Sandkorn 1996

Blessaðu Vatnsfjörð
Það eru margar góðar vísur og sögur í bókinni Þeim varð á í messunni, gamansögum af íslenskum prestum. Nokkrar sögur eru þar af séra Baldri Vilhelmssyni í Vatnsfirði, enda maðurinn löngu orðinn þjóðsagnapersóna. Ein sagan segir frá því að þeir Hannes Pétursson skáld og Einar Laxness sagnfræðingur hafi heimsótt vin sinn Baldur vestra. Þegar þeir kvöddu skrifaði Hannes í gestabókina.

Góð er gisting hjá presti,
sem gleðjast með vinum kann.
Ó Jesú, bróðir besti,
blessaðu Vatnsfjörð og hann.

DV 5. jan. 1996

Ögn í lægð
Í fjárlagaumræðunni á Alþingi í lok fyrra árs réðst Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra, með miklu offorsi á Pál Pétursson félagsmálaráðherra úr ræðustól. Undir ræðunni sat Páll með púkaglott á vörum og þegar hann svaraði Jóhönnu lét hann þessa vísu fara í loftið.

Ein er núna ögn í lægð,
ekki að marki lagin.
Hún er óskóp óánægð
eins og fyrri daginn.

DV 10. jan. 1996

Röskur prestur
Enn skal leitað fanga í þeirri ágætu bók, Þeim varð á í messunni, sem eru gamansögur af prestum. Þar eru margar sögur af séra Baldri Vilhelmssyni í Vatnsfirði, eins og áður hefur komið fram í Sandkorni. Einu sinni var séra Baldur að messa og var þá aragrúi af fiskiflugum í kirkjunni sem trufluðu messuna. Þá var þessi limra ort.

Söfnuður píndist sem prófaði vellandi díki,
prófastur þrumaði: „Til komi þitt ríki”
meðan að sveif suðandi á dreif
meinfýsinn andi í maðkaflugu líki.

Séra Baldur er sagður presta röskastur við embættisverk, einkum þó giftingar. Segir sagan að einhverju sinni hafi liðið 9 mínútur frá því að brúðurin mætti í kirkjuna og þar til hún gekk aftur út úr kirkjunni með sinn ektamaka sér við hlið.

Fyrirheit og efndir
Það gekk mikið á á Alþingi þegar Halldór Blöndal vildi að fyrirtækið Spölur, sem ætlar gera jarðgöng undir Hvalfjörð, fengi ríkisábyrgð á lán upp á einn milljarð króna. Eins og menn eflaust muna hafa þeir Spalarmenn alltaf talað um að framkvæma verkið án nokkurs stuðnings frá ríkinu. En þegar ríkisábyrgðin hafði verið ákveðin orti Hreiðar Karlsson á Húsavík eftirfarandi vísu.

Heyrast býsna háar tölur,
hærri en áður voru nefndar.
Það er meira en meðal spölur,
milli fyrirheits og efndar.

DV 12. jan. 1996

Umburðarlyndi
Í einni af ræðum sínum um hátíðirnar talaði Jóhannes Páll páfi um kjarnorkutilraunir og fordæmdi þær harðlega. Hann nefndi þó ekki Frakka á nafn enda þótt allir hafi skilið fyrr en skall í tönnum. Páfi ræddi líka um nauðsyn á umburðarlyndi og hafði mörg orð þar um en nefndi engan, hvorki lönd, söfnuði né einstaklinga í því sambandi. Gárungar hafa gripið þetta á lofti og segja að þarna hafi páfi átt við Langholtsdeiluna margfrægu. Auðvitað hafa hagyrðingar farið af stað vegna þessarar deilu og góðkunningi Sandkorns sendi okkur þessa vísu.

Stríð í kirkna háu höllum
herir bíða lags.
Drottinn hjálpi okkur öllum
ekki seinna en strax.

Í DV um síðustu helgi var skýrt frá því að maður hefði verið dæmdur 5 ára fangelsi fyrir að stela undirfatnaði frá 13 konum á Austurlandi. Þetta sérstæða sakamál varð hagyrðingnum Hákoni Aðalsteinssyni tilefni til yrkinga. Um er að ræða níu vísur og hér koma þær þrjár fyrstu.

Landið fela lúin ský,
læðist deli grófur
að næturþeli, borg og bý
brókarsteliþjófur.

Kuldaboli fælir frið
fáir þola svona.
Bitra golu berst nú við
brókarstolin kona.

Saklaust víf á fósturfold
flótta stífum hrakið.
Brókin þýfi, bert er hold,
blessað lifið nakið.

Meira næst.

DV 17. jan. 1996

Nærfataríma
Í síðasta Sandkorni birtum við þrjár fyrstu vísurnar úr brag Hákonar Aðalsteinssonar um þann fræga kvennærfataþjóf sem dæmdur var fyrir glæp sinn á Austurlandi á dögunum. Hákon yrkir ekki síður um meistaratakta lögreglunnar fyrir austan við að upplýsa málið. Hér koma svo næstu þrjár vísurnar úr bragnum.

Limi skóku af líf og sál
lagahrókar snöggir.
Kátir tóku að kanna mál
kvennabrókarglöggir.

Vaskir renna vettvang á
vökul spenna netin.
Fljótir kenna firðar þá
ferskan kvennaþefinn.

Höfðu klókir kappar þá
kannað flókin svæði.
Fúl var blókin fönguð á
feikna brókarstæði.

Meira í næstu viku.

DV 19. jan. 1996

Nærfataríma
Í síðustu viku birtum við tvisvar sinnum þrjár vísur úr hinum magnaða brag Hákonar Aðalsteinssonar um nærfataþjófinn sem dæmdur var og viðskipti hans og lögreglunnar á Austurlandi. Hér koma svo síðustu þrjár vísurnar:

Nú varð bil að brúa fljótt,
bæta yl á vífum.
Vanda til í verki skjótt,
vel að skila þýfum.

Allmörg hnátan ofsaglöð,
eins og kátur lækur,
arkar státin upp á stöð,
er að máta brækur.

Mjög er heitt í málum þeim,
mikið breytt er öldin.
Labbar sveitt og lúin heim
löggan þreytt á kvöldin.

Tveir um smokkinn
Það hlaut að koma að því að menn færu að yrkja um hið skrýtna nauðgunarmál sem DNA-rannsókn í Noregi beindi kastljósinu að á nýjan leik. Þar er breskur sjómaður sakaður um að hafa nauðgað íslenskri konu um borð í togara. Það er ekki síst sú „tillitssemi” meints nauðgara að setja á sig smokk í átökunum fyrir nauðgunina sem vakið hefur afhygli. Hagyrðingurinn KK hefur stundum sent okkur vísur eða limrur og hann segir þetta um málið:

Við illan draum upp er nú hrokkinn
og ónotin fara um skrokkinn.
Þó vilji menn spara
við því ætti að vara
að tveir noti sama smokkinn.

DV 22. jan. 1996

Á Torgi hins himneska friðar
Aðalsteinn Hallgrímsson, verkfræðingur og einn af fyrrverandi eigendum Hagvirkis hf., og Páll Ólafsson, verkfræðingur hjá Landsvirkjun, sem nú starfar í Kína, eru góðir kunningjar. Þeir eru að vísu ekki flokksbræður í pólitík en kunningjar samt. Þegar Páll varð sextugur í lok síðasta árs sendi Aðalsteinn honum þessar vísur, en stormasamra samskipta Páls og Hagvirkis hf. er getið í nýútkominni bók Jóhanns G. Bergþórssonar, Satt að segja.

