Smátt og stórt 2000

Nú virkar allt
Mikið var um atkvæðagreiðslur í lok þinghaldsins í maí eins og alltaf vill verða þegar nær dregur þinglokunum. Tölvukerfið við atkvæðagreiðslur, á það til að frjósa og það hefur t.d. nokkrum sinnum gerst í sæti Ísólfs Gylfa. Við hlið Ísólfs situr formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir. Eitthvað var tölvukerfið í atkvæðagreiðslu að stríða þingmönnum og þá gall í Rannveigu. „Hann virkar meira að segja hjá Ísólfi.” Í næstu atkvæðagreiðslu gall í Rannveigu:„Nú virkar ekkert hjá mér.” Þetta voru menn fljótir að túlka, hver á sinn hátt og orti þá Hjálmar Jónsson:

Mennirnir búa við misjafnan hag
málsstaður varinn og sóttur.
Virkar nú allt hjá Ísólfi í dag
en ekkert hjá Rannveigu Guðmundsdóttur.

Víst hefði Jörmundur vellina prýtt
Ekkert lát er á vísnagerð í sambandi við kamramálið á Þingvöllum þar sem deildu heiðnir menn og kristnir
um hver mætti ganga örna sinna og hvar. Þessi vísa hygg ég að sé ort á Hvolsvelli:

Víst hefði Jörmundur vellina prýtt
og von er hann fyllist nú leiða
er kristnir menn fá að kúka þar frítt
en kórmenn hans þurfa að greiða.

Dagur 9. júní 2000

Þegar kratar kyrja Nallann
Það bar við skömmu eftir að Samfylkingin hélt sinn stofnfund að Mogginn var að amast við því að stofnfundarfulltrúar hefðu í fundarlok sungið Internationalinn og þótti það hin mesta hneisa. Þá varð kunnum hagyrðingi að orði:

Ánægðir með íhaldsgallann,
auðþekkt slóðin.
En þegar kratar kyrja Nallann
kímir þjóðin.

Heilræðavísa
Hinn frábæri hagyrðingur, Pétur Pétursson læknir á Akureyri, gefur tímabært heilsuheilræði í eftirfarandi vísu sem birt var í Læknablaðinu:

Hver sem tóbaksruddan reykir
reynir frelsissviptingu.
Hann æðar skemmir, krabba kveikir
og kæfir holdsins lyftingu.

Dagur 16. júní 2000

Náðhússátt
Nú er kominn tími til að vera með einn góðan vísnaþátt. Um fátt hefur meira verið ort undanfarið en kamraslag kristinna manna og heiðinna á Þingvöllum enda málið allt hið skemmtilegasta. Það gat því ekki hjá því farið að snillingurinn Hákon Aðalsteinsson skógarbóndi og lífskúnstner að Húsum í Fljótsdal, léti í sér heyra um málið en hann orti:

Náðist loksins náðhússátt,
nú eru allir vinir.
Ásalið er kampakátt
og kúkar eins og hinir.

Dásamlegt í hófi
Við birtum á dögunum vísuna:

Hver sem tóbaksruddan reykir
reynir frelsissviptingu.
Hann æðar skemmir, krabba kveikir
og kæfir holdsins lyftingu.

Það er Pétur Pétursson, læknir á Akureyri, sem orti þessa heilræðavísu. Kollega hans fyrir norðan þótti Pétur nokkuð strangur í vísunni og sagði:

Pétur má ég tæpast trufla,
tyft mig getur skáldsins lófi.
En elska, reykja, drekka og dufla
er dásamlegt í góðu hófi.

Um Suðurland hjálpræðið ber
Nú eru þingmenn farnir að hugsa í nýju kjördæmunum sem taka gildi við næstu kosningar. Kristján Pálsson alþingismaður úr Reykjanesbæ mun fara fram í Suðurkjördæmi sem nær frá Reykjanesi að Höfn í Hornafirði. Hann er því farinn að horfa í austurátt og tók þátt í umræðu í þremur málum sem snertu Suðurlandskjördæmi í fyrirspurnartíma á lokadögum þingsins í maí. Þarna var fjallað um Hagavatn, Geysi og Þjórsárver. Af því tilefni orti Páll Pétursson félagsmálaráðherra frá Höllustöðum:

Einn seggur úr Sjálfstæðisflokki,
um Suðurland hjálpræðið ber.
Um Hagavatn heldur að Strokki
og hleypur í Þjórsárver.

Dagur 20. júní 2000

Það var andskoti erfiður tími
Eins og menn eflaust muna var Lúðvík Bergvinsson alþingismaður um tíma í vetur að pæla í að gefa kost á sér til formanns Samfylkingarinnar. En að lokum hætti hann þó við og þá orti Sighvatur Björgvinsson í orðastað Lúðvíks:

Það var asskoti erfiður tími
endalaus póstur og sími.
Mér var hossað og hælt, ég var hylltur
af hótunum fékk ég minn skammt.
En ég er gætinn og gáfaður piltur
og gaf ekki kost á mér samt.

Óhljóðin frá Álftagerði
Grímur Jónsson er fæddur á Akureyri 1957. Hann er góður hagyrðingur enda á hann rætur í Skagafirði og er frændi þeirra Álftagerðisbræðra. Hann sendi þeim þessa kveðju:

Skagfirðingar skil ég verða
skeikulir á lífsins vegi,
með óhljóðin frá Álftagerði
í eyrunum á hverjum degi.

