2004

Mælt af munni fram
Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum er meðlimur á Leirnum og góður hagyrðingur. Hann sendi þessa vísu þegar hann var nýkominn á Leirinn:

Þykir engum þakkarvert
í þessum leirsins ranni
að illt ég hefi ekkert gert
enda gull að manni.

Frægur um fjórðunginn
Séra Hjálmar Jónsson, góðkunningi Magnúsar, svaraði af bragði:

Velkominn sértu, Magnús minn,
margur sýnir þér vinarhót.
Samt ertu frægur um fjórðunginn
og framsóknarmaður í þokkabót.

Baugalín í Borgarnesi
Kristján Eiríksson orti þessar vísur og tilefnið þekkja sjálfsagt allir.

Í Borgarnesi var Baugalín
búin að flytja ræðuna,
þegar blessuð þjóðin mín
þoldi næstu mæðuna.

Þá úti í London upp á grín
átti fund með Hreini,
í hálfkæringi, heillin mín,
heiðursmaðurinn eini.

Tár á mannafundum
Rósberg G. Snædal orti einhverju sinni og má segja að tilefnið komi þar skýrt fram:

Miðla ég tári á mannfundi
manni náradregnum,
þessi árans andskoti
ætlar að klára úr flegnum.

Fálkatyrðill
Jóhanni S. Hannessyni varð að orði þegar hann fékk Fálkaorðuna:

Fálkatyrðill fenginn er,
feikna virðing sýnist það
en svarið yrði erfitt mér
ef þú spyrðir: Fyrir hvað?

Bændablaðið 13. jan. 2004

Mælt af munni fram
Bókaútgáfan Hólar á Akureyri hefur gefið út bókina Austfirsk skemmtiljóð sem Ragnar Aðalsteinsson frá Vaðbrekku safnaði. Margar skemmtilegar vísur og ljóð eru í bókinni og víst að vísnavinir eru ekki sviknir með henni. Að sjálfsögðu á höfuðsnillingurinn Hákon Aðalsteinsson nokkrar vísur í bókinni og fara tvær hér á eftir. Eitt sinn hringdi maður í Hákon og bað hann að yrkja fyrir sig skammarvísu, hann væri ógurlega reiður við mann sem hann vildi þó ekki nafngreina en bað Hákon að setja saman eitthvað verulega krassandi. Hákon varð vel við því og orti:

Úr honum dáðleysisdrullan
drýpur í lífskoppinn fullan.
Við hann er fast
allt veraldar last.
Helvítis bölvuð bullan.

Hákon hringdi svo í manninn og fór með vísuna. Hinn hlustaði með athygli, þagði um stund en sagði svo. ,,Veistu það Hákon, ég er nú ekki svona reiður.” Vísan var því aldrei notuð og er því á lausu ef einhvern vantar kröftuga skammarvísu.

Að horfast í augu
Hákoni var eitt sinn boðið í útreiðartúr sem hann afþakkaði með þessari vísu:

Týndir og slasaðir bíða menn bana
sem bægslast á hestum um grundir og hlíð.
Ég hef fram að þessu haft fyrir vana
að horfast í augu við það sem ég ríð.

Af Guðlaugsstaðakyni
Reynir Jónasson tónlistarmaður er snjall hagyrðingur. Á dögunum orti hann þessa vísu í orðastað frænda Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar:

Lífið mér þau örlög óf
að eiga að frænda og vini,
grodda kjaft og greindan þjóf
af Guðlaugsstaðakyni.

Meira af Hannesi
Því var haldið fram að Hannes Hólmsteinn hafi tekið sitthvað að “láni” frá Helgu Kress í bók sína Halldór. Þá orti Jón Ingvar Jónsson:

Hannes, þig skal ekki iðrast þess
að endurnýta Laxness þar og hér
en að birta bull úr Helgu Kress
er býsna hart að fyrirgefa þér.

Í túninu heima
Jón Ingvar orti líka þessa limru um sama efni:

Hvar sem að byggja menn bólin,
björgin og dali og annes,
er lægst var á lofti sólin
menn lásu í áfergju’ um jólin
“Í túninu heima” eftir Hannes.

O jæja
Þessi vísa er eftir Harald Hjálmarsson frá Kambi og svipar nokkuð til vísu Bólu-Hjálmars Aumt er að sjá í einni lest.

Hér er ljótt og lítið bú
og langt á milli bæja.
Drukkinn bóndi, digur frú,
drullug börn, ojæja.

Bændablaðið 27. jan. 2004

Rangt af Rósa
Rósberg G. Snædal orti þá frægu vísu Hart leikur Gunnar Hólastól. Hann orti stundum kaldhæðnar vísur og eftir eina voru ekki allir sáttir og Halldór Hafstað í Útvík orti þá hógværa áminningu til Rósbergs:

Ólánssömum engir hrósa,
illgjarn reynist margur granninn.
Var það ekki rangt af Rósa
að ráðast svona á fallinn manninn?


Könnuðust ekki við Thor
Meðan Sovétríkin voru og hétu fóru stundum nefndir frá Íslandi í boðsferðir í austurveg. Óttar Einarsson segir svo frá að í einni svona nefnd voru m.a.Thor Vilhjálmsson, sr. Gunnar Benediktsson og Páll Hallbjörnsson. Þegar út í samkvæmislífið var komið og byrjað var að halda skálaræður kom í ljós að einhverjir þar eystra könnuðust við sr. Gunnars en komu Thor ekki fyrir sig. Þegar þetta fréttist til Íslands gerði faðir Óttars, Einar á Hermundarfelli, þessa vísu að gamni sínu:

Á Gunnari virtust þeir vita skil
þótt verðlaun og mútufé aldrei þægj´ann
en vissu ekki að Thor væri til
og trúðu því varla – þó að þeir sæj´ann!

Þetta fyrirgaf Thor aldrei.

Að kaupa banka
Kristján Eiríksson orti eftir eitt bankaránið í haust:

Betra er að slá í banka lán
og bankann síðan kaupa
en að stunda rupl og rán
með reiddan hníf – og hlaupa.

