2006

Mælt af munni fram
Hákon Aðalsteinsson skáld og skógarbóndi setti þetta á Leirinn:

Það situr dálítið í mér upplitið á Jóni H. B. í Kastljósinu og þá varð þessi til:

Við megum ekki guggna þó að mikið gangi á
og málarekstur dómsvaldsins sé hæpinn.
Vont er þegar málunum er vísað svona frá
en verst er ef að Baugur missir glæpinn.

Og sei sei
Sjálfsagt kannast allir vísnaáhugamenn við þessa vísu Halldórs Laxness. Hún er vel gerð og því full ástæða til að birta hana hér:

Á morgun ó og aska hí og hæ
og ha og uss og pú og kannski og sei sei
og korríró og amen bí og bæ
og bösl í hnasli sýsl í rusli og þey þey.

Nokkrar staðreyndir
Þessar staðreyndir setti Davíð Hjálmar Haraldsson á blað:

Stangar hrútur. Stingur mý.
Stálma baular kýrin.
Krækir rottu köttur í.
Kæfir Rauðku mýrin.

Syngur fuglinn. Súrnar mjólk.
Selur dauður morknar.
Þorskur syndir. Fitnar fólk.
Flot í kæli storknar.

Hani veit í haugnum orm.
Hundar éta ruður.
Brakar rúm með brotinn gorm.
Bráðum skrepp ég suður.

Vantar traustan mann
Hjálmar Freysteinsson orti þessa vísu þegar skipa þurfti nýjan saksóknara í Baugsmálinu:

Nú vantar einhvern til að taka af skarið,
traustan mann er hlutlaus getur staðið,
einhvern sem hefur aldrei í Bónus farið
og ekki hefur lesið Fréttablaðið.

Framtíðin færist nær
Hjálmar setti þetta á Leirinn:

Það gladdi mig að heilbrigðisráðherra skrifaði grein í Mogga í gær. Fyrirsögnin var: Nýr Landspítali – framtíðin færist nær.

Þessi ráðherra er ferlega fær,
hann fattaði þetta í gær,
en fullsannað mun að
fáa hafi grunað;
að framtíðin færist nær.

Hæglátt kvöld
Pétur Stefánsson orti þessa fallegu kvöldvísu:

Komið hæglátt kvöld og stillt
kveð ég góðan daginn.
Renna skýin roðagyllt
frá Reykjavík, í sæinn.

Þorði ekki að botna
Bjarni Stefán Konráðsson sagðist hafa verið beðinn að svara spurningunni: ,,Hvað er eftirsóknarverðast að gera þegar komið er til Reykjavíkur?“ Í orðastað karla gaf hann þetta svar:

Labbaðu á Vegas ef líður þú skort
þar léttklæddar meyjar drottna.

Þegar hér var komið sögu datt mér bara eitt orð í hug til að ríma á móti drottna en hætti snarlega við og tók því eftirfarandi ákvörðun:

Þegar hafði ég þetta ort
þorði ég ekki að botna.

Bændablaðið 17. jan. 2006

Mælt af munni fram
Það fer vel á því að Hjálmar Freysteinson eigi fyrstu vísu þáttarins að þessu sinni enda hafa mörg gullkornin hans verið birt í þessum þætti:

Þeir sem allt til aura meta
áttunum týna.
Frjálshyggjan er farin að éta
foreldra sína.

Að breyta vatni í vín
Kristján Helgi Benediktsson, málari á Akureyri, var lista hagyrðingur. Honum þótti sopinn góður eins og fleirum og orti eitt sinn:

Menn ausa í sig blávatni oft á dag
örvunardrykkjum fækkar.
Þannig skal bjargað þjóðarhag
þegar að krónan lækkar.

En þorstinn magnast og þrekið dvín,
ef þambað er blávatn úr krana.
Ó, Drottinn, breyttu vatni í vín
því víðar er þörf en í Kana.

Í helgu riti er greint frá því að í brúðkaupsveislu sem haldin var í Kana hafi Kristur breytt vatni í vín.

Meira um Kana
Þessi vísa var ort um drykkfelldan embættismann:

Þú ættir að kaupa þér krana
og koparslöngu ef hún fæst
sem þyrfti að ná til þorpsins Kana
þegar þar verður brúðkaup næst.

Presturinn bíði til vors
Kristján Helgi var eitt sinn rétt fyrir jól að mála Grenivíkurkirkju og orti þá:

Af því koma bráðum blessuð jólin
ber ég lit á kirkjuþiljur fínar,
svo puntaði ég predikunarstólinn
en prestinn læt ég bíða þar til hlýnar.

Á kvennafrídaginn
Hjálmar Freysteinsson orti á kvennafrídaginn síðastliðið haust:

Úr mér dregur allan mátt
uppreisn gerir maginn.
Konur ætla að hafa hátt
hálfan mánudaginn.

Við betri tímum búast má
bættur verði skaðinn,
þær ætla víst að þegja á
þriðjudag í staðinn.

Sól um daga
Hreiðar Karlsson sendi þetta á Leirinn:

Mig langar að rifja upp vísu eftir Starra í Garði, sem gerð var á árum vinstri stjórnarinnar 1971- 1974:

Sól um daga, dögg um nætur,
dýrin fyllast.
Vinstri stjórnin varla lætur
veður spillast.

Fullkominn glæpur
Þegar upp komst að starfsmaður á vistheimili hirti sjóð vistmannanna orti Hreiðar Karlsson:

Eðlinu hlýða hver maður má
og margur á svellinu tæpur.
En stela af fólki sem ekkert á
er um það bil fullkominn glæpur.

Fjórða desember
Margir kalla þessa vísu ódauðlega fjárleitalýsingu Péturs Jónssonar í Reynihlíð:

Fjórða desember fundum við spor
eftir fénað í góðri líðan,
átum sinn ærkjammann kaldan hvor
um kvöldið og háttuðum síðan.

Bændablaðið 27. jan. 2006

Mælt af munni fram
Spurt var á Leir um höfund þessarar vísu:

Það er dauði og djöfuls nauð
er dyggðasnauðir fantar
safna auð með augun rauð
en aðra brauðið vantar.