Uppistand verður og allt fer í hnút
og Alþýðulýðveldið riðar,
þegar að Páll tekur tappa úr stút
á Torgi hins himneska friðar.

Ef yfirvöldin þér ætla að sýna
yfirgang, eða vinna mein.
Berðu þá kommunum kveðju mína,
þeir kannast við félaga Aðalstein.

DV 24. jan. 1996

Eins og Kristur
Sighvatur Björgvinsson alþingismaður er prýðilegur hagyrðingur og oft hnyttinn. Þegar sló í brýnu fyrir nokkrum árum milli kirkjunnar manna og stjórnvalda, um fastar tekjur kirkjunnar kvað herra Ólafur Skúlason biskup fast að orði þegar að kirkjunni var vegið. Þá orti Sighvatur.

Mörgum þykir biskup byrstur
og býsnast yfir verkum manna.
Hann er orðinn eins og Kristur
einn á meðal ræningjanna.

DV 29. jan. 1996

Ellin
Í bókinni Þeim varð á í messunni segir frá séra Hallgrími Thorlacius sem var prestur í Glaumbæ í Skagafirði um síðustu aldamót. Hann var vel hagmæltur en flíkaði því lítt. Þessa afmælisvísu sendi hann sjötugum vini sinum sem var kaupmaður á Sauðárkróki.

Þegar Elli þér er skæðst,
þú snýst hnellinn viður.
Þegar mellan þig á ræðst,
þú henni skellir niður.

Sagt er að vísan hafi dregið dilk á eftir sér því ráðskona kaupmanns, sem var ekkjumaður, hélt að sneitt væri að sér og reiddist presti.

DV 31. jan. 1996

Kirkja er af (F)flóka full
Mikið er ort í landinu um þá merkilegu deilu sem uppi er í Langholtskirkju. Eins og gengur eru vísurnar æði misjafnar enda vandi að yrkja góða vísu um deilu á borð við þessa. Flestar vísurnar, sem Sandkorni hafa borist, eru í lakari kantinum en ein og ein snjöll. Meðal þeirra er eftirfarandi vísa sem sögð er vera eftir þann kunna hagyrðing, Sigfús Jónsson, garðyrkjubónda í Skrúð í Reykholtsdal.

Kirkjan er af (F)flóka full,
friðarhnefinn steyttur.
Prestar tala bara bull
og biskupinn er þreyttur.

DV 2. febr. 1996

Hljóðnað orgel
Enn yrkja hagyrðingar um deilurnar í Langholtskirkju, enda ekkert lát á þeim. Nú styttist í að biskup Íslands taki þar í taumana en hann gaf deiluaðilum frest til 15. febrúar að skila greinargerð um stöðu málsins. En á meðan yrkja hagyrðingar um málið. Þorvaldur Guðmundsson, skipstjóri á Akranesi, orti þessa vísu:

Í Langholtskirkju er leiðindatuð
og lasin kenning.
Hljóðnað orgel, horfinn guð
og heilög þrenning.

Hljóður kór
Og jafnvel prestar landsins yrkja um stöðuna í Langholtskirkju og þá erfiðleika sem yfirmaður þeirra, herra Ólafur Skúlason biskup, hefur haft af málinu. Séra Hjálmar Jónsson alþingismaður orti þessa vísu:

Þagnar Langholtskirkjukór
kvörtun Jón lét bóka.
Biskup þreyttur þangað fór
þurfti að greiða (F)flóka

DV 7. febr. 1996

Hjálmar og fiskarnir
Það er mikið ort á Alþingi og þarf oft ekki mikið tilefni til þess að hagyrðingar fari í gang. Á dögunum lýsti hagyrðingurinn og alþingismaðurinn séra Hjálmar Jónsson því yfir að auka ætti þorskkvótann um 20 þúsund tonn. Þá kom upp hjá mönnum samlíkingin við það þegar Kristur mettaði mannfjöldann með tveimur fiskum. Jón Kristjánsson alþingismaður orti þá:

Naglann,ann Hjálmar á höfuðið hitti
og heiðraðir kjósendur fá þess að njóta.
Frelsarinn bauð aðeins fáeina titti
þegar færði hann sjómönnum viðbótarkvóta.

Páll Pétursson félagsmálaráðherra orti:

Heillakarlinn Hjálmar minn
höfðingsskapinn metur.
Hann er fremri en frelsarinn
og fiskar mikið betur.

Og þessi varð til í blaðamannaherbergi Alþingis:

Jafnvel þótt nú sé önnur öld
og allir geymi í frysti,
talar klerkur um tonnafjöld
þegar tveir fiskar dugðu Kristi.

DV 9. febr. 1996

Flókalundur
Ekki dregur úr vísnaflóðinu um Langholtskirkjudeiluna. Sá snjalli hagyrðingur, Hákon Aðalsteinsson, skógarbóndi á Héraði, kallar Langholtskirkju ekki annað en Flókalund eftir allt sem gengið hefur þar á. Og auðvitað hefur Hákon ort vísu um málið:

Þótt sóknarnefnd sitji á fundi,
samt hefur orðið tjón.
Friður sé með oss í Flókalundi,
farðu til andskotans, Jón!

DV 12. febr. 1996

Bónorðið
Í Fjarðarpóstinum er bráðskemmtilegt viðtal sem hefst á þessa leið:

Vilt þú,
Halla,
lífsins lalla,
langan fjall
-með mér
veg.
Mína galla,
elska alla,
eins þótt skalla
fái ég.

Þeir eru ekki á hverju strái í dag sem biðja sér konu með dýrt kveðnum hringhendum en finnast þó. Einn þeirra er Símon Jón Jóhannsson, framhaldsskólakennari í Flensborg að starfi, en fjölskrúðugur að mennt og upplagi. Ættaður að norðan af heilsteyptri Sambands- og framsóknarfamilíu, en nú allaballi, menningarfrömuður og formaður Sálarrannsóknarfélags Hafnarfjarðar til skamms tíma. Kennari kaþólskra nunna, draumaráðningarmaður, þjóðfræðingur og spesíalisti í þjóðtrú….

Nægur afli
Í síðustu viku birtust þrjár vísur hér í Sandkorni þar sem skotið var á séra Hjálmar Jónsson alþingismann fyrir hugmynd hans um að auka þorskkvótann um 20 þúsund lestir. Það voru þeir Jón Kristjánsson alþingsmaður, Páll Pétursson félagsmálaráðherra og einn blaðamaður sem ortu vísurnar. Nú hefur Hjálmar svarað vísunum:

Lítt af þekking lýsti þar
lokaðir viskubrunnar.
Vita þeir fátt um fiskveiðar
og fræði Biblíunnar.

„Lúkas 5 til 11″
Skipið fyllt af fiski var
fagnað kvótum stærri.
Þá voru fiskifræðingar
og Framsókn hvergi nærri.

DV 14. febr. 1996

Verðandi forseti
Gísli Jónsson í Þorlákshöfn átti samtal í síma við Jón Guðlaug Magnússon á Marbakka. Hjá Jóni var staddur góðvinur beggja, Ingvi Þorkelsson, kennari og fyrrum framkvæmdastjóri Glettings og tengdasonur aðaleigandans, Björgvins Jónssonar. Þeir Jón og Gísli urðu sammála um að Ingvi væri verður forsetaframbjóðandi og síst verri en þeir sem hafa verið nefndir. Guðvarður Kjartansson bókari orti brag af þessu tilefni sem endar svona.