Bændablaðið 10. febr. 2004

Mælt af munni fram
Fyrir skömmu var spurt á Leirnum um höfund þessarar ágætu vísu og hef ég ekkert svar séð. Veit einhver lesandi Bændablaðsins eftir hvern hún er?

Elli hallar öllum leik,
ættum valla að státa.
Hún mun alla eins og Bleik
eitt sinn falla láta.

Glæsimenni
Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri sendi þetta inn á Leirinn:

Eftirfarandi vísu í orðastað forsætisráðherra hafði kötturinn párað á bréfsnifsi og falið bak við sófann. Og dagsett 1. febrúar 2004.

Er ég Hannes augum ber
óðar þá ég kenni
í svip hans mót af sjálfum mér
sönnu glæsimenni.

Keikó allur
Hjálmar Freysteinsson sagðist hafa lesið í einhverju blaði að Keikó væri allur og orti af því tilefni:

Nú er dimmt á norðurslóð,
nú er Keikó allur.
Agndofa spyr íslensk þjóð:
Ertu bitur Hallur?

Auður og dramb
Jón S. Bergmann var Húnvetningur og í hópi snjöllustu hagyrðinga á fyrri hluta síðustu aldar. Hann gat verið bæði beinskeyttur og meinlegur í vísum sínum eins og þessi vísa ber með sér:

Auður, dramb og falleg föt
fyrst af öllu þérist,
menn, sem hafa mör og kjöt
meira, en almennt gerist.

Ástin blind
En Jón S. Bergmann gat líka verið mjúkur og rómantískur eins og í þessari ástarvísu:

Ástin blind er lífsins lind
leiftur skyndivega.
Hún er mynd af sælu og synd
samræmd yndislega.

Halldór forseti
Jón Ingvar Jónsson orti þessa vísu þegar hann sá Halldór Blöndal í sæti forseta Íslands á umdeildum ríkisráðsfundi:

Sýnum að valmenni enn hafi átt
vort Ísland og hreyfumst úr sporum,
sýnum í verki vorn samtakamátt,
sýnum við viljum og þorum
og syngjum nú félagar hósanna hátt
Halldóri forseta vorum.

Nærvera
Kristján Eiríksson orti af sama tilefni:

Frægan þeir héldu í fjarveru
fund og hátíð.
Nú er spurn eftir nærveru
næsta fátíð.

Bændablaðið 24. febr. 2004

Eftir Pál eða Björgu?
Við spurðum í síðasta þætti um höfund vísunnar Elli hallar öllum leik… Flestir segja hana eftir Pál Ólafsson. Þó voru þeir til sem töldu vísuna eftir Björgu Sveinsdóttur úr Kelduhverfi og skal hér ekki lagður á það dómur. Ekki orð um það meir.

Það var eitthvað dauft á Leirnum einn daginn og þá sendi Gylfi Þorkelsson þessa ágætu limru í loftið.

Þið andlausu limir á leir:
Hér ljóðagerð bráðlega deyr!
Ég hef ekkert að segja
og ætla að þegja.
Ekki svo orð um það meir!

Baðvísur Valgerðar
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var mynduð í bak og fyrir í sturtu og sundi á dögunum þegar hún kynnti nýjar íslenskar baðvörur. Auðvitað fóru hagyrðingarnir af stað. Hjálmar Freysteinsson orti þessa:

Valgerður er voða nett
en víst er skrítið að
sjónvarpinu finnist frétt
fari hún í bað.

Stefán Vilhjálmsson lagfærði limru eftir Ólaf Stefánsson og sagði:

Þegar Valgerður vætti sinn kvið,
fór vafasöm hugsun á skrið,
hún minnti mig á
þegar Maó ég sá
synda’ í fljóti við fagnaðarklið.

Stefán sendi vísuna til kunningja síns á Akureyri og fékk þetta til baka:

Þegar Valgerður vætti sitt brjóst
þá varð öllum heiminum ljóst
að þarna fer kona
sem kannski er svona
heldur meiri en maður við bjóst.

Drottinn refsar
Þegar þak Alþingishússins tók að leka og ráðherra varð fyrir bununni fóru hagyrðingar í gang. G. Þorkell Guðbrandsson orti þessa vísu:

Hart er orðið heims um ból
Heljar magnast plottin
ef ráðherra í ræðustól
refsar sjálfur Drottinn.

Allt á einn veg
Hreiðar Karlsson á Húsavík sendi þetta á Leirinn í tilefni lekans og sagði: ,,Þetta er allt á einn og sama veg. Í haust láku þingmenn, nú er það húsið.”

Allir sem búa við ágjöf slíka
úrlausnar vænta senn.
Alþingishúsið lekur líka
líkt og alþingismenn.

Afleitur á skíðum
Hjálmar Freysteinsson yrkir um væntanlegt forsetaframboð:

Það er margt sem miður fer
mörgu því við kvíðum,
þó er verst hve Ástþór er
afleitur á skíðum.

Bændablaðið 10. mars 2004

Mælt af munni fram
Jón Ingvar Jónsson orti til Hjálmars Vilhjálmssonar þegar hann horfði á rannsóknarskipið Árna Friðriksson í höfn:

Meinin öll sem Hjálmar hrjá
himnafaðir lini.
Loðnu fann hann ekki á
Árna Friðrikssyni.

Bruggvísur
Á dögunum var sagt frá því að styrkja ætti endurgerð brugghúss í Húnavatnssýslu en eins og menn vita var Björn J. Blöndal aðal þefarinn hér á landi við að elta uppi bruggara. Ólafur Stefánsson orti þegar hann heyrði fréttina og sendi á Leir:

Áður hlutu óspart kæru,
eltir voru með Blöndals kyngi,
en hljóta núna uppreisn æru,
afbrotamenn úr Húnaþingi.

Einar Kolbeinsson sagðist hafa heyrt sveitunga sinn tuldra eftirfarandi fyrir munni sér í framhaldi af umræddum fréttum úr vestursýslunni:

Vitneskjan mér veitist kær,
virðist kvíðann laga,
að hér rísi aftur bær,
eftir mína daga.

