Kekkir í hafragrautnum


Ljóða og vísnagerð hefur alla tíð notið vinsælda með þessari þjóð. Skáld og hagyrðingar dáðir meira en aðrir menn, jafnvel lyft uppí það veldi að vera nefnd – þjóðskáld-. Hér áður fyrr ortu ljóðskáld flest innan hins hefðbundna ljóðforms og studdust við „stuðlanna þrískiptu grein” og að sjálfsögðu endarím. Á þessu voru þó undantekningar, einkum ríminu. Svo kom þar að ung ljóðskáld tóku að birta ljóð sín ort utan hins hefðbundna forms og voru kölluð atómskáld. Um þann skáldskap svo og hinn hefðbundna rifust menn svo í mörg ár og hafði hvorugur betur, og loks fór svo að sættir tókust, á yfirborðinu að minnsta kosti.

En alla tíð hafa verið til skáld, sem segja má að eiginlega hafi farið bil beggja, bæði í formi og efnistökum. Fyrir bragðið hefur svo hvorugur hópurinn viljað viðurkenna þessi skáld. Þess vegna hefur minna á honum borið en ella. Okkur datt í hug að bæta úr þessu og ætlum að birta hér nokkur ljóð og vísur þeirra skálda sem fóru bil beggja.

Þar sem lítið er til af þessum skáldskap á prenti, þætti okkur vænt um að þeir sem kunna eitthvað af honum sendu okkur það sem þeir kunna. En hér koma þá nokkur ljóð og vísur, sem ekki munu hafa birst á prenti áður.

Eftirmæli um Grána
Dauður er gamli Gráni nú,
gloppa kom þar í pabba bú.
Nú er oss glötuð Lútherstrú
og mamma huggar ei pabba nú
– sem skyldi.

Flosnaði þar upp fögur grein.
Til Frelsarans fluttust Grána bein.
Ást hans til pabba virtist hrein
og vindhanagæði voru ei nei
– hjá honum.

Sú kemur tíð að faðir minn
fer sömu leið og Gráni hinn.
Hittir þar fyrir vininn sinn
og verður feginn að skríða inn
– hjá þeim Gamla.

Sama skáld orti um ævi sína:

Ævi mín er eins og fjöl,
útá regin hafi.
Allt mitt líf er eilíf kvöl
og eg er sjálfur í kafi.

Aldrei nœ ég í fjölina
þó ég krafsi með klónum.
Alltaf sýp ég kvölina
og ekkert minnkar í sjónum.

Sama skáld orti eftir misheppnað gæsaskyttirí:

Hvar eru gæsir þær sem verptu í sumar?
Ég sé þær ekki lengur hér, í Bárðardal.
Þær hafaflogið lengra, mér fróðir segja gumar,
í fjallasýn í norður þœr stórhríð fal.

Ég ætlaði mér eina gæs að skjóta
í aftanverð á fátæklinga borð,
nú verða þær víst vængja sinna að njóta
því vopnlaus geng ég hér um feðra storð.

Svo fer ég heim og sest í gamla stólinn
sem þjónað hefur pabba og líka mér,
hér hef ég lifað öll mín æfi jólin
og etið marga baun og talsvert smér.

Þegar nútíma dans var tekinn upp, þ.e. að menn og konur snertust ekki, heldur rugguðu sér hvort fyrir framan annað, orti ágætt skáld, sem kallaði þennan dans kláðadans:

Ekki varð ég hissa,
heldur varð ég hissa,
á kláðadansi hissa,
forviða og hissa.

Þegar skólasálfræðingar komu fyrst til sögunnar þótti ýmsum nóg um og skáldi varð að orði:

Ekki er ég ennþá vitlaus,
en aðrir virðast hér um kring
hafa tapað eða misst haus
og trúa mest á sálfræðing.

Skáldi sem kom að Laxá í Aðaldal varð að orði:

Hvað ertu Laxá, unaðselfan bláa?;
af bergstalli fellur yfir breiða byggð.
Mannsandans kraftur reisti verið háa,
fœrir oss öllum von um dáð og dyggð.

Og skáldinu var svarað:

Hvað ertu Laxá, lítilsmagnans draumur?
ljóselfan bláa rennur út í sjó.
Framtíðin okkar er þinn stríði straumur,
afl þitt mun sóla verkamannsins skó.

Loks er hér ein nýleg staka svona í lokin:

Ólafur í ríkið rann
á rússajeppa sínum.
Helvítið ætlaði að kaupa
tvær flöskur
en keypti bara eina.