Alla kosti Ingvi hefur,
æsku kennir ginnhelg fræði.
Giftur inn í „Gletting” meður
góð hann rímar blautleg kvæði.

Á þig skora ýtasynir:
Yfirlýstu framboð núna!
Svo mæla þínir mætu vinir,
sem misstu aldrei á þér trúna.

Þessu svaraði Ingvi.

Stuðning þakka hrærðum huga
hefur fjöldi til mín leitað.
Hvatning ykkar hún mun duga
hef ég sjaldan floti neitað.

Ingvi Þorkelsson, verðandi forseti.

Handan Skerjafjarðar
Svavar Gestsson alþingismaður var að ræða um það á Alþingi þegar fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frumvarp sem gekk lengra en stjórnarfrumvarp um sama efni. Sagði hann Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina stjórnlítil því hugur forsætisráðherra væri hálfur handan Skerjafjarðar. Þá orti Páll Pétursson félagsmálaráðherra.

Dafnar allvel Davíðs bú,
deilur ekkert harðar,
þótt hugurinn sé víst hálfur nú
handan Skerjafjarðar.

DV 16. febr. 1996

Tapað tækifæri
Kirkjuleg málefni hafa verið ofarlega á baugi um alllangt skeið. Eins og venjulega þegar eitthvert málefni heltekur þjóðina fara hagyrðingar í gang og vísurnar, misgóðar að vísu, fara af stað og flytjast frá manni til manns um allt land. Hagyrðingurinn og skógarbóndinn Hákon Aðalsteinsson hefur ekki látið sitt eftir liggja, enda einn snjallasti hagyrðingur landsins um þessar mundir. Nýjasta framlag hans til kirkjumála er þessi limra.

Hann strauk henni létt um læri
hún lét sem ekkert væri,
en svo varð hún sár
eftir sautján ár
yfir töpuðu tækifæri.

DV 21. febr. 1996

Iðkar í landi annað svið
Menn voru að tala um það niður á Alþingi eftir að séra Hjálmar Jónsson alþingismaður krafðist þess að þorskvótinn yrði aukinn um 20 þúsund tonn að hann hefði, sem ungur maður, stundað sjóinn, meðfram námi. Jón Kristjánsson, alþingismaður og ritstjóri, orti þá vísu um það þegar séra Hjálmar hætti sjómennsku og tók við nýjum störfum.

Iðkar í landi annað svið
afla þá gerðist brestur
álpaðist fljótt í íhaldið
ennfremur varð hann prestur.

DV 23. febr. 1996

Niðurskurðardeild
Um fátt var meira rætt í haust og vetur en þann mikla niðurskurð sem á að eiga sér stað og hefur átt sér stað í heilbrigðiskerfinu. Þar hefur lokun ýmissa deilda uppvakið miklar deilur, sem og ýmislegt annað sem lent hefur undir niðurskurðarhnífnum. Í byrjun febrúar birtist frétt í Degi um að upp væri risin og að sperrur hefðu verið reistar á viðbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Í fréttinni kom fram að byggingin væri 4.000 fermetrar í heild. Í tilefni þessa orti Björn Þórleifsson á Akureyri.

Byggingin er fjögur þúsund fermetrar í heild,
og fé í hana ríkið þurfti að moka.
Því vakna hlýtur spurning hvort verði þarna deild
sem vegna niðurskurðar þarf að loka.

DV 1. mars 1996

Skemmtilegt fólk
Nýskipaður sýslumaður Skagfirðinga, Ríkharður Másson, segir í viðtali við Dag: „Það er spennandi að fara til starfa á Sauðárkróki. Þar er fallegt og Skagfirðingar eru skemmtilegt fólk.” Gárungar sögðu þegar þeir lásu þetta að þarna væri sýslumaðurinn að leggja inn gott orð hjá Skagfirðingum áður en hann tæki við sýslumannsstarfinu. En við þetta rifjast upp vísukorn sem oft er sungið á góðum stundum hjá Skagfirðingum:

Skála og syngja Skagfirðingar,
skemmta sér og gera hitt.
Heyrið, snjallir Húnvetningar,
hér er landaglasið mitt.

DV 4. mars 1996

Skagfirskt blóð
Sandkornsritara hefur verið bent á að vísan Skála og syngja Skagfirðingar, sem birt var í Sandkorni á mánudaginn, hafi ekki verið rétt eins og hún birtist. Rétt sé vísan svona:

Skála og syngja Skagfirðingar,
skemmtun vanda og gera hitt.
Heyrið slyngir Húnvetningar:
Hér er landaglasið mitt.

Og því er rétt að birta vísu eftir Jónas Jónsson í Hofdölum, svona til að blíðka Skagfirðinga vegna villunnar á mánudaginn:

Bregst ei þjóð á Brúarvöllum
Bragaglóð sem aldrei dvín.
Skagfirskt blóð er í þeim öllum
sem elska fljóð og brennivín.

DV 6. mars 1996

Brúarvallabragurinn
Pálmi Jónsson á Sauðárkróki hafði samband við Sandkornsritara og sagði að eitt orð hefði verið rangt í vísu eftir afa hans, Jónas Jónsson frá Hofdölum, sem birt var í Sandkorni síðastliðinn miðvikudag. Í síðustu línu vísunnar sagði hjá okkur „sem elska fljóð og brennivín” en rétt er vísan svona:

Bregst ei þjóð á Brúarvöllum
Bragaglóð sem aldrei dvín.
Skagfirskt blóð er í þeim öllum
sem elska fljóð og drekka vín.

Í tilefni þessa orti Pálmi eftirfarandi hringhendu:

Er ég skjalla afa minn
ei vil palladóma líða.
Brúarvallabragurinn
bætir allan sálarkvíða.

DV 8. mars 1996

Dökkklædd þrenning
Hagmæltur og níðskældinn maður kom þar sem þrír prestar sátu að spjalli. Er hann hafði hlustað á samræður þeirra dágóða stund og eigi líkað fæddist þessi vísa. Það skal tekið fram að hún er ekki ný heldur úr bókinni Þeim varð á í messunni.

Þar sem dökkklædd þrenning býr
þróast enginn friður,
blessun drottins burtu flýr
bölvun rignir niður.

DV 13. mars 1996

Seinheppni
Alþýðublaðið er orðið hið skemmtilegasta blað undir ritstjórn Hrafns Jökulssonar. Stundum minnir Hrafn mann á fátæku konurnar í gamla daga sem sagðar voru geta gert mat úr engu. Alþýðublaðið hefur farið mikinn í kringum 80 ára afmæli Alþýðuflokksins og látið eins og stolt foreldri sem ekki fæst til að ræða um annað en barnið sitt. En auðvitað getur Hrafn verið seinheppinn eins og aðrir. Það var hann einmitt á miðvikudaginn. Leiðarinn var um flokkinn og hét Frá fortíð til framtíðar. Jakob Frímann Magnússon, nýja stjarnan í Alþýðuflokknum, skrifar opið bréf til Alþýðuflokksins, sem er mikil lofgrein um Jón Baldvin Hannibalsson, formann Alþýðuflokksins, og segir hann einn mikilhæfasta stjórnmálamann 20. aldarinnar á Íslandi og fleira í þeim dúr. En svo slæðist inn á leiðaraopnuna vísa í fasta dálki sem heitir Orð dagsins og hljómar svona:

Hirðirinn ráfar um heiðar og fjöll
og horaður verður að svelta,
en hjörðin er farin til helvítis öll,
því hundurinn kunni’ ekki gelta.

