2003

Mælt af munni fram
Stefán Vilhjálmsson matvælafræðingur, kjötmatsformaður og hagyrðingur setti þessar limrur og vísur á Leirinn á dögunum í tilefni þess að Ingi Kristinn Stefánsson tannlæknir sótti um inngöngu í Leirinn en þeir Stefán og Ingi eru skólabræður.

Gefum Stefáni orðið: Ég minnist limru eftir Inga að loknu stúdentsafmæli, sem hópurinn heldur hátíðlegt á fimm ára fresti:

Við höldum þá sama siðnum
og sjáumst að fimm árum liðnum,
ungir í anda
og edrú að vanda
með alltof mörg kíló á kviðnum.

Annað dæmi um kveðskap Inga Kr. langar mig að tilfæra og læt fylgja litla „jólasyrpu” sem ég tók saman nýlega. Á þessum tölvupóststímum hafa ýmsir tekið sér fyrir hendur að nota netföng sem rímorð. Á aðventunni í hitteðfyrra tóku ábyrgðarlausir aðilar sig til og ímynduðu sér netföng æðri máttarvalda. Stefán Vilhjálmsson setti fram fróma ósk:

Ég vil jóla- finna -frið
svo fari ekki neins á mis,
en játa að mikils ég þig bið
ó jesuskristur.is

Gunnar Frímannsson kvað heilræðavísu.

Út á götu aktu síst
ef þú hefur drukkið romm.
Gerirðu það þig grípur víst
gud@himnum.com

Stefán V. fann annað rímorð og gerði jólavísu:

Nú er hátíð heims um ból
og hæfir ekki að vera domm,
gleðileg því gefur jól
gud@himnum.com

Ingi Kr. Stefánsson tók upp þráðinn:

Maríu fylgdi maður sem
til manntals gekk í Betlehem,
en geistlega hana gerði bomm
gud@himnum.com

Og Sverrir Páll Erlendsson bætir þessari í safnið:

Pakka munu flestir fá
sem forðast Reykjavíkurborg!
Mitt er nafnið Máríá
@Magdalena.org

Gamla konan
Friðrik Steingrímsson í Mývatnssveit og Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum voru saman á vísnakvöldi og þeim var sagt frá danskri konu sem náði 120 ára aldri og þakkaði það því að hún reykti ekki, drakk ekki og stundaði ekki kynlíf. Þá orti Jóhannes:

Þetta er orðinn aldur hár,
enn er hún samt að tifa.
En til hvers var hún öll þessi ár
eiginlega að lifa?

Friðrik hafði skýringu sem eiginlega lá í augum uppi og sagði:

Allir verða eitthvert sinn
Amorskalli að hlýða.
Hún er ennþá auminginn
eftir því að bíða.

Bændablaðið 14. jan. 2003

Mælt af munni fram
Eftir prófkjör framsóknarmanna í norð-Vesturkjördæmi, þar sem Páll Pétursson var felldur, orti Hjálmar Freysteinsson undir móttóinu “Þeim var eg verst er eg unni mest”

Vel var Framsóknarfundurinn sóttur
og fjallað um alvörumál.
Aðferð Guðrúnar Ósvífursdóttur
ákváðu að nota við Pál.

Ingibjörg í skóinn
Hjálmar orti líka að gefnu tilefni:

Á aðventunni á ýmsu gekk
ennþá vantar snjóinn.
Árla morguns Össur fékk
Ingibjörgu í skóinn.

Alvöru leirburður
Allir sem unna vísum kannast við leirburð og er þá átt við þegar viðkomandi reynir að yrkja í hefðbundnu formi en úr verður leirburður. Svo er til það sem sumir kalla „alvöru leirburð” eins og þessar „vísur” sem Skarphéðinn Árnason setti á Leirinn og eru sagðar eftir karl sem kallaður var Stebbi Boli og átti heima á Sauðárkróki.

Peysan mín er götótt mjög
með hundrað götum mörgum.
Aldrei skal ég úr henni
fyrr en hún fer í eldinn.

Hin er ort til kaupmanns og er svona:

Hýðishveiti vil ég fá
hér í þessari verslun.
Ég treysti á þig sem góðan dreng
að lána mér það í bili.

Kári og erfðagreiningin
Hákon Aðalsteinsson gaf út ljóða- og vísnakver fyrir síðustu jól sem heitir Imbra. Þar er að finna eftirfarandi vísu um Kára og erfðagreininguna:

Það birtist eflaust býsna margt í bókum hans.
Því sitthvað gerist síðla kvölds til sjós og lands.
Svo ef hann rekur okkar gen til upprunans
þá fara allar ættarskrár til andskotans.

Kominn á Ferguson
Þegar Andrew Bretaprins kvæntist Söru Ferguson hér um árið orti norðlenskur bóndi, Andrés að nafni þessar vísur:

Fögur og björt er framtíðin,
fögnuður ríkir og það er von.
Nú ertu kátur nafni minn,
nú ertu kominn á Ferguson.

Er rennur á nótt í ríki þínu
hjá rauðhærðu Söru þú háttar vel.
Fyrr má nú gera að gamni sínu
en gifta sig svona dráttarvél.

Bændablaðið 28. jan. 2003

Starfslokasamningurinn
Ríkisútvarpið birti á dögunum frétt þess efnis að VÍS hefði gert starfslokasamning við Axel Gíslason fráfarandi forstjóra upp á 200 milljónir króna. Sem kunnugt er tók Finnur Ingólfsson við forstjórastarfinu af Axel. Reynir Jónasson hagyrðingur og tónlistarmaður fór með þessa limru í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni eftir frétt RÚV:

Kannski nú lotunum linni
um lífið hjá aumingja Finni.
Hann hefur í raun
bara lágmarkslaun
eitthvað líkt og Axel á inni.

