stað
og stattu við fyrirheitið.

Þetta látum við nægja að sinni af vísum eftir Þuru í Garði.

Botnar
Eins og ég átti von á var þátttaka lítil í að botna fyrripartinn sem við birtum fyrir tveim vikum, og munu því ekki fleiri fyrripartar koma í þessum þætti. Þeir botnar sem bárust við fyrri partinn

Af óstjórn komið nú er nóg
nærri tómur kassinn.
Íhaldið og Óli Jó
eru að detta á rassinn.
VL.

Aldrei meira áður vó
auglýsinga-klassinn
S.E.
Ennþá fægir Framsókn þó
fjárplógsmannarassinn.
Adm.

Þjóðviljinn 4. maí 1975

Allt sem þjóðin átti og naut…
Með vísnasöfnun sinni og síðar útgáfu á Vísnasafni eitt og tvö hefur Sigurður Jónsson frá Haukagili unnið ómetanlegt starf sem vísnavinir fá aldrei fullþakkað. Nú á tímum, þegar hagmælska virðist á undanhaldi eða það þykir ekki lengur fínt að yrkja stöku í stað atómljóða, þá er það dýrmætara enn menn kannski grunar að safna þeim vísum sem enn eru ortar, hvað þá þegar slík drift fylgir að gefa safnið út í bók.

Sigurður hefur gefið okkur leyfi til að birta nokkrar vísur úr vísnasafni sínu og munu vísur úr safni hans að mestu leyti bera uppi þennan þátt. Í Vísnasafni 1 hefur Sigurður notað vísu skáldsnillingsins Steingríms Baldvinssonar frá Nesi sem einkunnarorð en hún er svona:

Allt sem þjóðin átti og naut,
allt sem hana dreymir,
allt sem hún þráði og aldrei hlaut
alþýðustakan geymir.

Það er mikill sannleikur í þessari vísu Steingríms, ekki síður en þessum vísum Stefáns G.

Undarleg er íslensk þjóð
allt sem hefur lifað,
hugsun sína og hag í ljóð
hefur hún sett og skrifað.

Hlustir þú og sé þér sögð
samankveðna bagan
þér er uppi lófa lögð
landið, þjóðin, sagan.

Og þeir voru fleiri Vestur-Íslendingarnir sem höfðu taugar til vísunnar eins og alkunna er. Þessi vísa er eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson:

Finnst mér lýsa um brjóst og bak
bjartra dísa geislahringur,
hvar sem íslenskt tungutak
týnda vísu aftur syngur.

Einar Þorgrímsson, annar Vestur-Íslendingur yrkir í vonleysi:

Ég er blauður orðinn þræll
og mun trauður gleyma,
nú væri auður vinur sæll
að vera snauður heima.

Jónas Jóhannsson frá Öxney á Breiðafirði yrkir:

Hlátur brestur, grátur grær,
gæfa sést á reiki.
Sá hlær best er síðast hlær
svo er um flesta leiki.

Þórarinn Sveinsson í Kílakoti yrkir á góðri stund:

Hornasjórinn hressir geð
hylli sór ég veigum.
Dýran bjórinn drósum með
drekk í stórum teygum.

Sigurður Jónsson frá Kaldadal var nýgiftur og kom til kirkju. Heilsaði hann karlmönnum með kossi en konum með handarbandi. Þetta þótti mönnum skrýtið en Sigurður svaraði:

Ekki kyssa mey ég má,
mér er skylda að baki.
Aðeins finna ylinn frá
einu handartaki.

Í annað sinn leit Sigurður í ung og heit meyjaraugu og sagði:

Böl er sveinum bið og hik
best í leynum gengur.
Þetta eina augnablik
ætti að treinast lengur.

Haraldur Hjálmarsson frá Kambi, sem við höfum oft birt vísur eftir, yrkir til konu:

Mikið ertu fjölluð, frú,
fjörið mun því valda.
Kvakaðu til mín þegar þú
þarf á manni að halda.