Sjónhverfingar
Ólafur Örn Haraldsson var að segja frá því í góðum hópi að hann hefði gengið norður yfir Sprengisand. Hann sagði frá því að þegar hann kom til byggða með félögum sínum, eftir mikið streð á leiðinni, norðanátt og
hvassviðri, hafi þeir komið að bakka Skjálfandafljóts og séð að þar voru naktar konur að baða sig við bakkann hinum megin. Jón Kristjánsson alþingísmaður var viðstaddur þegar Ólafur Örn sagði söguna. Í sögulok varð Jóni að orði.

Silast norður Sunnlendingar
sáu konur undir halli,
sem að voru sjónhverfingar,
svona er að vera lengi á fjalli.

DV 15. mars 1996

Kavaler í hámarki
Kynferðisleg áreitni hefur verið mál málanna á Íslandi að undanförnu. Í Austra er sagt frá því að á fundi fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga í Borganesi fyrir skömmu komu fundarmenn akandi víðsvegar af landinu. Þar á meðal komu þau Anna Pála Víglundsdóttir og Kristján Magnússon akandi saman í bíl frá Vopnafirði. Einhverjir fundarmenn sögðu Kristján kjarkmann að ferðast einn án vitna með konunni þessa löngu leið með tilliti til þess að hún gæti kært hann fyrir kynferðislega áreitni, jafnvel mörgum árum síðar. Anna Pála hrein þvoði Kristján af öllu slíku með eftirfarandi vísu:

Upp á skrifar Anna Pé
ofsóknir í lágmarki,
og kveður að hann Kristján sé
kavaler í hámarki.

DV 20. mars 1996

Gunna Pé
Þeir sem eru að hugsa um að bjóða sig fram til forseta eru að kanna landið eins og sagt er og þeir sem þegar eru búnir að bjóða sig fram leita beint eftir stuðningi. Sagan segir að stuðningsmaður Guðrúnar Pétursdóttur hafi leitað til Þórarins Eldjárns um stuðning við framboð hennar. Hann svaraði með eftirfarandi limru:

Þú keyrir mig vinur í keng ei,
að kostum sem þessum ég geng ei,
mitt atkvæði eitt
ég get ekki greitt
henni Gunnu Pé Thors úr Engey.

DV 22. mars 1996

Guðlaugsstaðakynið
Talandi um Hannes Hólmstein Gissurarson þá er hann af því fræga Guðlaugsstaðakyni. Af því kyni eru margir kunnir Íslendingar og allir miklir orðhákar. Fyrir utan Hannes má nefna Pál Pétursson, ráðherra og bónda á Höllustöðum, Björn á Löngumýri, Hannes á Undirfelli, svo nokkrir þjóðkunnir menn séu nefndir. Borgfirskur bóndi orti eitt sinn um Guðlaugsstaðakynið:

Með óstöðvandi orðadyn
öslar á hundavaði
þetta djöfuls kjaftakyn,
kennt við Guðlaugsstaði.

DV 27. mars 1996

Kirkjudeila
Austri skýrir frá því að erjur milli leikmanna og þjóna kirkjunnar séu engin nýlunda og virðist alltaf blossa upp annað slagið. Björn Þorláksson var lengi prestur á Dvergasteini í Seyðisfirði. Fara sögur af því að stundum hafi kastast í kekki milli hans og Páls Ólafssonar skálds. Eitt sinn fauk sóknarkirkja séra Björns í ofviðri og þá orti Páll.

Kirkjunni drottinn burtu blés
í bræði sinni.
Því var prestur þá ekki inni?

DV 29. mars 1996

Fundi slitið
Íslendingar eru fundaglaðir menn. Það er alveg viss passi að ef fréttamenn ætla að ná í opinberan starfsmann fyrir hádegi þá er hann sagður á fundi. Og í sumum fyrirtækjum eru ráðamenn á fundi frá morgni til kvölds. Svo koma allir klúbbafundirnir og félagafundirnir á kvöldin. Gísli Brynjólfsson mun háfa ort eftirfarandi vísu sem fundargerð af einum slíkum kvöldfundi:

Fundur settur, fáir mættir,
flóir vín um allar gættir.
Flestir drukku frá sér vitið,
fundi slitið!

DV 1. apríl 1996

Flóki
Um fátt hefur verið meira ort síðustu vikurnar en deilurnar í Langholtskirkju og svo hremmingar þær sem biskup Íslands hefur lent í. Enn yrkja menn um Langholtsdeiluna og leika sér með orðið og nafnið Flóki. Hákon Aðalsteinsson orti þessa vísu nýverið.

Ullarflóki er leiðinlegur
línuflóki skapar tjón.
Sálarflóki sorgir dregur,
séra Flóki berst við Jón.

DV 10. apríl 1996

Rímleikur
Margir hagyrðingar hafa leikið sér með rímþrautir. Einn sá kunnasti í þeirri list var Stefán Jónsson, fyrrum alþingismaður. Elías Mar rithöfundur lék sér með þessa rímþraut í gamanvísu um kunningja sinn:

Anta- jafnan etur -bus,
einnig Pega- ríður -sus,
spíri- því ei teygar -tus
Thorla- kappinn frækn -cius.

DV 17. apríl 1996

Bragarbót
Nokkrar svonefndar bragarbótavísur hafa orðið landsfrægar. Hér á eftir fer ein sem margir þekkja. En fyrst vísan sem bragarbótin var gerð við:

Margt er hér
sem miður fer
og mætti helst ei ber‘ á.
Veiga í Skógum ólétt er
eftir Jón á Þverá.

Stúlkan reiddist vísunni og krafðist bragarbótar þar sem enginn fótur væri fyrir því að hún væri ólétt. Höfundurinn varð við þessari ósk og orti:

Vísunni skal verða breytt,
Veigu ekkert sér á.
Átti sem sé aldrei neitt
undir Jóni á Þverá.

DV 19. apríl 1996

Dofnar húsi Drottins í
Fjölmennt hagyrðingakvöld var haldið á Vopnafirði í ágústmánuði síðastliðnum. Þar voru þeir báðir mættir, séra Hjálmar Jónsson, prestur á Sauðárkróki, og Hákon Aðalsteinsson, hagyrðingur og skógarbóndi á Héraði. Séra Hjálmar var orðinn alþingismaður og orti Hákon í tilefni þess eftirfarandi vísu:

Dofnar húsi Drottins í
dvínar andans kraftur.
Séra Hjálmar fékk sér frí
og fór að syndga aftur.

DV 24. apríl 1996

Eitt sinn skal hver deyja
Það gekk mikið á síðustu dagana fyrir frestun funda Alþingis. Eftir mikla vinnu gerðist það undir lok þingsins að einhverjir þingmenn settust niður á síðkvöldi og fengu sér bjórglas. Séra Hjálmar Jónsson frétti af þessu og að nafni sinn Árnason hefði verið þarna í hópnum. Þá orti séra Hjálmar:

Framsókn inní flokksherbergi þreyir,
fyllir glasið nafni minn og segir:
Á mig sækir ógurlegur þorsti,
eitt sinn skal hver deyja, að minnsta kosti.