„Stofublómin”
Á dögunum voru tveir menn í A-Húnavatnssýslu handteknir fyrir hassrækt. Einar Kolbeinsson í Bólstaðarhlíð segir svo frá þessu á Leirnum: „Hér hafa orðið þau stórtíðindi að í næsta nágrenni við mig voru gerð upptæk á dögunum reiðinnar býsn af ,,stofublómum”. Málið er að sjálfsögðu háalvarlegt en á sér þó spaugilegar hliðar eins og flest. Þar ber hæst sú staðreynd að þeir aðilar sem málið fjallar um keyptu húsið af Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir tæpu ári síðan. Hér hafa menn velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið liður í viðleitni hins opinbera til að skapa atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Engar haldbærar skýringar hafa hins vegar fundist fyrir því að sama ráðuneyti er nú búið að stöðva reksturinn og málið því komið á upphafsreit. Umrætt hús er sumsé fyrrverandi prestsbústaður, hvar félagi okkar í leir, Hjálmar Jónsson, bjó um tíma fyrir margt löngu. Það var einmitt þá sem ég var að stíga mín fyrstu skref á menntabrautinni, og að sjálfsögðu undir handleiðslu þeirra heiðurshjóna Hjálmars og Signýjar, í títtnefndu húsi.“

Skrýtið fjölmargt skeður hér,
það skýra vart er hægt að.
Þar sem klerkur kenndi mér,
nú kannabis er ræktað.

Bændablaðið 11. febr. 2003

Ásmundarkúrinn
Leirverjar hafa mikið ort um megrunarkúr Ásmundar Stefánssonar fyrrum forseta ASÍ og sýnist sitt hverjum. Hjálmar Freysteinsson læknir orti um kúrinn og bókina sem Ásmundur gaf út um megrunarfræði sín:

Svo við verðum kæn og klók
og kannski einhver græði
allir þurfa að eignast bók
um ýstrubelgjafræði

Svo bætti hann við limru um sama mál:

Glaður sem skin eftir skúr
sker sig fjöldanum úr
það merkist þar fer
maður sem er
kominn á Ásmundarkúr.

Þjórsárveragoðinn
Jón Kristjánsson, settur umhverfisráðherra, hefur hlotið almennt hrós bæði pólitískra andstæðinga sem samherja fyrir úrskurð sinn um lónsgerð í Þjórsárverum. Séra Hjálmar Jónsson, fyrrum alþingismaður, orti um Jón af þessu tilefni, og er það ekki fyrsta vísan sem hann yrkir um Jón Kristjánsson og áreiðanlega ekki sú síðasta ef ég þekki þá vinina rétt:

Umhverfið bíður ekki tjón
eða bráðan voða.
Þig má kalla Þorgeir, Jón,
Þjórsárveragoða.

Lausnin
Saga næstu vísu er á þá leið að tveir karlar voru svarnir óvinir og gekk þessi illska svo langt að yfirvald skipti sér af og kvað upp þann úrskurð að þeir skyldu fara saman á refaveiðar, eða á greni eins og það er kallað, og ekki koma til baka fyrr en þeir hefðu náð sáttum. Það mun hafa tekist og þá varð þessi vísa til en ekki veit ég hver höfundurinn er en þætti gaman að heyra frá einhverjum sem veit það:

Saman þeir lágu og sátu um rebba,
samninga gerðu um vináttu trygga.
Siggi átti hætta að stela frá Stebba
og Stebbi átti að hætta að ljúga upp á Sigga.

Bændablaðið 25. febr. 2003

Mælt af munni fram
Þegar kosningar nálgast gerast menn pólitískir, líka hagyrðingar. Á Leirnum eru menn farnar að koma með pólitískar vísur. Hjálmar Freysteinsson læknir segir á Leirnum. „Það er örugglega rétt, sem einhver skrifaði hér, að vísur um pólitík eru líklegar til að baka manni óvinsældir á kosningavetri. Ein um skattalækkanafyrirheit Davíðs ætti þó ekki að skaða:”

Ekki finnst mér Davíð dóni
dæmið frekar okkur hina –
Hann ætlar að létta ögn á Jóni
Ólafssyni skattbyrðina.

Mér er sama hvert ég keyri
Guðbrandur Þ. Guðbrandsson sendi mér línu á dögunum og lét fylgja með vísu eftir snillinginn Egil Jónasson frá Húsavík, sem hann kvað á sínum síðustu árum að því ætla má, að sögn Guðbrandar, og var hann þá búinn að vera á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri til lækninga en var á leið heim. Egill hafði fengið far með fólki sem hann þekkti og átti leið til Húsavíkur. Kunningi hans á Akureyri vildi þó fá hann til að fresta för, einkum vegna tvísýns veðurútlits. Egill svaraði með vísu:

Mér er sama hvert ég keyri
og í hvaða veðradyn
leiðin burt frá Akureyri,
er alltaf betri en hin.

Vini alla einskis mat
Rósberg G. Snædal orti næstu vísu um vin sinn Kristján frá Djúpalæk. Rósberg var staddur á bæ einum og vissi að Kristján átti þar leið framhjá í bíl sínum og hafði beðið hann að taka sig með. Kristján lofaði því en gleymdi sér og ók fram hjá bænum og skildi Róberg eftir og þá orti hann:

Vini alla einskis mat
yfir fjallið strekkti
meira gallað mannrassgat
maður varla þekkti.

Tvær eftir ókunna höfunda
Ég veit ekki eftir hverja þessar snilldarvísur eru en þær eru það góðar að þær eiga erindi á prent:

Ég hef mörgum konum kynnst,
kannað vegi flesta
en þú ert bæði yst og innst
sú indælasta og besta.

Margan hendir manninn hér
meðan lífs er taflið þreytt
að hampa því sem ekkert er
og aldrei hefur verið neitt.

Þar komst hann upp á þ
Þessi bráðskemmtilega vísa mun vera eftir vestur-íslenska skáldið Guttorm J. Guttormsson en í henni er hann að lýsa tónleikum sem hann var á:

Hann kann að leika á horn,
heldur á eitt en á tvö.
Þar komst hann upp á þ
þaðan á tvístrikað ö.