Þjóðviljinn 14. – 15. janúar 1984


Þá höldum við áfram að birta ljóð þeirra skálda, sem farið hafa bil beggja, þeirra sem yrkja í hefðbundnum stíl og hinna sem kallaðir eru atómskáld. Fyrsta ljóðið að þessu sinni er eftir Markús B. Þorgeirsson í Hafnarfirði, en það hefur einu sinni áður birst í Þjóðviljanum. Markús orti þetta ljóð til heiðurs Boris Spasský, þá er hann hafði lagt Hort að velli í frægu skákeinvígi hér á landi og sendi honum í skeyti:

Rússlandssómi í skákíþróttinni Boris Spasský er.
Hann í þeirri íþrótt af öðrum samherjum, frá öðrum löndum ber.
Hort er skáksnillingur, sómi sinnar þjóðar á landi hér.
Boris Spasský sannur skákmaður, hvar sem hann kemur og fer.
Lifðu heill svo lengi, Boris Spasský, sómi lands þíns og þjóðar,
hvar sem skákhetjan fer.

Um misheppnaða leit að hestum orti skáld eitt á Norðurlandi:

Jón í Garðsvík fór að leita að hestum
greyin töltu strax afstað
því þeir óttuðust sinn aftökudag.
Hann hefði ekki þurft þess
hefði hann haft það lag
að setja þá í poka og geyma það.

Þannig sagði skáld nokkurt frá mannsláti í sinni sveit:

Dauður maður dauður var,
sendimaður sendur var
uppí séra Valdimar
til að yrkja ljóðin þar.

Þegar unnið var að gerð kvikmyndarinnar „Rauða skikkjan” í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu, vildi svo vel eða illa til að tík ein stór merkileg, sem ein erlenda kvikmyndastjarnan átti varð hvolpafull eftir ómerkilegan sveitahund nyrðra. Þetta var hneyksli og mikið mál gert úr öllu saman. Egill Jónasson, skáld á Húsavík orti gamanbrag um málið. Öðru skáldi á Húsavík þótti Egill ekki verja málstað tíkarinnar nógu vel og orti þá til Egils.

Heldur fannst mér Egill vera
áleitinn við tíkina.
Ef hann sæi meyju bera
mundi hann ekki láta vera
að fá svona að snertana,
en hvort hann mundi vísitera
lœt ég svona alveg vera,
því hann veit ekki hvað er hvað
buxur eða fíkjublað.

Þótt Egill Jónasson sé einhver mesti snillingur ferskeytlunnar sem nú er uppi, þá getur hann líka brugðið sér í „milliflokk” skálda og það gerði hann og svaraði fyrir sig:

Heyrðu dýravinurinn hérna í Víkinni,
þú virðist reiður hundsins ástarsýkinni,
eins og þú hafir fundið til með tíkinni.
Þú stendur fremst í frænda og vina röðum,
frúarinnar sem varð fyrir hvolpasköðum,
máski hún sendi þér mynd af fíkjublöðum.

Steinn Steinarr orti frægt kvæði um Hallgrímskirkju á sínum tíma. En það hafa fleiri gert og hér kemur afbragðs góð vísa eftir skáld sem lítið er hrifinn af kirkjunni:

Lít ég yfir borgina,
turninn ber við himininn.
Veit ég ei hvort Hallgrími
líkar steypukumbaldinn.

Næsta vísa var ort um konu sem þótti knöpp á kost við hjú sín:

Mikil þykist Vigdís vera,
von er það að hún sé ljót.
Alla sveltir hún til dauða,
bryður sundur torf og grjót.

Þessi vísa mun vera til í fleiri en einni útgáfu:

Geng ég inn um ganginn hér,
bjart er yfir sveitinni.
Ég er eins og jólatré,
ég er í hreppsnefndinni.

Skáld kom að konu sem var að taka til í eldhúsi sínu og orti:

Eldhúsið er eins og meyja á grúfu.
Drullutauma dragnast með,
drýldin frú á Þúfu.

Guðrún Ólafsdóttir fæddist 4. ágúst 1866 að Karlsstöðum á Berufjarðarströnd. Hún missti móður sína 7 ára að aldri og var upp frá því alger einstæðingur. Hún lenti til vandalausra, en leið ekki vel í þeirri vist og mun það sennilega hafa mótað allt hennar líf. Húsbóndinn á heimilinu var heldur hrottafenginn maður og Guðrún vildi komast þaðan í burtu. Það varð ekki fyrr en 3 árum síðar, en þá var þarna á ferð maður að nafni Þorsteinn. (Maður þessi var lengi verkamaður á Norðfirði og gekk undir nafninu stutti Þorsteinn.) Hann tók telpuna með sér austur í Vaðlavík og kom henni í fóstur hjá sómahjónunum Þórunni Halldórsdóttur og Ásmundi Jónssyni, sem síðar bjuggu í Vindheimi. Um þetta ferðalag sitt austur orti Gunna:

Tíu ára að aldri var
tók ég á mig ferðarnar
yfir fjöll og firnindi
flæktist ég með Þorsteini.