Kristján Eiríksson svaraði og sagði: ,,Vísan hefur oftast verið eignuð Sigurði Breiðfjörð og svo er gert á vísnavef Skagfirðinga en þar segir að Sigurður hafi kveðið hana við Stefán bróður sinn Eiríksson sem synjaði honum um peninga. Stefán kvað á móti:

Þótt Breiðfjörð mikið berist á
og biðji kvenna í hrönnum
undir mígur seggur sá
samt hjá tignarmönnum.

Það skal tekið fram að vísan Það er dauði og djöfuls nauð er líka víða kennd Bólu Hjálmari.

Rifin hans Steingríms J.
Mikið hefur verið ort um rifbeinsbrot Steingríms J. Sigfússonar í slysinu sem hann lenti í á dögunum. Guðmundur Ingi Jónatansson sendi þessar tvær vísur á Leirinn:

Það er bansett bölvað klif
Við Bólstaðarhlíðarveginn.
Þarna braut hann þrettán rif
Og þau öll vinstra megin.

Þarna var komið auka eitt
einhvern veginn.
Því 12 eru rifin yfirleitt
öðru megin.

Davíð Hjálmar Haraldsson bætti við:

Til vinstri hjartað virðist grænt
ef vandamálið kryfjum
og hamast þar svo heitt og vænt
að hæfir fleiri rifjum.

Einar Kolbeinsson orti:

Steingrím kalla sterkan mann,
þó stundum útaf fari,
en vinstra megin virðist hann,
vera brothættari.

Síðan sagði hann: ,,Það er eðlilegt og sjálfsagt að láta fylgja góðar óskir til Steingríms.“

Raunin ill þó reyni mann,
sem rifin hefur brotið,
lystisemda lífsins hann,
lengi fái notið.

G. Þorkell Guðbrandsson hélt málinu gangandi:

Steingrímur lífsins klífur klif
og klungur af ýmsu tagi
og þótt hann sé með þrettán rif,
það er í góðu lagi.

Batni honum fljótt og vel
Þórir Jónsson kvað:

Fyrir þá sem fara um Klif
og falla, Adams sonu,
auka- er gott að eiga rif
sem úr má gera konu.

Ef að sé
Þessa skemmtilegu vísu setti Þórir Jónsson á Leir en lét ekki nafn höfundar fylgja:

Ef að sé og ef að mundi
átta lappir á einum hundi
ef að mundi og ef að sé
átta lappir á einu fé.

Hýrudregnir
Kristján Bersi Ólafsson orti svo um þingtíðindi dagsins á Bóndadag:

Ekki er stillt á strengi slegið,
stjórnarskráin er lýst í bann.
Alþingi hefur hýrudregið
Hæstarétt, þingmenn og forsetann.

Bændablaðið 10. febr. 2006

Mælt af munni fram
Spurt var á Leirnum hver hafi ort þessa fallegu vísu:

Fjör og máttur fjarar brátt
feigð í gáttum kvikar.
Lyftum hátt við lokaþátt
lífsins sáttabikar.

Ástarvísa
Þær eru margar til ástarvísurnar en þessi vísa eftir Pétur Stefánsson er skondin:

Það er lítt um það að fást,
þó að magnist syndin;
Ég á bara eina ást,
og er það spegilmyndin.

Gunna á Glerá
Ingvar Gíslason fyrrum þingmaður og ráðherra orti forðum þessa limru um konu sem hét Guðrún:

Léttlynd var Gunna á Glerá,
hún giftist samt Jóni á Þverá.
Nú hleypur um húsin
hálft annað dúsin
af krökkum sem enginn veit hver á.

Leirinn í klessu
Hákon Aðalsteinsson orti eitt sinn er honum þótti ekki vel ort á Leirnum:

Allur leirinn kominn er í klessu
um kveðskap góðan ekki lengur spurt.
Nú vil ég ekki vera með í þessu
og vonast til að komast þaðan burt.

Vinur hans og nafni séra Hjálmar Jónsson svaraði honum:

Víst er andinn öðru hvoru geldur
og eyðimörkin þurrkar hverja jurt.
En það er ekki laust sem Leirinn heldur.
Liggur þér á að komast héðan burt?

Að gininu undanskildu
Séra Hjálmar Jónsson segir svo frá:

Einu sinni var ég á ráðstefnu með nokkrum íslenskum prestum í Danaveldi. Við vorum með eitthvað svipað í glösum að kvöldi til nema séra Ingólfur Guðmundsson. Hann var hins vegar þrasgjarnastur allra og varð mér þá þetta á:

Ingólfur situr sinn við keip
og setur fram rökin gildu.
Hann er að drekka gin í grape
að gininu undanskildu.

Það eru 108
Stefán Vilhjálmsson setti þessa skemmtilegu vísu á Leirinn og spurði um höfund:

Alltaf hjá mér ástin vex
er ég fer að hátta.
3 x 36
það eru 108.

Bændablaðið 24. febr. 2006

Mælt af munni fram
Þessa snilldarvísu orti Halldór Laxness einhvern tímann sem oftar þegar hann hugsaði stórt:

Ég ætla að hitta kónginn í Kína
og kannski páfann í Róm
og hvort sem það verður til falls eða frægðar
þá fer ég á íslenskum skóm.

Skallinn
Ekki hefur Hjálmar Freysteinsson verið glaður í sinni er hann setti þessa vísu á blað:

Á mér hefur flestra minnkað trú
mjög í verði fallinn.
Ekkert stækkar á mér nú
orðið nema skallinn.

Menntun tekur mikið á
Davíð Hjálmar Haraldsson gerir hér grín að samræmdu prófunum sem nú hefur verið ákveðið að leggja niður:

Menntun tekur mikið á.
Marga gleður því sú frétt
að stúdentsefni fimm nú fá
fyrir að skrifa nafn sitt rétt.

Prófin ekki létt
Hjálmar Freysteinsson tekur málstað nemenda í þessu máli:

Þorgerður Katrín þykir grimm,
þessi próf eru ekki létt,
sanngjarnt að menn fái fimm
fyrir að skrifa nafnið rétt.

