Vísnaþættir 1974

Árni Jónsson Eyjafjarðarskáld

Það hefur verið ákveðið, að undirritaður um tíma að minnsta kosti, annist um sérstakan vísnaþátt í sunnudagsblaði Þjóðviljans. Það er okkar álit að þrátt fyrir bítlaöld og atómskáldskap, leynist enn með flestum Íslendingum sama ást og sami áhugi á velgerðri vísu, gamallri og nýrri, og fyrr og því falli það í góðan jarðveg hjá lesendum að bjóða uppá vísnaþátt í sunnudagsblaðinu, þegar við klæðum okkur sparifötunum og reynum að gera okkar besta fyrir lesendur. Reynt verður að hafa efni vísnaþáttarins eins fjölbreytt og frekast er kostur og kunnátta leyfir. Vil ég biðja lesendur að senda blaðinu nýjar, eða áður óprentaðar vísur sem þeir kunna að eiga í fórum sínum, slíkt væri mjög vel þegið. Eins er það meiningin að birta í hverju blaði fyrri part og biðja hagyrðinga um að botna og senda okkur merkt Vísnaþáttur Þjóðviljans, Skólavörðustíg 19. Rvík.

Þegar taka á saman vísnaþátt er hægt að velja margar leiðir. Það er hægt að kynna einn ákveðinn hagyrðing, það er hægt að taka fyrir ákveðinn flokk, svo sem ástar-, hesta- eða amorsvísur eða þá eitthvað annað.

Í þessum fyrsta vísnaþætti ætla ég að birta nokkrar vísur eftir hinn afburðasnjalla hagyrðing, Árna Jónsson, sem nefndur var Eyjafjarðarskáld og uppi var seint á 18. öld og fram á þá 19. Ég hef rekist nokkuð víða á vísur eftir Árna, og þótt eitthvað eftir hann hafi birst á prenti finnst mér vísur hans ekki eins kunnar og þær eiga skilið, miðað við gæði þeirra.

Árni Jónsson var fæddur 1760, að Rifkelsstöðum í Eyjafirði, en mun vera þingeyskrar ættar. Hann lést á miðju ári 1816. Árni mun alla tíð hafa verið mjög fátækur, búmaður lítill, en hvers manns hugljúfi og skemmtinn svo af bar, og því urðu margir til að rétta honum hjálparhönd í baslinu, enda var hann einstaklega vinsæll, að því er sagnir herma. En það var ekki meiningin að birta hér ævisögu Árna,heldur kynna nokkrar vísur hans, og skulum við þá líta á eina, sem sagt er að lýsi honum nokkuð vel. Árni trúlofaðist stúlku, þegar hann var um tvítugt, og eignaðist með henni son. Sagt er að unnustan hafi sagt honum upp vegna þess hve lítið búmannsefni hann þótti, en eftir að hafa slitið trúlofuninni bauð hún Árna að borða, þá kvað hann:

Ætlarðu ekki elskan mín
ég muni sorgir bera?
Meira er að missa þín
en matarins án að vera.

Það eru engin stóryrði né reiði í þessari vísu, þótt nokkuð sárt sviði.

Það átti samt fyrir Árna að liggja að eignast konu, þótt fyrsta ástin færi svona. Sagt er að Árni hafi eitt sinn sagt við kunningja sinn sem sagður var margvís — Segðu mér nú hvert konuefni mitt er. — Við næstu messugjörð benti vinurinn á unga stúlku og sagði hana vera myndi konuefni Árna; þá kvað hann:

Fyrir mér liggja forlög grimm
fleira er gaman en drekka vín
ef að þessi Ingibjörg
á að verða konan mín.

Það kom svo í ljós að vinur Árna hafði rétt fyrir sér, Árni giftist Ingibjörgu Gunnsteinsdóttur. Ekki virðist hann þó vera mjög hrifinn og það strax í tilhugalífinu er hann segir:

Árni stertur og Imba taus
ætla saman að taka
hann er flón og hún vitlaus
hér með endar staka.

Og um hjónabandið kveður Árni:
Nú eru glötuð gleðistig
sem gerði ég fyrr við una,
séra Magnús setti á mig.
svörtu hnapphelduna.

Eins og áður segir var Árni lítill búmaður og því alltaf mjög fátækur og basl hans var mikið. Sagt er að á manntalsþingi hafi hann kveðið:

Kýr er ein og kapaldróg
kúgildið og fjórar ær.
Ekki þætti öllum nóg
eigur við að bjargast þær.