Tregi og sorg í brjósti bjó
barðist ég með hetjumóð
burt frá úlfum, ekki rík,
austur beint í Vaðlavík.

Vel var tekið á móti mér
af Ásmundi og Þórunni.
Þeim skal bestu þakkir tjá
bæði guði og mönnum hjá.

Síðar, eða frá 1913 til dauðadags 1949 var Guðrún hjá þeim hjónum Sólveigu og Guðjóni Ármann, fyrst í Fannardal og síðar á Skorrastað. Hún vann þeim hjónum ávallt vel og var börnum þeirra góð.

Guðrún Ólafsdóttir var ákaflega lagin að skemmta fólki. Hún var síyrkjandi og fór ævinlega sínar eigin götur. Hún hirti ekki um stuðla né höfuðstafi og því þóttu sumar vísna hennar skrítnar, en þær falla vel að hinni rímlausu öld nútímans.

Hún skrifaði aldrei neitt af skáldskap sínum. Mest af honum er því glatað nema það sem fólkið á heimilinu og aðrir lærðu og kunna enn. Eftirfarandi vísu orti Gunna þegar Halldór Laxness var orðinn frægur af skáldskap sínum.

Það er stríð í stórborgum
stjórnleysi í heiminum.
Biblían er á bálið sett,
en bókum Laxness upp er flett.

Guðrún er uppi á þeim tíma, sem guðstrúin og kristindómurinn var haldreipi manna, ekki síst hinna munaðarlausu. Hún orti ógrynni af trúarlegum vísum t.d.:

Þú lætur grösin gróa
vor Guð og blómgast hjörð
þú sendir björg og blessun
vorri fósturjörð.

Menn mæðast þreyttir, þjáðir
en þola ekkert stríð
sífellt syndum háðir
sína lífs um tíð.

Óðum líður ævin hér
bráðum sjötug að aldri er
svo byrja ég elliárin mín
með gleði og trausti, Guð, til þín
því þú ert besta hjálpin mín.

Víða kemur fram í vísum Gunnu að henni er illa við lausung og hvers kyns daður. Þannig yrkir hún um ball úti á Nesi:

Í lausu lofti þeir leika sér
með líkamsparta sína.
Sálina þeir svæfa í sér
með alls konar látæði.

Vangadansinn dönsum hér
þeir dansa hann úti á Nesi.
Strákarnir þeim klappa þá
bæði aftan og framan á.

Margt hefur breyst til batnaðar
eðlið er eins og samskonar
karlarnir stunda kvennafar
kela þó mest við jómfrúrnar.


Þjóðviljinn 21. – 22. janúar 1984

Kekkir í hafragrautnum

Áður en tekið er til við höfuðskáld þáttarins í dag þykir rétt að tilfæra tvær vísur, sem því miður verða ekki feðraðar með vissu. Sú fyrri komst á blað fyrir meira en aldarfjórðungi og hlaut þá upphefð fyrst og fremst vegna þess, að hún var sögð eftir fimm ára gamalt stúlkubarn, Lísu að nafni. Hún er þannig:

Blómin í hlíðinni léku sér dátt,
þau dreymdi um sólarins hita.
Þau blómstruðu bæði gult og blátt.
Slíkt er aldrei að vita.

Athyglisvert má það teljast, að hin unga skáldkona hefur sólina í karlkyni – eins og reyndar flestar hámenningarþjóðir hafa hugsað sér hana gegnum aldirnar.

Síðari vísan var af ýmsum eignuð Steini Steinarr, en birtist höfundarlaus í Vinnunni fyrir mörgum árum (1948):

Rösklega er riðið í hlað
rétt eftir sólarlags bil.
Ég er nú hræddur um það,
það er nú líkast til.

Fleiri höfundar hafa verið tilgreindir, en enginn viljað viðurkenna að hafa ort hana.