Hækkar sig, hækkar sig nú,
hækkar sig örlítið korn;
þar komst hann upp á q.
Það kemst enginn lengra með horn.

Bændablaðið 11. mars 2003

Mælt af munni fram
Stefán Vilhjálmsson kjötsmatsformaður á Akureyri lagði eitt sinn spurningu fyrir Magnús Steinarsson, ágætan hagyrðing sem nú sýslar með tryggingamál Hafnfirðinga Spurningin var þessi: Hvað rímar á móti ærlær? Skömmu síðar sendi Magnús svar til Stefáns í tveimur stökum:

Kjötiðnaði kær hlær
kappinn og á lær slær,
ruggar sér og rær nær
ríma kunni ærlær.

Tindra af gleði tær skær
tinnuaugun nær fær
flink að taka fær mær
feitt í sundur ærlær.

Þótti Stefáni spurningunni fullsvarað!

Um ólíkt eðli
Stefán sendi á Leirinn eina „ekki er því að leyna” vísu um ólíkt eðli þeirra Davíðs Oddsonar:

Hneykslast mundi hvorki né
heimi frá því greina
ef einhver bæri á mig fé

ekki er því að leyna.

Illt er að halla á ólánsmann
Á dögunum var spurt um hvort einhver þekkti höfund þessarar vísu:

Illt er að halla á ólánsmann
það ættum valla að gera.
Við höfum allir eins og hann
einhvern galla að bera.

Ég hef ekki séð neitt svar.

Kyrrstaðan er mér til meins
Séra Hjálmar Jónsson segir frá því að hann hafi veríð að prófa frískari blæ og brag á messunni þegar hann var prestur á Sauðárkróki. Á leið til messu kl. 14.00 hitti hann Þorberg Þorsteinsson frá Sauðá (hálfbróður Indriða G.) á Kirkjutorginu á Króknum. Hjálmar spurði hann frétta og þá svaraði Þorbergur með þessari vísu:

Kyrrstaðan er mér til meins
margt er við að glíma.
Presturinn messar alltaf eins
og alltaf á sama tíma.

Þó við byndi Bakkus ást
Við útför Þorbergs fáum árum síðar fór Hjálmar með þessa vísu hans og tíndi fleira til um þennan ágæta vin sinn. Hjálmar segir að um hann hefði mátt yrkja þessa vísu:

Þó við byndi Bakkus ást
og bæri lyndisgalla
heilsteypt mynd af manni sást
milli syndafalla.

(Mér fannst hann að vísu ekki bera lyndisgalla, segir Hjálmar.)

Ekki er því að leyna
Hér kemur svo ein „ekki er því að leyna,” vísa eftir Rósberg G. Snædal:

Fram ég strekki og fjallið klíf
fyrir blekking eina.
Það er brekka þetta líf,
því er ekki að leyna.

Bændablaðið 25. mars 2003

Mælt af munni fram
Á vísnakvöldi á Broadway í vetur voru þeir meðal hagyrðinga séra Hjálmar Jónsson og Hákon Aðalsteinsson. Stjórnandi var Ólafur G. Einarsson, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis en núverandi formaður stjórnar Seðlabankans. Spurðir um starfslokasamninga manna og stétta sneri Hjálmar sér að stjórnandanum ÓGE og sagði:

Margan líta má í skut
mæddan, dapran, krankan
en Ólafur G fékk í sinn hlut
allan Seðlabankann.

Hagyrðingarnir fengu bjór á borðið og Hákon var fljótur að grípa það á lofti þegar ÓGE hvolfdi í sig úr glasinu:

Ólafur kann ýmislegt
Ólafur er stjórinn.
Ólafur hann er eins og trekt,
Ólafur þambar bjórinn.

Bláhandarvísur
Nú yrkja menn það sem kallað er „Bláhandarvísur” og þarfnast ekki frekari skýringa. Þessi mun vera eftir Kristján Eiríksson.

Hitti hann knáa Hringaná,
hefji spaug með ástarglingur;
hygg ég þá að höndin blá
hljóti Baug á sérhvurn fingur.

Þessi er hins vegar eftir nafnleysingja á netinu:

Þó vorið bægi vetri frá
vont fær ekki skánað.
Undir skafli lygin lá.
Lengi fær höndin blánað.

Leiðrétting
Óttar Einarsson sendi mér eftir farandi línur. „Vísa í síðasta Bændablaði er eignuð Rósberg G. Snædal en er reyndar kveðin af föður mínum, Einari Kristjánssyni frá Hermundarfelli og má segja að ég muni það í beinni útsendingu!

Vini alla einskis mat,
yfir fjallið strekkti.
Meira gallað mannrassgat
maður valla þekkti.”

Bændablaðið 8. apríl 2003

Sagði ekki orð af viti
Guðbrandur Guðbrandsson sagði á Leirnum eftirfarandi sögu af Jóni Eiríkssyni Drangeyjarjarli á Fagranesi sem er hagyrðingur góður. Eitt sinn var hann ritari á fundi, sem sveitarstjórnarmenn í nágrannasveitarfélögum héldu (þáv. Skarðshreppi, sem Jón var í, og Sauðárkrókskaupstað sem þá var). Þetta var um sama leyti árs og núna og Jón byrjaður á grásleppunni og því lúinn og sjálfsagt svefnvana líka, enda sinnti hann bústörfum samhliða útgerðinni. Fór því svo meðan á ræðu eins langorðs fundarmanns stóð að Jóni rann í brjóst. Sá hann sér til skelfingar þegar þessari löngu ræðu lauk, að hann hafði ekkert skráð um ræðu mannsins og þótti leitt, því Jón er samviskusamur maður eins og flestir í bændastétt. Laust þá niður í höfuð hans vísu, sem hann langaði mikið til að setja í fundargerðarbókina, en stóðst freistinguna. En vísuna heyrði ég hann sjálfan fara með eitt sinn og er hún svona og á víða við:

Ákaft sinnti hann orðastriti
allt hans mas úr hófi keyrði.
En ekki sagði hann orð af viti
eftir því sem best ég heyrði.