Okkar forna ásatrú
Sá kunni verkalýðsforingi Hrafnkell A. Jónsson á Eskifirði hefur verið ráðinn safnvörður á Egilsstöðum. Hann mun í framtíðinni hafa aðsetur í kjallara safnahússins þar í bæ en á hæðinni fyrir ofan hann verður til sýnis fornmaðurinn úr Skriðdal. Hrafnkell var á Alþýðusambandsþingi á dögunum og þá væntanlega í síðasta sinn sem formaður Verkalýðsfélagsins Árvakurs. Um vistaskipti Hrafnkels var ort á ASÍ þingi og er vísan með „austfirskum hreim” eins og sagt var eða ort með flámælisframburði:

Okkar forna ásatrú
aldrei bele.
Æðsta goð vors átrúnaðar
er nú Kele.

DV 12. júní 1996

Kom í gættina
Það vakti mikla athygli þegar Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður mætti ekki á þingfund þegar greidd voru atkvæði um frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur eftir 2. umræðu á Alþingi. Hann fékk meðal annars að heyra það á þingi ASÍ, sem stóð yfir á sama tíma. Við 3. umræðu á þinginu mætti Guðmundur og greiddi atkvæði gegn frumvarpinu en sagði ekkert á fundinum. Þá orti Jón Kristjánsson alþingismaður og ritstjóri:

Guðmundur kom hér í gættina,
og glotti svo breitt.
„Ég sver mig í sjálfstæðisættina,
og segi ekki neitt.”

DV 19. júní 1996

Allar meyjar elski hann
Við höfum stundum birt vísur eftir þann snjalla hagyrðing séra Helga Sveinsson, sem var prestur í Hveragerði. Á dögunum barst inn vísa eftir séra Helga sem hann orti þegar hann var kennari við Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Einn nemenda hans, Sveinn Indriðason, átti 25 ára afmæli einn kennsludaginn og þá kvað séra Helgi til hans þessa vísu:

Hálffimmtugan heiðursmann
heiðra ég röddu klökkri.
Allar meyjar elski hann,
eins í birtu og rökkri.

DV 26. júní 1996

Hér er sniðugt höfuðból
Til eru margar sögur af séra Sigurði Norland, sem var prestur í Hindisvík. Hann varð raunar þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og þá ekki síst fyrir sérvisku sína margs konar. Hann var snilldar hagyrðingur og varð meðal annars frægur fyrir að yrkja stökur á ensku. Hann orti líka margar tvíræðar vísur, sumar raunar klámfengnar. Í bókinni, Þeim varð á í messunni, segir að hann hafi ort eftirfarandi vísu um ráðskonu sína:

Ein er mærin munablíð,
mér svo kær að neðan.
Henni ærið oft ég ríð,
annars færi hún héðan.

Eitt sinn kom Jón Helgason biskup í heimsókn til Hindisvíkur og kastaði þá fram þessum fyrriparti:

Hér er friður, hér er skjól.
Hér er griðastaður.

Séra Sigurður, sem var bæði hestamaður og kvensamur, botnaði að bragði:

Hér er sniðugt höfuðból.
Hér er riðið, maður.

DV 5. júlí 1996

Fyrir klukkan sex
Það á ekki af blessaðri þjóðkirkjunni að ganga. Það er ekki fyrr hætt að fjalla um Flóka-mál en séra Torfi Hjaltalín Stefánsson á Möðruvöllum hefur deilumerkið á loft. Hann er löngu landsfrægur fyrir deilur við sóknarbörn sín og aðra presta. Nú síðast er hann kominn í deilu við nágrannaprest fyrir að vilja fá Möðruvallakirkju til að gifta í fólk úr sókn Torfa. Hann hefur kært málið til siðanefndar presta. Í fyrra var Torfi sendur í námsleyfi svo hægt væri að setja niður deilur í sókninni. Þegar hann kom til baka hafði RALA fengið að nýta tún prestsetursins í rannsóknaskyni. Séra Torfi hafði samband við yfirmann rannsóknanna og sagði að ef ekki yrði búið að snúa heyinu fyrir klukkan átta ákveðinn dag myndi hann loka fyrir aðgang RALA að túninu. Heyinu var ekki snúið fyrir klukkan átta þennan dag og séra Torfi lokaði túninu og hirti heyið

Sjaldan opnuð Seyðisfjarðarkirkja
Vegna þess að séra Torfi lokaði kirkju sinni fyrir nágrannaprestinum, sem vildi gifta þar par úr sókn séra Torfa, er vel við hæfi að birta vísu eftir Egil Jónasson á Húsavík. Hann kom eitt sinn til Seyðisfjarðar og meðal annars langaði hann að skoða Seyðisfjarðarkirkju. En þegar klerkur ætlaði að opna kirkjudyrnar gekk það illa og þá orti Egill:

Ljót og ryðguð læsing er,
lamir þarf að styrkja.
Sjaldan opnuð sýnist mér
Seyðisfjarðarkirkja.

DV 8. júlí 1996

Eygði selung stóran

Nú stendur veiðitímabil stangaveiðimanna sem hæst. Mjög er misjafnt hvernig gengur í hinum ýmsu ám. Sumir spá vatnsleysi í dragánum í sumar vegna þess hve snjóléttur veturinn var. En veiðimenn eru þekktir fyrir annað en gefast upp, bjartsýni þeirra er nær óendanleg. Það er því ekki óviðeigandi að birta eina veiðivísu sem er ort í austfirsku flámæli:

Einn í felum upp við á,
eygði selung stóran,
í stígvélum óðar þá,
út í helinn vóð’ann.

DV 10. júlí 1996

Landris
Landris og smá jarðskjálftakippir hafa átt sér stað á svæðum á Suðurlandi síðustu mánuðina og tala sérfræðingar um að þetta geti boðað Suðurlandsskjálfta innan tíðar. Íslendingar virðast samt taka þessu með stóískri ró eins og öllu jarðraski frá náttúrunnar hendi. Eitt sinn fyrir allmörgum árum var nokkuð um jarðskjálftahrinur á Húsavík að vetri til. Á öðru misseri þar frá voru barnsfæðingar með mesta móti í kaupstaðnum. Þá orti snillingurinn Egill Jónasson:

Allt er í lagi öllum hjá,
eignast börnin hver sem getur.
Loksins bregður ljósi á
landskjálftana í fyrra vetur.

DV 12. júlí 1996

Svona er hietinn maður
Sigurður Pálsson skólastjóri er höfundur flámælgivísunnar um veiðimanninn sem sá ,,sielunginn“ upp við á og við birtum í Sandkorni á dögunum. Sigurður hafði samband og benti okkur á tvær villur í vísunni og því verður hún birt hér aftur. Hann sagði líka að skrifa ætti „sielung” en ekki „selung” því þannig væri framburðurinn á Austfjörðum. Vegna þessa birtum við vísuna aftur:

Lá í felum upp við á
eygði sielung stóran.
Í stígvélum óðar þá
út í hielinn fór’ann.

Og svona til gamans, vegna þess að nú er heitasti tími ársins, er við hæfi að birta aðra flámælgivísu eftir Sigurð Pálsson:

Hörmung að vieta, hart er flet,
hér eg siet óglaður.
Fyrir svieta ei soflð get,
svona er hietinn maður!