Bjarni Stefánsson bætti við ef það sama yrði gert í Skagafirði og í Húnavatnssýslu:

Ef heima ætti sama sið
að sinna, held ég styrkja yrði
bróðurpartinn býst ég við
af bæjunum í Skagafirði.

Jakob Sigurjónsson Húnvetningur hældi húnverskum landa:

Í Húnaþingi höfum vér,
hegðun slíka vítt um grundir.
Landabrugg er listgrein hér,
og léttir mönnum daprar stundir.

Heiðargæsin syngur
Jón Ingvar Jónsson orti baksneidda braghendu vegna kátlegra tilburða framsóknar:

Ef að Siv er synjað um að sitja lengur
haginn grænn úr hlátri springur
og heiðagæsin Verdi syngur.

Veðurlýsing
Spurt var um þessa veðurlýsingu á Leir á dögunum:

Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt.
Það er hvorki þurrt né vott
það er svo sem ekki neitt.

Óttar Einarsson sagði að hún væri eftir Jónas Hallgrímsson.

Upp á meltinguna
Óttar sendi þetta líka á Leirinn: Vinur minn góður, sjómaður, hringdi í mig nýkominn í land og sagðist hafa fengið sér einn bjór “svona upp á meltinguna”. Þá varð mér staka á munni eins og sagt er:

Eftir velting, þurrk og þjór,
þorsta, seltu og bruna,
í sig skellti einum bjór
upp á meltinguna.

Bændablaðið 23. mars 2004

Mælt af munni fram
Spurt var á Leir um vísuna Er opna ég þetta yrkingarkver eftir Jón Helgason prófessor. Erlingur Sigtryggsson upplýsti að samkvæmt heimildum skrifaði Jón vísuna á eintak af bók sinni Úr landsuðri. Bókin var síðan seld á uppboði á Íslendingafundi og hreppti Árni Hafstað hana. Samkvæmt mínum heimildum er vísan svona:

Ef opna ég þetta yrkingakver
með andfælum við ég hrekk.
Hvort er þetta heldur ort af mér
ellegar Ríkharði Beck.

Eftir mig eða séra Matthías
Stefán Vilhjálmsson þakkaði Erlingi fyrir gott innlegg í skemmtilega umræðu um háalvarlegt mál og orti:

Gleymskan er komin á geðveikt stig
þó gangi ég um með skáldafas.
Er þessi staka eftir mig
ellegar séra Matthías?

Fínn og fagur
Þorbergur Þórðarson rithöfundur orti eitt sinni:

Nú er ég bæði fínn og fagur,
fárra manna jafni,
ekki feitur og ekki magur
með eilíft líf fyrir stafni.

Svo hugsaði hann sig örlítið um og sneri vísunni á þessa lund:

Nú er ég bæði fínn og fagur,
fáum mönnum líkur,
ekki feitur og ekki magur
aldrei fæðist slíkur.

Kristján Eiríksson setti þessar vísur á Leirinn.

Þá voru flestir hvergi
Nokkuð var spurt um þessa frábæru vísu á Leirnum á dögunum og kom í ljós að til eru nokkrir fyrripartar af henni en rétt mun hún vera svona:

Heimsins brestur hjálparlið
hugurinn skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Ekki allt sálmar
Nú stendur yfir lestur Passíusálmanna eftir séra Hallgrím Pétursson. Ýmislegt er til eftir Hallgrím sem ekki er beinlínis sálmakyns. Sumt er eignað honum með réttu en sumt vafalaust eftir aðra. Hér kemur vísa sem hann orti í orðastað konu sem býsnaðist yfir matarnautn bónda síns:

Ég gaf honum fisk með flautum
og fergjað skyrið óskammtað,
átján stykki af ýsum blautum,
ellefu hrogn og svilja spað,
og sextán merkur af
sullugrautum.
Hann Sumarliði minn étur það

Þegar Hallgrímur var á Hólum þótti hann vera kerskinn og kvað hann þá meðal annars svo um morgunverk Arngríms lærða:

Sofnar, vaknar, sér við snýr,
sest upp, étur, vætir kvið,
hóstar, ræskir, hnerrar, spýr,
hikstar geispar, rekur við.

Bændablaðið 6. apríl 2004

Mælt af munni fram
Hjörleifur á Tjörn orti þessa skemmtilegu vísu:

Á lokasíðu í lífs míns bók
skal letruð þessi hending:
Ævi hans var dirty joke,
dauðinn happy ending!

Upphafið og endirinn
Þessi vísa er eftir gamlan mann sem var sjúklingur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en ég veit ekki hvað hann heitir.

Lífsins saga er lítils verð
leit að skjóli og brauði.
Upphafið er uppáferð,
endirinn er dauði.

Reynir aftur
Einar Kolbeinsson orti þessa vísu og tilefnið þarfnast ekki skýringar:

Fráleitt hefur fengið nóg,
frakkur sýnir þráann.
Ástþór reynir aftur þó,
enginn vilji sjá´ann.

Viðurkenning
Pétur B. Jónasson, skósmiður á Akureyri, fékk viðurkenningu þegar hann hætti störfum og orti þá:

Suma eltir ólánið
öðrum vegnar betur;
sjáið hvernig Sambandið
sæmir gamla Pétur.

Kvöl og pína
Benedikt Jónsson orti þessa vísu eftir að hafa lesið grein Helgu Kress um bók Hannesar
Hólmsteins um Halldór Laxness:

Löngum talinn löstur var
að lemstra, brjóta og týna.
En hirðusemi Hannesar
er Helgu kvöl og pína.

Bændablaðið 27. apríl 2004

Mælt af munni fram
Kristján frá Gilhaga las frétt í Fréttablaðinu og orti þá á Leir:

Reglugerðir gerast tamar
gildi taka skal ein slík,
eftir það má enginn framar
úti míga í Reykjavík.

Bjartsýnin
Hjálmar Freysteinsson bætti þá við um sama efni:

Okkar framtíð betri bíður
bjartsýnin er engu lík.
Nú verður áður en langt um líður
lyktin skárri í Reykjavík.