Davíð endurkosinn
Hjálmar Freysteinsson orti að loknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

Íhaldið Davíð endurkaus
ósköp varð ég glaður,
síðan er ég lúsalaus
á Leirnum öfundaður.

Ort í spreng
Magnús Ólafsson, bóndi á Sveinsstöðum í V-Húnavatnssýslu, orti á Leirnum þegar hann heyrði vísu Hjálmars:

Lipurt gengur ljóðadís
leirsins feng ég mikils virði.
Ort í spreng um látnar lýs
sem lifðu á dreng í Eyjafirði.

Höfundurinn
Margir hafa haft samband við mig og sagt að þessi vísa sem ég spurði um höfund að:

Illt er að halla á ólánsmann
það ætti valla að gera.
Við höfum allir eins og hann
einhvern galla að bera.

…sé eftir Gísla Jón Gíslason frá Hjaltastaðahvammi í Blönduhlíð í Skagafirði. Ein kona sem hafði samband sagði vísuna eftir móður sína, Pálmeyju Helgu Haraldsdóttur frá Sauðárkróki. Á þetta legg ég engan dóm en þeir voru mjög margir sem voru sammála um að vísan væri eftir Gísla J.

Bændablaðið 29.apríl 2003

Mælt af munni fram

Hjálmar Freysteinsson segir að stundum gleðji sjónvarpsauglýsingar sig og yrkir:

Trú þeirra manna ég tæplega skil
sem telja að jarðlífið sé straff
og léttur í skapi ég lofsyngja vil
það lán mitt að vera ekki DV.

Sálarmyrkur gegnum gekk
Hreiðar Karlsson á Húsavík spurði á Leirnum fyrir skömmu hvort einhver kannaðist við höfund þessarar ágætu vísu:

Sálarmyrkur gegnum gekk,
glataði styrk og hætti að rata.
Fór að yrkja en aldrei fékk
aftur virkilegan bata.

Sjarmerandi níð
Kristján Eiríksson frá Fagranesi á Reykjaströnd yrkir í tilefni kosningabaráttunnar eins og mjög er gert um þessar mundir.

Eru nú lestir annarra
aðal Davíðs og prýði
þótt Solla ljúgi sannara
með sjarmerandi níði.

Halldór farinn að syngja
Og Kristján skilur engan útundan og heldur áfram eftir söng Halldórs Ásgrímssonar í sjónvarpsþætti Gísla Baldurs á dögunum:

Nú skal hefja nýjan söng,
nú skal yrkja um vorið
og sumarkvöldin sæt og löng
sem að létta sporið.

Því sólin tindrar björt um bý
og bjöllur vorsins klingja,
í pólitíkinni hopp og hí
og Halldór farinn að syngja.

Bændablaðið 13. maí 2003

Að kjósa rétt
Allnokkur hvellur varð þegar forstjóri ÚA hvatti starfsfólk sitt til að kjósa „rétt” í þingkosningunum 10. maí sl. annars gæti illa farið. Kvótann yrði að verja. Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri, setti þetta í vísuform og sendi á Leirinn:

Vita skaltu vinur minn
hvað verður þér að liði:
Mestu er vert að Kolkrabbinn
kvótann hafi í friði.

Þingsmannsefni?
Hjálmar var í miklu pólitísku stuði rétt fyrir kosningar og sagði á Leirnum og orti síðan: ,,Ég var að fletta Mogganum í dag. Lengi vel er þar á annarri hverri síðu heilsíðumynd af pólitíkusum. Þegar kemur á síðu 9 er hins vegar mynd af þyngsta ketti í Þingeyjarsveit, heimiliskettinum á Hólum í Reykjadal.“

Ýmislegt ég ekki veit,
eitt ég nefni:
Er þyngsti köttur í Þingeyjarsveit
þingmannsefni?

Þorsteinn eða kötturinn
Kristján Eiríksson frá Fagranesi svaraði Hjálmari, sagði og orti síðan: ,,Þess eru dæmi að menn hafi valið skepnur til æðstu metorða og er það frægast þegar Þrændir tóku hundinn Saur sér til konungs sbr. XII kafla í Hákonar sögu góða í Heimskringlu: Þeir létu siða í hundinn þriggja manna vit og gó hann til tveggja orða en mælti hið þriðja” o.s.frv. Því skyldu kvótagreifar norðlenskir þá ekki eins geta valið kött?

Best mun reynast gegn voða og vá,
vondu árferði og kvótastandi
til þingsetu að velja Þorstein Má
og þyngsta köttinn á Norðurlandi.

Bændablaðið 27. maí 2003

Mælt af munni fram
Þegar Þingeyingar héldu kristnihátíð við Goðafoss árið 2000 fluttu sameinaðir kirkjukórar þeirra magnað verðlaunatónverk eftir Einar Melax, fyrrverandi Sykurmola. Þetta var mjög snúið og erfitt að læra og stilla almennilega saman og einn Reykdælingur fór að velta því fyrir sér hvort verið gæti að þeir hefðu verið svona vondir við Einar þegar hann var strákur á Laugum að hann þyrfti að hefna sín. Þá var þessi vísa ort:

Einar setti sálm á blað
að syngja á öllum helstu fundum.
Sumir halda að hann sé að
hefna sín á Þingeyingum.

Hreiðar Karlsson bætti við:

Rétta og tæra tóna að finna
tenórum þykir nokkurt puð.
Mikil er sekt þeirra sveitunga minna
ef svona refsing er verðskulduð.

Auðurinn vex og grasið grær
Á Leirnum var spurt hvort einhver kannaðist við eftirfarandi vísu og spurt um leið hvort hún væri eftir Svein frá Elivogum:

Varmalækjar frjóvgast fær
féð hjá Jakob kænum.
Auðurinn vex, og grasið grær
í götunni heim að bænum.