Og í kaupstaðarferð kveður hann:
Þá er ég klár í þetta sinn
þó er skeppa lánuð
hressist við það hugur minn
hef ég frið í mánuð.

Einhverju sinni fór Árni ásamt öðrum Eyfirðingum til Grímseyjar eftir matföngum. Á heimleið hrepptu þeir foráttuveður og urðu þeir að kasta öllu fyrir borð til að bjarga bátnum. Þá kvað Árni:

Lifi ég enn með láni stóru
liggur það í ættinni,
ýsurnar hans Árna fóru
eftir fiskavættinni.

Hér hafa einungis verið birtar tækifærisvísur Árna, en hann orti oft dýrara og eru sumar þær vísur hrein snilld, eins og til að mynda þessar sem teknar eru úr ljóðabréfi:

Tíðin spillist, tíðin villist
tíðin illa nálgar sig
tíð vill hrekja, tíðum seka
tíðin vekja ætti mig.

Ég er hrelldur, sorgum seldur
særing veldur eitthvað hart
angursleginn, þó ég þegi
þankann beygir heldur margt.

Sagt er að einu sinni hafi Árni heilsað svo í bæjardyrum:

Hér er ég með höndum loppnum
hrumum kroppnum,
sitjandi á kvartelskoppnum
kjafti opnum.

Sagt er að Árni hafi eitt sinn komið að Bægisá og gert boð fyrir prestinn og þjóðskáldið Jón Þorláksson og er prestur kom út kvað Árni:

Hér er kominn á höltum klár
halur úr Eyjafirði
ótiginn og efnasmár
ekki mikils virði.

Sagt er að prestur hafi þá kannast við manninn og sagt: ,,Á ertu það, vertu velkominn og komdu inn með mér.“ Vöktu báðir um nóttina og leiddist hvorugum. En þótt Árni væri hvers manns hugljúfi og vinsæll með afbrigðum gat hann átt eiturþrunginn flein undir tungurótum. Þessar vísur eru til marks um það:

Þeir, sem níðast nú mér á
njóti að orðum mínum.
Skrattinn sjálfur skíri þá
úr skítakoppum sínum.

Þó ég drekki mér í mein
mun ég glaður segja:
Haltu kjafti bölvað bein
og berðu þig að þegja.

Sennilegast hefur Árni séð eftir því að hafa kveðið svona fast að orði ef marka má þessa vísu, sem við skulum láta verða þá síðustu eftir hann að sinni:

Marga vísu mikið ljóta um ævi.
þá hóflaust geðið hreyfði sér
hef ég kveðið því er ver.

Þá skulum við áður en að fyrri partinum kemur skoða eina mjög nýlega vísu sem skýrir sig sjálf:

Visku þó af veittist nóg
valdi slóðir grunnar,
Óli Jó í eiturkló
íhaldsþjónustunnar.

Og þá er það fyrri parturinn sem við ætlum að biðja hagorða lesendur að botna og senda okkur.

Nú skal þjóðin færa fórn
og fylla auðvaldskassann.

Þjóðviljinn 13. október 1974

Sveinn frá Elivogum
Ég verð að byrja þennan vísnaþátt á að biðjast afsökunar á leiðinlegri villu sem var í fyrstu vísunni eftir Árna Eyjafjarðarskáld í síðasta þætti, þar stendur í fyrstu línu: Fyrir mér liggja forlög grimm en á að vera forlög mörg.

Að þessu sinni vel ég sama snið á þáttinn og síðast, að kynna einn sérstakan hagyrðing. Það er Sveinn Hannesson frá Elivogum sem við birtum vísur eftir að þessu sinni.

Sveinn fæddist að Móbergsseli í Húnavatnssýslu 3. apríl 1889 en lést 2. júlí 1945. Hann var lengst af bóndi og bjó lengst á Refsstöðum í Húnavatnssýslu og á Elivogum í Skagafirði, en við þann bæ kenndi hann sig og varð undir nafninu Sveinn frá Elivogum kunnur sem einn af betri hagyrðingum síns tíma. Sumir líktu honum við Bólu-Hjálmar, sökum þess hve hvassar vísur hans voru. Skammarvísur hans eru með þeim beittustu sem tilveru, þannig að oft hlýtur að hafa sviðið undan.