Örlagavíxlspor
Jóhann S. Hannesson var inni á aðalatriðunum í þessu máli sem fylgt hefur mannkyninu lengi vel. Hann orti eitt sinn:

Þegar hvergi fæst saltað, reykt né sigið,
né sést uppvið bæjarvegg migið,
þegar öll fæða er dóssett
og allsstaðar klósett,
þá er örlagavíxlsporið stigið.

Síminn fyrir sannvirði
Eins og svo margar vísur Hjálmars Freysteinsson þarfnast þessi engra skýringa:

Símann fyrir sannvirði
selja skal á uppboði,
vinnuglaður gjaldkeri
getur fylgt í kaupbæti.

Tungan skilorðsbundin
Þessa vísu mun Hjálmar Freysteinsson hafa ort þegar Pétur Pétursson, kollegi hans á Akureyri, fékk skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi fyrir óviðeigandi orðbragð um vaxtarræktarmenn:

Svo Pétur hætti að hrella menn
hentug leið var fundin,
þó hann sé til í tuskið enn
er tungan skilorðsbundin.

Allt dæmt ónýtt
Hákon Aðalsteinsson orti af sama tilefni:

Berjast menn við harðan heim
hreint á einu bretti
dæmt var ónýtt undir þeim
allt í hæstarétti.

Bændablaðið 11. maí 2004

Mælt af munni fram
Jón Ingvar Jónsson orti á Leir þegar Hreinn Loftsson sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum:

Kvelur hlustir sarg og sónn,
suð og urg vart þolir neinn,
þó er eins og einhver tónn
íhaldsflokksins virðist Hreinn.

Harður fleinn
Hjálmar Freysteinsson orti af sama tilefni:

Særir holdið harður fleinn
hrollur er í skrokknum,
af því nú er enginn Hreinn
í Sjálfstæðisflokknum.

(Hreinn skrifast með stórum eða litlum staf…..)

Kötturinn orti
Pétur Þorsteinsson setti inn á Leir:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mismælti sig freudískt í Kastljósinu í kvöld. Hún sagði eitthvað á þá leið að forsætisráðherra og núverandi dómsmálaráðherra (mig minnir að hún tiltæki þá tvo) hefðu varað við því alllengi að fjölmiðlar á Íslandi hefðu safnast á alltof margra hendur. Þorgerður leiðrétti sig auðvitað samstundis – en kötturinn glotti í kampinn og skaut að mér eftirfarandi vísum.

Hér er eins og allir sjá
allt að fara úr böndum
og fjölmiðlarnir orðnir á
alltof margra höndum.

Síst er hægt að sitja hjá
er sagan fer úr böndum
og fjölmiðlarnir enda á
alltof margra höndum.

Hættulegur lýðræðinu
Hjálmar Freysteinsson sá skemmtilega hlið á fjölmiðlalögunum nýju:

Á flestu illu ég átti von
en áttaði mig varla á hinu;
hversu Hallbjörn Hjartarson
er hættulegur lýðræðinu.

Bolludagseftirköst
Kristján Eiríksson orti um þau stóru orð sem nú falla á Alþingi um fjölmiðlafrumvarpið:

Á Alþingi dynja nú orðin stóru
og ymur á bekkjum sem falli skriður
því bolludagseftirköst viðsjál vóru
og vínberin lengi að ganga niður.

Drottinn fór yfir strikið
Jón Ingvar fór nýlega til rakara að láta klippa sig og sagðist þá hafa séð hvað lítið var eftir og orti:

Áður helst minn hróður jók
hárið þykkt og mikið.
Drottinn gaf og Drottinn tók,
Drottinn fór yfir strikið.

Enda komið sumar
Jón Ingvar orti þessa vorvísu nýlega:

Veðurfarið okkar á
engu nýju lumar.
Nú er Esjan orðin grá,
enda komið sumar.

Bændablaðið 25. maí 2004

Mælt af munni fram
Þegar Davíð Oddsson sagði á dögunum eftir klukkustundar fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að þeir hefðu leikið badminton þegar þeir voru 18 ára og síðan þekkst með hléum, fóru hagyrðingar af stað. Hjálmar Freysteinsson orti:

Ágætan þeir áttu fund
í eina og hálfa klukkustund,
þrættu lengi lon og don
um leikreglur í badminton.

Á gamals aldri
Kristján Bersi orti af sama tilefni:

Á æskuskeiði undu tveir
við íþrótt sína lon og don.
Á gamals aldri eru þeir
enn að spila badminton.

Þusað lon og don
Sigurður Ingólfsson bætti við:

Endalaust er þvælt og þráttað,
þusað bæði lon og don
höfðingjarnir hefðu átt að
halda sig við badminton.

Ef heimurinn ferst
Hjálmar Freysteinsson á síðustu orðin að sinni um þetta fræga fjölmiðlafrumvarp:

Menn þrasa út af þessu og hinu
í þinginu og sjónvarpinu,
en hitt finnst mér verst
ef heimurinn ferst
út af fjölmiðlafrumvarpinu.

Gott að vera ungur
Hringur heitinn Jóhannesson listmálari frá Haga í Aðaldal orti einhverju sinni:

Nú er bjart um vík og vog
vermir sólin rekka.
Gott er að vera ungur og
eiga nóg að drekka.

Fjallkóngurinn
Spurt var um höfund þessarar vísu á Leir. Veit einhver lesandi Bændablaðsins hver hann er?

Fjallkóngur í fjórtán ár
flaugst ég á við seggi.
Myndugur og mektarhár
mölvaði réttarveggi.

Bændablaðið 8. júní 2004

Mælt af munni fram
Séra Örn Bárður Neskirkjuklerkur flutti eldmessu í vor sem vakti verðskuldaða athygli. Árni Reynisson orti af því tilefni:

Örn Bárður er harður í gráasta gríninu
grimmur hans texti í lífsmagasíninu.
Hverju skornu skaðræðissvíninu
skolar hann niður með brauðinu og víninu.