Kristján Stefánsson sagði svo ekki vera en sendi inn eftirfarandi sögu um vísuna:

„Jónatan Þorsteinsson (1852-1894) var bóndi á Vatnshömrum í Andakíl og bjó þar til 1893 að Jónatan fer í húsmennsku að æskuheimili sínu Hæli og deyr þar 31. ágúst 1894. Á þeim tíma var það siður hagyrðinga að yrkja bæjarrímur og báru það margir við en satt að segja var sumt af því ekki merkilegur kveðskapur. Samt er það svo að í seinni tíð eru það einmitt bæjarrímumar sem hafa haldið nafni Jónatans mest á lofti þó hann ætti ekki síður skilið að hans væri minnst fyrir ýmislegt annað. Umrædd vísa sem Sigurður spyr um er úr bæjarrímu sem Jónatan orti um Andakíl á sinni tíð, og er um búskapinn á Varmalæk. Þar bjó þá Jakob, afi Jakobs Jónssonar hagyrðingsins ágæta sem nú er þar að ljúka búvist. En Jakob gamli var frumkvöðull margra búhátta sem til hins betra máttu teljast, m. a. fyrstur manna þar sem “gerði í því” að fá tvílembt. Og er hann fór að búverkast á Varmalæk var eitt hans fyrsta verk að færa tröðina heim að bænum úr túninu og út fyrir garð en það taldi hann til vinnuhagræðingar. Þegar þetta er vitað, skilst öllum að vísan er ekki háð, eins og álíta mætti í fyrstu, heldur rétt lýsing á aðstæðum, þegar gamla tröðin fór að gróa upp eins og henni var ætlað, og dagsönn. Í upphafi mun vísan hafa verið með þessum hætti, en breyttist eitthvað í meðförum manna, og þá einkum til að nota mætti hana við aðrar aðstæður, Jakobs nafninu þá skipt út fyrir annað.”

Bændablaðið 10. júní 2003

Fullur oft í réttunum
Ort var á Leirnum um ýmis afbrigði fjárdráttar eftir að Landssímamálið kom upp. Einar Kolbeinsson orti:

Ef að málið glöggur grunda,
get ég sagt í fréttunum.
Að feikilegan fjárdrátt stunda,
fullur oft í réttunum.

Orðinn blár
Sá ágæti hagyrðingur Óttar Einarsson sendi þetta inn á Leirinn um daginn:

Ég skipti um peru á baðinu hjá mér, fékk einhverja nýtísku peru sem sendir frá sér annarlega geisla. Þegar ég fór svo að pissa í mesta sakleysi sá ég ekki betur en viss líkamshluti hefði skipt um lit! Varð mér þá staka á munni:

Öllum hlutum aftur fer,
af mér bogar svitinn:
T…………á mér er
orðinn blár á litinn.

Orðinn krítískari
Hjálmar Freysteinsson læknir skrapp til Krítar og sendi inn á Leirinn þegar hann kom heim: Krít er falleg eyja og miklu þægilegra og hættuminna rímorð en t.d. Kýpur. Eins og heimavera gerir mann heimskan hljóta ferðalög að gera menn vitrari, sem mér veitir ekki af.

Ögn ég vitkast við það hlýt
ef víða um heiminn fer ég.
Eftir að ég kom frá Krít
krítískari er ég.

Vísur mínar vanda hlýt
Stefán Vilhjálmsson yfirkjötmatsmaður svaraði: “Nú er illt nærri” eins og einn góður maður sagði stundum:

Vísur mínar vanda hlýt
og verjast hortittinum,
því illskeytt boðuð er nú krít-
ík frá líflækninum.

Bændablaðið 24. júní 2003

Gott rugl
Fyrir skömmu gerðist það að Ragnar Ingi Aðalsteinsson kenndi Hjálmari Freysteinssyni lækni vísu í vísnaþætti, sem var eftir nafna hans Jónsson Dómkirkjuprest. Hjálmar Freysteinsson sagði m.a. „Þó þetta sé svosem ekkert mjög vond vísa þótti mér rétt að bregðast illa við.”

Ragnar er ræksni hið mesta,
rosalegt hvernig hann er,
andlegar afurðir presta
ætlar að kenna mér.

En svo sá ég að svona rugl gæti nú líka komið sér vel.

Eftir þetta engu kvíð
er í málum fínum,
kersknisvísur, klám og níð
kenni nafna mínum.

Ranghverfan af Hróa hetti?
Séra Hjálmar svaraði þessum vísum nafna síns og sagði að kannski væri Ragnar Ingi ranghverfan af Hróa hetti:

Misskiptingu má hér sjá
er magnað Ragnar hefur.
Tekur af þeim sem ekkert á
og efnamönnum gefur.

Bændablaðið 8. júlí 2003

Mælt af munni fram
Hinn ágæti hagyrðingur Óttar Einarsson setti eftirfarandi sögu og vísu á Leirinn fyrir skömmu:

Var að koma heim til mín eftir sumarfrí hist og her, m.a. fór ég í ferðalag um Borgarfjörð eystri og Loðmundarfjörð með gömlum og góðum skólafélögum. Þegar ég var að telja töflurnar mínar, skjálfandi höndum, upp úr meðalaglösunum einn morguninn í túrnum varð mér þessi staka á munni:

Af því ég er orðinn skar
enn þótt reyki og drekki
taka verð ég töflurnar
til að deyja ekki.

Hvatningarvísa
Ingi Steinar Gunnlaugsson er ekki síður vel hagmæltur og hann hvatti Óttar til dáða með þessari vísu:

Vínið hrærir vísnastreng
veikir áhlaup sóttar.
Því skal brýna dáðadreng,
drekktu meira, Óttar.

DV að deyja
Kristján Stefánsson Leirverji heyrði af því að DV ætti í erfiðleikum og væri jafnvel að deyja og orti þá:

Á Fróni var þraut að þreyja
og það má víst ennþá segja.
Raufarhöfn blæðir
Reykjavík græðir,
en þó er DV að deyja.