DV 17. júlí 1996

Hestavísa
Við birtum flámælisvísur eftir Sigurð Ó. Pálsson, skólamann á Héraði, á dögunum. Stefán Jónsson, fyrrum fréttamaður og alþingismaður með meiru, kenndi undirrituðum vísuna sem hér fer á eftir og er ort á austfirsku flámæli. Stefán tók það mjög skýrt fram að hér væri um hestavísu að ræða. Ef ég einhvern tíma færi með hana eða birti á prenti yrði ég að taka það skýrt fram. Stefán sagðist ekki vita hver höfundurinn væri:

Svo þér líði sjálfum vel
og sért ei kvíðaþrunginn.
Þú skalt ríða þangað tiel,
þieg fer að svíða í….ieljarnar.

Stefán tók fram að ef menn vissu betra rímorð í lokin mættu þeir nota það ef þeir vildu en þetta væri samt hestavísa.

DV 24. júlí 1996

Ekki póstmeistari
Í Sandkorni á mánudaginn var sagt frá því að Ólafur G. Einarsson hefði neitað að fara heim til Ólafs Ragnar Grímssonar, nýkjörins forseta, til að sækja afsagnarbréf hans sem þingmanns. Ólafur G. á að hafa sagt að hann væri enginn póstburðarmaður. Hann hefur hins vegar alltaf þótt röggsamur forseti Alþingis og þess vegna orti séra Hjálmar Jónsson alþingismaður þegar hann las Sandkomið:

Enn með þjósti þingið ver,
þjóðin bjóst við svari,
þó er ljóst að ekki er
Ólafur póstmeistari.

DV 29. júlí 1996

Góðra vina fundur
Sigurður Jónsson, tannlæknir og píanóleikari, sendi okkur þessar vísur sem hann orti í tilefni af innsetningu nýs forseta Íslands á morgun. Hann tók það fram og lagði mikla áherslu á að vísurnar ætti syngja við lagið „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur”:

Öll þjóðin nýja forsetanum fagnar,
hinn fyrsta ágúst níutíu og sex
og Davíð hyllir herra Ólaf Ragnar
en hugsar sitt og minnist ýmislegs.

Þeir hafa aldrei verið miklir vinir
né virt hvor annan pólitíkinni í.
En víst þeir eru landsins vænstu synir
og vorri þjóð er best að kyngja því.

Ólafur af Dannebrog
Við sögðum frá því á dögunum að séra Hjálmar Jónsson alþingismaður hefði ort vísu af því tilefni að Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, hefði neitað að fara heim til Ólafs Ragnars Grímssonar, verðandi forseta Íslands, til að taka við afsagnarbréfi hans sem alþingismanns. Hann sagðist hins vegar ætla að heimsækja nafna sinn og þiggja kaffisopa. Séra Hjálmar orti aðra vísu um atburðinn:

Nýja starfið nú er ljóst
að niðurskorið er við trog.
Ekki bera ætlar póst
Ólafur af Dannebrog.

DV 31. júlí 1996

Undir meyjarvanga
Fólk hneykslast á framferði unga fólksins um Verslunarmannahelgina. Þannig hefur það verið allar götur síðan farið var að halda útihátíðir tengdar henni. Og ungt fólk og brennivín hefur lengi verið tengt saman hér á landi eins og dæmið með Egil Skallagrímsson sannar þegar hann varð svo drukkinn 4 ára að hann spjó yfir veislugesti. Og fyrir mörgum áratugum orti Friðrik Hansen, sá frábæri hagyrðingur, þessa vísu :

Ég vil feginn óspilltur,
æskuveginn ganga,
og svo deyja ölvaður,
undir meyjar vanga.

DV 9. ágúst 1996

Dýrt kveðið
Nú orðið má segja að ekki sjáist dýrt kveðin vísa. Og góðar dýrt kveðnar vísur tilheyra fortíðinni. Meira að segja venjulegar hringhendur eru að verða sjaldgæfar. Til eru margar góðar dýrt kveðnar vísur sem eru hreinustu
gimsteinar. Meðal þeirra er þessi vísa eftir þá kunnu skáldkonu Látra-Björgu sem hún orti þegar sýslumaður einn hafði stöðvað hana á flakkinu og ætlaði að láta hana sverja eið að því að hætta að flakka:

Beiði eg þann er drýgði dáð
og deyð á hörðum krossi leið,
að sneyða þig af nægt og náð
ef neyðirðu mig að vinna eið.

DV 14. ágúst 1996

Auðnan bláa ekki dimm
Þeir kunnu hagyrðingar og skáld, Einar frá Hermundarfelli, Hermóður Guðmundsson frá Sandi og Kristján frá Djúpalæk, voru samtímamenn á Akureyri og miklir mátar. Einar var um tíma næturvörður á Hótel KEA. Einhverju sinni var hann að segja vinum sínum frá því að ekki væri allt í sómanum hjá þessum sunnanmönnum sem gistu á hótelinu. Þarna kæmu þeir norður með viðhöldin með sér og mikið væri sukkað og syndgað á hótelinu. Þá ortu þeir Hermóður og Kristján saman vísu um málið:

Hermóður byrjaði:

Auðnan bláa ekki dimm,
augað gráa natið.

Og Kristján botnaði:

Einar lá á fótum fimm
fastur við skráargatið.

DV 21. ágúst 1996

Kjötlærin
Sá kunni hagyrðingur og spaugari Hákon Aðalsteinsson sagði í útvarpsviðtali ekki fyrir löngu að nú væri hann eiginlega hættur öllu nema því að reykja kjötlæri í reykkofum sínum. Baldur Jónasson, starfsmaður RÚV, er góður hagyrðingur. Hann á enda ekki langt að sækja það því Egil Jónasson á Húsavík var afi hans. Baldur er kunningi Hákonar og orti vísu þegar hann heyrði ummæli hans. Baldur segir Hákon hafa verið landsfrægan kvennamann á árum áður:

Ungur Hákon komst á kreik,
og kunni að nota færin.
Kafar’ann núna kofareyk
klappandi sauðalærin.

DV 26. ágúst 1996

Vinstra megin víð hægra lærið
Við höfum stundum birt hér vísur eftir snillinginn Egil Jónasson frá Húsavík. Því miður hafa vísur hans ekki verið gefnar út á prenti og því eru þær alltaf birtar eftir minni og sjálfsagt ekki alltaf rétt með farið. Eitt sinn gerðist það á Húsavík að ungt par átti barn í vændum. Undruðust menn hve stuttur aðdragandi hafði verið að kynnum unga parsins. Þá orti Egill Jónasson þessa vísu:

Eðlilegan ávöxt bar
allra fyrsta tækifærið,
af því að hann að verki var
vinstra megin við hægra lærið.

DV 28. ágúst 1996

Hegningin
Egill Jónasson, hagyrðingur frá Húsavík, sagði Sandkornsritara einu sinni þá sögu að hann hefði fengið magasár og læknir sinn, Daníel Daníelsson, hafi sett honum strangar reglur um mat og drykk. Þar á meðal var honum alveg bannað að bragða á brennivíni. Vinur Egils átti afmæli og varð sjötugur. Hann lá á sjúkrahúsi á afmælisdaginn og fór Egill að heimsækja hann. Gamli maðurinn dró fram flösku af Hvannarótarbrennivíni og bað Egil skála við sig. Egill sagðist ekki mega það en gamli maðurinn helti örlitlu víni í tappann og rétti Agli. Hann lét eftir sér að smakka á og skála við vin sinn. Nóttina eftir fékk Egill slæmsku í magann og þar sem hann sat uppi og gat ekki sofið orti hann eftirfarandi vísu til Drottins:

Á mínu ráði er ljótur ljóður,
mig langar stundum að súpa á pyttlu,
en ertu að hegna mér, Guð minn góður,
geturðu reiðst út af svona litlu?