Ef þú skilja mundir
Jóhannesar Sigfússon á Gunnarsstöðum er ekki með mjög þykkt hár og einhverju sinni var verið að tala um skalla. Þá orti hann:

Þér yrði skallinn afar kær
ef þú skilja mundir,
að þar sem mesta grasið grær
er gjarnan lítið undir.

Nefndi hann kartöfluna í því sambandi sem dæmi.

Líkhúsgjaldið
Hagyrðingar tóku við sér á Leir þegar líkhúsgjaldið var hækkað á dögunum. Hjálmar Freysteinsson orti:

Dýrtíðin er orðin ýkt
aurum mínum fækkar,
til að gjalda líkum líkt
líkhúsgjaldið hækkar.

Hreiðar Karlsson orti:

Auðsins mikla og sterka ofurvald
alla þegna um síðir nær að plokka.
Tíu þúsund króna geymslugjald
greiða verður fyrir dauða skrokka.

Og Sæmundur Bjarnason bætti við:

Á auramiðum ákaft dorga.
Eignum svipta kroppinn snauðan.
Heldur finnst mér hart að borga
hótelkostnað eftir dauðann.

Frægðarsól Davíðs
Þessa snilldar vísu Jóns Ingvars þarf ekki að útskýra frekar:

Frægðarsól Davíðs, fyrrum björt,
fæst nú vart til að skína.
Vinsældir hans og veldi ört
virðist mér núna dvína.

Nú er hann orðinn alveg snar,
að Ólafi ræðst, samt hittir þar
andskotinn ömmu sína.

Við skulum biðja Guðna
Einhverju sinni sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra eitthvað í þá veru að stjórnarandstæðingar þyrftu að biðja Guð um fyrirgefningu. Þá orti Hjálmar Freysteinsson:

Vísnagerð er vissulega puð
og við hvort annað skáldin illa lynda.
Við skulum biðja Guðna að biðja Guð
að gefa okkur fyrirgefning synda.

Ófriður í boði
Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum orti þessa þegar forsetinn hafnaði fjölmiðlafrumvarpinu:

Fjölmiðla er frumvarpið
fremur þunnt í roði
en Ólafur velur aldrei frið
sé ófriður í boði.

Bændablaðið 22. júní 2004

Mælt af munni fram
Við spurðum um höfund vísunnar Fjallkóngur í fjórtán ár í 11. tölublaðinu og fengum svar. Að vísu á það að vera fimmtán ár en ekki fjórtán í fyrstu línu en höfundur vísunnar hét Ásmundur Gíslason sem bjó í Besey í Norðurárdal á 19. öld. Vísuna orti hann um Jón Sæmundsson, hreppstjóra að Hamri í Þverárhlíð og leitarstjóra og réttarstjóra í Fiskivatnsrétt. Þá var til lítil rétt sem hét Víghólsrétt og vildi Jón Sæmundsson leggja hana niður og fá allt féð í Fiskivatnsrétt og því fór hann og braut Víghólsrétt niður og það var tilefni vísunnar.

Spurt á ný
Enn á ný langar mig til að spyrja um höfund ágætrar vísu sem ég lærði á dögunum. Mannsnafnið þarf ekki að vera rétt:

Sigurður hefur farið flatt
flæktur í gögnum hæpnum,
dæmdur fyrir að segja satt
en sýknaður af glæpnum.

Um suma
Kristján Bersi sendi þessa skemmtilegu vísu á Leir ,,eins og ég lærði hann einhvern tímann í einhverju þjóðsagnasafni var hún á þessa leið”:

Ef sumir vissu um suma,
hvernig sumir eru við suma,
þegar sumir eru frá, –
þá væru ekki sumir við suma
eins og sumir eru við suma,
þegar sumir eru hjá.

Kommarnir og sálirnar
Sumir kættust vegna dómsins yfir Davíð en hægri menn urðu reiðir og kölluðu alla sem kættust komma og að þeir hefðu allaf eina sál þegar svona mál kæmu upp. Þá orti Hjálmar Freysteinsson:

Sýnist vera sannað mál
segir okkur heimild traust,
að kommar eiga eina sál
en íhaldið er sálarlaust.

Kjósendur bjánar
Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sendi nýlega frá sér vísnabók sem hann kallar Ekki orð af viti. Á einum stað segir Ragnar að nokkrir frændur hans og vinir hafi boðið sig fram fyrir hina ýmsu flokka í kosningum en ekki fengið sérlega góða kosningu. Þá orti hann í orðastað þeirra allra:

Mér finnst almættið ýtið og frekt
og óhæf þess víðtæka mekt.
Mér finnst kjörstjórnin kjánar
og kjósendur bjánar
og lýðræðið andstyggilegt

Elsta listgreinin
Ragnar Ingi Aðalsteinsson segir í kveri sínu Ekki orð af viti að menn hafi deilt um það hvort súludans væri list eður ei. Ragnar orti:

Til listgreina ljúfra það telst
og list í því gjörvöllu felst.
Að leggjast á bakið
með lífið allsnakið
er allra listgreina elst.

Bændablaðið 6. júlí 2004

Mælt af munni fram
Stefán Vilhjálmsson rifjaði upp á Leir skemmtilegt erindi sem hann orti fyrir mörgum Herrans árum eftir að hafa horft á sjónvarpsmynd um einkenni alkóhólisma:

Aldrei verð ég neinn alki talinn
þó eigi ég víða pela falinn
og detti svo í það af og til.
Bakkus má hafa um helgar völdin,
þó helli ég mér í glas á kvöldin
á daginn er edrú – um það bil!

Eins og einn góður vinur minn sagði stundum: “Nú er ég hættur að drekka, en ég er ekki fanatískur!”

Kaupfélagsfundahretið
Hjálmar Freysteinsson segir að í góða veðrinu hafi rifjast upp fyrir sér að þegar KEA veldið stóð með blóma var það árviss viðburður að hér kæmi svonefnt kaupfélagsfundarhret, stórhríð í nokkra daga þegar aðalfundur KEA var haldinn. Nú er af sem áður var:

Núna er tíðin gjöful og góð
og gerir bændurna ríka,
kaupfélagið er komið úr móð
og kaupfélagsfundurinn líka.

