2001

Mælt af munni fram

Lífið er ekki bara alvaran ein og þess vegna þykir okkur við hæfi að setja upp svo sem einn dálk í Bændablaðinu þar sem finna megi efni sem létti fólki lund og laði fram bros. Í  þessum dálki verða sagðar gamansögur og ekki síst birtar vísur sem eiga erindi til allra.

Þórir Valgeirsson, bróðir Stefáns, fyrrum alþingismanns, var snjall hagyrðingur. Eitt sinn þegar hann var orðinn gamall og lúinn orti hann þessa vísu:

Árin líða, ekkert má því varna.
Ellin gerir nart í lífsins kjarna.
En hvað með þann sem hættur er að harðna,
helvítis, bölvaður ræfillinn sá arna.

Árið 1957 kom fram tillaga á Alþingi um að gera íslenska glímu að skyldunámsgrein í barnaskólum landsins. Mótbárur komu fram og var bent á að víða úti á landi, einkum til sveita, væru konur einu starfsmenn skólanna og þeim gæti reynst erfitt að kenna ýmis glímubrögð! Þá var þetta ort:

Víst met ég vorhug þennan,
vefst þó í huga mínum:
Hvernig á kona að kenna
bragð í skóla sínum?

Bændablaðið 4. sept. 2001

Krossinn á Jón 

Sigurður Sigurðarson dýralæknir fór til Litháen og komst að því að Jón Baldvin Hannibalsson var þar í miklum metum, enda hafði Ísland fyrst landa viðurkennt sjálfstæði Litháen. Sigurður er snilldar hagyrðingur en hann hefur ekki viðurkennt eftirfarandi vísu en þó ekki bent á annan höfund:

Litháa er ljúft og skylt að hylla,
langt var þeirra frelsisstríð og göfugt.
En alltaf finnst mér ferleg þeirra villa
að festa kross á Jón en ekk öfugt.

Hamingjan veit hver ræður

Allir sem unna vísum þekkja til Stefáns Jónssonar, fyrrum fréttamanns og alþingismanns. Eftirfarandi vísa er sögð vera eftir hann enda alveg í hans stíl:

Einn gerir máske öðrum mein
en annar er betur stæður,
hann fer í banka hinn í stein
og hamingjan veit hver ræður.

Sex vetra folinn

Flestir muna sjálfsagt eftir því þegar Páll Pétursson félagsmálaráðherra þurfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna hjartaaðgerðar. Hann gerði sem minnst úr krankleika sínum og sagðist myndi koma út af spítalanum „eins og sex vetra graðfoli.” Þá var þessi vísa ort:

Ástin blómstrar mest sem má,
margar bíða þess í röðum,
að fyrri kröftum safni sá
sex vetra frá Höllustöðum.

Bændablaðið 4. sept. 2001

Sá snjalli hagyrðingur Hjálmar Freysteinsson læknir skipti um vinnustað nýlega. Hann sagði alla gömlu vinnufélagana hafa verið afar almennilega við sig síðustu dagana og þá varð honum að orði:

Þeir sem gegnum árin mér lífið gerðu leitt
og löngum voru heldur viðmótskaldir,
eru nú svo glaðlegir og brosa við mér breitt
því bráðum eru dagar mínir taldir.

Ábótavant

Hrólfur Sveinsson er skáldanafn þekkts hagyrðings með meiru. Hann orti eitt sinn þessa limru og þarfnast hún engrar skýringar:

Abbadís Birgitta Brant
er bústin og elegant,
Ja, hvað er að heyra
en leitt er þó meira
hve henni er ábóta vant.

Bændablaðið 2. okt. 2001

Ketill Þórisson frá Baldursheimi var fróður maður og þá ekki síst í ættfræði, en hann var býsna dómharður á menn og málefni. Sagt er að Friðrik Steingrímsson frá Grímsstöðum hafi ort þessa vísu um Ketil:

Í ættfræðinni er hann Ketill árans refur,
ekki mörgum háa einkunn gefur,
en hann veit upp á hár,
í hart nær þúsund ár,
hver hjá hverjum hvenær sofið hefur.

Bændablaðið 16. okt. 2001

Í tilefni ostadaga 2001

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra opnaði Ostadaga í Perlunni á dögunum. Hann hafði orð á því við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra að það væri í raun ekkert síður hans verk að flytja ræðu á Ostadögum enda ostur hollur matur og heilsufæði, auk þess að vera landbúnaðarafurð. Jón svaraði Guðna svona:

Ánægjan hún af mér skín
er ostinn sé ég brúna,
beinin þín og beinin mín
brotna síður núna.

Kotið

Það var ekkert smáræði sem gekk á þegar Smáralindin opnaði á dögunum. Meðal þeirra sem ofbauð húllumhæið var Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi að Húsum í Fljótsdal. Hann orti þegar mest gekk á:

Hér lifir frelsið og framapotið,
framkvæmdin ber ekki vott um nísku.
Níu milljarða kostaði kotið
og Kringlan ekki lengur í tísku.