Dagur 23. júní 2000

Ríðum heim að Hólum
Hólastóll var um aldir, ásamt Skálholti, bæði biskupssetur og mesta menningarsetur landsins. Síðan breyttist margt og staðurinn var gerður að bændaskóla sem gekk bæði upp og niður. Staðurinn þótti setja mikið niður undir skólastjórn Gunnars Bjarnasonar hrossaræktarráðunauts, sem varð raunar að segja af sér embætti við lítinn orðstí, nemendur á leið heim um miðjan vetur og staðurinn heylaus. Þá var þessi vísa ort:

Hart leikur Gunnar Hólastól
höfuðból feðra vorra.
Nemendur féllu fyrir jól
en fénaðurinn á þorra.

Síðan kom aftur biskup að Hólum og nú blómstrar staðurinn svo mjög að æðstu menn þessa lands nota Hóla til að flytja tímamótaræður. Allir muna ræðu forseta Íslands á Hólahátíð 1998 þegar hann ræddi um gagnagrunninn og setti allt á annan endann. Eða í fyrra þegar Davíð Oddsson hélt ræðuna frægu um að eiturlyfjabarónar og mafía væri að yfirtaka fjármálamarkaðinn á íslandi. Og loks á dögunum, þegar Halldór Ásgrímsson hélt tímamótaræðu um Ísland og Evrópusambandið. Nú bíða menn í ofvæni eftir því sem gerist að ári.

Óhljóðin frá Álftagerði
Ekki eru allir sammála því sem segir í vísu Gríms Jónssonar, sem við birtum á dögunum, um óhljóðin frá Álftagerði. Skagfirðingurinn Eyþór Gíslason svarar henni á þennan veg:

Ýmislegt sá að mér heyrði
sem eyðir friði og ró.
Af óhljóðum frá Álftagerði
aldrei fæ ég nóg.

Ykkur færi sól í sinni
Heiðurshjónin Haukur Steindórsson og Marta Gestsdóttir bændur að Þríhyrningi í Hörgsárdal héldu upp á sextugsafmæli sín á dögunum með stórveislu í sveitinni. Meðal afmælisgjafa sem þau fengu var að Álftagerðisbræður komu í veisluna og sungu fyrir afmælisbörnin og gesti þeirra, öllum til óblandinnar ánægju. Einnig var Marta sæmd starfsmerki UMFI fyrir mikið starf í þess þágu. En eftirfarandi vísur fengu hjónin frá nágranna sínum Arnsteini Stefánssyni:

Fylgi ykkur glens og gaman,
gerist ætið björt og heið,
gatan er þið gangið saman
gleðirík um æviskeið.

Að þakka góð og gömul kynni
gefst í þetta sinn.
Ykkur færi sól í sinni
sjötugsaldurinn.

Dagur 30. júní 2000

Andagift ég ekki skil
Hjálmar Jónsson alþingismaður var eitt sinn spurður um tilurð vísunnar og svaraði:

Andagift ég ekki skil
eða þekki,-
Stundum verður vísa til
og stundum ekki.

Dagur 7. júlí 2000

Gengur svo aftur á glerið
Einhverju sinni voru þeir Halldór Blöndal og Ragnar Arnalds saman á þingi Sameinuðu þjóðanna. Á milli tarna voru þeir boðnir í mat hjá Pétri Thorsteinssyni yngri. Ragnar borðaði í bókaherberginu en glerhurð skildi það frá hlaðborðinu og tókst honum á óskiljanlegan hátt að ganga á glerið og ekki einu sinni heldur tvisvar, þegar hann ætlaði að bæta á diskinn. Þá var Halldóri Blöndal nóg boðið og sagði:

Segir Ragnar og gengur á glerið:


,,Já, gálausir höfum við verið.”
Hann lítur til baka
hvað til bragðs skuli taka
og gengur svo aftur á glerið.

Leiðrétting
Við birtum á dögunum afmælisvísur til hjónanna Mörtu Gestsdóttur og Hauks Steindórssonar að Þríhyrningi í Hörgárdal. Villa var í fyrri vísunni en rétt er hún svona:

Fylgi ykkur glens og gaman,
gerist ætíð björt og heið,
gatan sem þið gangið saman
gleðiríka ævileið.

Dagur 14. júlí 2000

Þrífst ekki fyrir norðan
Guðmundur Malmquist telur að mikilvæg þekking glatist við það að Byggðastofnun flytji til Sauðárkróks. Hann virðist ekki hafa ofurtrú á þessari blessuðu landsbyggð sem hann er þó settur til starfa fyrir, fyrstur og fremstur. Af því tilefni orti Hjálmar Jónsson alþingismaður:

Byggðastofnunarstjórinn er
stöðugt að auka forðann,
en „mikilvæg þekking” því er ver,
þrífst ekki fyrir norðan.