Hjálp’ okkur Drottinn
Náungi einn var frægur kvennamaður og það svo undrun sætti. En þegar menn komust að því að hann hafði misst annað eistað í slysi skildu þeir illa kynkraftinn og spurðu sig hvernig hann væri ef hann hefði bæði eistun. Þá var þetta ort, en ég veit ekki hver höfundurinn er:

Jónas sitt eista eitt
illa fær hamið.
Annað er heilt og heitt
en hitt er kramið.

Flekar hann fljóðin veil
fólslegur hrottinn.
Hefð’ann þau bæði heil,
hjálp’okkur Drottinn.

Nú rís mér ekki á höfði hár
Hjálmar Pálsson, frá Hjálmsstöðum í Laugardal, er mér sagt að hafi ort næstu vísu eftir að hann vaknaði að loknum uppskurði vegna meins í blöðruhálskirtli. Þetta var á einum af þrengingartímum sjúkrahúsanna og var Páll því lagður inn á kvennadeildina meðan hann svaf eftir uppskurðinn. Þegar hann vaknaði sá hann þrjár konur á stofunni og um hann hríslaðist gamall fiðringur en hann var skammvinnur og þá varð hann sorgbitinn og orti:

Nú er ég orðinn gugginn, grár
og gamall það hef ég kannað.
Hjásvæfur liggja hérna þrjár
ég hélt þó að slíkt væri bannað.

Að horfnar séu mér holdsins þrár
hefur mér reynslan sannað
því ekki rís mér á höfði hár
hvað þá nú heldur annað.

Bændablaðið 2. sept. 2003

Mælt af munni fram
Við skulum byrja á vísu sem Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi orti þegar Hótel Hekla við Lækjartorg í Reykjavík var rifin skömmu eftir miðja síðustu öld. Bjarni var kunnur hagyrðingur á sinni tíð og þjóðþekktur maður.

Nú drekka menn ekki framar á Hótel Heklu
né hátta þar lengur konur niður á dívana.
Það stafar þó hvorki af kvenfólks- né áfengiseklu,
aðeins af því að það er búið að ríf’ana.

Áttum prest
Hér koma nokkrar vísur frá hagyrðingakvöldi á Selfossi en þær voru settar inn á Leirinn nýlega. Steingrímur J. Sigfússon kynnti séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprest með þessari vísu:

Inni á þingi við áttum prest
á honum var stólpakjaftur.
Það var sem mér þótti best
þegar að Drottinn tók hann aftur.

Með geislabaug í hendinni
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra orti um séra Hjálmar:

Ég gekk fram á hann í grenndinni,
með geislabauginn í hendinni.
í ofsa stuði,
ættað frá guði,
með hendurnar hangandi á
lendinni.

Hefur allt á hornum sér
Flosi Ólafsson sendi Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, þessa:

Gráhærður og gugginn er
gerir fátt af veti
Hefur allt á hornum sér,
Halldór þingforseti.

Súlunni sinnt
Flosi orti um hinn umdeilda súludans sem nú virðist að mestu vera aflátinn hér á landi:

Í Kópavogi er súlum sinnt
svona eftir bókinni.
Þarna mætist stálið stinnt
og stúlkan í litlu brókinni.

Gömlu fyllisvínin
Óttar Einarsson sagði svo frá á Leir. ,,Um verslunarmannahelgina var ég í sumarhúsi mínu ásamt tveimur gömlum skólabræðrum. Gerðum við okkur “glatt undir hjalla” eins og kellingin sagði. Þeir gleymdu hins vegar að skrifa í gestabókina.“

Allt þeir drukku – utan kók
eðal- dýru vínin
en gleymdu að yrkja í gestabók
gömlu fyllisvínin

Sannleikur
Það er mikill sannleikur fólginn í því sem segir í þessari gömlu vísu:

Heimsins brestur hjálparlið
hugurinn skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Bændablaðið 16. sept. 2003

Lokað í áfengisversluninni
Stefán Vilhjálmsson sendi þessa vísu eftir Gest Ólafsson, fyrrum kennara á Akureyri, á Leirinn:

Þegar ég dey verður drullu mokað
duglega að kistunni minni,
en ætli það verði’ ekki eitthvað lokað
í áfengisversluninni?

Hver orti og hvers vegna?
Þessa ágætu vísu setti séra Hjálmar Jónsson á Leirinn og spurði að því sem í fyrirsöginni stendur. Ég hef enn ekkert svar séð.

Margan hendir manninn hér
meðan lífs er taflið þreytt
að hampa því sem ekkert er
og aldrei hefur verið neitt.

Ætlar að klára úr flegnum
Hér er svo snilldarvísa eftir Rósberg:

Miðla ég tári á mannfundi
manni náradregnum,
þessi árans andskoti
ætlar að klára úr flegnum.

Þegar drapst á perunni
Séra Hjálmar Jónsson segir svo frá:

Á fundi með samgönguráðherra að Staðarflöt fyrir nokkrum árum hugðist Sturla leggja áherslu á orð sín með “power point” myndum. En peran í tækinu bilaði strax í upphafi og þá small þetta saman:

Góða ræðu flutti um flest
og fróðlega í verunni,
en það var sem mér þótti verst
þegar drapst á perunni.

Og Vodafon
Hjálmar Freysteinsson gerðist rómantískur í kvöldblíðunni í sumar og orti:

Flugurnar suða í sælutón
í sólskini baða sig álftahjón
við hafflötinn slétta,
já himneskt er þetta
veður – í boði Og Vodafone.

Eigandi Lagarfljótsormsins
Séra Hjálmar Jónsson setti á Leirinn þegar fréttist að Hákon Aðalsteinsson hefði keypt hlut í ferjunni Lagarfljótsormi: ,,Sá mér til ánægju í Morgunblaði að Hákon skógarbóndi Aðalsteinsson er orðinn útgerðarmaður fyrir austan. Það kallaði fram limru:”

Konni hann fyllti út formin,
í fangið þótt hefði storminn
svo las hann upp ljóð
og lagði fram sjóð
og eignaðist Lagarfljótsorminn.