Vissu ekki af vatninu
Hjálmar orti líka á dögunum þegar flóðin miklu urðu í Jöklu:

Jökla færir flest í kaf,
flóðin því ég kenni
að verkfræðingar vissu ekki af
vatninu í henni.

Kórdrengirnir
Séra Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur segir svo frá á Leir:

,,Á dögunum var verið að setja forseta lýðveldisins inn í embætti. Allt fór það friðsamlega fram sem vænta mátti. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sat á næstfremsta bekk og sá yfir forsetann inn í kórinn hvar 5 (fimm) biskupar sátu á stólum “og höfðust lítt að en undirritaður breiddi úr sér fyrir altarinu. Undir sálminum Heyr himnasmiður… bærðist önd ráðherrans:

Í messunni þar mátti sjá
mildings ásýnd skína.
En Hjálmar kíkti kankvís á
kórdrengina sína.

Vitlausramannahelgi
Þórir Jónsson yrkir um verslunarmannahelgina:

Vaknar í tjaldi vesælt lið,
viti og krafti sérhver rúinn.
Þetta er nú verra vesenið!

Vitlausramannahelgin búin!

Illviðrisdjöfull
Þórir Jónsson segir þessa sögu og vísuna sem fylgir henni:

,,Sigurbjörn K. Stefánsson, fyrrum skósmiður á Siglufirði, gaf árið 1967 út ljóðabók, mikla gersemi, handskrifaða listavel. Hann fluttist til Reykjavíkur á efri árum og kunni ákaflega illa við sig, ekki síst var veðurfarið honum lítt að skapi. Nú um stundir á þessi vísa líklega ekki illa við:

Austri á rokið og rigningu er gjöfull,
rennblotnar skinn sem flík.
Andskotans, bölvaður illviðradjöfull
er þessi Reykjavík.

Bændablaðið 31. ágúst 2004

Mælt af munni fram
Hjálmar Freysteinsson sagði á Leir á dögunum: Íslenska þjóðin er söm við sig. Nú kemur í ljós að hún hefur hlaðið niður börnum í óhófi, sem ekkert pláss er fyrir í skólakerfinu. Svo kemst þetta upp löngu seinna.

Þjóðin í súpuna settist,
seint held ég byrðarnar léttist,
hún sinnti ekki um vörn
og sex hundruð börn
eignaðist án þess að fréttist.

Að tróna í 11. sæti
Hjálmar orti þessa limru þegar Fréttablaðið sagði að Arnaldur Indriðason eða bók hans Grafarþögn “trónir um þessar mundir í ellefta sæti” á metsölulista í Svíþjóð. Mér var skemmt.

Þó met sín þeir bæti og bæti
blöskrað einhverjum gæti
við tíðindi ný
er menn taka upp á því
að tróna í ellefta sæti

Hugarangur
Hreiðar Karlsson setti þessa vísu á Leirinn:

Vondslega hefur oss veröldin blekkt,
vilja og rænu svipt mig.
Hefði ég betur hana þekkt
hefði ég aldrei gift mig.

Heilræðavísur
Á landsmóti hagyrðinga á Djúpavogi 2003 fór Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, með þessar alkunnu mjófirsku heilræðavísur:

Hata skaltu helvíte
og halda þig frá satane,
að þeim gamla gjöra spé
guðs svo hafnir í ríke.
Best mun reynast bindinde
á brennivíne og tóbake,
en berðu þig eftir björginne
sem best þú mátt hjá kvenfólke.

Gisin kirkja
Mér er sagt að séra Helgi Sveinsson, sem var prestur í Hveragerði, hafa ort þessa
frábæru vísu:

Mig langar stundum ósköp til að yrkja
um unaðs fagurt vor og litrík blóm
en finnst ég eins og gömul gisin kirkja
sem grætur yfir því að vera tóm

Helgi orti líka:

Margur er kátur maðurinn
og meyja hneigð fyrir gaman
en svo kemur helvítis heimurinn
og hneykslast á öllu saman.

Bjórþjófar
Ágúst Marinó Ágústsson, Sauðanesi, kom með stuttu millibili í Austurheiðarkofa í Tunguselsheiði. Í seinni ferðinni ætlaði hann að gæða sér á bjór sem skilinn var eftir í þeirri fyrri. Þegar Ágúst greip í tómt varð honum að orði:

Þjófar hafa þessu eytt
þeir munu Bakkus lofa.
Ekki er hægt að eiga neitt
Í Austurheiðarkofa.

Bændablaðið 14. sept. 2004

Fjóshaugurinn
Valdimar Gunnarsson kennari sendi þessa vísu á Leir og sagði hana vera frá Húsavík:

Þegar hinsta fjöðrin fer
og fjóshaugurinn hrynur
og hvergi er hægt að hreykja sér
þá hugsa ég til þín, vinur.

Getuleysi
Séra Hjálmar Jónsson segir svo frá: Árni Johnsen getur átt spretti í ljóðagerð, ekki langa, en samt. Og hann átti part af hálkuvísunni. Einu sinni var hann að basla sama vísu og hún endaði engan veginn. Þá missti ég saman þessa:

Árna Johnsen þekkir þjóð
og þolir af honum hrekki.
Gjarnan vill hann gera ljóð
en getur það bara ekki.

Slóttugur nörd
Mikið var ort um Hannes Gissurarson þegar bókin Halldór kom út í fyrra. Jón Ingvar Jónsson orti þessa limru:

Hann Hannes vor hatar að slóra
og hamast víst minnst á við fjóra.
Hann sló inn í vörd,
sá slóttugi nörd,
um sexhundruð síður frá Dóra.

Slæm í fótunum
Stefán Vilhjálmsson sendi þessa vísu á Leir en sagðist ekki vita eftir hvern hún væri:

Nú er ég með á nótunum,
næ því pilta hylli,
frekar slæm í fótunum
en feikna góð á milli.

Himins vangaskeggið
Þessi vísa var eitt sinn birt á Leir og spurt um höfund en ég hef ekkert svar séð:

Blæs í fangið, breytt er átt,
boðar stranga hreggið.
Niður hangir hélugrátt
himins vangaskeggið.