Undir meyjarvanga
Spurt var á Leir hver hafi ort þessa vísu. Ekki veit ég betur en hún sé eftir Friðrik Hansen frá Sauðárkróki:

Eg vil feginn, óspilltur,
æskuveginn ganga.
Og svo deyja ölvaður
undir meyjarvanga.

Að glæða lífið lit
Þessa perlu orti Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi frá Húsum.

Ef þú glæðir lífið lit
langar mig að sjá það.
Ef þú hefur afgangs vit
ætla ég að fá það.

Grenjuskjóða
Ásgrímur Ingi Arngrímsson, orti þessa skemmtilegu vísu fyrir alllöngu síðan þegar hann fluttist til Reykjavíkur:

Það
vissi ég
fyrir löngu
síðan að rigningar-
droparnir væru tár Guðs.
Hins vegar hafði ég ekki
hugmynd um það fyrr en ég
flutti til Reykjavíkur að
hann væri svona mikil
bölvuð grenju-
skjóða.

Einn með fullu viti
Þegar Jón Yngvar hagyrðingur var skráður í Sjálfstæðisflokkinn án hans vitundar eða samþykkis fyrir eitthvað prófkjör í haust mótmælti hann því harðlega en Kristján Eiríksson orti um atburðinn:

Flokksins stöðugt fríkkar lið,
fékkst nú góður biti,
eftir næstum aldar bið,
einn með fullu viti.

Af ónefndum ráðherra
Þessi vísa er ort um ónefndan ráðherra:

Þá reglu hafði heiðri í
og hagsýnn þótti fyrir vikið
að lofa aldrei öðru en því
sem örugglega gæti hann svikið.

Eftir ferð um ævisjó
Hreiðar Karlsson setti þessa snilld á blað:

Eftir ferð um ævisjó,
ýmsa gleði þekki.
Sætust fannst mér syndin þó
sem ég drýgði ekki.

Bændablaðið 14. mars 2006

Mælt af munni fram
Mikið var ort um Árna Magnússon og brotthvarf hans úr pólitík. Hjálmar Freysteinsson orti um erfðarprinsinn:

Víst það telja verður slys,
veikir flokkinn,
að erfðaprinsinn útbyrðis
er nú stokkinn.

Svo bætti hann við:

Árni fer í önnur störf
ekki verður krýndur,
erfðaprins varð ekki þörf
því arfurinn var týndur.

Pétur Stefánsson orti um sama efni:

Gömul saga gerist ný,
-grasið veður barið.
Framsókn sækir sífellt í
sama gamla farið.

Elli
Hreiðar Karlsson sendi á Leirinn þessa snilldarvísu Kristjáns Ólafssonar:

Einskisverðri undir byrði,
einn á ferð í veðraskaki,
allt sem gerði einhvers virði
ævina – sérðu langt að baki.

Ódauðlegur
Pétur Stefánsson losaði sig við tóbaksnautnina og sagði:

Eins og draumur er mitt líf,
-opnast greiðfær vegur.
Laus við tóbak, vín og víf,
verð ég ódauðlegur.

Kristján Bersi sagðist hafa skotist í verslun í Hafnarfirði til að eiga bjór fyrir kvöldið. Þegar hann kom þar inn voru þrjú afgreiðsluborð opin og við þau sátu unglingar, sem hann hafði aldrei séð þar áður. Þá kom í huga hans þessi vísa:

Vorið góða grænt og hlýtt
gerir oss bráðum ríka
Allt er hér sem orðið nýtt,
afgreiðslufólkið líka.

Hömlulaus grátur
Eftir mikinn rigningardag í Reykjavík orti Sigrún Haraldsdóttir:

Hér er flest á vondum vegi,
veröld fáum traust.
Guð hefur á gráum degi
grátið hömlulaust.

Endurborinn Hannibal
Kristján Bersi heyrði viðtal við Jón Baldvin heimkominn og hættan í utanríkisþjónustunni og orti í hrifningu sinni:

Í Jóni Baldvini býr mikill kraftur
til bjargræðisverka, og því
væri gott ef hann gengi aftur
og gerðist leiðtogi á ný.

Hjálmar Freysteinsson var honum ekki sammála og sagði:

Varla málin verið gætu
verri en lýsir þetta tal,
að eyja sína einu glætu
í endurbornum Hannibal.

Bólu-Hjálmar
Hreiðar Karlsson spurði á Leir eftir hvern þessi vísa sé og Kristján Bersi fullyrðir að hún sé eftir Bólu-Hjálmar:

Skær þegar sólin skín á pólinn
skorpnar ól við spíkar þjó.
Argur fólinn urgar hólinn,
eru hans tólin þeygi sljó.

Golf vísa
Stefán Vilhjálmsson segir frá:

Einhverju sinni sat ég hóf með golfurum og lagði fram eftirfarandi ,,bókun“:

Þó ég yrki ansi vel
að því að ég sjálfur tel,
kann ég ekki að yrkja um golf
áður en ég lendi á hvolf-
i.

Bændablaðið 28. mars 2006

Mælt af munni fram
Það er mikill sannleikur í þessari vísu Kristjáns Bersa Ólafssonar:

Þegar mælska er borin á borð
bestu hjartans vinum
reynast löngum ósögð orð
áhrifameiri hinum.

Kapphlaup
Björn Ingólfsson sendi þetta á Leirinn:

Í fréttatíma NFS í kvöld var talað um hugsanlegt Kötluhlaup. Fréttamaðurinn fullyrti að þegar flóðið skylli yfir mundu mannvirki eiga fótum sínum fjör að launa.

Fjárhús eiga fótum sínum
fjör að launa,
hlaupa yfir stokka og steina
stjörf af ótta munu reyna.

Í upphafi var orðið
Jón Ingvar Jónsson orti þegar Lúðvík Bergvinsson sagði við Blöndal þingforseta: ,,Herra forseti ég er með orðið“:

Það ber hér margt á borðið,
menn bralla margt og dúlla,
Í upphafi var orðið
og orðið var hjá Lúlla.

Starfslokasamningur
Hjálmar Freysteinsson orti um mest umtalaða starfslokasamning allra tíma á Ísland og sagði:

Stefndi fram til stórvirkja
sterkum andbyr mætti,
árslaun hundrað öryrkja
uppskar þegar ´ún hætti.