Í tilefni orðuveitingar
Hreiðar Karlsson á Húsavík orti á Leirinn þegar Þórarinn Eldjárn fékk orðuna á Bessastöðum:

Jafnan einn af þeim sem þorðu
þegar efna skyldi í gleðskap.
Hefur fengið fálkaorðu
fyrir leir – og annan kveðskap.

Bændablaðið 30. sept. 2003

Mælt af munni fram
Séra Hjálmar Jónsson sendi á Leirinn limru sem hann sagðist hafa ort í flugvél á leið til Íslands.

Þegar búið er lestum að loka
og láta af stífni og hroka
er mín uppáhaldsiðja,
fyrir utan að biðja,
að yrkja á ælupoka.

Svona ætti að banna
Árni Hjartarson sendi inn á Leirinn aðra flugvísu og sagði:

Hin ágæta fluglimra Hjálmars minnti mig á flugvélavísu sem við Hallgerður ortum á leið frá Köben fyrir nokkru. Okkur þótti flugvélamatnum, sem hér áður fyrr var svo ljúffengur, hafa farið aftur.

Nístingskaldur kjúklingur
kuli veldur tanna,
salmonellusjúklingur.

Svona ætti að banna -.

Lokuð sund
Gísli Jón Gíslason vann gjarna í vegavinna á vorin eins og margir bændur gerðu hér áður fyrr. Eitt vorið var eitthvað minna um að vera í vegagerðinni og vegavinnuverkstjórinn, sem hét Gísli Gottskáldsson í Sólheimagerði, tjáði nafna sínum að nú væri enga vegavinnu að fá. Þá orti Gísli Jón:

Lokuð sund og læstar dyr,
ljóst má grunda svarið.
Það hefur stundum blásið byr
betur en undanfarið.

Salmonellan sækir á
Þórarinn Eldjárn brá við skjótt og sendi á Leirinn:

Fyrst farið er að rifja upp öll þessi viðkvæmu mál er líka sjálfsagt að muna eftir snilldarvísu Hákonar Aðalsteinssonar, sem ort eftir að miklar aurskriður í nánd við Sveinbjarnargerði bættust við fyrri hamfarir:

Salmonellan sækir á
sigrar brátt að fullu.
Meira að segja fjöllin fá
feikilega drullu.

Bændablaðið 14. okt. 2003

Mælt af munni fram
Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum orti þegar hann sá mynd af Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra á hestbaki í Mongólíu:

Á framandi slóðum hjá frumstæðri þjóð
í frægðarljóma sig baðar.
Ríðandi, fattur að reka stóð
ráðherra landbúnaðar.

Fjóshendur
Bundinn lögum ljóðaarfs
í leit að svari spurnar.
Undir kúm í erli starf
orti ég Fjóshendurnar.

Svo yrkir Hálfdan Ármann Björnsson á Hjarðarbóli á forsíðu nýútkominnar ljóðabókar sinnar „Fjóshendur” sem hann gefur út í tilefni af sjötugsafmæli sínu 12. desember 2003. Um bókina segir Hálfdan á baksíðu: „Kveðskapur sá er hér birtist, hefur aðallega orðið til á u.þ.b. 40 ára tímabili við hin daglegu störf, mest í fjósinu á Hjarðarbóli, hripaður niður á innvigtunarseðla mjólkurbílsins, fóðurblöndupoka eða annað sem til féll”.

Frá hagyrðingakvöldi
Hagyrðingakvöld var haldið í Skúlagarði sl. vor og urðu þá til nokkrar ágætar vísur. Mættir til leiks voru alþingismennirnir Halldór Blöndal, Jón Kristjánsson og Steingrímur J. Sigfússon. Einnig frá vísnafélaginu Kveðanda þau Ingibjörg Gísladóttir og Ósk Þorkelsdóttir frá Húsavík og Þorfinnur Jónsson, Ingveldarstöðum. Stjórnandi var Ólafur G. Einarsson, fyrrv. forseti Alþingis. Um Ólaf G. kvað Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra:

Ólafur með harðan haus
af hlátri stendur á öndinni,
ekki er hann samt alveg laus
undan bláu höndinni.

Aðalspaugstofan
Í byrjun kvöldsins leist Þorfinni ekki á blikuna að mæta alþingismönnunum og kvað:

Kjarkurinn dvínar af kvíða ég brenn
á knattvelli ljóðastandsins,
því þeir eru allir atvinnumenn
frá aðalspaugstofu landsins.

Um Ólaf og Halldór
Steingrímur J. orti um þá Halldór Blöndal og Ólaf Garðar:

Á Halldóri Blöndal er heljarkjaftur
þó halli hann undir flatt,
En Ólafur Garðar er genginn aftur
og gerir það nokkuð bratt.

Flestum hlýtt til hans
Þó hann hreyfist hægt úr stað,
með hægðinni kemur ýmsu að.
Flestum er okkur hlýtt til hans
heilbrigðismálaráðherrans.

Vegamál meðfram Jökulsá
Deilt hefur verið um hvort nýr vegur eigi að liggja austan eða vestan við Jökulsá og um það orti Halldór Blöndal:

Um fossinn hefur Einar ort
þann óð sem ég tel bestan.
Vegurinn verður annaðhvort
austan hans eða vestan.

Bændablaðið 28. okt. 2003

Mælt af munni fram
Bjarni E. Guðleifsson, ráðunautur hjá Búgarði, var sagður hafa ort eftirfarandi vísu um eigin krankleika en segir að það sé ekki rétt heldur hafi Stefán Vilhjálmsson yfirkjötmatsmaður ort vísuna í sinn orðastað en Stefán er sem kunnugt er snilldar hagyrðingur. Bjarni segir svo frá:

Aðdragandinn er sá að ég veikist sjaldan, en held því fram að ég verði ofboðslega veikur, jafnvel þegar ég fæ venjulegt kvef eða hálsbólgu. Kona mín telur þetta kveifarskap og sýnir mér enga samúð og því leita ég stundum á náðir kvennanna í Búgarði til að fá meðaumkun. Helst leita ég til Gunnfríðar, sem er hér í afgreiðslunni, en þar eru viðtökur einnig heldur kuldalegar, jafnvel þótt ég beri mig afar illa. Um daginn fékk ég verstu hálsbólgu sem ég hef fengið á ævinni og undirtektir kvennanna voru þær sömu, þá orti Stefán í minn orðastað:

Fjasað er um hversu bágt eigi Blair
því bilaður sé fyrir hjarta,
en enginn í veikindum vorkennir mér
og vonlaust við Gunnfríði að kvarta.