Um konu eina sem þótti aðsjál orti Sigurbjörn Jóhannsson frá Fótaskinni:

Auð þótt hálan hangi við
harðlynd fálan bauga.
Þrengra sál mun himins hlið
en hesti nálarauga.

Jakob Ó. Pétursson frá Hranastöðum yrkir:

Leitt er karlsins kjótl og tutl,
káf í pilsum betl og fitl.
Sífellt nudd og rjátl og rutl,
ráp og trítl og dútl og kitl.

Tómas Jónsson og Skarphéðinn Einarsson báðir á Blönduósi, sambýlingar og vinir hafa oft kveðist á sér og öðrum til ánægju. Eitt sinn kvað Tómas:

Ég hef séð þess vísan vott
á vorum kjaftafundum,
að Skarphéðinn vill gera gott,
en gleymir því bara stundum.

Skarphéðinn svaraði:

Víða brotinn veit ég pott
vil sem dæmi taka,
að Tómas mörgum gerir gott
en grípur sumt til baka.

Lífshlaupi sómamanns lýsir Stefán Stefánsson frá Móskógum þannig:

Labbar fullur lífsins slóð
með litla fyrirhyggju,
út og suður eltir fljóð
og endar á Kvíabryggju.

Stína og ástin fá þessa viðurkenningu frá Stefáni:

Ástin kyndir elda sína
ásamt girndinni.
Ég hef yndi af þér Stína
eins og syndinni

Þorsteinn frá Gilhaga orti um mann sem giftist aldraðri ekkju:

Kalt er ástarþelið þitt
þó ei framar vonum.
Það er illt að eiga sitt
undir haustveðronum.

Á Alþingi 1958-1959 sótti Björgvin Jónsson þingmaður Seyðfirðinga allfast á ríkisframlög ýmiss konar, Seyðfirðingum til handa. Þá orti Karl Kristjánsson:

Held ég að Björgvin hirði
helminginn ríkisfjár.
Sólin á Seyðisfirði
sest ekki þetta ár.

Þetta látum við nægja í bili úr vísnasafni Sigurðar frá Haukagili. Næstu tvær vísur bárust okkur fyrir skömmu. S.E. yrkir þá fyrri:

Í minni skúffu vildi ég gjarnan að ég ætti
og engan skattinn af því sætti
alla landsins vísnaþætti.

„Járnharður” sendir okkur þessa vísu í tilefni forsíðumyndar Þjóðviljans 27.4. sl.

Þá lærastautinn líta vann
lyftist brún að vonum.
Lengi endast ætti hann
inní rauðsokkunum.

Þjóðviljinn 11. maí 1975

Af hæsta priki heyrist vein…
Þessi vísnaþáttur verður eingöngu helgaður vísum sem okkur hafa borist að undanförnu, og er þá fyrst ein sem flaug innum gluggann á dögunum þegar Vilmundur var að hrella Matthías bifreiðarkaupanda:

Úr Vilmundarrimmu hinni nýjustu
(Vimmi minkur í stíunni)

Þá Vilmundur með voðans flein
vatt sér inn með steigurlæti,
af hæsta priki heyrðust vein
hænsnanna við Kirkjustræti.

Nú deila guðsmennirnir okkar rétt einu sinni um rétt og rangt í dýrkun vorri á þeim himnafeðgum og sýnist sitt hverjum eins og gengur. Í því tilefni yrkir N:

Sálina guðlausa geymir
Í girndum við rökkurból.
Hýðingameistarinn ——
hreykinn á Skálholtsstóli.

Ástafar prestsins
Meyna hægt á sófann setti,
síður strauk á biblíunni.
lipur bókarblöðum fletti
blessun hlaut af ritningunni.

Vor
Vorinu fylgir von og sól
vaxtarþrár og draumar.
Blómaskrúð á bæjarhól
og blakkir jökulstraumar.