Og þá er best að snúa sér að skáldi dagsins. Vafasamt er, að hann vildi nokkuð frekar flíka nafni sínu, ef hann er þá ekki horfinn til feðra sinna fyrir löngu, en rétt er kannski að geta þess að hann var búsettur norðan fjalla, og munu flestar yrkingarnar sem hér eru tilgreindar vera gerðar fyrir a.m.k. 40-50 árum. Um skemmtanalíf þeirra tíma orti hann:

Alþýðan dansandi gengur um gólf
í hátíða veraldarsölum,
þar er útþanið hvert einasta talandi hólf
í miðnætur galandi hönum.

Önnur svipaðs eðlis, en öllu heimspekilegri:

Í háfjallasölum við dalanna lind
hundar elta tík með loðna rófu,
en menn með sína réttu góðu guðamynd
elta stúlkur á borgar götuslóðum.

Á þessum tíma komu fyrstu bílarnir í sveitina. Þá orti skáldið um einn þeirra, sem sat fastur:

Þegar dýrið dottið er
niður í fen og fúa,
fœr það til að hjálpa sér
þreytta menn og lúa.

Næsta vísa mun einnig vera ort um bíl, og hvað sem forminu líður, þá er hún óneitanlega nokkuð myndræn:

Litla tunnan veltur þar,
hér og hvar og allsstaðar.
Uppi undir hamrabrún
þar hringar hún.

En ekki var hrifning skálds vors af þessum nýju farartækjum neitt tiltakanleg, sbr. eftirfarandi:

Magnast tók keyrslan hjá Magnúsi núna,
mannfjöldinn undrandi starði þar á;
trosían stanzaði rétt neðan við brúna,
við barminn á þeirri helvítis voða gjá.

Ástin í mannfólkinu varðskáldinu að yrkisefni, að sjálfsögðu:

Haukur einn á riðli um nótt
frúarskipti hefur,
en fúnu trén þau bresta fljótt
er hana hann örmum vefur.


Einnig þessi:

Kúrir einn í kompu sveinn,
kumpánlegur að vísu.
Hann má alltaf vera einn,
því aldrei fœr hann hana Fjalla-Dísu.

Ekki lét skáld vort pólitíkina heldur með öllu framhjá sér fara:

Kommúnistahreyfingin
komin er í Bæhreppinn,
íhaldið með rauða kinn
og Framsókn með krepptan fingurinn.

Sveitungi skáldsins reisti sér hús sem þótti nokkuð hátimbrað og með fleiri burstum eða kvistum en skáldinu líkaði:

Strýta er þar strýtu við,
strýta er hans sjónarmið:
strýta á stafni, strýta á hlið;
strýta gefur Magnúsi sálarfrið.

Menn reyndu að fá skáldið til að botna, og er vitað um tvö dæmi þess að það tækist. Maður kom með þennan fyrripart:

Lengist nóttin, lækkar sól,
lífið óttast vetur.

Skáldið svaraði:

Komdu þér upp að drottins stól
og stattu þar ef þú getur.

Annar hagyrðingur ljóðaði á hann:

Ævi manns er ekki löng,
aðeins húsavegur.

Skáldið svaraði að bragði:

Dauðinn blaktir efst á stöng
og hann er hættulegur.

En ekki hefur honum alltaf fundist menn kunna að meta sig sem skyldi, og er það bæði gömul og ný saga um skáld. Þessi mun vera ort svo seint sem 1950 eða þar um bil, en ekki er vitað hvern hann ávarpar:

Launa vil ég ljóðin þín,
landsins haukur prúði.
Fáir hugsa hlýtt til mín
úr sínu andans rúmi.

Að lokum þykir rétt að tilfæra þá vísu eftir skáldið, sem í rauninni lýsir betur því sem gerðist á landi hér árið 1940, og hefur því miður verið að gerast æ síðan, heldur en e.t.v. flest annað sem sett hefur verið saman af skáldskapar tagi í landinu, hvort heldur er í bundnu máli eða óbundnu, svo sárt sem það er að þurfa að kyngja því:

Brezki herinn blasir við;
brezka auðvalds-klíkan
engri sálu gefur grið
gefst upp þjóðernis-píkan.

Þjóðviljinn 28. – 29. janúar 1984

Kekkir í hafragrautnum

Ólafur Bjarnason hét maður ættaður frá Stafni í Svartárdal. Kveðskaparform hans var nokkuð sérstætt og mest orti hann lýsingar á samferðamönnum sínum og koma hér nokkur sýnishorn:

Vatnsskarðs Inga viður glingur pilta.
Fóhornsnefjan furðu slyng
fer að tefja í úrtíning.

Er hann Geggi enn með sleggjunefið.
Syndahreggi vanur var,
vinur beggja taldist þar.