Heyrt hef ég að hann hafi mjög ungur byrjað að yrkja og þá mest skammarvísur, og sagt er að einu sinni hafi móður hans ofboðið, og hún kvað:

Gættu þess að guð er einn
gáfurnar er léði.
Ef þú yrkir svona, Sveinn,
sál þín er í veði.

Ekki hefur hann tekið mikið mark á þessari vísu ef dæma skal eftir sumum skammarvísum hans. Sagt er að hann hafi einu sinni lent í harðvítugri deilu við mann einn, og ásakaði Sveinn hann um bragarþjófnað og kveðið magnaðan skammarbrag sem hefst þannig:

Nú skal laga lítinn óð,
leita óragur hófsins.
Saman draga og setja í ljóð
svar til bragarþjófsins.

Ekki kann ég fleiri vísur úr þessum brag utan þá síðustu sem er sögð svona:

Lifðu aldrei ljúfa stund,
löngum kvalinn sértu,
fram í kaldan banablund
bölvun haldinn vertu.

Tryggvi Emilsson, sem kynntist Sveini, sagði mér að Sveinn hafi verið svo minnugur að undrun sætti. Tryggvi sagði að einu sinni af einhverju tilefni hafi Sveinn ort 50 vísur á einu kvöldi, allar hringhendar, og munað þær allar næsta morgun.

Systir Sveins átti börn með tveimur mönnum og útaf því orti Sveinn 100 vísur, og er ein svona:

Ég vil heyra andsvarsfull
og keyra í mærðarletur.
Hvor er meira kvennagull
Kúa-Geiri eða Hlöðu-Pétur?

Þessum nöfnum voru þeir nefndir sem áttu börnin með systur hans.

Sagt er að einu sinni hafi ungur ofláti verið með svívirðingar í garð Sveins í verslun á Sauðárkróki og þá snéri Sveinn sér að honum og sagði:

Hafðu ungur hóf við Svein
hreyfðu ei þungum nótum,
eiturþrunginn á ég flein
undir tungurótum.

Sagt er að strákurinn hafi steinþagnað.

En Sveinn orti fleira en skammarvísur. Margar vísur hans um annað efni eru snilld, eins og til að mynda þessi sem greinilega er til orðin í einhverjum raunum:

Ekki mér um æviskeið
oftar byggi hallir.
Hrundir eru á langri leið
loftkastalar allir.

En svo hefur eitthvað létt til, og þá segir hann:

Þó ei hlotnist höpp né skjól,
heiður fækki vinum,
enn þá drottinn sendir sól
Sveini eins og hinum.

Eitt sinn orti hann heimkominn frá lækni:

Langa vegi haldið hef
og hindrun slegið frá mér.
Hingað teygja tókst mér skref
til að deyja hjá þér.

Fagur sumarmorgunn hefur mörgum orðið að yrkisefni, og oft hefur tilveran breytt um svip til hins betra á slíkum morgni. Sveinn yrkir á fögrum sumarmorgni:

Blunds af dýnum drótt er leyst
deyfðum týna allir.
Allt mér sýnist endurreist,
einnig mínar hallir.

Við vistaskipti kveður Sveinn:

Augum glaður lífið lít
leystur þrældómsböndum.
Tólf mánaða skal nú skít
skola af snjáldri og höndum.

Sagt er að vísan hafi hér fyrrum oft verið eina vopn þeirra sem minna máttu sín og oft hafi hún verið „hvöss sem byssustingur” þegar snillingar svöruðu fyrir sig. Um þetta segir Sveinn:

Móti opnum illskuheim
ég læt munninn glíma.
Margt að vopni verður þeim,
vel sem kann að ríma.

Skuldahaftið var mörgum smábóndanum sá djöfull sem erfiðast var að draga. Eitthvað hefur árað vel hjá Sveini þegar hann yrkir:

Skuldahaftið hálsi að
herti og krafti spillti,
sleit ég aftur okið það,
alla kjafta fyllti.

Nú skulum við láta staðar numið með vísur Sveins frá Elivogum, þótt af nógu sé enn að taka.

Vísubotninn
Margir botnar hafa borist við fyrripartinum sem við vorum með síðast og birtum við þá alla í næsta þætti, þar eð við ætlum að gefa 2ja vikna frest til að skila botnum við hvern fyrripart hjá okkur. Og þá er bara eftir að koma með nýjan fyrripart og skora á hagyrðinga að botna og eins að senda okkur vísur, nýjar eða áður óprentaðar.

Ellefu hundruð ára byggð
allir fagna vildu.

Þjóðviljinn 20. október 1974