Mannaveiðar
Lögreglan á Blönduósi hefur haft það að aðalstarfi í nokkur ár að liggja fyrir ökumönnum sem fara upp fyrir 90 km hraða í Langadal og á öðrum vegum í nágrenni Blönduóss, stöðva þá og sekta. Af fréttum að dæma virðist of hraður akstur vera eini glæpurinn sem framinn er á svæði Blönduósslöggunnar og fara reyndar miklar sögur af þessum „mannaveiðum” þeirra í nágrenni Blönduóss. Það væri ekki amalegt að lifa í landinu ef ekki fyrirfyndust aðrir glæpir en að aka örlítið of hratt í Langadal í Húnavatnssýslu. Þá hefði heldur þessi landsfræga vísa heldur aldrei verið ort:

Stela, ljúga og myrða menn,
meiða vesalinga.
Þessu trúi ég öllu enn
upp á Húnvetninga.

Grillheilræði mánaðarins
Nú stendur grilltíminn sem allra hæst. Pétur Pétursson læknir og hagyrðingur á Akureyri hefur sett fram kenningar um að samband finnist á milli kamfýlóbaktersýkinga og bjórdrykkju útigrillara, sem fæstir eru kunnáttumenn í smitgátarþætti matargerðar. Telur hann að þeir noti sömu ílát undir hráan og fullsteiktan mat til að spara uppþvott og snúninga. Þetta er grafalvarlegt mál og Pétur yrkir:

Við grillið þar hentar ei galsi né spé
og gæta þar hreinlætis átt,
einkum ef matbýrðu fiðurfé,
framliðið, mengað og hrátt.

Dagur 21. júlí 2000

Mannlegt eðli
Sá snjalli hagyrðingur, Ólína Jónsdóttir, sem lengst af bjó á Sauðárkróki, orti eitt sinn til Lúðvígs Kemp, sem einnig var þekktur hagyrðingur á sinni tíð:

Þó að stefni öll þín ást
að einum litlum bleðli,
þá er ekki um það að fást,
þetta er mannlegt eðli.

Dagur 11. ágúst 2000

Fyrirgefningin
Margt er hjalað þegar fólk kemur saman og ræðir um hina nýju útgáfu Árna Johnsen á þjóðsöngnum okkar, Ó guð vors lands, eða eins og það kemur út í hinum sérstæðu söng áherslum Árna: „Hó hvuð hvors hlands.” Ingvar Gíslason, fyrrum alþingismaður og menntamálaráðherra orti á dögunum til varnar Árna:

Þótt suma angri söngur hans
og sýnist gaman kárna,
fús mun góður Guð vors lands
gefa upp sakir Árna.

Dagur 15. ágúst 2000

Bara einu sinni á ári
Þegar Benedikt Gröndal var skipaður sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum eftir harðar deilur milli hans og Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi utanríkisráðherra, var þessi vísa ort í orðastað Benedikts:

Hjá Sameinuðu þjóðunum er svakalega gaman
við sitjum þar og spjöllum yfir kaffi og líkkjörstári,
en það finnst mér samt þægilegast af því öllu saman
að þangað kemur Jón bara einu sinni á ári.

Trúin haldi velli
Mönnum hefur orðið tíðrætt um hina mergjuðu hellismessu biskups Íslands um síðustu helgi og hagyrðingar að sjálfsögðu komnir af stað. Ólafur Stefánsson orti þegar hann heyrði af messunni:

Til að reyna að tryggja það
að trúin héldi velli,
biskup landsins bjóst af stað
og bauð til messu í helli.

Dagur 22. ágúst 2000

Blessaðu Vatnsfjörð og hann
Sumarið 1985 gerðu þeir Hannes Pétursson skáld og Einar Laxness sér ferð vestur í Vatnsfjörð að heimsækja vin sinn séra Baldur Vilhelmsson. Dvöldu þeir hjá presti í góðu yfirlæti og áttu þeir góðar stundir saman. Að skilnaði skrifaði Hannes í gestabók séra Baldurs:

Góð er gisting hjá presti
sem gleðjast með vinum kann.
Ó, Jesú bróðir besti
blessaðu Vatnsfjörð og hann.

Stend ég aftur upp á ný
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi var með bestu hagyrðingum sinnar samtíðar. Hann var það sem í þá daga var kallað að vera „pinnamaður.” Og eitt sinn orti hann:

Þó ég fari á fyllerí
og fái skelli,
stendur ég aftur upp á ný
og í mig helli.

Dagur 25. ágúst 2000

Krossinn klofinn
„Krossinn klofinn” sagði í fyrirsögn í DV í gær. Í fréttinni sagði frá því að helmingur safnaðar Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum hefði yfirgefið hann vegna þess að ekki væri hægt að vinna með honum lengur. Nánar er nú ekki skýrt frá ágreiningsefninu nema hvað að Krossinn sé stórskuldugur vegna húsbygginga og virðist þar lítið hafa dugað að kalla eftir aðstoð á æðri stöðum. Annars er spurning hvort hin illu öfl hafa náð tangarhaldi á fólki í þessum ágæta söfnuði því slægur er sá í neðra eins og segir á einum stað:

Andskotinn illskuflár.
Hann hefur snöru snúna
snarlega þeim til búna
er fara með fals og dár.

Í grófum dráttum
Þegar mest gekk á í kvennamálum Bill Clintons, eða réttara sagt eftirmálum þeirra, og allt leit heldur illa út fyrir bandaríska forsetanum orti Jón Ingvar Jónsson, fæddur á Akureyri en ættaður úr Skagafirði:

Gengi Clinton virðist vall,
vífin flestu spilla.
Í grófum dráttum gengur allt
gasalega illa.