Skeggjaði kratinn
Séra Hjálmar Jónsson spyr hvort það hafi ekki verið Böðvar Guðmundsson sem orti forðum daga:

Skeggjaði kratinn
skattlagði matinn.
Allur fór til andskotans
efnahagsbatinn.

Öllu fer aftur
Magnús Ólafsson, á Sveinsstöðum í Húnaþingi, var eitt sinn á fundi forsætisráðherra á Sauðárkróki. Þar var formaður kjördæmasambands framsóknarmanna, Sigurður Árnason, sem er Skagfirðingur, að vola út af því að Skagfirðingum hefði fækkað og þuldi langa tölu um það. Þá kvað Magnús:

Öllu hérna aftur fer
eigi margt til varna.
Í Skagafirði enginn er
eftir til að barna.

Kvæðakver Kiljans
Kristján Bersi Ólafsson sendi eftirfarandi á Leirinn:

Kvæðakver Halldórs Kiljans, kom út alþingishátíðarárið 1930. Á þeirri bók var umbroti svo háttað að textinn var mjög dreifður og mynduðust stórar eyður á mörgum síðunum. Þetta þótti nýstárleg uppsetning og ekki laust við að hún hneykslaði suma sem höfðu alist upp við það að líta á pappír sem verðmæti er fara skyldi sparlega með. En um bókina orti Ingveldur Einarsdóttir (1878-1958) vinnukona á Reykjum í Mosfellssveit:

Þitt hef ég lesið, Kiljan, kver.
Um kvæðin lítt ég hirði.
En eyðurnar ég þakka þér.
Þær eru einhvers virði.

Stefnumótun
Hreiðar Karlsson segir að stefnumótunin sé alltaf erfið!:

Úr því verður eilíft skak,
aldrei neinu miðar.
Ef þú sækir aftur á bak
eða þá til hliðar.

Bændablaðið 11. apríl 2006

Mælt af munni fram
Það væri synd að segja að það væri minnimáttarkennd á ferð þegar Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir um sjálfan sig:

Vínhneigður og konum kær
karlinn býsna slyngur
orðheppinn sem endranær
enda Skagfirðingur.

Nú er gósentíð ferminga
Pétur Stefánsson orti um páskana:

Nú er vertíð prúðra presta
sem plata vilja börnin góð.
Að ferma þau er félind besta
er fyllir klerksins buddu’ og sjóð.

Séra Hjálmar Jónsson svaraði Pétri á þessa leið:

Orði Drottins ei mun hnekkt,
eru þar kostir betri.
Held ég fáa hafi blekkt
heimóttarskapur í Pétri.

Blaðafátækt
Kristján Bersi Ólafsson sendi þetta á Leirinn strax eftir páskana:

Blaðafátæktin þessa helgi fékk mig til þess að fara að hugsa um blöð og blaðamennsku og þetta varð niðurstaðan. Ég vil taka það fram að með þessu er ég ekki að veitast að neinum einstaklingum í blaðamannastétt eða að einstökum fjölmiðlum, heldur er þetta almenn hugleiðing gamals blaðamanns um nútímann:

Það fylgir mörgum fréttaskúmi
á forsíðunni að taka sprett
og láta sér í léttu rúmi
liggja hvað er satt og rétt.

Stuðlamál
Kristján Eiríksson sendi eftirfarandi vísur með formála til skýringar:

Margeir Jónsson frá Ögmundarstöðum gaf á sínum tíma út bækur sem hétu Stuðlamál og mátti líta á þær sem úrval úr verkum ýmissa snjöllustu hagyrðinga landsins. Ekki þótti þó öllum jafnmikið koma til þessa framtaks og þar á meðal var Sveinn frá Elivogum en hann átti reyndar ekki vísur í Stuðlamálum. Sveinn orti eftirfarandi vísu eftir lestur þeirra:

Margeirs sálin mærðargrút
mæðist ekki að safna.
Stuðlamálin unga út
eggjum flestra hrafna.

Vísa þessi birtist svo í Nýjum andstæðum Sveins sem út komu 1935. Einhver tók upp hanskann fyrir Margeir og svaraði:

Sveinki freyðir lastalút
létt um skeið og hjalla.
Margeirs hreiður mígur út
mannorðsveiðibjalla.

Að nýta náttúru sína
Mikil umhverfisráðstefna var haldin á Húsavík á dögunum. Þar var lögð þung áhersla á skynsamlega nýtingu náttúrunnar. Þá ályktaði Hreiðar Karlsson sem svo:

Náttúran breytist, veður og vindar hlýna,
við höfum knappan frest.
Mikils er vert að nýta náttúru sína
og njóta hennar sem best.

Eftir hvern?
Stefán Vilhjálmsson sendi þessa vísu á Leirinn og spurði um höfund og hvort vísan væri ekki áreiðanlega rétt svona:

Undrun bæði og öfund hafa
aukið hjá mér jafnt og þétt
þeir sem aldrei eru í vafa
og alltaf vita hvað er rétt.

Bændablaðið 2. maí 2006

Mælt af munni fram
Baldur Garðarsson setti þetta á Leirinn:

Ég var að koma úr loðnuleit á Árna Friðrikssyni, lítið fannst og ferðarinnar helst minnst fyrir sjóveiki og brælu. Fór í botnakeppni við sjálfan mig um borð, til að stytta mér stundir. Afraksturinn rýr, enda sjórinn versti staður til yrkinga.

Fyrriparturinn :
Úrvinda ég ýsur dreg,
oft í káetunni.

Verðlaunabotn :
Þessa vísu orti ég
austur á Papagrunni.

Reikningsskil
Þessa vísu orti Pétur Stefánsson skömmu eftir áramót:

Lengir daginn, lyftist sólin,
landans bíða reikningsskil.
Búin eru blessuð jólin,
bankar fara’ að hlakka til.

Söng í hverri jakaspöng
Kristján Bersi Ólafsson segir þessar vísur vera eftir Pál Ólafsson:

Rangá fannst mér þykkjuþung,
þröng mér sýndi dauðans göng,
svangan vildi svelgja lung,
söng í hverri jakaspöng.

Reynd´ ég þó að ríð´ á sund,
raðaði straumur jökum að.
Beind´ ég þeim frá hófahund.
Hvað er meiri raun en það?