Og þegar talið berst að sumri og sól þá er ekki úr vegi að birta nokkrar ferðavísur eftir Adolf Petersen, ortar á þeim stöðum sem sumarferðamenn sækjast mest eftir.

Í Þórsmörk
Fögnuð sótti í fjallasal,
fegurð þrótti borin.
Löngum rótt í Langadal
og ljós er nótt á vorin.

Loftið kliðar ljúfum hljóm
lýsir friði myndin.
Allt um sviðið anda blóm
undir niðar lindin.

Vorið fangar vini nær,
vekur langan mína.
Kjarrið angar, kvöldsins blær
kyssir vanga þína.

Svanir yrkja sólarljóð
söngsins virkja gleði.
Álfakirkjan opin stóð
andann styrkja réði.

Hugann seiðir hjalli og skeið,
hált um breiða salinn.
Þá er greiðfær gönguleið,
gegnum eyðidalinn.

Mild og heið er morgunstund,
margan seiðir huga,
Við skulum leiðast mund í mund
meðan skeiðin duga.

Griðastaður
Þegar vítt er vengi sett
viðjum klaka og fanna.
Gott er að eiga grænan blett
í garði minninganna.

Einar Hjálmar Guðjónsson sendir þættinum þessar vísur:

Bálega tókst með alþing enn
Byggðastefnan brást þar enn,
bágt er til að vita,
hve flatir liggja forsvarsmenn
fyrir spón og bita.

Margir höfðu hugsað sér
hlutdeild vora stærri.
Hátíðarárið horfið er
— hungurvofan nærri.

Andstreymi
Fjöldinn gengur flónsku á vald
fögrum dyggðum tapar.
Aldrei hik né undanhald
ávinninginn skapar.

Víða er brask á Fróni frægt,
fastur er sá liður.
Svikamyllan malar hægt
mannkostina niður.

Málgagn heimskunnar
Frekja og heimska fylgjast að
fölsuð rök og lýgi.
Eiga sér á einum stað
örugg saman vígi.

Á Öræfum
Hvar sem fer þín ferðasál,
um fjöll og eyðisanda.
Töfrar lands og tungumál
tala í sama anda.

Fjallahreimur fyllir sál
fögnuð heima vandar.
Heiðin geymir huldumál.
Hljóðir sveima andar.

Á Hveravöllum
Heillagyðjur hafa völd,
huga seiða manna.
Dátt sér leika og dansa í kvöld
dísir öræfanna.

Náttfall
Fjalla grætur feldur blár
foldar vætir kinnar.
Drjúpa lætur daggar tár
drottning næturinnar.

Í Kerlingarfjöllum
Fögur ertu fóstra mín,
fjöll og heiðar þínar,
hafa líka hrjóstur þín
heillað sjónir mínar.

Við stiginn
Sem í móðu saga vor,
sýnd en fróðleik dylur.
Gömul þjóðar gengin spor
götuslóði hylur.
Adolf J. E. Petersen.

Þjóðviljinn 25. maí 1975

Margur er kátur maðurinn…
Einn af velunnurum vísnaþáttarins kom með þessa frábæru vísu til okkar fyrir skömmu, en sagðist ekki vita eftir hvern hún er, og þætti okkur væntum ef einhver vissi hver höfundurinn er og léti okkur vita, en vísan er svona:

Margur er kátur maðurinn
og meyjan hneigð fyrir gaman,
en svo kemur helvítis heimurinn
og hneykslast á öllu saman.

Einar Hjálmar Guðjónsson sendi okkur þessa vísu og kallar hana Okrarastéttina:

Hún vill hlúa að sverum sjóð,
á silfrið trúa og fela,
þráfalt sjúga þreyttra blóð
þjóðarbúi stela.

Við gátum ekki birt allar ferðavísurnar hans Adolfs Petersens í síðasta þætti, en hér koma þær 6 sem eftir urðu:

Við Veiðivötn
Orpið sandi allt að sjá,
eyðimörk í dalnum,
en vötnin lygnu björt og blá
brosa í fjallasalnum.