Einsi hró með ýsuspóanefið.
Syndakjóinn svartur og snar
svörlast flóann glötunar.

Imba í Steini er að reyna að trítla
í kringum Gísla svarta sinn,
sá er píslarvotturinn.

Einar á Handi eins og branda í potti.
Með syndaanda sínum hér
sá um landið hoppa fer.

Haraldur gamli haltur um svamlar veginn,
út í mýri ekur sér,
eins og kýr í framan er.

Hér koma svo nokkrar vísur í viðbót eftir skáld það er átti megnið af kveðskap síðasta þáttar.

Andans fjandans selirnir
hrafnar fundu forðum.
Hákarlar og refirnir
flugu með hnísusporðum.

Næsta vísa var ort að loknum ástarfundi:

Eina bjarta eldsins nótt,
eldsnemma var á fótum!
Tifaði bæði títt og ótt
og togaði að sér brókum.

Við eftirlátum mönnum að túlka næstu vísu:

Dauðans auðn í augu skar,
auðn í dauðann svarta.
Andinn eigi eldinn þar,
eldsins tungur bjartar.

Sömuleiðis þessa:

Tvær þó tungur mæli fljótt
með eldsins tungutaki,
leika logar um miðja nótt
logar á hússins þaki.

Kvenlýsing:
Þuríður með þurra lund,
gengur þurr og lotin,
eins með þurra lífsins grund,
þangað til þurra grundin er þrotin.

Að loknu ferðalagi:
Rekkar kátir rennandi,
röskir fákar ganga.
Kaffið heitt á könnunni
kætir ferðamannalanga.

Hér er svo sýnishorn úr Ævirímu Jóns Björnssonar á Bakka í Viðvíkursveit:

Með öxi hjó ég einatt haus
og yddi marga staura.
Helst þó var mér höndin laus
að hamast við þá gaura.

Hér kemur svo merkur bragur eftir Guðrúnu Ólafsdóttur, sem við höfum áður birt vísur eftir. Nefnist hann Stínubragur:

Lítið virti hún mannkosti mína
þó ráðalaus væri hún Stína.
Sjalinu hún sundur lét fletta,
þetta fannst henni það rétta.

Kom hún til mín eins og flærðartóa
biður mig að lána sér
sjalið til að flangsast með.

Ég spyr kvendið hvert nú skuli halda
greinir hún mér grett þar frá
að fundinn ætli hún sér á.

Lítið hafði hún fyrir því að kveðja,
ofan stigann œddi fljóð
út um dyr og fram á slóð.

Verður mér þá litið út um gluggann,
sé ég undir taglið á
Kristínu fram að Holti þá.

Í strákasolli vill hún heldur vera
en að sækja fundina
út í stúlkutemplara.

Og enn kemur mannlýsing, sem einnig segir nokkuð til um efnahag viðkomandi:

Hillir undir Húsafell,
þar býr ríkur bóndi
Þorsteinn nokkur Jósepsson,
hann á margar rollur.

Skeiðsprettur gæti þessi vísa heitið:

Grána gamla þenur sig
en henni ferst það ekki,
því hún er orðin elliær
aumingja kerlingarhróið.

Loks er vísa sem varð til á Þorra:

Á blóti vestur á Þingeyri. Þá var kastað fram fyrri parti og heitið vínflösku í verðlaun fyrir besta botninn. Fyrri parturinn var svona:

Fór að smala fram til dala
frækinn halur Gunnlaugur,

Margir botnar bárust, því flestir vildu eignast flöskuna. Á staðnum var skáld úr okkar flokki og hann fékk að sjálfsögðu verðlaunin fyrir þennan botn:

Rauður var í svitabaði
og hundurinn alveg ónýtur.

Þjóðviljinn 4. – 5. febr. 1984

Kekkir í hafragrautnum

Við hefjum þennan þátt eins og við enduðum þann síðasta með vísum eftir Guðrúnu Ólafsdóttur frá Neskaupstað. Svona þakkaði hún sæmdar hjónum fyrir sig:

Með heiðri og sóma ferst þeim vel
Ólafíu og Sæmundi,
enda bið ég Guð þess hér
að þau fái uppskorið,
hvað þau reyndust Gunnu vel
í hennar reynsluskóla hér.

Gunnu blöskraði fréttir af stríði út í hinum stóra heimi og orti:

Af lífinu út í löndunum
leiðir illt í heiminum
þeir eru að skemmta skrattanum
og skjóta fólk með byssunum.

Um Norðfjörð orti Gunna, en hún leit á sig sem Norðfirðing og þótti vænt um fjörðinn.