Bændablaðið 28. sept. 2004

Mælt af munni fram
Nú yrkja menn á Leir um kennaraverkfallið og Hreiðar Karlsson segir: Kennaradeilan er enn í hörðum hnút. Nú hafa báðir samningsaðilar lofað því að koma á næsta fund, án þess að hafa nokkuð til mála að leggja. Þetta getur orðið sérkennilegur fundur, til dæmis á þessa leið:

Kennaraverkfallið treinist í talsverða stund
og tímana langa nemendur mega þreyja.
Deiluaðilar ætla að koma á fund
án þess að hafa nokkuð frekar að segja.
Fundurinn verður allur á eina lund;
Ásmundur hlustar á samningamennina þegja.

Hverjum að kenna?
Árni Reynisson bætir við og segir:

Og nú þegar önnur vikan verður frá
virðist um það snúast þessi senna:
ekki hvernig, hvenær eða hvort það á –
heldur hverjum þetta er alltsaman- að kenna

Ber lítið á hæfileikunum
Að sjálfsögðu yrkja menn líka um Jón Steinar og baráttu hans og annarra um að koma honum í hæstarétt. Hreiðar Karlsson segir: Enn er þrasað um hæstarétt og tilnefningu dómara. Hópur valinkunnra lögmanna hefur gengið fram fyrir skjöldu til að benda á vanmetna og að því er okkur skilst – lítið þekkta hæfileika Jóns Steinars. Vandséð er hvernig hægt var að gera Jóni ljótari grikk en þetta, eða þannig:

Jón er eflaust engum manni líkur,
enda nógir til að greina frá því.
Þó að hann sé hæfileikaríkur,
hefur sjaldan borið mikið á því.

Inni er bjart við yl og söng
Séra Hjálmar Jónsson sendi þessa vísu Þórðar Kárasonar frá Litla-Fljóti á Leirinn og telur hana orta á Hveravöllum:

Nóttin vart mun verða löng
vex mér hjartastyrkur.
Inni er bjart við yl og söng,
úti svartamyrkur.

Ólafur Stefánsson sagði vísurnar vera tvær og þá síðari svona:

Þessi bolli lífsins laun
ljúf og holl mun bera,
en elta rollur út um hraun
einn má skollinn gera.

Kveðja
Þegar einn af kunningjum Hákonar Aðalsteinssonar, skálds og skógarbónda á Húsum, varð fimmtugur fékk hann þessa kveðju frá vini sínum:

Kveðjur skulu vinum valdar,
verðugt er að minnast dagsins.
Nú skal hylltur hálfrar aldar
höfuðverkur samfélagsins.


Bændablaðið 12. okt. 2004

Mælt af munni fram
Algengt er að fólk tali um veðurguði, segist ætla að biðja veðurguðina um gott veður. Þetta er órökrétt því að í flestum trúarbrögðum er bara til einn guð. Aftur á móti er til fjöldi engla og Páll Bergþórsson, veðurstofustjóri fyrrverandi, segir að veðurenglarnir séu fjórir; Suðri, Norðri, Austri og Vestri. Þessu til staðfestingar nefnir hann ævagamla vísu sem er á þessa leið:

Voldugir Drottins veðurenglar fjórir,
höldum gefi hægan byr
hef ég þess eigi beðið fyr.

Á rjúpunni sannast
Erlingur Sigtryggsson bætti við vísu um rjúpnaveiðina og blandaði pólitík inn í málið.

Á rjúpunni sannast ennþá að
algild sannindi blífa:
Sjálfstæðisflokkurinn fellir það
sem Framsókn reynir að hlífa.

Löngunin til að skemma
Nú eru hagyrðingar á Leir farnir að yrkja um sprenginguna miklu fyrir austan sem samgönguráðherra stjórnaði. Hjálmar Freysteinsson segir:

Sumum gerir lífið leitt
löngunin til að skemma.
Sturlu var í hamsi heitt
og haftið rauf of snemma.

Sex í einu höggi
Davíð H. Haraldsson bætti við um sama efni:

Sturla illa starfið vann
í stundarbræði.
Sex í einu höggi hann
hélt að næði.

Eflaust fyrir klaufaskap
Hjálmar Freysteinsson hélt áfram að yrkja um sprenginguna:

Á Austurlandi eru menn
ánægðir og hissa í senn,
að þar Sturla engan drap
eflaust fyrir klaufaskap.

Gæsalappir
Egill Jónasson orti þessa frægu gæsalappavísu þegar hann mætti stúlku sem hafði misjafnt orð á sér:

Við skulum ekki hafa hátt
hér er gæs að vappa.
Margur hefur yndi átt
innan gæsalappa

Afneitum Kristni
Kristján Eiríksson segir að eftirfarandi vísu hafi gamall Framsóknarmaður hvíslað að sér á dögunum þegar tal okkar barst að tilvistarvanda flokksins:

Þótt sortni um sólarhvel
og sígræn trén visni
allt mun þó enda vel:
Við afneitum Kristni.

Svar við spurningu
Ég spurði á dögunum eftir höfundi vísunnar: Blæs í fangið/breytt er átt. Vísan er sögð eftir Benedikt Einarsson frá Hallanda í Eyjafirði sem fæddur var 1852 og dáinn 1928.


Bændablaðið 26. okt. 2004

Mælt af munni fram
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra mætti að sjálfsögðu á Sauðamessuna í Borgarnesi á dögunum og hélt þar mikla messu yfir gestum. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra er líka áhugamaður um íslensku sauðkindina en hann komst ekki á Sauðamessuna. Þess í stað hringdi hann í Guðna og bað hann flytja fólki kveðju sína og vísu sem hann orti í orðastað Gísla Einarssonar yfirsauðs og fréttamanns enda var hann allt í öllu við að koma messunni á. Vísa Jóns er svona:

Sólin skína á haf og hauður
hljómfagurt er Íslandslag.
Ég er orðinn yfirsauður
og ætla að fagna hér í dag.