Dagur 29. ágúst 2000

Ástir samlyndra hjóna
Séra Pétur Ingjaldsson, prófastur á Skagaströnd var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi en hann lést árið 1996. Margar góðar sögur eru til af þessum mikla húmorista. Ein er á þá leið að séra Pétur hafi eitt sinn tekið þátt í
spurningakeppni á vegum UMS A-Húnvetninga. Var þá meðal lesinn upp kafli úr Biblíunni og áttu þátttakendur að vita hvaðan kaflinn væri tekinn. Séra Pétur var skjótur til svars og nefndi bókina „Ástir samlyndra hjóna.” Þá var þessi vísa ort:

Í guðsorðalestri á gati hann stár,
þetta gáfnaljós kirkjunnar þjóna.
Aftur á móti er hann afburða klár
í Ástum samlyndra hjóna.

Dagur 1. sept. 2000

Margur huldu höfði fer
Þegar kjaradómur hækkaði laun alþingismanna hér um árið varð verkalýðsforystan óð af bræði. Mikið fjaðrafok varð af þessu og um fátt meira rætt þá í nokkra daga. Þingmenn voru að vonum fegnir launahækkuninni en vildu lítið um hana ræða opinberlega og fóru þá gjarnan yfir í aðra sálma væru þeir spurðir út í málið. Hjálmar Jónsson lýsti ástandinu svona:

Þjóðfélagið þrautir ber
og þingið á í raunum.
Margur huldu höfði fer
sem hækkaði í launum.

Yfir strikið
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi orti margar brennivínsvísurnar og þá einkum um sjálfan sig. Einu sinni setti hann þetta saman:

„Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima” mikið.
„Nú er horfið Norðurland”
nú er ég kominn yfir strikið.

Hann orti líka þessa vísu til Arnórs Sigurðssonar vinar síns:

Arnór Sigurs elskar vínið öðrum fremur.
Ekki smakkar neitt sem nemur
nema þegar Halli kemur.

Dagur 5. sept. 2000

Veður í skýjum
Ólína Jónasdóttir á Sauðárkróki var aðdáandi Halldórs Laxness eins og fleiri. En þegar leikrit hans Silfurtunglið kom út orti Ólína:

Listin oft hjá Laxness bjó,
lýsir enn af blysum nýjum.
Sumum held ég sýnist þó
Silfurtunglið vaða í skýjum.

Dagur 8. sept. 2000

Afmælisvísan
Enda þótt Jón Pálmason frá Akri væri hættur þingmennsku þegar Stefán Jónsson kom á þing gerði Stefán mikið af því að herma eftir Jóni og yrkja vísur í orðastað hans en Jón gerði mikið af því að yrkja. Í bókinni Já, ráðherra segir frá því að þegar Páll Ísólfsson organisti og tónskáld varð 75 ára hringdi Stefán í Morgunblaðið, hermdi eftir Jóni og fór með eftirfarandi vísu í slitruhætti, sem síðan var birt í Morgunblaðinu undir nafni Jóns Pálmasonar frá Akri.

Ó- það látið ei skal gert
að af- ég mæli syng um
og tónakálfinn töluvert
teitur dansar kringum.

Rófan á kettinum
Og meira um Stefán Jónsson og Jón frá Akri. Eftirfarandi vísu orti Stefán einhvern tímann í orðastað Jóns:

Það kliðar lækur hjá klettinum.
Það kúrir lóa rétt hjá honum.
Það er töluverð tónlist í kettinum
þegar troðið er á rófunni á honum.

Rauður eða grænn
Það hefur gengið mikið á í kringum Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúa að undanförnum. Alfreð á sumarbústað í Borgarfirði og nágranni hans þar, Ólafur Stefánsson á Syðri Reykjum, orti eftirfarandi limru þegar mest gekk á í síðustu viku:

Hann Alfreð er orðinn svo kænn
sem áður var þægur og vænn.
Vill íhaldsstjórn kljúfa
og kyrrstöðu rjúfa
kannski er hann meira rauður en grænn.

Dagur 12. sept. 2000

Veiðiþjófurinn
Á Stöð 2 síðastliðinn miðvikudag var viðtal við Vilhjálm Snædal, bónda á Jökuldal, sem sagðist hafa skotið tvö hreindýr sér til matar í sumar, en í óleyfi. Þegar nafn hans kom á skjáinn var hann titlaður veiðiþjófur. Þá sagði Jökuldælingurinn, skáldið og skógarbóndinn Hákon Aðalsteinsson svona eins og við sjálfan sig:

Þjóðarmiðillinn þykir mér grófur
á þessari nýju öld.
Vilhjálmur Snædal veiðiþjófur
var á skjánum í kvöld.

Mannlýsing
Það er sagt að Egill Jónasson, snillingurinn frá Húsavík, hafi ort þessa mannlýsingu:

Að guð muni hafa ætlað að gera úr honum mann,
það getur engum dulist sem að skoð’ ann.
Af leirnum hefur sjálfsagt verið lagt til nóg í hann
en líklega hefur mistekist að hnoð’ann.