Eintómt bull
Menn verða pólitískir á kosningaári eins og Hermann Jóhannesson í þessari vísu:

Eintómt bull án allra raka!
Aldrei studdi Solla Baug.
Þótt suma langi til að taka
það trúanlegt, sem Davíð laug.

Vænsti maður
Ég tek undir með Kristjáni Bersa þegar hann yrkir um Jónas Kristjánsson ritstjóra:

Ég veit að Jónas er vænsti maður
og vinur minn nokkuð lengi.
Af honum tætir ekkert slaður
æruna, spik né rengi.

Bændablaðið 16. maí 2006

Mælt af munni fram
Þessa bjartsýnisvísu sendi Hjálmar Freysteinsson frá sér á sínum tíma:

Meðalhátt ég markið set,
um meira ekki bið,
ætla að kaupa ef ég get
Olíufélagið.

Æviklukkan gengur
Það er hinsvegar allnokkur svartsýni í þessari vísu Óttars Einarssonar:

Ennþá manni aftur fer,
æviklukkan gengur.
Verst er þó að ekkert er
orðið gaman lengur.

Stórbrotinn persónuleiki
Haraldur Jóhannesson orti þessa limru þegar Steingrímur J. Sigfússon ók útaf og braut í sér mörg rifbein auk fleiri áverka:

Þótt sögurnar séu á kreiki
og sumt í þeim talsvert á reiki,
þá staðfestist hér
að Steingrímur er
stórbrotinn persónuleiki.

Himneskt að lifa
Kristján Jónsson frá Ingveldarstöðum í Þingeyjasýslu var einyrki og hafði stundum ráðskonur. Eitt sinn þegar ein slík hafði sagt upp vistinni og hvarf á braut orti Kristján:

Enn er ég tekinn að elda minn graut
áfram dagarnir tifa.
Helvítis kerlingin horfin á braut
himneskt er aftur að lifa.

Endurvinnsla á krötum
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri var mikið úrval uppgjafakrata og þá orti Hjálmar Freysteinsson:

Bjálfum þarf að bjarga við
sem bágt eiga með að rata
og ágætt mál að Íhaldið
endurvinni krata.

Nafni hans Jónsson dómkirkjuprestur bætti við:

Útiloka á ei neinn
og ekki kratann tregan.
Það má finna einn og einn
endurvinnanlegan.

Litadýrð
Hreiðar Karlsson setti þetta á Leirinn:

Þetta er nú svolítið erfitt með litinn hjá Vinstri Grænum.

Ekki hljóðir, ekki dauðir,
ekki veikir.
Ýmist grænir eða rauðir,
eða bleikir.

Baugstíðindi
Hjálmar Freysteinsson orti þegar Þorsteinn Pálsson gerðist ritstjóri Fréttablaðsins:

,,Guð sem stýrir stjarnaher“
stjórnar sól og vindum,
en stórtækari Steini er
að stýra Baugstíðindum.

Ásýnd Skagafjarðar
Pétur Stefánsson setti þetta á Leirinn:

Nú held ég sé öruggt að ekki rísi álver í mínum Skagafirði.

Þó álver rísi í erg og gríð,
um það lítt mig varðar,
ef óspillt verður ár og síð
ásýnd Skagafjarðar.

Eyfirðingar fagna
Davíð Hjálmar Haraldsson fagnar því sama fyrir hönd Eyfirðinga:

Fegins straumur fer um sál,
frómar óskir rætast.
Hingað kemur ekki ál.
Eyfirðingar kætast.

Bændablaðið 30. maí 2006

Mælt af munni fram
Kristján Helgi Benediktsson, málari á Akureyri, orti margar snjallar vísur. Eitt sinn á gamlársdag orti hann þessa en honum þótti sopinn góður eins og fleirum:

Slöttungsfullur fer ég héðan
fagna áramóta sið.
Eins og dólgur drekk ég meðan
Drottinn blessar heimilið.

Betri maður
Þegar hann frelsaðist frá brennivíninu orti hann:

Áður fyrrum vætti vín
varir mínar stundum,
lífið allt var gálaust grín
og glens á mannafundum.

Fullur drakk ég freyðivín,
fullur var af drambi,
fullur oft ég fann til mín,
fullur stóð á þambi

Oftast vínið var til meins
og varla það ég ýki
að frelsaður núna er ég eins
og engill í himnaríki.

Lengri en vísa
Hjálmar Freysteinsson setti þetta eitt sinn á Leirinn:

Eignaðist fyrir nokkrum dögum litla limrubók. Af því tilefni gerði ég limru. Ætli sé ekki best að segja að hún sé ritdómur um bókina:

Um eitt hef ég vissu vísa
sem vert er að yfirlýsa,
það er eins víst
og veröldin snýst;
-limra er lengri en vísa.

Endurvinnsla
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri voru nokkrir kratar og þá orti Hjálmar:

Bjálfum þarf að bjarga við
sem bágt eiga með að rata
og ágætt mál að Íhaldið
endurvinni krata.

Er bara sísona
Kristján Bersi segir að þessa vísu hafi gömul kona í Hafnarfirði kennt sér ungum:

Guðbjörg Sveins er alltaf eins,
allra besta kona,
ei til meins og ei til neins
er bara sísona.

Erfitt að biðja bæna
Séra Hjálmar Jónsson sendi þetta á Leirinn:

Verð að rifja upp vísu eftir séra Jón Einarsson heitinn, prófast í Saurbæ. Kvenprestar höfðu þýtt ,,trúarjátningu konu“, sem játaði trú á Guð sem væri eins og hæna er safnaði ungunum undir vængi sína. Þá kvað prófastur:

Erfitt er að biðja bæna
og búast í réttar stellingar
ef andi Guðs er orðinn hæna,
eins og þessar kellingar.

Vorar seint
Bjarni Stefán Kornráðsson orti í vorhretinu:

Drunga ekki eykur mér
þótt ylji lítið sólin,
það vorar seint í september
og sumrar kringum jólin.

Langþrátt vor
Þegar vorhretinu slotaði orti Pétur Stefánsson:

Vindinn hefur loksins lægt,
lengjast varmastundir.
Líður aftur löturhægt
langþrátt vor um grundir.