Á Norðfirði er indælt að vera
þeir alla kosti hafa að bera
bið ég Guð þeim blessun að veita
því boðorðunum vil ég ei neita.

Og til ungu piltanna í Neskaupstað orti hún 1937.

Ég er nú orðin eins og skar
piltunum líst ekki á það
að setjast á brúðarbekk með mér
mega þeir ekki hugsa sér.

Eitt sinn mætti hún verkamönnum að koma frá kolauppskipun og orti þá:


Allur verkahópurinn
mætti mér á Ströndinni
voru þeir eins og von var til
allir saman kolsvartir
upp úr kolavinnunni.

Þessi vísa varð til þegar Gunna var á leið heim af engjum.

Með bólgna öxl og handleggi
gengur hún að vinnunni
þó lítið hafi hún upp úr sér
eftir veraldarandstreymið.

Vorvísa (eftir harðan vetur)
Veturinn þessi er vikinn á burt
vaknar að nýju af svefni hver jurt
sumarið færir oss sólríkan yl-t
samhliða vöknuðu menningar til.

Eins og áður hefur komið fram var Gunna trúuð kona og þessa heilræða vísu orti hún eitt sinn:

Þeir sem lifa í saurlífi
og syndasvalli á jörðinni,
þeim ég segi: Það er vandinn
að trúa á Guð svo styrkist andinn.

Hér er svo vísa þar sem Gunna boðar bindindi:

Pólitíið kylfu ber
lemur henni í haus á þér,
ef þú drekkur áfengi
hafðu maður gát á þér.

Gunna vildi setja niður nábúakritur og orti:

Nábýliskriturnar niður ég kveð
andarnir góðu nú veiti mér lið,
lifið í einingu allir í ró
eftir því takið á landi og sjó.

Gunna orti þulu um hið vonda í heiminum og skefur ekkert utan af hlutunum:

Það er stand á vörgunum,
þarna út í löndunum,
þeir standa stíft á strætunum,
og beita illsku brögðunum,
þeir binda fólk í böndunum
og byrla því eiturgasinu.

Austfjarðar þokan er illræmd og öllum illa við hana, þannig lýsir Gunna henni:

Svei þér þokan grá
þig vil ég ekki sjá.
Þú villir fólk á sjó og landi
og veldur bæði regni og grandi.

Svo kemur hér vísa eftir ókunnan höfund og eins og hún ber með sér er hún ort þegar þeir Spassky og Fischer háðu einvígi um heimsmeistaratitilinn í skák hér á landi:

Sátu tveir að tafli,
tefldu að öllu afli.
Annar hét Spasser
en ég segi aldrei hver hinn er.

Í næstu vísu birtist mikil mannlýsing eða jafnvel heil ævisaga:

Rauðhærður með kringlótt klof,
kikknar hann allur í hnjáliðunum.
Hann ætlaði að verða mikill maður
en gat það ekki.

Ekki hefur hann verið álitlegur náunginn sem svona var ort um:

Illa líst mér á þann hrút
dável þótt hann dafni.
Dregur annað augað í pung
og glennir uppá sér kjaftinn.

Jón Bergsson var maður nefndur og orti hann talsvert. Eitt sinn bað hann mann að fylgja sér austur yfir Hornafjarðarfljót með eftirfarandi vísu:

Ef þú kemur með mér austur yfir fljót
skal ég útvega þér einhvern stúlkufót
handa þínum lœraljót.

Að lokum eru svo tvær nýlegar vísur um Albert og hundahaldið:

Albert varð í Frakklandi
frægur fyrir lappir tvær.
Nú er það af hundahaldi
sem hans ljómi stendur skær.

Hundalíf er hér í borg
Alberts gerast raunir stórar
veldur mestri harma sorg
að hafa loðnar lappir fjórar.


Þjóðviljinn 11. – 12. febr. 1984

Kekkir í hafragrautnum

Þá tökum við aftur til við Kekkina í hafragrautnum og að þessu sinni verðum við eingöngu með vísur eftir Jónas Friðmundsson frá Fremstafelli, en eftir hann var m.a. sá ágæti Grána-bragur sem birtist í fyrsta þætti okkar.
Eftir Jónas hafa varðveist fjölmargar vísur, enda eru þær með þeim hætti að menn sóttust eftir þeim á sinni tíð.

Fyrst eru þá tvær vísur sem hann nefnir Heimþrá og eru allar vísurnar sem hér verða birtar með starfsetningu Jónasar:

Jeg hugsa heimí dalinn minn,
jeg hugsa um mína sveit,
því jeg er fjarri firstum sinn
og frí jeg ekkert veit.