DV 2. sept. 1996

Hegningin
Við sögðum frá vísunni hans Egils Jónassonar um Hvannarótarbrennivínið og magasárið í síðasta Sandkorni. Það var bara fyrri helmingur sögunnar. Áður en Egill varð góður af magasárinu flutti læknir hans, Daníel Daníelsson, burt frá Húsavík. Eitt sinn fór Egill að heimsækja hann og dvaldi hjá honum nokkra daga. Meðan á dvölinni stóð komu vinir Daníels í heimsókn eitt kvöldið. Læknirinn náði í sjeneversbrúsa og skenkti gestum sínum í staup. Líka Agli. Hann sagðist hafa smakkað á fyrst það var sjálfur læknirinn sem bauð honum. Um nóttina fékk hann slæmsku í magann og orti þá aðra vísu til Drottins:

Enn ertu herra að hegna mér,
hart er að búa við öfund slíka.
Átt’ekki sjálfur sjenever,
svo að þú getir bragðað líka.

DV 4. sept. 1996

Giftist harmóniku
Sameining þingflokka Alþýðuflokksins og Þjóðvaka á dögunum í Þingflokk jafnaðarmanna vakti óneitanlega athygli. Sitt sýndist hverjum en flestir voru á þeirri skoðun að Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hefðu einfaldlega verið að koma heim. Þegar Hjálmar Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi vestra, hefur verið spurður álits á þessum nýja þingflokki hefur hann svarað með vísu hins landskunna hagyrðings Ísleifs heitins Gíslasonar á Sauðárkróki. Svo virðist sem Ísleifur hafi séð sameininguna fyrir:

Hljóðfæranna sætur sónn,
sjatnaði ekki í viku,
þegar gamall grammófónn,
giftist harmóniku.

DV 13. sept. 1996

Frjáls viðskipti
Í nýjasta hefti af Stefni, tímariti ungra Sjálfstæðismanna, er grein sem heitir Til varnar vændi. Þar segir meðal annars:

„Líklega er best að skilgreina vændiskonuna sem manneskju sem nauðgunarlaust skiptir á kynlífi og fé. Mikilvægast er þó að viðskiptin eru nauðgunarlaus. Fyrir nokkrum árum sá ég forsíðumynd á tímariti þar sem mjólkurpóstur og bakari stóðu, sælir á svip, saman við sendibíla sína og átu sætabrauð og drukku mjólk. Báðir voru greinilega hæstánægðir með þau nauðungarlausu viðskipti sem þeir höfðu átt. Einhverja kann að skorta hugmyndaflug til að sjá nokkurt samhengi milli vændiskonu, sem skemmtir viðskiptavini sínum, og viðskipta mjólkurpósts og bakara. Engu að síður er í hvoru tilvikinu um að ræða tvær manneskjur sem af fúsum og frjálsum vilja koma saman og gera tilraun til að fullnægja þörfum sínum. Auðvitað getur það gerst að viðskiptavinur vændiskonunnar telji þjónustu hennar ekki hafa verið í samræmi við það fé sem hann greiddi eða vændiskonan telur sig fá lítið fyrir sinn snúð. En svipuð óánægja getur orðið í viðskiptum mjólkurpóstsins og bakarans. Mjólkin gæti verið súr og bakkelsið hrátt…!”

Ástin blind
Eftir svo stórbrotna lýsingu á því sem líkt er með gleðikonu og viðskiptavini hennar annars vegar og mjólkurpósti og bakara hins vegar er ekki úr vegi að skipta yfir til hinnar sönnu ástar og fara með vísu sem Jón Bergmann, sá mikli hagyrðingur, orti um hana:

Ástin blind er lífsins lind,
leiftur skyndivega.
Hún er mynd af sælu og synd
samræmd yndislega.

DV 18. sept. 1996

Heimurinn er í smíðum
Við höfum nokkrum sinnum birt vísur eftir þann góða hagyrðing séra Helga Sveinsson sem lengi var prestur í Hveragerði. Margar vísur séra Helga eru landsfrægar. Ekki veit ég hvort eftirfarandi vísa hefur flogið víða en hún á það sannarlega skilið:

Ristu og sýndu sæmd og rögg,
sól er í miðjum hlíðum.
Drottins glymja hamarshögg,
heimurinn er í smíðum.

DV 25. sept. 1996

Fullir í göngum
Það er svo sem ekki óalgengt að menn séu undir áhrifum í göngum og réttum á haustin. En það er sjaldgæfara að hreppsnefndir þurfi að gripa í taumana og ávíta gangnaforingja fyrir ölvun og vanrækslu í starfi. Umburðarlyndi hefur verið mikið í þessum efnum í gegnum tíðina. Það gerðist hins vegar í haust norður í Þingeyjarsýslu að umburðarlyndið þraut og skrifað var ávítunarbréf til gangnaforingjans. En meinleg villa var í bréfi hreppsnefndar þar sem orðið – ekki – féll niður. En bréfið er á þessa leið.

„Vegna mikillar ölvunar þinnar og þar með vanrækslu í starfi í fyrstu göngum, veitir sveitarstjórn þér hér með alvarlega áminningu. Ölvun gangnamanna, meðan á göngum stendur, er óviðunandi og verður að koma í veg fyrir slíkt. Því telur sveitarstjórnin að gangnaforingjum sé skylt að sjá til þess að gangnamenn séu svo ölvaðir að til miska leiði.”

Þarna má glöggt sjá að orð eru dýr.

Hollráðin
Það hefur nú oftast þurft minna tilefni en þetta til þess að Þingeyingar yrki um málin. Og að sjálfsögðu fóru hagyrðingar af stað vegna mistakanna með orðið – ekki. Þorfinnur Jónsson er sagður höfundur þessarar limru:

Hreppsnefndin hagsýn er löngum
og hollráðin gaf eftir föngum
hún krotaði á blað
og kóngana bað
að drekka nú daglega í göngum.

DV 23. okt. 1996

Gangavísa
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra, þeir séra Hjálmar Jónsson og Vilhjálmur Egilsson, voru á dögunum á fundi á Siglufirði. Með þeim í för voru Halldór Blöndal samgönguráðherra og Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra. Þarna var rætt um göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, sem margir telja að verði næstu göng sem grafin verða. Halldór Blöndal tók vel í þessa gangagerð og jók svo bjartsýni séra Hjálmars að hann orti.

Allt mun takast ef menn þora,
áhuginn kveikir bálið.
Við skulum, Halldór, byrja að bora
í bítið í fyrramálið.

DV 30. okt. 1996

Forsetningin
Einhverju sinni, skömmu eftir að Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti lýðveldisins, sat hagyrðingurinn Egill Jónasson frá Húsavík að tali við ónefndan apótekara á Norðurlandi. Þeir voru að tala um hve orðið forseti væri í rauninni gott og segði allt sem segja þarf. Þá fóru þeir að velta fyrir sér hvað kalla ætti forsetafrúna. Þeim kom saman um að eiginlega ætti að kalla hana forsetningu. Kona Sveins Björnssonar var dönsk og Egill orti:

Íslensk tunga þykir mikið þing,
þó er stundum vafi á hinu rétta
fyrst að okkar aðal forsetning
má eiginlega kallast dönskusletta.