Bændablaðið 30. okt. 2001

Lífsins lykill 

Um það verður tæplega deilt að Vatnsenda-Rósa var einhver mesti meistari ferskeytlunnar sem uppi hefur verið hér á landi og þarf ekki annað en að benda á „Vísur Vatnsenda-Rósu” í því sambandi. Hún var talin góð yfirsetukona og var oft kölluð til sem slík. Eitt sinn var hún kölluð til aðstoðar sængurkonu. Veður var vont og yfir fjöll að fara og fékk hún því fylgdarmann. Allt gekk vel og þegar Rósa snéri heim á leið fylgdi sami maður henni til baka. Þá hafði veður gengið niður og einhverju sinni þegar þau settust niður til að hvíla sig orti Rósa þessa vísu til fylgdarmannsins:

Veðraslátt fyrst vægja fer,
vopna sátti álfur,
lífinu mátt’upp ljúka á mér,
lykilinn áttu sjálfur.

Að leiðarlokum

Hákon Aðalsteinsson kallar þessa vísu Að leiðarlokum:

Þegar við Ásmundur dag
nokkurn deyjum,
á dyrnar í helvíti knýjum.
Þá verður oss fagnað af
frændum og vinum
og félögum gömlum og nýjum.

Bændablaðið 13. nóv. 2001

Að hnoða leirinn

Torfi Jónsson, fyrrum rannsóknarlögreglumaður, er flestum vísnavinum kunnur enda hefur hann séð um vísnaþætti í blöðum, safnað og síðast en ekki síst ort góðar vísur. Hann hefur hins vegar ekki verið mjög ánægður með sjálfan sig þegar hann orti þessa vísu:

Mig hefur jafnan skilning skort,
skapanornirnar gáfu ei meir.
Get því miður ekki ort,
aðeins hnoðað saman leir.

Vísum sel

Eysteinn G. Gíslason í Skáleyjum segir svo frá: ,,Selur hefur löngum verið vel þegin lífsbjörg, ekki síst fyrr á tímum. Kristín Jónsdóttir afasystir mín mun hafa sagt mér eftirfarandi sögu: Þormóður í Gvendareyjum (galdramaður) var fátækur og eitt sinn er kona hans lá á sæng var búið svo allslaust að hvorki var til matur né ljósmeti, en þetta var að vetrarlagi. Þormóður gekk þá út og kvað:

Mýk þú Drottinn mína raun,
mæni ég til þín hjálpin væn.
Send mér þína bjargarbaun,
bænheyr mig lífs eikin græn.

Síðan gekk hann til sjóvar og hitti þar í fjöru stóreflis útsel sem hann gat lagt að velli. Þar með hafði hann fengið ríkulegan forða af mat og ljósmeti. Slík gæði lögðu selir til um liðnar aldir, að ógleymdum húðunum, til skjólfatnaðar og skógerðar sem hafa löngum verið verðmæt útflutningsvara.“

Karlremba

Hákon Aðalsteinsson, skáld og skógarbóndi, var eitt beðinn að svara því hvað karlmenn hefðu fram yfir konur og svaraði:

Oft má glaðan öðling sjá
út í náttúrunni.
Hafa báðar hendur á
hengiplöntu sinni.

En hvað hafa konur fram yfir karlmenn?

Þetta flækist fyrir mér
þó flest ég viti og þekki.
Þessi spurning þvælin er,
þetta veit ég ekki.

Bændablaðið 27. nóv. 2001

Úr fórum þular

Úr fórum þular heitir nýútkomin bók eftir þann kunna útvarpsþul Pétur Pétursson. Í bókinni eru sögur og frásagnir úr handraða Péturs. Einn kafli bókarinnar heitir „Listamannahverfi í Vesturbæ.” Þar segir Pétur frá nokkrum listamönnum sem búið hafa í Vesturbænum, þar á meðal séra Sveini Víkingi, sem var m.a. hagyrðingur góður. Eitt sinn hafði hópur kvenna umkringt séra Svein og gerðust sumar frúrnar svo nærgöngular við hann að séra Sveini þótti nóg um og orti þá:

Virkilega við mér brá
og varla þola mátti,
þegar þœr fóru að þreifa á
því sem konan átti.

Vaxtaræktar viðkvæm mál

Í bókinni Með lífið í lúkunum eru nokkrar sögur og vísur um og eftir Pétur Pétursson frá Höllustöðum, lækni á Akureyri. Fyrir nokkrum árum sagði Pétur í útvarpsviðtali að vaxtaræktarmenn væru iðulega miður vaxnir niður en upp vegna steranotkunar og að „eistun á þessum ræflum rýrna og verða ræfilsleg.” Í kjölfarið höfðuðu nokkrir vaxtaræktarmenn meiðyrðamál á hendur Pétri en að lokum töpuðu þeir málinu í Hæstarétti. Þá orti Hákon Aðalsteinsson þessa vísu til Péturs:

Loks er Pétri létt í sál,
laus úr öllum vanda.
En vaxtaræktar viðkvæm málvirðast illa standa.

Bændablaðið 11. des. 2001