Dagur 15. sept. 2000

Styrkum höndum
Og meira af Hákoni Aðalsteinssyni. Þessi vísa varð til hjá honum eftir að lögreglan fyrir austan hafði innsiglað frystigám með meintu stolnu hreindýrakjöti en gámurinn verið brotinn upp og kjötinu stolið:

Ekki reyndust ráðin tæp,
réttu tökin kunni.
Styrkum höndum stórum glæp
stal af lögreglunni.


Dagur 19. sept. 2000

Ástarvísa
Eftir þessa ágætu sögu er við hæfi að birta gamla vísu sem ort var um útreiðartúr hjá ungu pari í Reykjavík. Höfundurinn er ókunnur en vísan góð:

Ástin hún var ekki stygg
í útreiðinni.
Þau föðmuðust svo að fór um hrygg
hjá frökeninni.

Dagur 22. sept. 2000

Blessuð sé maðkanna minni
Laxveiðitímabilinu lýkur á morgun. Í tilefni þess er rétt að birta þessa skemmtilegu vísu eftir Ingibjörgu Guðmundsdóttur frá Berghyl í Fljótum:

Laxinn sér leikur á grynning.
Það lygnir í nótt – eftir spánni.
Blessuð sé maðkanna minning
sem mennirnir drekktu í ánni.

Dagur 29. sept. 2000

Réttardagur í Biskupstungum
Þeir Magnús Halldórsson frá Velli og Kristján Ragnarson frá Ásakoti ortu þessar réttarvísur á dögunum á réttardegi í Biskupstungum. Magnús kvað:

Sláttur á mönnum og slagsíða nokkur
slaga þó fákar í gamalkunn spor.
Syngjandi ríður hinn fjallhressi flokkur
flaksast í vöngunum tóbak og hor.

Ofan af jálkum menn hrynja í haugum
hamingjan magnast við sopanna fjöld.
Þó nokkuð víða sést ölvun í augum,
ástúðleg faðmlögin taka þá völd.

Þá orti Kristján:

Konurnar heimavið kátínu spara
er kemur hið breimandi sauðdrukkna lið.
Klárana geyma, í kjötsúpu fara
kurteisi gleyma að víkinga sið.


Liðinn er dásemdar dagur að kveldi,
dreggjarnar klára og víndrykkju þrótt.
Síðasta skálin í sólroðans eldi
sopin, og þá mun um rekkana hljótt.

Dagur 3. okt. 2000

Hnattræn meðvitund
Í máli sínu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra talaði Kolbrún Halldórsdóttir fjálglega um það greinilegt væri að Davíð Oddsson hefði ekki verið að hugsa um sjálfbæra þróun þegar hann samdi stefnuræðu sína, ekkert um umhverfismál væri í ræðunni og ríkisstjórnin hefði enga hnattræna meðvitund. Undir þessu tali setti Ásta R. Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingarinnar saman eftirfarandi vísu:

Við sjálfbærrar þróunar rugl og raus
ræða Davíðs var alveg laus.
Undir máli Kollu hengdi haus
hnattrænt meðvitundarlaus.

Jón Kristjánssyni fannst greinilega líka ástæða til að setja saman limru af sama tilefni hún er svona:

Kolbrún lét ljós sitt skína
og lét bara í sér hvína
málið hún rakti
og með þessu vakti
hnattræna meðvitund mína.

Dagur 6. okt. 2000

Austanþokan
Meðan þeir sátu báðir á Alþingi Helgi Seljan og Friðjón Þórðarson sendi Helgi Friðjóni þessa vísu:

Fáum hef ég fremri kynnst,
fjári snjall og iðinn,
eini gallinn að mér finnst
íhaldssjónarmiðin.

Þessu svaraði Friðjón:

Helgi bindur brag í myndum,
brestur hroka.
Eina syndin að hann blindar
austanþoka.

Dagur 10. okt. 2000

Þagnar aldrei
Á fjórðungsþingi Vestfjarða voru mættir þingmenn kjördæmisins auk nokkurra þingmanna annarra kjördæma. Það er siður þingmanna Vestfjarða á þessum fjórðungsþingum að enginn þeirra taki til máls nema 1. þingmaður kjördæmisins og tali þá fyrir hönd þeirra allra. Nú vildi svo til að Jón Bjarnason þingmaður úr Norðurlandi vestra var staddur á fjórðungsþinginu og vildi taka til máls. Honum var sagt frá hinni óskrifuðu reglu. Jón tók samt til máls og þá orti Sighvatur Björgvinsson:

Aldrei getur þessi maður þagað,
það er orðið leiðigjarnt að vonum.
Eins og vél sem engin getur lagað,
alltaf stendur bunan út úr honum.

Dagur 13. okt. 2000

Eftirlaunasjóðurinn
Barátta aldraðra fer mismunandi í þá öldruðu. Gamall karl, sem segist vera úr Flóanum, sendi mér þessa vísu. Ég hef grun um að hann búi nokkuð austar en í Flóanum.

Landlæknirinn gamli er ekki ellimóður
í öllum fjölmiðlum – hann hirtist hlýr og góður.
Það sést hann vill oss vel,
að virðingu ég tel
og því má áfram eflast
hans eftirlaunasjóður.