Jeg sit oft hljóður síðla kvölds
og stari útí geim,
því nætur húm og hríðarvölds
hindra mig í að komast heim.

Um stúlku heitir næsta vísa:

Þú ert vel af guði gjörð,
giðja norður landa
gráttu hækt um gleðinnar jörð
glöð og ljett í anda.

Næst koma nokkrar lausavísur:

Seint og snemma hjér hjá oss
svanur er á veiðum.
Töfra guma tigna hross
til og frá á heiðum.

Mörg er meyan björt og blíð
bros hír mild og fögur.
En álit mitt á þessum líð
á hjér eingar sögur.

Alstaðar er eitt hvað að
engin alsæll verður,
er það nokkur eða hvað
hjér er aldrei friður.

Borð stólana reisir rjétt,
rösk á elthús beknum. \
Klukkan þín, og kanski óþjett
krímd er undir serknum.

Ó, að fari að flíta sjér
fagra vorið blíða,
svo það geti sungið mjer
söng er mætti á hlíða.

Singandi í lopti svífur lóga
sólin vermir kalda jörð,
í mónum heiri jeg smalan hóga
hoppar um grundir fjörug hjörð.

Opt er það nú, opt um sinn,
opt í solli hreinum,
ef jeg kissa mætti á kinn
konurnar í leynum.

Næst kemur svo vísa um æskuástina:

Æ opt, æ opt jeg hugsa um þig
og okkar skauta ferð.
Þá gegstu hlið að hlið við mig
og hlógst að hættu merð.
Þú leiddir mig, jeg leiddi þig,
við leiddumst bæði tvö.

Eitthvað hefur skáldið verið óánægt með tilveruna þegar næsta vísa ort:

Eitt er víst og víst er eitt
í veröldinni heima.
Mjer er orðið lífið leitt
látlaust einn jeg sveima.

Þá kemur vorvísa:

Opt á vorin skríði í skjól
skrítin lömb í haga.
Sínast þó með sada vömb
en svona er lífsins saga.

Um ástleitni kvenna orti Jónas:

Kvenfólk oft er kátt í lund
þá karlmenn ber að garði.
Hugxar sjer á ásta fund
áður en nokkurn varði.

Einhver var orðinn lúinn og tók sér hvíld, þá orti Jónas:

Ertu lagxtur, lítið má
littlu beri granda.
Farðu á fætur reindu þá
fljótt nú reind að anda.

Ort var níðvísa um Jónas og hann svaraði:

Þú mát irka níð um mig
meðan að jeg þeigi.
En konur munu meiða þig
í mirkri og bjórtum deigi.

Ortu lof og ortu níð
ortu líka um bandann.
Ortu um mig og ortu um líð
ortu allan fjandann.

Afmælisvísa heitir sú næsta:

Sjötíu og fimm þú árin sjerð
sorg og þreita á þeim er.
Drottinn gefi þjer glaða ferð
þegar guðs á fund þú fer.

Á gamals aldri orti Jónas:

Jeg er gamall orðinn grár
giktveikur og marinn.
Rifinn sundur allur sár
sálin aðeins ófarin.


Þjóðviljinn 25. – 26. febr. 1984

Á Snæfellsnesi eru hinar svokölluðu Gonsa vísur vel þekktar, en sá er þær orti, var kallaður Gonsi og var kunnur maður vestra á sinni tíð. Hann orti margar perlur í okkar stíl hér í hafragrautnum. Við skulum líta á nokkrar vísur eftir Gonsa.

Eitt sinn kom hann á bæ þar sem var uppi hangandi mynd af húsbóndanum, sem hét Sæmundur og einnig mynd af hundum. Þá orti Gonsi:

Hér er mynd af hund og hund
hér er mynd af Sœmundi.
Elínborg er ágætt sprund
alveg laus af syndinni.

Á þeim tíma sem Gonsi var uppi þurfti að setja báta og ýta fram. Um það orti hann:

Gekk ég niður í fjöruna
út að bátnum þarna þá,
ýtti honum útá sjó
en Gonsi passaði stýrið þó.

Um kvenhylli sína orti Gonsi:

Meyjarnar á himnahæðum
allar hafa Gonsa séð.
Hann er ekki hérna hér
heldur bara annarsstaðar þar.

Bróðir Gonsa, sem Hafliði hét náði sér í unnustu. Þegar hann kom heim með unnustuna lenti hann í Kofafjöru á Hellissandi og þá stóð Gonsi á fjörukambinum og orti:

Helvítið hann Hafliði
hann fékk hana Sigríði.
Óð uppí klof eins og andskotinn
uppúr Kofafjörunni.