Við Eyvindarver
Þeim varð gæfugatan hál
að greiðastaðinn finna.
Auðnin geymir einkamál
útlaganna sinna.

Nótt í Nýjadal
Næturhiminn, næturglóð,
nætur stjörnuhringur,
á næturhörpu næturljóð
næturgalinn syngur.

Einn ég sveima um auðan völl
undir mánaskini,
óska mér að Íslands tröll
ætti nú að vini.

Máninn skín og skreytir blá
skaut með stjörnurósum.
Björtum ljóma bregður frá
bjarma af norðurljósum.

Árla
Döggin vætir dalarós,
dagsins mætir veldi.
Rjóð á fætur röðulljós
rísa af næturfeldi.
Adolf J. E. Petersen.

Næst skulum við líta á nokkrar gaman- og kersknisvísur. Sveinn Guðmundsson, járnsmiður á Eyrarbakka, fór eitt sinn út í Þorlákshöfn og sá þar kunningja sinn vera að hlaða upp hertum þroski, og þá kvað Sveinn:

Það ég hörðust handtök sá
í Hafnartúrnum mínum,
þegar Steini þuklaði á
þurrum nafna sínum.

Guðmundur Pétursson, kennari á Eyrarbakka, var vinur Sveins og ljóðaði stundum á hann. Eitt sinn sagði Guðmundur:

Segðu mér hvar sálin mín
síðast á að lenda.

Sveinn svaraði:

Vísurnar og verkin þín
á verri staðinn benda.

Guðmundur dúllari varð ekki kunnur af vísnagerð, en þessa vísu orti hann þó er hann var staddur að Reykjum í Lundarreykjadal:

Sjöunda júní sagt er mér að sé ég fæddur,
nokkuð miklum gáfum gæddur,
en gat ei orðið vel uppfræddur.

Eitt sinn gaf Stefán Vagnsson séra Jóni Thorarensen bók sem heitir Marína og lét þessa vísu fylgja með:

Vert er að hlú að velsæmi,
von og trú það gefur.
En þú skalt snúa að þessari
þegar frúin sefur.

Gömul útreiðarvísa úr Reykjavík:
Ástin hún er ekki stygg
í útreiðinni.
Þau föðmuðust svo að fór um hrygg
hjá frökeninni.

Guðfinna Þorsteinsdóttir orti er hún heyrði þess getið að hægt væri að vinna túnáburð úr loftinu:

Tíminn marga ræður rún,
sem rökkrið áður faldi.
Guðs úr englum tað á tún
taka þeir nú með valdi.

Þegar Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrum Dalasýslumaður, lést var þessi vísa ort, en Þorsteinn var einn mesti bókamaður landsins:

Fallega Þorsteinn flugið tók
fór um himna kliður,
Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Sagt er að þessi vísa sé eftir Guðmund Böðvarsson skáld á Kirkjubóli. Stefán Jónsson fréttamaður kallar þessa vísu sína Flokksfylgið:

Þeir yfirgefa hann einn og tveir
uns á hann sitt fylgi í ský jonum,
en Alþýðuflokkurinn fríkkar æ meir
því færri sem eru í honum.

Meyjarhrós
Fagurt hrósið fyrir það eitt
fær sú meyjan hreina,
að hún tekur aldrei neitt
annarra þörf til greina.

Ólína Jónsdóttir á Sauðárkróki sá þrjár stelpur og þrjá stráka ganga fyrir glugga og orti:

Misjafnlega tíminn timbrar
og teygir þessi jarðarpeð.
Líttu á þessar litlu gimbrar
og lambhrútana skokka með.

Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn skrifaði þessa vísu framan á bók sína Úr landsuðri og sendi kunningja sínum:

Er opna ég þetta yrkingakver
með andfælum við ég hrekk:
Hvort er þetta heldur ort af mér
ellegar Ríkharði Beck?

Þjóðviljinn 1. júní 1975