Dagur 17. okt. 2000

Hann er Strandamaður
Við birtum á dögunum vísu sem Sighvatur Björgvinsson orti til Jóns Bjarnasonar VG þingmanns vegna þess að honum þótti Jón tala of mikið. Í fyrra fékk Jón þessa vísu frá Halldóri Blöndal úr forsetastól. Honum þótti Jón fara mikinn í ræðustól og forseti í góðu skapi sem áður. Þeir Halldór og Jón eru mátar síðan Halldór var landbúnaðarráðherra og Jón skólastjóri á Hólum. Jón er fæddur og uppalinn fyrstu árin norður á Ströndum.
Vísa Halldórs er svona:

Höndum bandar hart og ótt
hýr, að vanda glaður.
Vinstri handar hefur þótt.
Hann er Strandamaður.

Dagur 20. okt. 2000

Lífsins skráargöt
Pétur Stefánsson, Skagfirðingur að langfeðgatali og góður hagyrðingur orti eitt sinn er hann heyrði af ungum stúlkum sem fóru um borð erlent skip:

Fara um borð með girndar gný
gráti næst er hvötin.
Gera leit að lyklum í
lífsins skráargötin.

Dagur 24. okt. 2000

Dýptin á götunum
Í Dagblaðinu sagði frá því í vikunni að gatið á ósonlaginu hefði dýpkað og af því tilefni sendi -J mér þessa vísu:

Heilbrigði í hugsun vantar,
hált á skötunum.
Mæla Dagblaðs delirantar
dýpt á götunum.

Dagur 27. okt. 2000

Rís ein bygging römm og há
Séra Sigurður Pálsson sem lengi var prestur á Selfossi málaði húsið sitt eitt sinn rautt. Þá orti sá snjalli hagyrðingur og prestur í Hveragerði séra Helgi Sveinsson:

Rís ein bygging römm og há,
rauð á allar síður,
til að minna aðra á
eld, sem dæmdra bíður.

Dagur 31. okt. 2000

Brúnaljósin brúnu
Því fer fjarri að einhugur ríki um þá ákvörðun Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra að leyfa innflutning fósturvísa úr norskum kúm. Þeir eru til hér á landi sem segja að eftir 20 ár verði búið að útrýma íslenska kúakyninu. Áður en Guðni Ágústsson varð landbúnaðarráðherra var hann á móti innflutningi á norskum kúm. Hann sagði eitt sinn aðspurður að það mætti aldrei gerast. Íslenska kýrin væri fegursta kýr í heimi og augu hennar „brúnaljósin brúnu.” Eftir að Guðni hafði kunngert leyfisveitinguna fyrir innflutningi fósturvísanna barst mér vísa sem er til landbúnaðarráðherra ort í orðastað íslensku kýrinnar. Ég hef grun um að höfundurinn sé Steingrímur J. Sigfússon, sem er í hópi snjallari hagyrðinga eins og vísan ber með sér, en hún er svona:

Man ég ástarorðin þín,
er ég ligg í sárum
og brúnaljósin brúnu mín
blika full af tárum.

Dagur 3. nóv. 2000

Enn ort um Guðna
Það streyma á markaðinn vísur um Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra tengdar ákvörðun hans um norsku kýrnar. Ólafur Stefánsson, Borgfirðingur, sendi mér þessa vísu:

Framkvæmd Guðna er alltaf vísu verð
hann vísar leiðir bæði-og og ekki,
stefnu þessa já og nei ég þekki,
þannig er nú framsókn bara gerð.

Fegnir eru kjósendur
Það er alltaf verið að kvarta undan því að þingmenn landsbyggðarinnar sjáist sjaldan í kjördæmum sínum en aldrei kvartað undan því með Reykjavíkur þingmennina. Hjálmar Jónsson segir að það sé þó betra að láta sakna sín heldur en koma of oft í kjördæmið þannig að fólk fái leið á mönnum. Þeir Hjálmar og Hákon Aðalsteinsson sátu saman í eldhúsinu heima hjá Hákoni að Húsum í Fljótsdal og ræddu þessi mál. Þeir settu saman þessa vísu um Sighvat Björgvinsson:

Syðra hangir Sighvatur,
sigin axla, voteygur.
Ferðast lítið,fáorður,
fegnir eru kjósendur.

Dagur 7. nóv. 2000

Hrifinn af norsku hnossi
Ekkert lát er á yrkingum hagyrðinga um Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra og kýrnar. Þessi vísa sveif innum gluggann til mín á dögunum. Þar sagði í formála að þegar Guðni kom undan feldinum og sá að kominn var bjartur dagur stökk hann upp og kyssti kúna:

Hrifinn af norsku hnossi
heilsa ég degi glöðum
og kyssi Júdasarkossi
kýrnar á Brúnastöðum.

Ljótur fjandi
Sami hagyrðingur orti í orðastað Sivjar Friðleifsdóttur eftir að hún á dögunum hafði leyft kísilgúrvinnslu í Syðriflóa í Mývatni:

Ekki er mér alveg sama
að Eyjabakkarnir standi,
en Mývatn er mér til ama
mér finnst það ljótur fjandi.

Dagur 10. nóv. 2000

Undan feldi
Þeir yrkja enn, hagyrðingarnir, um Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra og kýrnar. Einar Þorbergsson kennari orti þessa á dögunum:

Undan feldi Guðni gægist,
gegnum stríðsins mósku húm.
Þegar um hjá honum hægist
hefur’ann gagnast norskum kúm.