Hver orti?
Veit einhver hver orti þessa ágætu vísu?

Gengin leið er góðs á mis
gegnum neyðarhreysi.
Eg þó skreiðist áleiðis
oft í reiðileysi.

Á dögunum spurði ég um höfund vísunnar Margan hendir manninn hér… Vísan er eftir Magnús Þorsteinsson frá Gilhaga.

Grátur þagnaður
Að loknu þingi LÍÚ orti Hjálmar Freysteinsson:

Mér þykir Drottinn miskunnlátur
og magnaður.
Nú er þrjátíu og þriggja ára grátur
þagnaður.


Bændablaðið 11. nóv. 2003

Mælt af munni fram
Haraldur frá Kambi, sá kunni hagyrðingur, er sagður hafa ort þessa vísu:

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima mikið.
Nú er horfið Norðurland,
nú er ég kominn yfir strikið.

Nú er allt í lagi
Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri sendi þessa sögu og vísu á Leirinn:

Einhverju sinni heimilaði Steindór Steindórsson, skólameistari MA, hópi nemenda að leigja rútu og skreppa til Reykjavíkur í verkfalli ræstingafólks. Leyfið veitti meistari með þeim skilmálum að rútunni skyldi snúið við ef verkfallið leystist áður en komið væri að vatnaskilum á Holtavörðuheiði. Eftirfarandi vísa var ort þegar hallaði suður af:

Yfir kaldan eyðisand
eitthvað suðrá bæi.
Nú er horfið Norðurland,
nú er allt í lagi.

Víst ávalt þú varast skalt
Stefán Vilhjálmsson yfirkjötsmatsmaður sá vísuna og sendi þá þessa bráðskemmtilegu vísu á Leirinn:

Víst ávallt þú varast skalt
voðalega hneiþu.
Þegar mér er þvona kalt
þarf ég að fara í peyþu.

Samlegðaráhrifin
Hjálmar Freysteinsson læknir lýsir samlegðaráhrifunum svona:

Þegar Vilborg eignaðist vin
var sem hið sterkara kyn
gerði hana svera,
hún sagði það vera
samlegðaráhrifin.

Ein af mörgum útgáfum
Fyrir ekki löngu var þessi þula sett inn á vefinn og kom þá í ljós að allmargar útgáfur eru til af henni. Útgáfuna sem hér fer á eftir sendi Kristján Bersi, fyrrum skólastjóri, inn á vefinn og segir að lesa beri þuluna með austfirskri flámælgi.

Ég vildi að sjórinn yrði að mjólk,
undirdjúpin að skeri,
fjöll og hálsar að floti og tólk,
frónið að súru sméri.
Uppfyllist óskin mín:
öll vötn með brennivín,
Holland að heitum graut,
horngrýti gamalt naut,
og Grikkland að grárri meri.

Spurt um vísu.
Kristján Eiríksson spurði á Leir hvort einhver kannaðist við höfund þessarar vísu?

Krummi snjóinn kafaði,
kátur hló og sagði,
að hún tóa ætlaði
einum lóga gemlingi.

Útilokar harma
Séra Hjálmar Jónsson segir á Leir að þessi vísa sé eftir Rósberg G. Snædal:

Böndin þoka af hug og hönd,
hjartað strokið varma.
Johnnie Walker yljar önd,
útilokar harma.

Bændablaðið 25. nóv. 2003

Mælt af munni fram
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra fór í heimsókn í Mjóafjörð sl. sumar að skoða þar fiskeldi og fleira. Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi, var þar staddur og heilsaði Guðna með þessari vísu:

Dáfögur skreyta blómin borð,
blikandi sólin vermir jörð.
Sveitin er vel af guði gjörð
og Guðni kemur í Mjóafjörð.

Meistari vér minnumst þín
Guðni fór líka fyrir skömmu á fund hjá Rafiðnaðarsambandinu í Hveragerði. Skömmu fyrir fundinn hringdi hann í séra Hjálmar Jónsson sem staddur var í Jóhannesarborg í S-Afríku og sagði að hann yrði að varpa skýru ljósi á mikilvægi rafiðnaðarmanna. Þá sagði Hjálmar:

Rafmagnsljós á landið skín
og lýsir fyrir alla.
Meistari vér minnumst þín
meðan vötnin falla.

Krummi snjóinn kafaði
Um höfund eftirfarandi vísu var spurt á Leir ekki alls fyrir löngu en ekkert svar hef ég séð enn og spyr því hvort einhver veit hver höfundurinn er:

Krummi snjóinn kafaði,
kátur hló og sagði,
að hún tóa ætlaði
einum lóga gemlingi.

Vegna rímsins
Ragnar Böðvarsson sagði frá því á Leir að Þór Magnússon hefði ungur lært þessa vísu og farið með á fundi í Iðunni:

Hesturinn minn heitir Brúnt,
ja, sá er nú ekki staður.
Snýst hann rúnt um landsins punkt
sem ég er lifandi maður.

Þór spurði hvers vegna hesturinn héti Brúnt, en ekki Brúnn og svarið var: Það er vegna rímsins og hljóðstafanna. Þetta segir Ragnar réttilega skemmtilegt dæmi um illa stuðlaða vísu.

Kirkjufellið að hverfa
Jón Yngvar Jónsson orti þegar hann sá steinverk Árna Johnsens í sjónvarpinu:

Árni Johnsen ötull hefur
ákaft Snæfellsnesið sorfið,
klappir molar, kletta skefur,
Kirkjufell er næstum horfið.

Bændablaðið 9. des. 2003