Bændablaðið 13. júní 2006

Mælt af munni fram
Indriði Þorkelsson á Ytra Fjalli í Aðaldal orti:

Allir hafa einhvern brest
öllu fylgir galli.
Öllum getur yfirsést
einnig þeim á Fjalli.

Á sunnudögum
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi var í hópi snjallari hagyrðinga okkar. Honum þótti sopinn góður og orti:

Á sunnudögum sýp ég vín
samkvæmt manna lögum.
Þess vegna er ég miður mín
á mánu- og þriðjudögum.

Þrír bæjarstjórar
Hjálmar Freysteinsson sendi þetta frá sér:
Nú fréttist að við Akureyringar fáum að reyna þrjá bæjarstjóra á kjörtímabilinu:

Akureyri er ekki smá
ýmsu þarf að sinna,
bæjarstjóra þurfum þrjá,
þýðir ekkert minna.

Góð forysta
Séra Hjálmar Jónsson veltir fyrir sér stöðunni í Framsóknarflokknum:

Á hvert öðru framsóknarfólkið tróð,
að fallinu óðum dregur.
Forystan hún er fremur góð
en flokkurinn ómögulegur.

Spámaðurinn
Kristján Bersi Ólafsson segir:

Nú ætla ég að gerast spámaður um framvinduna í framsóknarmálinu:

Dauðastríð eru stundum grimm,
stansar þó klukkan ekki.
Í næstu kosningum Framsókn fimm
fær inn á þingsins bekki.

P.S. Kannski hefði verið raunsærra að gera ráð fyrir sjö, en það passaði ekki rímsins vegna. – Bersinn.

Nauðgar eyra
Pétur Stefánsson lét þetta frá sér á Leir á fimmtugsafmæli Bubba Morteins: ,,Bubba var hampað á öllum útvarpsrásum í dag:“

Áreiti og eilíft plag,
allt vill lífið subba.
Nauðgar eyra í allan dag
org úr þessum Bubba.

Hæstiréttur smalar
Snæbjörn Sigurðsson bóndi á Grund í Eyjafirði stóð í málaferlum við nágranna sína um alllangt skeið um miðja síðustu öld út af landsréttindum. Málið fór fyrir hæstarétt og gerðu dómarar réttarins áreið á landið eins og þeim bar. Við það tækifæri orti Rósberg G. Snædal:

Undir bú er gott á Grund,
gróttukvörn þar malar.
Ekki þarf að halda hund,
Hæstiréttur smalar.

Og þegar dómur lá fyrir bætti Rósberg þessari við:

Lengi þéttings gróða gaf
Grundin fléttuð blómum.
Hver einn blettur helgast af
hæstaréttardómum.

Yfir fjöllin fagurblá
Kristján Eiríksson orti þessa skemmtilegu vísu:

Yfir fjöllin fagurblá
fannhvít mjöllin breiðist.
Verða sköllin vísast há
vont ef tröllið reiðist.

Bændablaðið 27. júní 2006

Mælt af munni fram
Skarphéðinn Árnason orti þessa skemmtilegu vorvísu:

Þegar góðir vinir vaka
vorsins gróður fegrar hlað.
Fæðast ljóð og stöku staka
stelst í hljóði upp á blað.

Matthíasar les ég ljóð
Bjarki Bjarnason sendi þetta frá sér á Leirinn.

Björn í Grafarholti (1856-1951) var þekktur fyrir að gera bragarbót á kveðskap ýmissa þjóðskálda. Hann sendi frá sér kver sem hét Um ljóðalýti árið 1943. Þá höfðu Skólaljóðin nýkomið út en Björn leiðrétti ýmsar bragfræðilegar villur sem hann þóttist greina þar. Um Skúlaskeið eftir Grím Thomsen segir hann meðal annars: ,,Ljóðið er 14 erindi, öll meira og minna formgölluð, og flest auk þess með margs konar öðrum ljóðalýtum.“ Um Mamma ætlar að sofna eftir Davíð Stefánsson segir Björn bóndi að kvæðið megi heita ,,háttleysa, en slíkt ber varla að nefna ljóð.“ Um kveðskap séra Matthíasar Jochumssonar orti hann“:

Matthíasar les ég ljóð,
lagleg flest þau kalla;
Meirihlutann met ég góð,
margan finn þó galla.

Að velja rétta flokkinn
Í prófkjörslagnum sl. vetur komu fram ásakanir um að einn af prófkjörskandídötunum hafi safnað saman hópi af unglingum og boðið þeim upp á bjór. Þá orti Hermann Jóhannesson:

Það á að gefa börnum bjór
svo braggist litli hnokkinn
því við það fljótt hann verður stór
og velur rétta flokkinn.

Að týna hönskum
Óttar Einarsson segir að sig minni að Magnús Ásgeirsson hafi þýtt eitt af ,,grúkkum“ hans Piet Heins þannig:

Að týna hreinlega hönskunum sínum
er hátíð á móti því
að týna öðrum – og henda hinum
og heimta þann fyrri á ný!

Tilhlökkunarefni
Kristján Eiríksson benti á að Helgi Hálfdanarson hafi þýtt ýmislegt úr ,,grúkki“ Piets Hein listilega, til dæmis:

Hann Davíð bóndi á Dröngum
er dauður- það er ljótan
svo hjartanlega hafði
ég hlakkað til að skjóta ‘ann.

Við skulum ekki hafa hátt
Á Leir voru nokkrar umræður um hver væri höfundur þessarar vísu. Guðbrandur Guðbrandsson leysti gátuna og sagði:

Á Strjúgi (nú venjulega Strjúgsstöðum, innsk. gþg) bjó eitt af kunnustu skáldum 16. aldar, Þórður Magnússon, lögréttumanns Gunnsteinssonar. Hann hóf þar búskap 1574, en annars er lítið kunnugt um ævi hans. Hann kvað svo lipurt, að sumar lausavísur hans eru enn á hvers manns vörum:

Við skulum ekki hafa hátt
hér er margt að ugga.
Eg hefi heyrt í alla nátt,
andardrátt á glugga.