Halldór kominn til valda
Hjálmar Freysteinsson orti 15. september sl. og þarfnast vísan ekki frekari skýringa:

Oss voru sköpuð örlög hörð
eigum víst margs að gjalda.
Hér var í morgun hrímuð jörð
og Halldór kominn til valda.

Bjargar þeim sem bágast eiga
Seðlabankinn hefur tekið við mörgum pólitíkusum sem hafa þurft þægilegt starf á lokasprettinum. Um þetta var eitt sinn ort:

Sumir kveðja klökkum hreim
af kaleik beiskum teyga.
Seðlabankinn bjargar þeim
sem bágast jafnan eiga.

Hélt áfram að tala
Hjálmar Guðmundsson, fyrrum bóndi í Fagrahvammi á Berufjarðarströnd, var eitt sinn á sýslufundi í Suður-Múlasýslu. Þá kom maður einn í ræðustól, sagðist hafa ætlað að hugsa um málið sem til umræðu var en ekki haft til þess tíma en talaði þó um efnið nokkra hríð. Þá orti Hjálmar:

Skyldi ég eiga að leggja´onum lið
eða láta hann bara mala.
Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Að hugsa og hanna
Pétur Þorsteinsson orti þessa vísu eftir að hafa hlustað á umræður um vændisfrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur á sínum tíma:

Fyrst þarf að hugs’upp og hanna það
hefja svo rannsókn og kanna það
í fjölmiðlum sýna og sanna það
og setja lög til að banna það.

Bændablaðið 9. nóv. 2004

Yfirmenn bera aldrei sök
Kristján Bersi Ólafsson sendi eftirfarandi inn á Leirinn: ,,Þetta datt mér í hug í dag eftir að hafa hlustað á alla fréttatíma síðan í morgun:

Þótt að því liggi engin rök
er það svo í bráð og til lengdar,
að yfirmenn bera aldrei sök,
en undirtyllurnar skulu hengdar.

Ólíkt hlutskipti
Davíð S. Haraldsson orti að gefnu tilefni:

Í Keflavík vor Kanar gæta,
með kurt er að þeim dátum hlúð
en hermenn okkar horskir mæta
handsprengjum í teppabúð.

Nýjasta samráðið
Kristján Eiríksson orti þegar afsökunarbeiðni olíufélaganna birtist í blöðunum:

Þá Esso, Skeljung og Olís grunar
óvænta töf á veginum
og allir biðjast því afsökunar
á einum og sama deginum.

Peningalyktin
Á hagyrðingakvöldi á Vopnafirði var kvartað yfir fnyknum frá loðnubræðslunni sem sumir kalla peningalykt. Þá orti Ragnar Aðalsteinsson:

Því sem hagnað góðan gaf
gjarnan fylgdi nokkur vandi.
Það er löngum ólykt af
öllu þessu gróðastandi.

Annan og betri íhaldsmann
Á framboðsfundi á Austurlandi fyrir mörgum árum lét Lúðvík Jósepsson þau orð falla að ekki yrði létt að gera betri mann úr Sverri Hermannssyni. Þá orti Helgi Seljan:

Lagið á ýmsu Lúðvík kann
en létt mun það ekki vera
ef annan og betri íhaldsmann
hann ætlar úr Sverri að gera.

Bændablaðið 23. nóv. 2004

Mælt af munni fram
Jón Ingvar Jónsson sendi þessar skemmtilegu vísur og formála að þeim inn á Leirinn:

Sigurjón í Skollagróf orti í fyrra þegar hann fór fram hjá Núpsstað góða vísu eins og hann gerir svo oft. Tilefnið er að bræðurnir sem þar búa eru á milli níræðs og tíræðs, eins og reyndar þau systkini öll, fimm talsins.

Góðum stað ég geri skil,
gelta á hlaði rakkarnir
og hundrað ára hér um bil
hérna eru allir krakkarnir.

Í Vík orti Sigurjón:

Inn til Víkur ók í hlað,
inn af sjónum beljar Kári.
Það ku rigna á þessum stað
365 daga á ári.

Indriði frændi minn
Kristján Bersi Ólafsson segir frá því á Leirnum að opinberir starfsmenn voru eitt sinn sem oftar að semja um laun sín. Þá var formaður launanefndar ríkisins Indriði Þorláksson, núverandi skattstjóri. Jóni Thor Haraldssyni heitnum þótti hann býsna þver og harðdrægur, en þeir voru þremenningar að skyldleika. Hann orti þá:

Síst ertu mannasættir
og sínkari en andskotinn.
Þú sverð þig í aðrar ættir
Indriði frændi minn.

Bænheyrsla
Stefán Vilhjálmsson kjötmatsformaður sendi þetta á Leir:

Ég var veðurtepptur í 3 tíma á Reykjavíkurflugvelli í gær vegna mikillar ofankomu þar í bæ. Ekki rofaði til fyrr en ég gaukaði vísu að sr. Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, skólabróður mínum, sem einnig beið fars:

Úti snjóhvítt enn er löður,
eina lausn þó finn:
Heyrðu nú í himnaföður,
Hólabiskup minn!

Og það var eins og við manninn mælt, innan stundarfjórðungs hafði stytt upp og hélst svo þar til við vorum komnir í loftið.

Snjór í Reykjavík
Hjálmar Freysteinsson orti af sama tilefni og Stefán bænina.

Nú er úti allur friður
angistin er fáu lík,
allt að fara norður og niður,
nú er snjór í Reykjavík!!

,,Ómetanleg tjón“
Kristján Bersi Ólafsson sagðist hafa heyrt í umræðum á alþingi að marglesið var upp úr bréfi frá umboðsmanni barna þar sem sagt var að börn hefðu beðið ,,ómetanlegt tjón“ vegna kennaraverkfallsins. Betur að satt væri, datt mér fyrst í hug, en síðan hnoðaði ég þessu saman:

Eftir því sem árin líða
eflist þessi bón:
að ég megi sem oftast bíða
ómetanlegt tjón.

P.S. Samkvæmt orðabókinni merkir ómetanlegur: „sem ekki verður metinn sem skyldi, mikilvægur.“

Bændablaðið 12. des. 2004