Dagur 14. nóv. 2000

Ættarveldi Stephensena
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hefur tilkynnt að embætti staðarhaldara í Viðey verði lagt niður um áramótin þegar Þórir Stephensen lætur af störfum fyrir aldurs sakir. Þar með hverfa síðustu leifar ættarveldis Stephensena í Viðey. Í tilefni þessa orti Ingvar Gíslason, fyrrum menntamálaráðherra:

Áður fyrr um alda bil
entist kraftur gena.
Eygir sinnar auðnu skil
ættin Stephensena.

Óx í Viðey virðing stór,
veldisljóminn glæsti.
Séra Þórir síðast fór,
Sólrún hringnum læsti.

Kjarngresi og arfi
Séra Sigmundur er skáldanafn landskunns hagyrðings. Eftir hann birtust oft vísur í Alþýðublaðinu meðan það var og hét fyrr á árum. Í tilefni átaka um forsetastólinn á ASÍ þingi orti séra Sigmundur:

Verkalýðshreyfingin bráðlega er fyrir bí
ef burtu hún fleygir kjarngresi en velur sér arfa.
það mun gerast kjósi nú ASÍ
Evrópusambandssprautu til forystustarfa.

Kristilegt kaupæði
Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri, er í hópi bestu hagyrðinga nú um stundir. Þegar hann heyrði af ákvörðun kirkjunnar um að verðlauna bestu auglýsinguna sem sameinaði kristindóminn og kaupæðið, orti hann:

Svo kaupæðið verði sem kristilegast
kirkjan samþykkti einróma,
að verðlauna þann sem listilegast
leggur nafn guðs við hégóma.

Nálægur kirkjuturn
Hákon Aðalsteinsson orti þegar Hjálmar Jónsson sagði honum að hann væri að hugsa um að láta af þingmennsku og sækja um embætti Dómkirkjuprests.

Hjálmar er eitthvað heilagari,
hef ég af því fengið spurn.
Hann er að breyta hugarfari
og horfir á nálægan kirkjuturn.

Dagur 17. nóv. 2000

Sterk og veik bein
Hjálmar Freysteinsson, hagyrðingur og læknir sagðist hafa lesið það í Degi á dögunum að rannsókn hefði leitt í ljós að heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir hefði sterk bein. Þá sagðist hann hafa munað eftir því að Sighvatur Björgvinsson var alltaf að handleggsbrotna þegar hann gegndi þessu sama embætti. Í tilefni þessa orti Hjálmar:

Við erum öll á grænni grein,
gott er að flestra mati
að Ingibjörg er með betri bein
og brotnar síður en Hvati.

Dagur 21. nóv. 2000

Lán í sjálfu sér
Þau voru samtímis þingmenn fyrir Alþýðubandalagið, Stefán Jónsson og Guðrún Helgadóttir rithöfundur. Guðrún er og hefur alltaf verið fyrirferðar mikil og lætur ógjarnan sinn hlut. Svo gerðist það eitt sinn að Guðrún mætti ekki á þingflokksfund. Þá orti Stefán Jónsson:

Það er lán í sjálfu sér
sérlega vegna flokksins,
að Guðrún Helga okkar er
annars staðar loksins.

Og svo er það hinn
Á fyrsta ári Hjálmars Árnasonar á Alþingi lentu þeir í orðaskaki hann og Sighvatur Björgvinsson. Þá var Hjálmar Jónsson líka komin á þing. Eftir karpið orti Sighvatur þessa vísu:

Hjálmara tvo í hópnum ég tel
hérna um sinn.
Annar er séra og sómir það vel,
en svo er það hinn.

Og nú gerðist það á dögunum að Hjálmar Jónsson fékk embætti dómkirkjuprests og hættir því á þingi og þá orti Sighvatur:

Leggðu oss drottinn líkn með þraut
sem löngum fyrr.
Því Hjálmar séra er horfinn á hraut
en hinn er kyrr.

Látið Lewinski velja
Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi, er búinn að leysa þann vanda sem steðjar að Bandaríkjamönnum við að velja sér forseta. Lausn Hákonar er svona:

Ekki má almúgann kvelja,
við ættum að hætta að telja.
Helst mundi vera
að hátta þá bera
og láta svo Lewinski velja.

Semdu fyrir oss sálmakver
Séra Hjálmar Jónsson hættir þingmennsku um áramótin og gerist dómkirkjuprestur 1. febrúar. Hagyrðingar fara alltaf af stað þegar þeir geta ort um kollega sína. Ólafur Stefánsson Borgfirðingur orti í tilefni þessa:

Býður þar annar akur hans
að erja í garði skaparans.
Semdu fyrir oss sálmakver
svo að við munum eftir þér.

Dagur 28. nóv. 2000

Hákon er í bænum
Hákon Aðalsteinsson skáld og skógarbóndi var í höfuðborginni á dögunum og átti erindi víða. Vinur hans séra Hjálmar Jónsson fór með honum í þessar reisur. Þegar þeir hittust um morguninn og lögðu af stað afhenti Hjálmar skógarbóndanum þessa vísu:

Heyra þurfum hjartnæm vers
helst í hvelli grænum.
Allt er sem í höndum hers
Hákon er í bænum.