Bændablaðið 11. júlí 2006

Skuldahalarnir
Hreiðar Karlsson orti þegar spáð var rigningu og fellihýsafólkið tók sig upp og hélt heimleiðis en víða eru nú fellihýsin kölluð skuldahalar:

Því er spáð að veður vott
verði á mörgum stöðum.
Skuldahalar héðan brott
halda í löngum röðum.

Rímað skart
Atómskáldið Jón úr Vör orti þessa vísu þegar hvað harðast var deilt hér á landi á atómljóðagerð og kom með henni þeim skáldskap til varnar:

Ekki þarf að gylla gull,
gullið verður alltaf bjart.
En ávallt verður bullið bull
þótt búið sé í rímað skart.

Lundafar
Það hafa oft verið ortar vísur af minna tilefni en því að ráðherra sé staðinn að ólöglegum lundaveiðum án veiðikorts. G. Þorkell Guðbrandsson setti þetta á Leir:

Satt segir þú hinn frómi,“ sagði kerlingin við þjófinn. Ekki alveg ónýtt að ráðherra sjávarútvegs skuli reka sig á þá erkivitleysu sem sótt er til Brussel að ekki megi snara lunda nema með dýru veiðileyfi frá Akureyri.

Kom nú vel á vondan þar
er vitnaðist að ráðherrar
laumi sér á lundafar
þá lítið er um veislurnar.

Hjálmar Freysteinsson orti þessar af sama tilefni:

Lundanum ekki líðast má
að líta á það sem hálfgert sport
að fljúga þeim í háfinn hjá
sem hefur ekki veiðikort.

Eða með öðrum orðum:

Ósköp vel ég Einar skil,
öllum skjátlast getur.
Langtum meiri líkur til
að lundinn viti betur.

Heilög jörð
Kristján Bersi Ólafsson orti þegar hann hélt af stað á Hólahátíð:

Löngun hjá mér til ferða er fátíð
með fótaorkuna skerta.
En núna fer ég á Hólahátíð
heilaga jörð að snerta.

Vönduð gen
Jón Yngvar Jónsson orti þessa skemmtilegu nútímavísu:

Drottinn vönduð gen mér gaf
sem gagnast mót þó blási.
Þessi staka styrkt var af
Straumi-Burðarási.

Skýjaborgir
Rósberg G. Snædal orti þessa vísu sem þarfnast ekki nánari skýringa:

Geng ég um hin glæstu torg
girt með húsum nýjum,
þó hef ég miklu betri borg
byggt úr tómum skýjum.

Bændablaðið 29. ágúst 2006

Mælt af munni fram
Kristján Bersi Ólafsson sendi þetta inn á Leir:

Í Ljóðasafni Magnúsar Ásgeirssonar II, bls. 346, er þessi vísa orðuð svona:

Að týna hreinlega hönzkunum sínum
er heppni á móti því
að tapa öðrum en henda hinum
og heimta þann týnda á ný.
(Sjá þátt frá 11. júní 2006)

Þótt ég yrki aldrei neitt
Kristján Bersi Ólafsson orti þessa ágætu vísu:

Þótt ég yrki aldrei neitt
sem orðið getur mér til sóma
yrði mér gömlum lífið leitt
legði ég kveðskapinn í dróma.

Nýr formaður Framsóknar
Þegar Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins orti Hjálmar Freysteinsson:

Af Jóni vænta mikils má,
mannkostum búinn fínum,
þó hann byrjaði aftan á
embættisferli sínum.

Þ.e.: seðlabankastjóri, ráðherra, flokksformaður, þingmaður. Þetta skyldi þó aldrei vera ,,hin leiðin“ sem umtöluð var fyrir nokkrum árum?

Hugmyndina Halldór fann,
hélt það bæta neyðina,
til forustu ef fengi mann
sem færi ,,hina leiðina“.

Gott þorrablót
Hreiðar Karlsson orti eftir gott þorrablót:

Þeir sem finna aðeins á sér
æsku sína heimta á ný.
Haltir varpa hækjum frá sér,
heilir ganga upp frá því.

Krummi uppi í hæðardragi
Hákon Aðalsteinsson orti einhvern tíma:

Krummi upp í hæðardragi kroppar úldið bein,
á klettadrangi vellir spóinn glaður.
Kind með sína tvílembinga kúrir bak við stein,
keyrir veginn fullur sveitamaður.

Tvö dæmi úr Hörgárdal
Stefán Vilhjálmsson kjötmatsformaður sendi þessar tvær vísur á Leir:

Fyrir endann ei má sjá
illa ég stend að vígi
til að lenda lúinn á
landakendiríi.
Þorleifur á Hamri

Þetta er Hlíðarhreppsnefndin,
hún er að skríða í Kuðunginn,
ekki er fríður flokkurinn,
mér finnst hann prýða hundurinn.
Friðbjörn í Staðartungu

Hálfur sjötti tími
Það hefur ekki legið vel á Jóni Ingvari Jónssyni þegar hann orti:

Ég get bara ekkert ort
af því vit mig hefur skort,
veit ég líka varla hvort
vísa þessi rími.
Fór í hana hálfur sjötti tími.

Undir silfurhærum
Þessi vísa er úr vísnabálki eftir Steingrím Thorsteinsson sem heitir Haustkvöld:

Elli, þú ert ekki þung
anda guði kærum;
fögur sál er ávallt ung
undir silfurhærum.

Bændablaðið 12. sept. 2006

Mælt af munni fram
Hjálmar Freysteinsson orti um uppreist æru Árna Johnsens:

Alltaf skást á skítinn hreif
skrúbburinn og böðin,
engilhvítan Árna þreif
Æruþvottastöðin.

Turninn hallast
Hjálmar ferðaðist til Ítalíu í sumar, kom við í Pisa og skoðaði að sjálfsögðu hinn skakka turn og orti limru:

Á það er ég fús að fallast,
þó furðulegt megi kallast,
að Ítalaskrattarnir segja það satt:
Helvítis turninn hallast!

Halló Akureyri
Kristján Eiríksson yrkir þannig um þá frægu skemmtun Halló Akureyri:

Á fullan bæinn af fullum rónum
í fullkomnun drykkjuláta
himinninn starir hryggum sjónum
uns himinninn fer að gráta.