Þessi vísa mun einnig vera eftir Gonsa:

Lóa hefur loppur
labbar út á tún.
Þegar Lóa labbar,
þá labba ég með hún.

Góðbóndi í Laxárdal yrkir svona um dalinn sinn:

Laxárdalur langur er
og liggur að Hrútafirði.
Kaffisopann sýpur ég
sé hann nokkurs virði.

Eins og þeir muna sem lesið hafa þennan þátt, þá yrkja fáir jafn vel í okkar stíl og Jónas Friðmundsson, Þingeyingur. Hér koma nokkrar vísur eftir hann.

Hulda er að binda blóm
beint á móti vestri.
Hún er eins og síld í sjó
eða sá vesti.

Um unga stúlku orti Jónas:

Anna á Krossi andar blítt,
allir vilja sveinar
hana kyssa hart og títt
hún svo undan kveinar.

Það hefur verið kuldaleg hvítasunna þegar Jónas orti þessa vísu:

Hvítt er á hvítasunnu,
hvítt það sem kemur úr loftinu.
Það er eins og andlit á nunnu
sem langar ekki í neitt.

Ástamálin voru ofarlega á baugi hjá Jónasi:

Einn ég geng um eyðihjarn
út með Skjálfandafljóti.
Ég skal hlaða konu barn
ef Bibba hleður á móti.

Þá kemur hér ágætt bréf sem okkur var sent með góðum skýringum á þessum gullvægu vísum.

Frá skútuöldinni
Blái liturinn frá Gleðjufirði
innbyrti eitt lítið kóð.
Það var eins og ofurlítil beita,
en ekki eins og andskotinn.

Sagði ég við skipstjórann:

Láta síga í bakkann,
fá sér eina, fá sér eina
rauðkúfótta þar,
rauðkúfótta þar, þar,
rauðkúfótta þar.

Þetta má syngja við lagið „Nú er ég kominn náungann að finna”. Gleðjufjörður mun vera Patreksfjörður, en nánari skýringu á því er ekki að finna í vorum vösum.

Þessi er eftir Sigurmund Runólfsson og ort í Vestmannaeyjum.

Gekk ég inn á Eiði,
unga meyju hitti þar.
Anga blómin blíðu
í vorblíðunni stríðu.

Eftirfarandi afmæliskveðju orti Árni Pálsson (ekki prófessor) til vinar síns:

Þú hugljúfi afmælisdrengur
á vængjum svífur um geim.
Ég er á förum, Siggi,
ég er að fara heim.

Þessi er eftir óþekktan höfund:

Gaman hef ég af að sjá,
þegar ærnar koma
ofan af nú Geldinga-
hjallanum og telja þœr.

Ekki er mér heldur kunnugt um höfund þessarar hugljúfu stöku:

Lítið törn á kelerí
tekur Brynki á kvöldin,
og með morgunsárinu
annað eins sig skekur.

Indriði Guðmundsson var á sinni tíð þekkt skáld eystra, og hefur Sigfús Sigfússon getið hans í þjóðsögum sínum. Þetta orti Indriði um móður sína:

Blessuð veri móðir mín í heimi hér,
hún hefur átt við bágan hag að búa.
Þegar guð vill ekki meiri miskunn á henni gera,
þá fari hún upp í friðarstað, og veri hún þar.

Þessar vísur orti Indriði eftir erfiðan fjárrekstur yfir fjallveg:

Lágum úti á fjöllunum
í dagstæða viku.
Féð var að bera í höndunum,
þessi litli hópurinn.

En um síðir komum þar
allir á einn glugga þar,
enginn maður út kom þar,
þó orgað og grenjað væri þar.

Í sama brag var einnig þetta:

Hundar þessir, hundar þessir hlupu móðir,
þeir voru ekki allir góðir,
eins og þeir væru djöfulóðir,
skattalóðir, skattalóðir.

Um konu eina kvað Indriði:

Arndís er að hlæja hátt,
færist mjög í herðar,
hún er eins og úfinn hrafn
eða fugl á eggjum.

Eftirfarandi vers söng Indriði að loknum húslestri, og er talið hann hafi ort það sjálfur, segir Sigfús:

Ekki er að furða,
þótt á komi snurða,
því heimurinn hrekur
og hrjóstrugt við tekur,
syndirnar sveima,
Satan er breima,
og hér stendur heima.


Þjóðviljinn 17. – 18. mars. 1984