DV 6. nóv. 1996

Honum á ég það að þakka
Þeir sem á annað borð hafa ánægju af vísum þekkja til vestur- íslenska hagyrðingsins Kristjáns Nikulásar Júlíussonar eða KN eins og hann var kallaður. Vísur hans voru vel gerðar og fullar af kímni. Hann var einnig frægur fyrir að svara vel fyrir sig í bundnu máli. KN drakk nokkuð og giftist aldrei. Eitt sinn var virðuleg frú að skamma hann fyrir að drekka of mikið. Hún sagði að ef hann hefði drukkið minna hefði hann án efa náð sér í konu, jafnvel hún hefði getað hugsað sér að eiga hann. KN svaraði konunni þannig:

Gamli Bakkus gaf mér smakka
gæðin bestu, öl og vín,
og honum á ég það að þakka
að þú ert ekki konan mín.

DV 13. nóv. 1996

Að hita jörðina
Ólafur Þ. Þórðarson situr nú á Alþingi og leysir af Gunnlaug Sigmundsson. Ólafur Þ. er með skemmtilegri mönnum og fær oft einstakar hugdettur. Á dögunum sagði hann á þingflokksfundi að taka þyrfti það mál til umfjöllunar á Alþingi að jafna hita á jörðinni. Menn hváðu við. Þá skýrði Ólafur frá því að Rússar hefðu talað um, meðan þeir voru ríkir, að breyta rennsli þriggja stórfljóta og veita þeim yfir saltauðnir. Ef það yrði gert myndi Ísland færast 500 km sunnar hvað veðurfar og gróður snertir. Þá myndi nú margt breytast á Íslandi. Meðal annars myndi allt hálendið gróa upp. Þegar Ólafur hafði skýrt frá þessu áhugamáli sínu orti Páll Pétursson félagsmálaráðherra:

Ólafi Þórðar eru kunnar
afleiðingar harðra vetra.
Ætlar að færa Ísland sunnar
einhver hundruð kílómetra.

DV 20. nóv. 1996

Laus við grasrótina
Frásögn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra um bandaríska stjórnmálamanninn sem fékk ánamaðka í eyrun vegna þess hve mikið hann hlustaði á grasrótina vöktu athygli. Svar Davíðs kom vegna þess að hann var spurður hvort hann væri hættur að hlusta á grasrótina í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu eftir flokksþing Sjálfstæðisflokksins spurði séra Hjálmar Jónsson alþingismaður Sighvat Björgvinsson, formann Alþýðuflokksins, hvernig honum hefði litist á flokksþingið. Sighvatur svaraði með vísu:

Með ánamaðka í eyrunum
eins og milli vina.
Labbar um á leirunum
laus við grasrótina.

DV 27. nóv. 1996

Föst til eilífðar
Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá fjárlaganefnd Alþingis eins og alltaf vill verða þegar unnið er að lokafrágangi fjárlagafrumvarpsins. Nefndin kallar til sín marga aðila og þá ekki síst úr menntamálunum, enda er þar um að ræða einn af fjárfrekustu málaflokkum landsins. Á dögunum var Hermann Jóhannesson í menntamálaráðuneytinu á fundi fjárlaganefndar. Þar ræddi hann meðal annars um að minnka ætti útgjöld til skóla á Sauðárkróki. Þar var við kviku komið. Séra Hjálmar Jónsson, sem sæti á í fjárlaganefnd, brást hart við, stóð fastur á móti hugmyndinni og sagði það aldrei skyldu verða. Þá orti Hermann:

Þótt fjárlögin séu flókin bók
fasta reglu má greina þar.
Fjárveiting sem er sett á Krók
situr þar föst til eilífðar.

DV 4. des. 1996

Þykkvabæjarkartöflur
Sem kunnugt er hefur Árni Johnsen fengið Sinfóníuhljómsveit Íslands til að leika inn á segulband það sem hann kallar „Stórhöfðasvítu” eftir hann sjálfan. Mörgum alþingismönnum þykir þetta tiltæki Árna hið skemmtilegasta. Þar í hópi er Jón Kristjánsson. Hann nefndi að til væri Alþingiskantata sem hefst svona:

„Þið norrænu hetjur af konungakyni,
sem komuð með eldinn …”

Jón vill endilega að saminn verði texti við „Stórhöfðasvítuna” sem hefjist á þessu erindi:

Eyjapeyjar í stafni stóðu
og stýrðu bátnum um úfinn sæ.
Með kassagítar og klóna góðu
og kartöflupoka úr Þykkvabæ.

DV 11. des. 1996

Á móti eigin tillögu
Það vakti athygli þegar fjórir alþingismenn, Vilhjálmur Egilsson, Siv Friðleifsdóttir, Árni Johnsen og séra Hjálmar Jónsson, fluttu tillögu um það á þingi á dögunum að hækka leyfilegan hámarksökuhraða. Þingmennirnir, sem allir eru þekktir fyrir að aka ekki hægt, fengu fljótt mótmæli víða að úr þjóðfélaginu gegn tillögunni. Þegar svo afkvæði voru greidd um hana á þingi voru allir þingmenn á móti henni nema þrír flutningsmanna. Séra Hjálmar hætti við og greiddi atkvæði gegn eigin tillögu. Fróðir menn segja að séra Hjálmar eigi þrjá bestu tímana á leiðinni Sauðárkrókur- Reykjavík. Halldór Blöndal samgönguráðherra orti af þessu tilefni:

Á 100 og 10 Hjálmar ekur,
Húnavatnssýslulögreglan
eftir því samt ekki tekur
af því hún kennir guðsmann þann,
sem syngur messur á Sauðárkrók.
Sálna- þar er landlægt mók.

Andstöðu veita enginn kann
Séra Hjálmar Jónsson er þekktur fyrir allt annað en að láta menn eiga inni hjá sér þegar vísur eru annars vegar. Og enda þótt hann hafi framið þann einstaka verknað að snúast gegn eigin tillögu á þingi svaraði hann Halldóri Blöndal fullum hálsi:

Á ógnarhraða ýmsir jeppar
aka norður í land.
Eyfirskir þá lögguleppar
lúta höfði í sand.
Andstöðu veita enginn kann
af því menn þekkja ráðherrann.

DV 18. des. 1996

Aldnir framsóknarmenn
Þingmenn Framsóknarflokksins héldu upp á 80 ára afmæli flokksins með pompi og prakt 16. desember síðastliðinn. Morguninn eftir mættu þingmennirnir til vinnu eins og ekkert væri, vildu hefja 81. ár flokksins með eðlilegum hætti en voru illa sofnir og illa fyrirkallaðir margir hverjir. Menn þóttust bæði sjá það á þeim og finna í loftinu og þá ekki síður af yfirbragðinu. Var sagt að sumir litu út eins og þeir væru jafnaldrar flokksins. Af þessu tilefni orti séra Hjálmar Jónsson:

Enginn þeirra út af deyr
afmælis vín þó renni,
en aftur vakna ýmsir þeir
sem áttræð gamalmenni.

DV 20. des. 1996