Sjálfur yrki ég ekki neitt
Valdimar Gunnarsson, kennari við MA, orti þessa skemmtilegu vísu:

Sjálfur yrki ég ekki neitt
því ástand mitt er svo valt.
Stundum er mér svo helvíti heitt
en hina stundina kalt.

Fegurð hrífur
Hannes Hafstein, fyrrum ráðherra, orti þessa vísu um fagra konu:

Fegurð hrífur hugann meira
ef hjúpuð er,
svo andann gruni ennþá fleira
en augað sér.

Móti slitið
Jón Ingvar Jónsson stjórnaði hagyrðingamóti og sleit því að lokum með þessari vísu:

Flestir hafa frá sér bitið,
fljótt á litið.
Maður er að missa vitið.
Móti slitið!

Hvað er til ráða
Pétur Stefánsson er ekki alveg sáttur við nútímann og yrkir:

Tölvur, símar, tískusnið,
tíðum heilla drengi.
Alltof fáir fitla við
fljóð og buxnastrengi.

Flatir skjáir fást í dag
á flottum sjónvarpsborðum.
Yrkja fáir orðið brag
eins og skáldin forðum.

Þessu breyta verðum við
svo vakni menn til dáða.
Helst má spyrja hagyrt lið;
Hvað er nú til ráða?

Öldrunarkveðskapur
Kristján Bersi sendi frá sér þessa öldrunarkveðju:

Í ættarskrá þarf ekki að gá
og ekkert hjá sér skrifa.
Aldri háum allir ná
ef þeir fá að lifa.

Gammel dansk
Guðmundur B. Guðmundsson yrkir um kraftaverkin sem Gammel dansk getur gert á erfiðum morgunstundum:

Guði sé lof fyrir Gammel dansk
sem gerir einlægt kraftaverk.
Ég á aftur eftir kannsk
í með Bersa að væta kverk.

Að líta í spegil
Davíð Hjálmari Haraldssyni hefur ekki liðið vel þennan morgun:

Tæpast verð ég talinn viskubrunnur.
Tengdamamma heldur ég sé þunnur.
Að líta í spegil yrði mér um megn
því mublurnar á bak við sjást í gegn.

Bændablaðið 26. sept. 2006

Mælt af munni fram
Séra Helgi Sveinsson, sem lengi var prestur í Hveragerði, orti um húsamálningu sr. Sigurðar Pálssonar:

Rís ein bygging römm og há,
rauð á allar síður.
Til að minna alþjóð á
eld sem dæmdra býður.

Fjórir færðu í letur
Egill Jónasson frá Húsavík segir sennilega alveg satt í þessari vísu:

Aðeins fjórir færðu í letur
frásagnir um Jesú Krist,
sumir hafa hagnast betur
hér í sinni jarðarvist.

Ganga lausir
Ragnar Aðalsteinsson frá Vaðbrekku orti og tilefnið hygg ég að sé óþarft að orðlengja um:

Þótt þingmannstetur eitt þeir setji inn
skal ekki viðhaft múður, strögl né raus
því langtum oftar mæðir huga minn
hve mikill hluti þingheims gengur laus.

Gull er gull
Hér í þessum dálki var fyrir nokkru birt vísa sem Jón úr Vör gerði til varnar atómkveðskap. Þessari vísu svaraði Steinn Steinarr svona:

Gull er gull og bull er bull,
bilið jafnan nokkurt var.
Jón er Jón og flón er flón,
fjarlægðin er minni þar.

Monthátíð
Kristján Helgi Benediktsson, sem var málari á Akureyri, var góður hagyrðingur eins og þessi vísa sýnir vel en hana orti hann eftir einhverja Þingvallahátíð:

Á ógæfuhliðar allt er sigið,
áfram reynast kjörin stríð,
en þar sem hundur hefur migið
heldur þjóðin monthátíð.

Skínandi myndir
Kristján Eiríksson setti eftirfarandi á Leir:

Ég er nýkominn úr nokkurra daga ferð til Pétursborgar. Í Kirkju Péturs og Páls hvíla flestir keisarar Rússaveldis sín dánu bein og sér þar varla í veggi fyrir helgimyndum og gylltu skrauti. Þar datt mér þessi vísa í hug:

Mörg hér á veggjum myndin skín,
málmurinn gullni og dýri
en krúttlegri finnst mér kirkjan þín,
Kristur, á Víðimýri.

Bændablaðið 10. okt. 2006

Mælt af munni fram
Heil og sæl, lesendur Bændablaðsins.
Ég hef tekið að mér vísnaþáttinn í forföllum Sigurdórs Sigurdórssonar, blaðamanns. Hann gekkst undir hjartaaðgerð fyrir skemmstu og heilsast vel. Óska ég eftir afturbatavísum um hann fyrir næsta blað.

Bændablaðið 24. okt 2006

Mælt af munni fram
Sælir, ágætu lesendur. Bestu þakkir þeim sem brugðust vel við og sendu upplýsingar og vísur. Bjargey Arnórsdóttir sendir Sigurdóri Sigurdórssyni kveðju og góðar óskir, minnug þess að hann söng eins og engill, einkum á yngri árum:

Til Sigurdórs þess glögga sómamanns
ég senda vil nú bestu kveðju mína,
því geymd en ekki gleymd er röddin hans
og gamansemin lætur brosin skína.

Bændablaðið 7. nóv. 2006

Mælt af munni fram
Sigurdór Sigurdórsson, blaðamaður fær svo nokkrar vísur.

Fyrstar eru batakveðjur frá Jóni Ingvari Jónssyni með svofelldri vísu:

Þó að báran brött og há
brotni yfir Sigurdór
upp hann stendur eflaust þá.
Eftir verður sléttur sjór.

Kristján Eiríksson frá Fagranesi sendir Sigurdóri heilsukveðju:

Þeirrar skjótt ég bænar bið
að brátt hann rísi á fætur,
gleðjist aftur vísur við
og vermist hjartarætur.

Og Pétur Stefánsson færir fram þessa hugnæmu heillaósk:

Drottinn blessi syndasel
og sálina geri bjarta.
Farðu ætíð vinur vel
með viðgert öðlingshjarta.

Bændablaðið 21. nóv. 2006