Þegar svo Hjálmar sá á eftir Hákoni inn í flugstöðina um kvöldið orti hann:

Þetta skeður allt of oft
enda karlinn hraustur.
Höldum gleði hátt á loft
hann er farinn austur.

Kollegar
Ólafur Skúlason biskup hefur láið skrá æviminningar sínar og gefið út á bók. Í tilefni þess var þessi vísa kveðin:

Biskupinn verðskuldar heiður og hól
hann er af baki ei dottinn,
og kynni að sætta um komandi jól
þá kollega mammon og drottinn.

Dagur 5. des. 2000

Tímann höndlar enginn
Sjálfsagt muna flestir eftir því þegar Jóhanna Sigurðardóttir reyndi að fella Jón Baldvin úr formannssæti Alþýðuflokksins. Það mistókst en hún fór í ræðustól og sagði þau orð sem síðar hefur oft verið vitnað í: „Minn tími mun koma!” Skömmu eftir þessi ummæli orti Skagfirðingurinn Sigurður Hansen:

Auðnuvegur oft er mjór
og ýmsum torvelt genginn.
Tíminn kom og tíminn fór,
tímann höndlar enginn.

Helvítið að tarna
Kennaraverkfallið hefur ekki farið fram hjá neinum. Á samkomu norður í Þingeyjarsýslu orti Friðrik Steingrímsson þessa vísu til fyrrverandi kennara síns Konráðs Erlendssonar á Laugum:

Við að þylja raus og raup
og reyna á þolrif barna,
hann þarf ekki hærra laun
helvítið að tarna.

Dagur 8. des. 2000

Konráð svarar fyrir sig
Ég fékk sendan skemmtilegan tölvupóst frá Konráði Erlendssyni kennara að Laugum um helgina sem ég ætla að birta í heilu lagi og hljóðar svona:

,,Þar sem sending sú sem ég fékk frá vini mínum og fyrrum nemanda Friðrik Steingrímssyni um daginn og hljóðar svo:

Við að þylja raus og raup
og reyna á þolrif barna,
hann þarf ekki hærra kaup
helvítið atarna.

hefur nú lekið út af leirnum og birst í Degi verð ég að segja að:

Til vanþakklætis er veröldin traust
það vísurnar Friðriks sýna,
að troða í þann andskota endurgjaldslaust
var óskapleg kvöl og pína.

Og vegna séra Hjálmars sem neri salti í sárin með þessu:

Af verkfallinu seyðið saup
sannlega það ég trega.
En ekki þarf hann Konni kaup,
kennslufræðilega.

vil ég segja eftirfarandi:

Kölska nú verður til fagnaðar flest,
frelsarinn sárt mun það trega.
Að velja þann vísnasmið dómkirkjuprest,
er vafasamt guðfræðilega.

Í guðs friði, K.”

Dagur 12. des. 2000

Saknað heima á Krók
Margar vísur hafa verið ortar að undanförnu um þá ákvörðun séra Hjálmars Jónssonar að hætta þingmennsku og gerast dómkirkjuprestur. Flestir hafa svona eins og agnúast út í séra Hjálmar fyrir þetta. Árni Gunnarsson, varaþingmaður á Sauðárkróki gerir það ekki þegar hann yrkir um málið fyrir hönd Skagfirðinga og fer fögrum orðum um séra Hjálmar:

Drottinn Hjálmar til sín tók,
hann telst ei með oss lengur.
Hans verður saknað heima á Krók.
Hann var besti drengur.

Dagur 15. des. 2000

Umhverfisspjallaráðherrann
Ég fékk eftirfarandi kveðjur frá Hjálmari Freysteinssyni lækni á Akureyri:

Heill og sæll!
Þegar ég las í Degi að Siv ætlaði að leggja Náttúruverndarráð niður til að losna við gagnrýni þess, varð til vísa:

Í ónáð að falla hlýtur hann
sem höfðingja skjalla ekki kann,
afburða snjalla úrlausn fann
umhverfisspjallaráðherrann.

Þess má geta að ég er Mývetningur í húð og hár.

Óþarfi að borga
Konráð Erlendsson kennari á Laugum svaraði fyrrverandi nemanda sínum, Friðrik Steingrímssyni, með eftirfarandi vísu eftir að Friðrik hafði ort vísu þess efnis að kennarinn Konráð þyrfti ekki hærra kaup:

Til vanþakklætis er veröldin traust
það vísurnar Friðriks sýna,
að troða í þann andskota endurgjaldslaust
var óskapleg kvöl og pína.

Þessu svarar Friðrik Steingrímsson fullum hálsi og og yrkir:

Um kennsluna forðum þú kveður með raust,
en kunnátta mín er að fúna,
og hafirðu unnið þá endurgjaldslaust
er óþarfi að borga þér núna.

Dagur 19. des. 2000

Fíkn í blankheit
Pétur H. Blöndal sagði við 2. umræðu fjárlaga að menn hefðu fíkn í að taka lán og valda sjálfum sér blankheitum. Hagyrðingur einn sendi mér þessa vísu í tilefni ummæla Péturs:

Menn hafa fíkn í fíkn,
fíkn til að byggja á lántökum.
En sjálfum þér er það lítil líkn
að liggja ævilangt í blankheitum.

Dagur 22. des. 2000